VALMYND ×

Fréttir

Úrslit í lestrarátaki

Búið er að draga í síðasta lestrarátaki Ævars vísindamanns og ljóst er að met var slegið í lestri bóka þetta árið. Samtals lásu íslenskir krakkar 91.734 bækur á tveimur mánuðum, en foreldrar þeirra 5.904 bækur. Þetta þýðir að á fimm árum hafa verið lesnar tæplega 330.000 bækur í lestrarátökum Ævars vísindamanns!

Veittar voru viðurkenningar fyrir mesta lestur hlutfallslega á hverju skólastigi og sömuleiðis þann skóla sem las hlutfallslega mest í heildina: 

Yngsta stig: Álftanesskóli
Miðstig: Árskógarskóli, Dalvíkurbyggð
Efsta stig: Þelamerkurskóli
Yfir öll skólastig: Grunnskóli Drangsness

Allir þessir skólar fá það í verðlaun að vera skrifaðir inn í síðustu bókina í Bernskubrekum Ævars vísindamanns, Óvænt endalok, sem kemur út í júní. Guðni Th. Jóhannesson og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, drógu eitt foreldri og fimm krakka úr lestrarmiðapottinum við hátíðlega athöfn í Borgarbókasafni, Grófinni. Hin sex heppnu sem dregin voru, verða gerð að persónum í Óvæntum endalokum.

Þá var einn nemandi frá hverjum þátttökuskóla dreginn út og fær sá áritað eintak af bókinni þegar hún kemur út. Sá heppni í Grunnskólanum á Ísafirði var Baltasar Goði Hafberg Hlynsson í 4.KB og óskum við honum til hamingju. Ennfremur óskum við öllum þátttakendum til hamingju með lesturinn.

 

Upplýsingafundur fyrir starfsmenn og foreldra

Klukkan 16.15 í dag, mánudaginn 25. mars, verður haldinn kynningarfundur fyrir starfsfólk og foreldra um niðurstöður úr sýnatöku úr stofum í austurálmu Grunnskólans á Ísafirði. Eins og kynnt hefur verið þá innihéldu sýni af báðum hæðum álmunnar myglu og ljóst að fara þarf í umfangsmiklar framkvæmdir á húsnæðinu. Á fundinum mun Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í þessum málefnum hjá verkfræðistofunni Eflu, fara yfir málið með starfsfólki og foreldrum. Þá kynna Guðmundur Gunnarsson bæjarstjóri og sviðsstjórarnir Margrét Halldórsdóttir og Brynjar Þór Jónasson hvað þetta þýðir fyrir skólastarfið og til hvaða aðgerða þarf að grípa. Sveinfríður Olga Veturliðadóttir skólastjóri verður einnig á fundinum og svarar fyrirspurnum.

Við vonumst til að sjá ykkur sem flest á fundinum, enda er samvinna skóla og heimilis nauðsynleg í þessu eins og öðru.

G.Í. í úrslit Skólahreysti

Magnús Örn, Kári, Hrefna Dís, Bríet, Solveig Amalía og Helgi Ingimar.
Magnús Örn, Kári, Hrefna Dís, Bríet, Solveig Amalía og Helgi Ingimar.

G.Í. komst áfram í úrslitakeppni Skólahreysti í kvöld, eftir sigur í Vestfjarðariðlinum. Það var ekki þrautalaust fyrir hópinn að komast suður, þar sem ekki var flogið í gær og morgunvélin bilaði í morgun og snéri við. En allt gekk þetta á endanum og lenti hópurinn í Reykjavík um miðjan dag í dag.

Lið G.Í. skipuðu þau Magnús Örn Guðnason, Kári Eydal, Bríet Sigurðardóttir, Hrefna Dís Pálsdóttir, Solveig Amalía Atladóttir og Helgi Ingimar Þórðarson. Þjálfari og fararstjóri var Atli Freyr Rúnarsson.

Úrslit urðu þau að G.Í. sigraði riðilinn, Grunnskóli Bolungarvík hafnaði í 2. sæti, Grunnskólinn á Þingeyri í því 3. og Súðavíkurskóli í 4. sæti. Það er aðdáunarvert að þessir litlu skólar nái að senda lið í keppni sem þessa, en í þetta skiptið lánaði G.Í. Stefán Frey Jónsson til Þingeyringanna til að ná tilskildum fjölda.

Þau 12 lið sem sigra sína riðla, munu svo keppa til úrslita í Laugardalshöllinni þann 8. maí n.k.

Við óskum öllum innilega til hamingju og góðrar heimferðar.

Heimsókn til Aþenu

Þessa viku hafa fimm nemendur í 9. bekk, frá Grunnskólanum á Ísafirði og Grunnskólanum á Suðureyri, verið í heimsókn til jafnaldra í Aþenu ásamt nemendum frá Svíþjóð, Hollandi og Búlgaríu. Með þeim í för eru þær Jóna Benediktsdóttir og Bergljót Halldórsdóttir.

Ferðin er farin vegna samstarfsverkefnis á vegum Evrópusambandsins, Erasmus+. Verkefnið byggir á Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var 10. desember 1948.

