Öryggisbrestur í Mentor
Föstudaginn 15.02.2019 barst tilkynning frá InfoMentor ehf. um veikleika í Mentor kerfinu. Í ljós kom að upplýsingar um kennitölu og forsíðumynd nemenda í ákveðnum skólum voru sóttar í Mentor kerfið af aðila sem ekki hafði til þess heimild. Viðkomandi aðila var þetta mögulegt vegna veikleika í kerfinu.
Um leið og Mentor varð veikleikinn ljós var hafist handa við að greina og lagfæra vandann. Veikleikinn hefur verið fundinn og var lagfærður kl 10:00 mánudaginn 18. febrúar. Sannreynt hefur verið að ekki sé um að ræða neinar aðrar upplýsingar en kennitölu og mynd.
Grunnskólinn á Ísafirði var einn af þeim skólum sem um ræðir og hefur foreldrum viðkomandi barna verið gert viðvart. Persónuverndarfulltrúi Ísafjarðarbæjar hefur tilkynnt málið til Persónuverndar, sem er með málið til meðferðar.