VALMYND ×

Fréttir

Leiksýning

Föstudaginn 30. nóvember mun leiklistarval skólans sýna leikritið Tjaldið eftir Hallgrím Helgason, í leikstjórn Ólafar Dómhildar Jóhannsdóttur.  Frumsýning er klukkan 17:00 og önnur sýning klukkan 19:30 sama dag.  Eftir seinni sýninguna mun 10. bekkur standa fyrir balli fyrir nemendur í 8.-10. bekk og er nágrannaskólum boðið að koma.  

Sýningarnar eru í sal skólans og er almennt verð kr. 1.000, en kr. 800 fyrir eldri borgara og börn yngri en 10 ára. Aldurstakmark er 12 ára nema í fylgd með fullorðnum.
Miðaverð unglinga sem fara bæði á leiksýningu og ball er kr. 1.500 samtals, en unglingar sem fara á annan hvorn viðburðinn greiða kr. 1.000.

Dagur mannréttinda barna

Dagur mannréttinda barna var þriðjudaginn 20. nóvember s.l. en þann dag var barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna samþykktur árið 1989. Hér í skólanum voru ýmis verkefni unnin sérstaklega í tilefni dagsins, auk þess sem nemendur eru upplýstir um mannréttindi í gegnum hinar ýmsu námsgreinar. Það er alltaf gaman að sjá fjölbreytta túlkun nemenda og hér á meðfylgjandi mynd er ein útfærsla frá nokkrum nemendum.

Starfsdagur

Á morgun, föstudaginn 23. nóvember, er starfsdagur hér í skólanum og ekkert skólahald.

Sjáumst í umferðinni

Nú í svartasta skammdeginu er mikilvægt að öryggisútbúnaður nemenda sé í lagi. Því er nauðsynlegt að fara yfir endurskinsmerki á yfirhöfnum og töskum og tryggja að ljós á reiðhjólum séu í lagi svo allir sjáist vel í myrkrinu. Vart þarf að nefna hjálminn sem er skylda skv. lögum. 

Geimverur á bókasöfnum

Á Degi íslenskrar tungu sem er föstudaginn 16. nóvember, verður bókasafnadagur á bókasöfnunum á Ísafirði. Boðið verður upp á dagskrá hér í G.Í. kl. 15:00-15:50 þar sem verður opið hús, upplestur og léttar veitingar. Bókasafn M.Í. býður einnig upp á opið hús, upplestur og léttar veitingar á milli kl. 16:00 og 16:50. Sævar Helgi Bragason ætlar svo að ræða um leitina að lífi í geimnum á milli kl. 17:00 og 18:00 á Bókasafninu á Ísafirði.

Allir eru velkomnir og þeir sem mæta á öll söfnin geta safnað stimplum á geimverukort og eigar þar með möguleika á bókavinningi.

Tekið höndum saman gegn einelti

Í gær var alþjóðlegur baráttudagur gegn einelti og tóku nemendur og starfsfólk G.Í. höndum saman í þeirri baráttu og klæddust þeir sem gátu einhverju grænu, í stíl við verndarann í eineltishringnum. Mikið var rætt um þær miklu og slæmu afleiðingar sem einelti getur haft og þá nauðsyn að uppræta þennan vágest, en eins og við vitum þá græðir enginn á einelti. Verkefnavinna dagsins var fjölbreytt inni í bekkjum og að lokum teiknuðu allir útlínur annarrar handar sinnar, skrifuðu einhverjar vel valdar setningar eða orð á þær og hengdu upp til að minna okkur öll á það hvern einasta dag hversu alvarlegt einelti er.

Verðlaun fyrir Ólympíuhlaup ÍSÍ

1 af 2

Í september s.l. tók skólinn þátt í Ólympíuhlaupi ÍSÍ eins og venjulega. Nemendur gátu valið um nokkrar vegalengdir og tóku allir þátt í hlaupinu sem það gátu og hlupu ýmist inn að Engi, Seljalandi eða golfskálanum í Tungudal.

Það var sérlega skemmtilegt þegar þær fréttir bárust okkur að skólinn hefði verið einn þriggja skóla sem dreginn var út, en 66 skólar tóku þátt þetta árið, sem er met. Í verðlaun hlaut skólinn inneign sem nú hefur verið nýtt til að kaupa bolta og snú-snú bönd fyrir alla árganga skólans. Í gær og dag voru allir nemendur boðaðir á sal skólans, þar sem verðlaunin voru afhent formlega og tóku fulltrúar allra árganga við þeim með brosi á vör, enda fátt skemmtilegra en að uppskera vel eftir góða frammistöðu.

 

Smáréttaveisla

Í dag bauð hópurinn í heimilisfræðivali nokkrum starfsmönnum skólans upp á smáréttaveislu, en í hópnum eru nemendur í 9.bekk skólans ásamt einum nemanda úr 8. bekk á Flateyri. Hópurinn hefur lært matreiðslu hjá Guðlaugu Jónsdóttur frá því í haust.

Matseðillinn hljóðaði upp á partýborgara, veislupítsur, mexíkóska ídýfu með tortillaflögum, suðræna ávexti með vanillusósu, hrökkbrauð og ostasalat, brakandi hrísgóðgæti og döðlugotterí, og að lokum skyrköku með jarðarberjum. Krakkarnir stóðu sig allir með sóma og sáu um alla matreiðsluna, framreiðslu og kynningu.

Baráttudagur gegn einelti

Mynd: www.olweus.is
Mynd: www.olweus.is

Á morgun, fimmtudaginn 8. nóvember, er baráttudagur gegn einelti. Þessi dagur er til þess að minna okkur á hvers vegna er mikilvægt að uppræta einelti, ekki aðeins úr lífi barna heldur okkar allra, á öllum æviskeiðum.

Einelti einskorðast ekki við skólaumhverfið, heldur getur komið upp alls staðar, á vinnustöðum, á netinu, í vinahópum og jafnvel fjölskyldum. Birtingarmyndin er fjölbreytt og getur falist í atriðum eins og uppnefnum, stríðni, hunsun og útilokun, eyðileggingu eigna, félagslegum þrýstingi, niðurlægingu, mismunun og líkamlegu ofbeldi.

Í tilefni dagsins munu allir nemendur og starfsfólk vinna saman að verkefni sem tengist deginum. Auk þess hvetjum við alla sem geta til að klæðast einhverju grænu, en grænn er litur verndarans í eineltishringnum.

Rýmingaræfing

Í morgun fór fram rýmingaræfing hér í skólanum, undir styrkri stjórn slökkviliðs Ísafjarðar. Brunaboðinn var ræstur kl. 9:10 og tók rúmar tvær mínútur að rýma húsið. 

Nauðsynlegt er að framkvæma æfingu sem þessa reglulega, enda að mörgu að hyggja. Flóttaleiðir þurfa að vera á hreinu úr öllum rýmum hússins og allir starfsmenn og nemendur að þekkja sínar leiðir og viðbrögð ef hættuástand skapast. Hver árgangur á sinn söfnunarstað í hæfilegri fjarlægð frá skólanum og rötuðu allir á sinn stað í morgun. Taka þarf manntal á söfnunarsvæðinu, bæði hjá nemendum og starfsmönnum, þannig að engin hætta sé á að einhver hafi orðið innlyksa í skólanum.

Eftir rýmingaræfingu sem þessa er svo farið yfir alla þætti, t.d. hvort heyrist nógu vel í brunabjöllu allsstaðar í byggingunni, hvort að einhver svæði teppist o.s.frv. og gerðar úrbætur í framhaldinu ef þurfa þykir.