Heiti verkefnisins er: Living in a Challenging World og það byggist á því að allar greinar Mannréttindayfirlýsingarinnar eru skoðaðar. Allir nemendur í 9. Bekk G.Í. taka þátt og er fyrsta hluta verkefnisins nú lokið. Í fyrsta hlutanum voru teknar fyrir fyrstu fimm greinar yfirlýsingarinnar og fjalla þær um frelsi og jafnrétti.  

Þessir fimm nemendur ásamt nemendum frá áðurnefndum löndum halda áfram að fjalla um frelsi og jafnrétti og  auk þess að mynda tengsl við krakka frá öðrum Evrópulöndum, eru áhugaverðustu staðirnir skoðaðir og það er svo sannarlega af nógu að taka í Aþenu.

Heiður sigraði í Stóru upplestrarkeppninni

Frá vinstri: Hákon Ari Heimisson, Guðrún Eva Bjarkadóttir og Heiður Hallgrímsdóttir
Frá vinstri: Hákon Ari Heimisson, Guðrún Eva Bjarkadóttir og Heiður Hallgrímsdóttir
1 af 3

Í gær fór lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fram í Hömrum. Tíu nemendur frá fjórum skólum á norðanverðum Vestfjörðum lásu sögubrot og ljóð, en þessir nemendur höfðu verið valdir sem fulltrúar sinna skóla. Fyrir hönd G.Í. lásu þau Guðrún Eva Bjarkadóttir, Guðrún Helga Sigurðardóttir, Hákon Ari Heimisson, Heiður Hallgrímsdóttir, Helgi Rafn Hermannsson og Unnur Guðfinna Daníelsdóttir.

Í hléi léku þeir Ívar Hrafn Ágústsson á trommur, Pétur Örn Sigurðsson á hljómborð og Hákon Ari Heimisson á trommur, lagið Happier eftir Marshmello Bastille, sem þeir útsettu sjálfir.

Dómarar þetta árið voru þau Baldur Sigurðsson, Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Anna Sigríður Ólafsdóttir, Dagný Annasdóttir og Dagný Arnalds og var fundarstjórn í höndum Guðrúnar Birgisdóttur, skóla- og sérkennslufulltrúa Ísafjarðarbæjar. Ávörp fluttu þeir Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri og Baldur Sigurðsson, formaður dómnefndar. Mariann Rähni frá Grunnskóla Bolungarvíkur kynnti skáld keppninnar, en hún hafnaði í 3. sæti keppninnar í fyrra.

Niðurstaða dómnefndar varð sú að Heiður Hallgrímsdóttir sigraði, Hákon Ari Heimsson hafnaði í 2. sæti og Guðrún Eva Bjarkadóttir í því 3., öll úr Grunnskólanum á Ísafirði. Aukaverðlaun fyrir framúrskarandi flutning á Guttavísum hlaut Kristinn Hallur Jónsson frá Grunnskólanum í Bolungarvík. Við óskum öllum lesurum innilega til hamingju með frábæra frammistöðu. Ekki má heldur gleyma þeim kennurum sem hafa séð um þjálfun þeirra ásamt foreldrum, árangurinn er einnig þeirra. 

Textílmennt í 5. bekk

Verkgreinar eru ekki síður mikilvægar en þær bóklegu og alltaf gaman að sjá afurðir nemenda. Í 5. bekk hafa nemendur verið að sauma bútasaumspúða, húfur og fleira sem eiga örugglega eftir að fylgja þeim næstu árin.

Skólastjóraröltið

2.bekkur í Námsveri
2.bekkur í Námsveri
1 af 10

Það er alveg hreint ótrúlegt hvað hægt er að gera í samstilltum hóp. Nú hefur 1.-4. bekk verið kennt í nokkra daga á ýmsum stöðum í skólanum og ekki annað að sjá en að það gangi vel.  Starfsfólkið breytti á undraverðum tíma ýmsum rýmum skólans í kennslustofur fyrir árgangana sem þurfti að flytja úr gráa húsinu (gamla gagganum).  það er vissulega víða þröngt og margir sem hafa þurft að aðlaga sig en allir tilbúnir að gera sitt besta til að láta þetta ganga upp, bæði kennarar og nemendur og er þeim öllum þakkað fyrir það.

Ávaxtakarfan

Í dag býður Foreldrafélag G.Í. í samstarfi við Edinborgarhúsið, nemendum í 1.-4. bekk á sýningu Leikfélags M.Í. á Ávaxtakörfunni. Sýningin hefst kl. 12:00 í Edinborgarhúsinu og er áætlað að henni ljúki um kl. 13:30. Starfsfólk skólans og Frístundar fylgja nemendum fram og til baka og vonum við að allir njóti vel.

Kökugerð

1 af 2

Það er alltaf gaman að sjá nemendur að störfum og uppskeru þeirra, ekki síst þegar gleðin skín úr hverju andliti. Það átti svo sannarlega við á dögunum þegar nemendur kláruðu meistarastykki sín í kökugerð í heimilisfræðivali hjá Guðlaugu Jónsdóttur. Kökurnar voru glæsilegar eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og myndu sóma sér vel á hvaða veisluborði sem er. Fleiri myndir má sjá hér í myndasafni skólans.