VALMYND ×

Fréttir

Öryggisbrestur í Mentor

Föstudaginn 15.02.2019 barst tilkynning frá InfoMentor ehf. um veikleika í Mentor kerfinu. Í ljós kom að upplýsingar um kennitölu og forsíðumynd nemenda  í ákveðnum skólum voru sóttar í Mentor kerfið af aðila sem ekki hafði til þess heimild. Viðkomandi aðila var þetta mögulegt vegna veikleika í kerfinu. 

Um leið og Mentor varð veikleikinn ljós var hafist handa við að greina og lagfæra vandann. Veikleikinn hefur verið fundinn og var lagfærður kl 10:00 mánudaginn 18. febrúar. Sannreynt hefur verið að ekki sé um að ræða neinar aðrar upplýsingar en kennitölu og mynd. 

Grunnskólinn á Ísafirði var einn af þeim skólum sem um ræðir og hefur foreldrum viðkomandi barna verið gert viðvart. Persónuverndarfulltrúi Ísafjarðarbæjar hefur tilkynnt málið til Persónuverndar, sem er með málið til meðferðar.

Vetrarfrí

Á morgun og föstudaginn er vetrarfrí hér í skólanum og engin kennsla. Góða helgi!

Foreldrakönnun grunnskóla 2019

Í janúar s.l. fengu foreldrar póst um foreldrakönnun Skólapúlsins og möguleika á því að afþakka þátttöku. Þeir foreldrar sem ekki afþökkuðu þátttöku, lentu í úrtaki og eiga eftir að svara könnuninni, eru vinsamlegast beðnir um að gera það sem allra fyrst. Til að niðurstöður verði samanburðarhæfar við niðurstöður annarra skóla þarf svarhlutfall að ná 80% og því mjög mikilvægt að fá sem besta svörun til að skólinn geti nýtt sér niðurstöðurnar til umbóta.

Nemendur elda

Í morgun voru óvenju margir starfsmenn í mötuneyti skólans. Tilefnið var það að nokkrir nemendur tóku að sér að elda grænmetissúpuna og baka brauðið sem var á matseðli dagsins, auk þess sem þeir skáru niður ávextina fyrir ávaxtaáskrift morgunsins. Verkefni þetta var undir handleiðslu Guðlaugar Jónsdóttur, heimilisfræðikennara og Eikríks Johansonar, matráðs og fórst nemendum einkar vel úr hendi og báru þeir sig afar fagmannlega að eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Skólanum færð gjöf

Frá vinstri: Önundur Jónsson, Hermann Hákonarson húsvörður, Edda Katrín Einarsdóttir stuðningsfulltrúi og Bjarnveig S. Jakobsdóttir tæknimenntarkennari.
Frá vinstri: Önundur Jónsson, Hermann Hákonarson húsvörður, Edda Katrín Einarsdóttir stuðningsfulltrúi og Bjarnveig S. Jakobsdóttir tæknimenntarkennari.

Önundur Jónsson fyrrverandi yfirlögregluþjónn og hagleikssmiður kom færandi hendi í skólann í gær og færði skólanum tifsög og forláta saumavél.  Einnig færði hann skólanum ýmsa smíðamuni sem faðir hans var byrjaður á áður en hann lést og nemendur skólans geta nýtt sér við ýmsa vinnu og muni í framtíðinni.  Við færum Önundi kærar þakkir fyrir höfðinglegar gjafir og hlýhug.  Það má til gamans geta þess að faðir Önundar var Jón H. Guðmundsson sem var skólastjóri Barnaskólans á Ísafirði hér áður fyrr.

Vinaliðaskipti

Síðastliðinn föstudag hittust nemendur 4. - 6. bekkjar á sal skólans til að þakka fráfarandi vinaliðum vel unnin störf frá skólabyrjun. Að því loknu fóru vinaliðarnir ásamt Atla Frey Rúnarssyni, öðrum umsjónarmanni verkefnisins, inn á Torfnes með sleða og þotur og nutu útivistar og var svo boðið upp á kakó og kringlu.

Vinaliðaverkefnið hefur verið starfrækt hér við skólann á fimmta ár og hefur það gengið vonum framar. Því er ætlað, samhliða góðum eineltisáætlunum, að draga úr einelti og auka vellíðan og samheldni nemenda í skólum. Helstu markmið verkefnisins eru að stuðla að fjölbreyttari leikjum í frímínútum, leggja grunn sem gerir nemendum kleift að tengjast sterkum vináttuböndum, minnka togstreitu milli nemenda og hampa góðum gildum, svo sem vináttu, virðingu og því að allir fá að taka þátt. Það verður því verkefni nýrra vinaliða að taka við keflinu og virkja sem flesta í frímínútum í fjölbreyttum leikjum.

 

Foreldradagur

Við minnum á foreldradaginn á morgun, þriðjudaginn 29. janúar. Foreldrar geta pantað viðtalstíma í gegnum www.mentor.is.

Fjölmennt í fjöltefli

1 af 3

Í morgun var haldið upp á Skákdaginn, sem tileinkaður er Friðrik Ólafssyni, fyrsta stórmeistara Íslendinga og fv. forseta Alþjóða skáksambandsins. Smári Rafn Teitsson, kennari við skólann, bauð nemendum 5. - 10. bekkjar upp á fjöltefli og freistuðu 60 nemendur þess að sigra hann. Ekki tókst það í þetta skiptið, en Smári þurfti þó að hafa verulega fyrir nokkrum sigrum.

Augljóst var að nemendur höfðu virkilega gaman af þessu framtaki og vonandi verður framhald á við tækifæri.

Þorrablót

Á morgun, föstudaginn 25. janúar er bóndadagur, fyrsti dagur þorra. Þá bjóða foreldrar nemenda í 10. bekk árgangnum á þorrablót þar sem nemendur ásamt foreldrum og fjölskyldu mæta í sínu fínasta pússi og eiga saman ánægjulega kvöldstund, ásamt kennurum og starfsfólki skólans. Húsið opnar kl. 19:00 og gert er ráð fyrir að borðhald hefjist kl. 19:30.

Þorrablót þetta er upp á gamla mátann og hefur verið haldið allt frá árinu 1981. Gestir hafa með sér mat í trogum og einnig þarf að hafa með sér diska og hnífapör. Drykkir (gos og kristall) eru seldir í sjoppunni og fer ágóðinn af því í ferðasjóð 10.bekkjar, sem tekur eingöngu við reiðufé á staðnum. Glös eru til staðar og boðið er upp á kaffi eftir matinn. Hefð er fyrir því að foreldrar annist skipulagningu og skemmtiatriði, sem iðulega hefur slegið í gegn. Að borðhaldi loknu er svo stiginn dans og hafa nemendur æft gömlu dansana af kappi undanfarnar vikur. Einnig hefur frést af foreldrum við óvenju mikla dansiðkun undanfarið, þannig að það er aldrei að vita nema þeir komi á óvart á dansgólfinu.

Fjöltefli

Laugardaginn 26. janúar verður Skákdagurinn haldinn hátíðlegur um land allt. Dagurinn er tileinkaður Friðrik Ólafssyni, fyrsta stórmeistara Íslendinga og fv. forseta Alþjóða skáksambandsins.


Af því tilefni mun Smári Rafn Teitsson, kennari við skólann, bjóða nemendum 5. - 10. bekkjar upp á fjöltefli n.k. föstudag í salnum kl. 10:00. Nemendur sem vilja taka þátt verða að skrá sig hjá ritara. Þeir sem geta eru beðnir um að taka tafl með sér.