Ungmennaráð heimsmarkmiða SÞ
Opnað hefur verið fyrir umsóknir í ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á vef Stjórnarráðsins, stjornarradid.is/umsokn. Óskað er eftir umsóknum frá ungmennum á aldrinum 13 til 18 ára frá öllum landshlutum. Valdir verða tólf fulltrúar í ráðið sem munu fræðast og fjalla um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna ásamt því að vinna og miðla gagnvirku efni á samfélagsmiðlum um markmiðin og sjálfbæra þróun. Ungmennaráðið veitir stjórnvöldum, í gegnum verkefnastjórn heimsmarkmiðanna, aðhald og ráðgjöf við innleiðingu markmiðanna ásamt því að funda árlega með ríkisstjórn. Umsóknarfrestur er til og með 13. maí næstkomandi.
Ungmennaráð heimsmarkmiðanna tók til starfa í apríl 2018. Ráðið fundar sex sinnum á ári en þar að auki hefur starfandi ungmennaráð tekið þátt í fjölmörgum viðburðum á síðastliðnu ári. Má þar meðal annars nefna þátttöku í Hringborði Norðurslóða í Hörpu, heimsþingi kvenleiðtoga, friðarráðstefnu Höfða friðarseturs og hátíðarhöldum í tengslum við fullveldisafmæli Íslands þann 1. desember síðastliðinn.
Stofnun ungmennaráðsins er í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að framfylgja skuli ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, meðal annars um aukin áhrif barna í samfélaginu. Eitt af meginstefum heimsmarkmiðanna er jafnframt samvinna hagsmunaaðila. Með stofnun ungmennaráðs um heimsmarkmiðin er leitast við að gefa ungmennum vettvang til að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun og skapa þannig jafningjum tækifæri til að láta rödd sína heyrast um fyrrgreind málefni.
Umsóknarform fyrir ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna
Nánari upplýsingar um heimsmarkmiðin má finna á heimsmarkmidin.is
Deila