VALMYND ×

Fréttir

Fjallgöngur

Frá Aðalvík
Frá Aðalvík

Á hverju hausti fara allir árgangar skólans í fjallgöngur eða gönguferðir. Í upphafi skólagöngunnar er byrjað á að fara upp í Stórurð, en svo smám saman verður gangan erfiðari, en hver árgangur fær úthlutað sinni gönguleið. Þegar grunnskólagöngunni lýkur hafa því allir nemendur kynnst mörgum fjallgönguleiðum hér í kring s.s. upp í Naustahvilft, á Hnífa, Sandfell og Kistufell svo fátt eitt sé nefnt. Þessa dagana skunda nemendur upp um fjöll og firnindi og fór 10. bekkur t.d. siglandi norður á Hesteyri í fyrradag og gekk yfir í Aðalvík og þótti sú ferð takast alveg einstaklega vel. Sú ferð er skipulögð og kostuð af foreldrum og væri ekki framkvæmanleg án þeirra og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Fjallgöngurnar eru mikilvægar til að efla samstöðu og félagsþroska nemenda en í þeim fá þeir tækifæri til að aðstoða samnemendur og  eiga í fjölbreyttum samskiptum um leið og þeir fræðast um nærumhverfi sitt og náttúruna.  

Fræðsluerindi

Mánudaginn 10. september kl. 20:00 mun Sólveig Norðfjörð sálfræðingur, bjóða upp á fræðsluerindi fyrir foreldra 5 og 6 ára barna. Þetta er almenn fræðsla varðandi uppeldi, kvíða, hegðunarvanda, ADHD o.fl. og verður á jákvæðum og fyrirbyggjandi nótum. Erindið sem verður um 60 mínútur að lengd, verður haldið í salnum á 4. hæð Stjórnsýsluhússins á Ísafirði. 

Boðið verður upp á spurningar og umræður að erindi loknu og er aðgangur ókeypis.

 

Starfsdagur

Föstudaginn 7. september er starfsdagur í skólanum og engin kennsla. Dægradvöl er samt opin frá kl. 13:20 - 16:00 og eru foreldrar beðnir að láta vita þar ef börnin mæta.

Hnetulaus skóli

Í Grunnskólanum á Ísafirði eru nokkur börn með bráðaofnæmi fyrir hnetum og því mikilvægt að taka tillit til þeirra þar sem hnetur geta valdið mjög slæmum og hættulegum ofnæmisviðbrögðum.
Skólinn er því hnetulaus skóli sem þýðir að hvorki börn né starfsmenn koma með hnetur inn í skólann. Við viljum biðja foreldra að gæta þess að börnin komi ekki með nesti sem inniheldur hnetur. Dæmi um slíkt er: hnetujógúrt, abt mjólk með hnetumúsli, brauð með hnetusmjöri, hnetur í poka, alls kyns orkustykki, sumar brauðtegundir, morgunkorn og fleira.


Uppskerutíð

Síðastliðið vor setti þáverandi 5. bekkur niður grænmeti hér á skólalóðinni. Uppskeran er nú komin í hús og voru krakkarnir í óða önn að skera niður í salat með hádegismatnum í morgun. Þrátt fyrir heldur rýra uppskeru þetta árið, þá er fátt betra en heimaræktað grænmeti.

G.Í. leiðir fjölþjóðlegt samstarfsverkefni

1 af 2

Rannís hefur úthlutað úr menntahluta Erasmus+ áætlunarinnar um 3 milljónum evra eða um 370 milljónum króna til 43 evrópskra samstarfs­verkefna. Að þessu sinni voru styrkt 34 skólaverkefni sem er sérstakur verkefnaflokkur þar sem megináherslan er á samstarf skóla, starfsmanna þeirra og nemenda. Aldrei hafa jafn mörg verkefni fengið styrk í þessum verkefnaflokki og veitir þetta skólum einstakt tækifæri til að efla alþjóðlegt samstarf og nýsköpun.

Grunnskólinn á Ísafirði hlaut styrk upp á 39.724 EUR vegna verkefnisins Living in a challenging world en það er í flokki verkefna undir íslenskri verkefnastjórn. Auk G.Í. munu skólar frá Grikklandi, Svíþjóð, Hollandi og Búlgaríu taka þátt í verkefninu sem snýst um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Jóna Benediktsdóttir, starfandi skólastjóri G.Í. á síðasta skólaári, sótti um fyrir hönd skólans síðastliðinn vetur og mun hún halda utan um verkefnið ásamt Bergljótu Halldórsdóttur kennara.

7. bekkur á heimleið

7. bekkur lagði af stað frá Reykjum um kl. 11:50 og áætlað er að hópurinn verði kominn á Ísafjörð um kl. 17:00. Við látum vita ef einhverjar breytingar verða á áætlun.

Breytingar á stundaskrám

Eins og fram kom í foreldraviðtölum í síðustu viku, þá hafa orðið breytingar á stundaskrá á yngsta stigi frá því í fyrra. Breytingin kemur til út af styttingu á frístund, úr einni klukkustund niður í 40 mínútur. Þar af leiðandi eru nemendur í 1. - 4. bekk búnir í kennslu kl. 13:20 daglega. Þeir sem eiga að fara í dægradvöl eða annað skipulagt frístundastarf fara beint þangað, en aðrir fá gæslu á skólalóð eða á skólasafni fram að strætóferð kl. 14:00. Í framhaldi af því viljum við biðja foreldra að minna börn sín á bílbelti í strætisvögnunum.

Mentor leiðbeiningar

Mikið er um spurningar varðandi Mentor umsjónarkerfið í upphafi skólaárs, ekki síst hjá hjá þeim foreldrum sem eru að sjá kerfið í fyrsta skiptið. Mentor hefur nú gefið út leiðbeiningar sem snúa að algengustu spurningum aðstandenda og er hægt að nálgast þær hér. Við vonum að þessar leiðbeiningar komi sér vel fyrir marga.

7. bekkur kominn að Reykjum

Í morgun hélt 7. bekkur af stað í Skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði. Ferðin gekk vel og var hópurinn kominn á áfangastað um hádegið. Við vonum að allir njóti samverunnar og komi endurnærðir til baka á föstudaginn.