VALMYND ×

Fréttir

Nýtt skólaár

Líkt og undanfarin ár er nemendum Ísafjarðarbæjar séð fyrir öllum gögnum sem þeir þurfa til náms í skólanum, að því undanskildu að nemendur í 8. - 10. bekk þurfa að koma með skriffæri.

Skólasetning verður með sama sniði og í fyrra. Fimmtudaginn 23. ágúst mæta nemendur og foreldrar í viðtöl til umsjónarkennara þar sem farið verður yfir helstu atriði varðandi skólastarfið. Opnað verður fyrir skráningar í viðtölin miðvikudaginn 22. ágúst á www.mentor.is  

Skólastjóraskipti

Nú er Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, komin aftur til starfa eftir árs námsleyfi. Jóna Benediktsdóttir aðstoðarskólastjóri mun leysa af sem skólastjóri í Grunnskólanum á Suðureyri í vetur og mun Helga Snorradóttir sinna starfi aðstoðarskólastjóra G.Í. á meðan.

Sumarleyfi

Vegna sumarleyfa verður skólinn lokaður frá mánudeginum 2. júlí til og með 6. ágúst. Hægt er að nálgast óskilamuni og ósótt skírteini út þessa viku á milli kl. 8:00 og 14:00.

Ný lög um persónuvernd

Miðað við ný lög um persónuvernd telst miðillinn Facebook ekki geta tryggt öryggi persónugreinanlegra upplýsinga eins og krafist er. Það þýðir að við verðum að breyta notkun okkar á miðlinum. Okkur verður ekki heimilt að setja myndir af nemendum inn á Facebook og verðum að eyða þeim myndum sem við höfum nú þegar sett inn. Lögin taka gildi þann 15.júlí og þá verðum við að vera með þetta í lagi. Við höfum beðið kennara að bregðast við og taka út þær myndir sem þeir hafa sett inn og hið sama á við um þær myndir sem hafa birst á skólastjóraröltinu. Við viljum gefa foreldrum tækifæri til að ná í myndir af síðunni okkar ef þeir vilja og munum því ekki byrja að fjarlægja myndirnar fyrr en 25.júní.

Skólaslit G.Í. 2018

Útskrift árgangs 2002.
Útskrift árgangs 2002.

Í gær var Grunnskólanum á Ísafirði slitið í 143. skipti og fór athöfnin fram í Ísafjarðarkirkju. Hefð er fyrir því að nemendur úr 9. bekk kynni dagskrána og voru kynnar að þessu sinni þær Helena Haraldsdóttir og Sædís Mjöll Steinþórsdóttir.

Jóna Benediktsdóttir, skólastjóri, flutti ávarp og þau Ásgeir Óli Kristjánsson og Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir fluttu ávarp fyrir hönd útskriftarnema. Boðið var upp á tónlistaratriði útskriftarnema þar sem Sindri Freyr Sveinbjörnsson lék á gítar og söng og Rebekka Skarphéðinsdóttir lék á píanó, Sandra María Valsdóttir og Guðný Ósk Sigurðardóttur sungu við undirleik Margrétar Gunnarsdóttur, auk þess sem stórhljómsveit 10. bekkjar steig á stokk og flutti eitt lag.

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 8. og 9. bekk: 

8. bekkur - Lilja Borg Jóhannsdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir. 

9. bekkur - Jelena Rós Valsdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.

Í vetur luku 7 nemendur í 10. bekk smáskipaprófi sem er bóklegi hlutinn fyrir skipstjórnarréttindi á skip sem eru styttri en 12 metrar. Þetta er fimmta árið sem skólinn er í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða um kennslu í þessari valgrein, undir stjórn Guðbjörns Páls Sölvasonar, en margra ára hefð er fyrir henni við Grunnskólann á Ísafirði.  Nemendur sem luku prófi eru:  Ásgeir Óli Kristjánsson, Eva María Jónsdóttir, Guðmundur Elías Helgason, Helgi Hrannar Guðmundsson, Phakhawat Janthawong, Rán Kjartansdóttir og Una Salvör Gunnarsdóttir.

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 10. bekk:

Kvenfélagið Hlíf gaf eftirfarandi viðurkenningar fyrir verk- og listgreinar:

Viðurkenningu fyrir framfarir og vinnubrögð í textílmennt hlaut Dagný Björg Snorradóttir.

Viðurkenningu fyrir framfarir og skapandi vinnubrögð í myndmennt hlaut Marta Sóley Hlynsdóttir.

Viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í heimilisfræði hlaut Ásgeir Óli Kristjánsson.

Viðurkenningu fyrir skapandi hugsun og sjálfstæð vinnubrögð í tæknimennt hlaut Jakob Jón Jónsson.

 

Rotary klúbburinn á Ísafirði veitti viðurkenningu fyrir ástundun og framfarir og hlaut Dagný Björg Snorradóttir hana.

 

Stúdíó Dan gaf viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í íþróttum. Þau verðlaun hlutu Hafdís Bára Höskuldsdóttir og Hilmir Hallgrímsson.

Danska Menntamálaráðuneytið gaf viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í dönsku og hlaut Rán Kjartansdóttir þau verðlaun.

 

Grunnskólinn á Ísafirði veitti eftirfarandi viðurkenningar:

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í íslensku, stærðfræði,  ensku og náttúrufræði hlaut Rebekka Skarphéðinsdóttir.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í samfélagsfræði hlaut Una Salvör Gunnarsdóttir.

