VALMYND ×

Fréttir

Stjórnarfundur Foreldrafélags G.Í.

Stjórnarfundur Foreldrafélags G.Í. var haldinn s.l. föstudag þar sem ný stjórn skipti með sér verkum. Sveinbjörn Magnason verður áfram formaður félagsins og áheyrnarfulltrúi í fræðslunefnd. Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir verður ritari og Lea Valdís Bergsveinsdóttir gjaldkeri. Auk þeirra sitja í stjórn þær Agnieszka Tyka og Petra Hólmgrímsdóttir og til vara eru Elfa Hermannsdóttir og Kolbrún Fjóla Arnarsdóttir.

Stjórnin skipaði einnig tvo fulltrúa í skólaráð, þær Elfu Hermannsdóttur og Petru Hólmgrímsdóttur.

Kjaftað um kynlíf

Í kvöld býður foreldrafélag G.Í. upp á fyrirlestur Siggu Daggar um hvernig megi ræða um kynlíf við unglinga. Markmið fyrirlestrarins er að kynfræðsla verði sjálfsagður hluti af samræðum foreldra við börn sín og að fræðslan styrki þeirra samskipti. Í lokin gefst foreldrum kostur á að spyrja og spjalla.

Sigga Dögg er með B.A. gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og M.A. gráðu í kynfræði (sexology) frá Curtin háskóla í Vestur Ástralíu. Sérstaða hennar sem kynfræðari er hispurslaus og hreinskilin nálgun á kynlífi sem byggir á innlendum og erlendum rannsóknum, ásamt reynslu af kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum víðsvegar um landið.

Fyrirlesturinn er í framhaldi af fræðslu sem Sigga Dögg er með hér í skólanum í dag fyrir 6. - 10. bekk og verður í dansstofu skólans kl. 20:00 - 21:30.

Forritun í myndmennt

Það er margt hægt að gera til að brjóta upp hefðbundið nám. Í myndmennt hjá 3. bekk voru nemendur t.d. að forrita Róbótinn Mars (Micro bit smátölvu) til að teikna fyrir sig. Árangurinn lét ekki á sér standa og kom þetta líka glæsilega listaverk út úr því eins og sjá má hér.

List fyrir alla

Mynd: List fyrir alla.is
Mynd: List fyrir alla.is

Í dag fóru nemendur 1. - 4. bekkjar á barnaóperuna um Gilitrutt í Edinborgarhúsinu, í boði verkefnisins List fyrir alla.  Þjóðsagan er flutt til nútímans þar sem Gilitrutt og bóndahjónin eiga farsíma og Gilitrutt kvartar yfir því að ná engu fólki lengur því það bruni bara framhjá á jeppum og týnist aldrei lengur uppi í fjöllum. Sagan heldur sér þó nokkurn veginn óbreytt. 

List fyrir alla er ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Við þökkum kærlega fyrir góða heimsókn hingað vestur.

Samræmdum prófum lokið

Í gær og dag tók 4. bekkur samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði og 7. bekkur gerði slíkt hið sama í síðustu viku. Fyrirlögnin gekk vel ef frá er talið innanhússvandamál með tölvur í fyrsta prófinu, en því var bjargað eins og best var á kosið og gekk allt eins og smurt eftir það.

Nemendur voru einstaklega einbeittir og gerðu allir sitt besta og því ekki hægt að fara fram á meira. Við þökkum foreldrum og kennurum fyrir þeirra undirbúning og aðstoð.

Tangram

Í morgun fóru nemendur 9. bekkjar í liðakeppni í Tangram, sem er leikur með form og gengur út á það að raða saman formum eftir fyrirmynd á skjá. Krakkarnir stóðu sig með mikilli prýði og höfðu gaman af, enda reyndi á marga þætti stærðfræðinnar eins og rökhugsun, fínhreyfingar, rýmisgreind og samvinnu.

Ólympíuhlaup ÍSÍ

Á morgun fer fram  hið árlega skólahlaup, sem nefnist nú Ólympíuhlaup ÍSÍ. Nemendur geta nú sem áður valið á milli þriggja vegalengda í hlaupinu, þ.e. 2,5 km, 5 km eða 10 km. Að hlaupinu loknu fær hver þátttakandi og hver skóli viðurkenningarskjal þar sem greint er frá árangri. Það skal tekið fram að hér er fyrst og fremst lögð áhersla á holla hreyfingu og að allir taki þátt. 

1. - 4. bekkur hleypur af stað kl. 10:00 frá Bæjarbrekku og inn að Engi, 5. -7. bekkur hleypur af stað kl. 10:05 inn að Seljalandi og 8. - 10. bekkur getur valið um hlaup inn að Seljalandi eða golfskála kl.10:10.

Nú vonum við bara að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir og allir njóti hreyfingarinnar.

Verum ástfangin af lífinu

Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur með meiru. Mynd: mbl.is
Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur með meiru. Mynd: mbl.is

Í dag heimsækir Þorgrímur Þráinsson rithöfundur okkur og heldur tvo fyrirlestra, einn fyrir 8. - 10. bekk og annan fyrir 6. og 7. bekk. 

Fyrri fyrirlesturinn sem ætlaður er 8. - 10. bekk nefnist ,,Verum ástfangin af lífinu" og fjall­ar um mik­il­vægi þess að ung­ling­ar axli ábyrgð á eig­in vel­ferð, krakk­arn­ir láti drauma sína ræt­ast og séu óhrædd­ir við að fara út fyr­ir þæg­inda­hring­inn. Lífið er núna en ekki í gær eða á morg­un.

Í seinni fyrirlestrinum upplýsir Þorgrímur nemendur 6. - 7. bekkjar um hvernig hann vinnur sem rithöfundur og leiðbeinir þeim varðandi skapandi skrif með það að markmiði að efla læsi og styrkja þar með sjálfsmynd nemenda.

Í kvöld býður foreldrafélag skólans foreldrum nemenda í 8. - 10. bekk upp á fyrirlestur Þorgríms ,,Verum ástfangin af lífinu". Fyrirlesturinn hefst kl. 20:00 og er í dansstofu skólans.

Listakonur í heimsókn

Í tilefni af Degi myndlistar 1. nóvember næstkomandi munu rússnesku listakonurnar Maria og Natalia Petschatnikov koma í heimsókn í myndmenntartíma 20. september og eru öllum nemendum á unglingastigi velkomið að sitja tímann. Þær stöllur munu fræða nemendur um verk sín og ræða um það hvernig er að vera myndlistamaður.