VALMYND ×

Fréttir

Val á miðstigi

Hér í skólanum hefur um nokkurra ára skeið verið sett upp val fyrir nemendur á miðstigi sem kallast hræringur. Nafnið var valið vegna þess að í þessu vali blandast allir nemendur miðstigs þ.e. í 5. - 7. bekk eftir áhuga nemenda á viðfangsefnum hverju sinni. Valið nær til þriggja kennslustunda á viku og veturinn skiptist í fjögur valtímabil, annars vegar eru tvær samliggjandi kennslustundir og hins vegar einn stakur tími.

Jóna Benediktsdóttir, skólastjóri G.Í., hefur nú ritað grein í Skólaþræði, sem er tímarit samtaka áhugafólks um skólaþróun. Þetta val og fyrirkomulag þess hefur vakið verðskuldaða athygli og hefur verið mikil ánægja með það. Greinina má nálgast hér

Ásdís Ósk og Saga Líf í úrslit NKG

Ásdís Ósk og Saga Líf í þriðju röð, lengst til hægri. Mynd: Facebook NKG
Ásdís Ósk og Saga Líf í þriðju röð, lengst til hægri. Mynd: Facebook NKG
1 af 2

Tvær stúlkur úr 7. bekk G.Í., þær Ásdís Ósk Brynjarsdóttir og Saga Líf Ágústsdóttir komust í úrslit Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) með hugmynd sína ,,Vasapeningar". Dómnefnd valdi hugmynd þeirra ásamt 25 öðrum, en alls bárust um 1200 hugmyndir í keppnina. Stelpurnar mættu galvaskar í vinnusmiðju NKG í Háskólanum í Reykjavík um liðna helgi þar sem öllum var gefið færi á að útfæra hugmyndir sínar nánar með aðstoð leiðbeinenda. Hugmynd þeirra Ásdísar og Sögu gengur út á smáforrit sem foreldrar og börn geta nýtt sér til utanumhalds á vasapeningum.

Þær Ásdís Ósk og Saga Líf fengu viðurkenningarskjal fyrir að komast í úrslit keppninnar, auk þess sem þær hlutu gjafabréf í Háskóla unga fólksins 2019 og fjármálaverðlaun Arion banka. Við óskum þeim stöllum, foreldrum þeirra og kennurum innilega til hamingju með árangurinn.

Leikja- og íþróttadagur

Á morgun er leikjadagur hjá 1. - 4. bekk, þar sem nemendur fara á hinar ýmsu stöðvar hér á eyrinni í margvíslega leiki. Frístundin er á sínum stað og lýkur skóladegi á sama tíma og venjulega.

Á Torfnesi verður íþróttadagur hjá 5. - 9. bekk fram að hádegi þannig að nemendur gætu komið heim um hádegisbilið. Við vonum að veðrið verði sem best, en við höfum íþróttahúsið í bakhöndinni ef þörf krefur.

Hádegisboð fyrir 10. bekk

1 af 4

Í hádeginu í dag bauð starfsfólk skólans nemendum 10. bekkjar til hádegisverðar í kaffistofu starfsmanna. Þar var haldið í þá hefð að kveðja nemendur á síðasta kennsludegi þeirra, en á morgun og næstu daga eru prófadagar og eftir það tekur vorferðin við norður í Skagafjörð.

Nemendur 10. bekkjar mættu prúðbúnir á síðasta kennsludegi sínum eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og gerðu veitingunum góð skil. 

Vorverkadagur og löng helgi

Boðið upp á grillaðar pylsur í lok vorverkadags 2017
Boðið upp á grillaðar pylsur í lok vorverkadags 2017

Á morgun er vorverkadagur hér í skólanum, þar sem nemendur í 1. - 9. bekk fá ákveðin útiverkefni í samvinnu við Ísafjarðarbæ. Verkefnin snúa að gróðursetningu, hreinsun, málun og fleiru og vonum við að veðrið verði sem best til góðrar útivistar. Allir nemendur hafa með sér morgunnesti, en mötuneyti skólans býður svo öllum nemendum, upp á grillaðar pylsur á milli kl. 12:00 og 13:00. Frístundin hefst svo kl. 13:00 og fer strætó í Holtahverfið á sama tíma. Umsjónarkennarar veita allar frekari upplýsingar.

Við minnum svo á langa helgi, þar sem annar í hvítasunnu er á mánudag.

Austurvegur lokaður

Vegna umfangsmikilla viðgerða á vatnslögnum þarf að loka Austurvegi milli Kaupfélagshúss og Ísafjarðarbíós í nokkra daga. Lokað verður að morgni mánudagsins 14. maí, eftir að kennsla er hafin í Grunnskólanum, og eru foreldrar og aðrir beðnir um að skilja ekki bíla sína eftir við þennan götuhluta. Gera ráð fyrir að lokunin vari alla vikuna og verða nemendur skólans að taka strætó við Pollgötu á meðan framkvæmdir standa yfir.

Þakkardagur vinaliða

Í morgun hittust 4. - 6. bekkur á sal skólans til að þakka vinaliðum vel unnin störf frá áramótum. Að því loknu fara vinaliðarnir ásamt Árna Heiðari Ívarssyni, umsjónarmanni verkefnisins í bíó. Hópurinn er svo væntanlegur aftur í skólann um hádegisbilið.

Vinaliðaverkefnið hefur verið starfrækt hér við skólann í fjögur ár og hefur það gengið vonum framar. Því er ætlað, samhliða góðum eineltisáætlunum, að draga úr einelti og auka vellíðan og samheldni nemenda í skólum. Helstu markmið verkefnisins eru að stuðla að fjölbreyttari leikjum í frímínútum, leggja grunn sem gerir nemendum kleift að tengjast sterkum vináttuböndum, minnka togstreitu milli nemenda og hampa góðum gildum, svo sem vináttu, virðingu og því að allir fá að taka þátt.

 

Skólinn tilnefndur til verðlauna

Grunnskólinn á Ísafirði hefur verið tilnefndur til Foreldraverðlauna Heimilis og skóla - landssamtaka foreldra, fyrir verkefnið Nemendaþing um notkun samfélagsmiðla, sem skólinn hélt í október s.l. Dómnefnd velur eitt verkefni sem hlýtur verðlaunin, en auk þeirra verða veitt hvatningarverðlaun til verkefnis sem dómnefnd telur að muni skila árangri til framtíðar. Einnig verður dugnaðarforkur Heimilis og skóla útnefndur, auk þess sem viðurkenningar verða veittar til allra verkefna sem tilnefnd eru.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mun afhenda verðlaunin við hátíðlega athöfn sem fram fer í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík, þriðjudaginn 15. maí næstkomandi.

 

Frestun á Haukadalsferð

Ferðinni sem 10. bekkur stefndi á í Haukadal á morgun, hefur nú verið frestað vegna óviðráðanlegra orsaka. Kennsla verður því samkvæmt stundaskrá á morgun.

Vorskipulag

Nú er vordagskráin frágengin og ljóst að nóg verður um að vera það sem eftir lifir skólaársins. Ekki má vanmeta það nám sem á sér stað utan skólastofunnar, þar sem nemendur fá enn frekari þjálfun í mörgum grunnþáttum menntunar eins og t.d. læsi, sköpun, heilbrigði og velferð. Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum.

Við vonum því að nemendur njóti þess náms sem á sér stað í hinum ýmsu viðburðum sem boðið er upp á nú í mánuðinum, innan dyra sem utan.