Viðurkenningu fyrir framfarir hlaut Guðmundur Elías Helgason.

 

Ísfirðingarfélagið í Reykjavík gaf gjöf til minningar um Hannibal Valdimarsson. Þessi viðurkenning er veitt nemanda í 10. bekk  fyrir lofsverða ástundun, framfarir í námi og virka þátttöku í félagsstarfi.  Þá viðurkenningu hlutu þær Una Salvör Gunnarsdóttir og Svava Rún Steingrímsdóttir.

Viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur vorið 2018 hlaut Rebekka Skarphéðinsdóttir.

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði þakkar árgangi 2002 samfylgdina í gegnum árin og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Síðustu dagar skólaársins

Nú fer að líða að lokum þessa skólaárs og einungis tveir kennsludagar eftir á mánudag og þriðjudag. Á miðvikudaginn er starfsdagur án nemenda og á fimmtudaginn eru skólaslit. Þá mæta nemendur 1. bekkjar í viðtöl til umsjónarkennara ásamt foreldrum. Nemendur 2. - 7. bekkjar mæta kl. 10:00 þann dag í bekkjarstofur sínar og taka við vitnisburðum vetrarins. Formleg skólaslit verða svo í Ísafjarðarkirkju kl. 20:00, en þar verða nemendum 8. - 10. bekkjar afhentir vitnisburðir sínir.

Nánari dagskrá þessara síðustu skóladaga má nálgast hér.

Vinningshafar í ævintýralestri

Wiktoria hlaut 6 bækur um Óvættaför í verðlaun
Wiktoria hlaut 6 bækur um Óvættaför í verðlaun
1 af 3

Frá 1. mars til 15. maí s.l. stóð IÐNÚ bókaútgáfa fyrir átaki í ævintýralestri undir yfirskriftinni ,,Lesa, lita, skapa". Átakið fólst í því að nemendur læsu þrjár ævintýrabækur að eigin vali, lituðu mynd af ævintýrum Tom og Elenu úr bókunum Óvættaför, eða sköpuðu sitt eigið ævintýri með því að teikna mynd, skrifa ævintýri, teikna myndasögu, búa til myndband eða taka ljósmyndir.

Það er skemmst frá því að segja að þrír nemendur úr 2. og 3. bekk G.Í. hlutu verðlaun í hverjum flokki fyrir sig og fengu þeir viðurkenningar sínar afhentar í gær. Þetta voru þau Stígur Aðalsteinn Arnórsson og Clara Charlotte Árnadóttir í 2. bekk og Wiktoria Majewska í 3. bekk. Við óskum þeim innilega til hamingju með frábæra frammistöðu og verðskulduð verðlaun.

Val á miðstigi

Hér í skólanum hefur um nokkurra ára skeið verið sett upp val fyrir nemendur á miðstigi sem kallast hræringur. Nafnið var valið vegna þess að í þessu vali blandast allir nemendur miðstigs þ.e. í 5. - 7. bekk eftir áhuga nemenda á viðfangsefnum hverju sinni. Valið nær til þriggja kennslustunda á viku og veturinn skiptist í fjögur valtímabil, annars vegar eru tvær samliggjandi kennslustundir og hins vegar einn stakur tími.

Jóna Benediktsdóttir, skólastjóri G.Í., hefur nú ritað grein í Skólaþræði, sem er tímarit samtaka áhugafólks um skólaþróun. Þetta val og fyrirkomulag þess hefur vakið verðskuldaða athygli og hefur verið mikil ánægja með það. Greinina má nálgast hér

Ásdís Ósk og Saga Líf í úrslit NKG

Ásdís Ósk og Saga Líf í þriðju röð, lengst til hægri. Mynd: Facebook NKG
Ásdís Ósk og Saga Líf í þriðju röð, lengst til hægri. Mynd: Facebook NKG
1 af 2

Tvær stúlkur úr 7. bekk G.Í., þær Ásdís Ósk Brynjarsdóttir og Saga Líf Ágústsdóttir komust í úrslit Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) með hugmynd sína ,,Vasapeningar". Dómnefnd valdi hugmynd þeirra ásamt 25 öðrum, en alls bárust um 1200 hugmyndir í keppnina. Stelpurnar mættu galvaskar í vinnusmiðju NKG í Háskólanum í Reykjavík um liðna helgi þar sem öllum var gefið færi á að útfæra hugmyndir sínar nánar með aðstoð leiðbeinenda. Hugmynd þeirra Ásdísar og Sögu gengur út á smáforrit sem foreldrar og börn geta nýtt sér til utanumhalds á vasapeningum.

Þær Ásdís Ósk og Saga Líf fengu viðurkenningarskjal fyrir að komast í úrslit keppninnar, auk þess sem þær hlutu gjafabréf í Háskóla unga fólksins 2019 og fjármálaverðlaun Arion banka. Við óskum þeim stöllum, foreldrum þeirra og kennurum innilega til hamingju með árangurinn.

Leikja- og íþróttadagur

Á morgun er leikjadagur hjá 1. - 4. bekk, þar sem nemendur fara á hinar ýmsu stöðvar hér á eyrinni í margvíslega leiki. Frístundin er á sínum stað og lýkur skóladegi á sama tíma og venjulega.

Á Torfnesi verður íþróttadagur hjá 5. - 9. bekk fram að hádegi þannig að nemendur gætu komið heim um hádegisbilið. Við vonum að veðrið verði sem best, en við höfum íþróttahúsið í bakhöndinni ef þörf krefur.