Fréttir
Breytingar á stundaskrám
Eins og fram kom í foreldraviðtölum í síðustu viku, þá hafa orðið breytingar á stundaskrá á yngsta stigi frá því í fyrra. Breytingin kemur til út af styttingu á frístund, úr einni klukkustund niður í 40 mínútur. Þar af leiðandi eru nemendur í 1. - 4. bekk búnir í kennslu kl. 13:20 daglega. Þeir sem eiga að fara í dægradvöl eða annað skipulagt frístundastarf fara beint þangað, en aðrir fá gæslu á skólalóð eða á skólasafni fram að strætóferð kl. 14:00. Í framhaldi af því viljum við biðja foreldra að minna börn sín á bílbelti í strætisvögnunum.
Mentor leiðbeiningar
Mikið er um spurningar varðandi Mentor umsjónarkerfið í upphafi skólaárs, ekki síst hjá hjá þeim foreldrum sem eru að sjá kerfið í fyrsta skiptið. Mentor hefur nú gefið út leiðbeiningar sem snúa að algengustu spurningum aðstandenda og er hægt að nálgast þær hér. Við vonum að þessar leiðbeiningar komi sér vel fyrir marga.
7. bekkur kominn að Reykjum
Skólabúðir
Nú er fyrsti kennsludagurinn runninn upp og allir spenntir fyrir komandi skólaári. Líkt og undanfarin ár hefst veturinn hjá 7. bekk á ferð í Skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði. Lagt verður af stað n.k. mánudag kl. 7:30 og er mæting kl. 7:15 við skólahliðið á Norðurvegi (við Ísafjarðarbíó). Árgangurinn dvelur á Reykjum alla vikuna og er áætluð heimkoma seinni part föstudags.
Reglur um létt bifhjól
Nú í upphafi skólaárs vill Samgöngustofa koma upplýsingum til foreldra og unglinga varðandi notkun og öryggi léttra bifhjóla. Gefinn hefur verið út bæklingur sem inniheldur upplýsingar um helstu atriði og eru allir hvattir til að kynna sér innihald hans.
Sérstaklega er bent á að ökumenn verða að vera orðnir 13 ára, skylt er skv. lögum að vera með hjálm og ekki er leyfilegt að reiða farþega á hjólunum nema að ökumaður sé 20 ára og hjólið til þess gert.
Með leiðbeiningum og fræðslu fækkum við slysum og óhöppum. Með réttri notkun og með öryggið í fyrirrúmi verða létt bifhjól ekki til vandræða. Munum að slysin verða ekki aftur tekin.
Persónuvernd
Grunnskólanum er umhugað um persónuvernd og réttindi einstaklinga sem varða persónuupplýsingar. Ný persónuverndarstefna grunnskólans sem lögð verður fyrir bæjarráð á allra næstu dögum mun segja til um hvaða persónuupplýsingum skólinn safnar, hvers vegna, hversu lengi upplýsingarnar verða geymdar, hvert þeim kunni að verða miðlað og hvernig öryggi þeirra er tryggt. Stefnan er í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Að undanförnu hefur grunnskólinn unnið að því að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til hans á grundvelli laganna. Í því samhengi hefur grunnskólinn sett sér það markmið að hefja næsta skólaár í fullu samræmi við lögin. Einn liður í því krefst þátttöku foreldra sem tekin verður fyrir í fyrstu foreldraviðtölum skólaársins á morgun, fimmtudaginn 23.08.2018, en þar kemur skólinn til með að leita samþykkis hjá foreldrum fyrir myndatöku af börnum þeirra og birtingu myndefnis. Til að tryggja ytra öryggi persónuupplýsinga nemenda verður jafnframt leitast eftir því að fá foreldra til að undirrita trúnaðaryfirlýsingu um þau atriði skólastarfs og einstaka nemendur sem þeir kunna að fá vitneskju um í heimsóknum sínum í grunnskólanum. Sérstök athygli er vakin á því að þessar ráðstafanir eru gerðar með hagsmuni nemenda og vernd persónuupplýsinga þeirra að leiðarljósi.
Nýtt skólaár
Líkt og undanfarin ár er nemendum Ísafjarðarbæjar séð fyrir öllum gögnum sem þeir þurfa til náms í skólanum, að því undanskildu að nemendur í 8. - 10. bekk þurfa að koma með skriffæri.
Skólasetning verður með sama sniði og í fyrra. Fimmtudaginn 23. ágúst mæta nemendur og foreldrar í viðtöl til umsjónarkennara þar sem farið verður yfir helstu atriði varðandi skólastarfið. Opnað verður fyrir skráningar í viðtölin miðvikudaginn 22. ágúst á www.mentor.is
Skólastjóraskipti
Nú er Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, komin aftur til starfa eftir árs námsleyfi. Jóna Benediktsdóttir aðstoðarskólastjóri mun leysa af sem skólastjóri í Grunnskólanum á Suðureyri í vetur og mun Helga Snorradóttir sinna starfi aðstoðarskólastjóra G.Í. á meðan.
Sumarleyfi
Vegna sumarleyfa verður skólinn lokaður frá mánudeginum 2. júlí til og með 6. ágúst. Hægt er að nálgast óskilamuni og ósótt skírteini út þessa viku á milli kl. 8:00 og 14:00.