VALMYND ×

Fréttir

Maskadagur - grímuball

Mánudaginn 12. febrúar n.k. er maskadagur/bolludagur. Þá er hefð fyrir því að nemendur og starfsfólk mæti í búningum og er alltaf gaman að sjá hinar ýmsu persónur birtast.

Grímuballið verður á sínum stað og er skipulagið eftirfarandi:

1. - 3. bekkur kl. 8:20 - 9:10

4. - 5. bekkur kl. 10:20 - 11:00

6. - 7. bekkur kl. 13:10 - 13:40.

 

Þeir unglingar sem mæta í búningum eru velkomnir á grímuböll hjá vinabekkjum sínum og að sjálfsögðu er heimilt að koma með bollur af ýmsu tagi í nesti.

Á þriðjudaginn/sprengidag er svo starfsdagur og engin kennsla.

 

Fjölgun nemenda

Í vetur hefur verið nokkuð um nýskráningar nemenda í skólann og eru nemendur nú orðnir 360 talsins, 180 stúlkur og 180 drengir, skemmtileg tilviljun það. Stærsti árgangurinn er í 1. bekk, alls 50 nemendur og fæstir í 8. bekk, 25 nemendur. 

Nemendum í skólanum hefur nú fjölgað um 19 frá síðasta vetri og samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, virðist botninum hafa verið náð árin 2014-2016 þegar nemendafjöldi fór niður í 327. En nú liggur leiðin upp á við eins og sjá má á meðfylgjandi mynd og vonumst við til að sú þróun haldi áfram.

Þakkardagur vinaliða

Í morgun hittust 4. - 6. bekkur á sal skólans til að þakka vinaliðum vel unnin störf sem þeir hafa sinnt frá upphafi skólaárs. Umsjónarmenn verkefnisins, þeir Árni Heiðar Ívarsson og Atli Freyr Rúnarsson, buðu svo hópnum í bíó. 

Vinaliðaverkefnið hefur verið starfrækt hér við skólann í 4 ár og hefur það gengið vonum framar. Því er ætlað, samhliða góðum eineltisáætlunum, að draga úr einelti og auka vellíðan og samheldni nemenda í skólum. Helstu markmið verkefnisins eru að:

  • stuðla að fjölbreyttari leikjum í frímínútum skólanna
  • leggja grunn sem gerir nemendum kleift að tengjast sterkum vináttuböndum
  • minnka togstreitu milli nemenda og
  • hampa góðum gildum, svo sem vináttu, virðingu og því að allir fá að taka þátt.

Í næstu viku tekur svo nýr nemendahópur við keflinu, en kosið er um vinaliða tvisvar á ári.

Þorrablót 10. bekkjar

Þorrinn hefst á morgun, föstudaginn 19. janúar en þá halda nemendur 10. bekkjar sitt árlega þorrablót. Þar mæta nemendur ásamt foreldrum og fjölskyldu í sínu fínasta pússi og eiga saman ánægjulega kvöldstund, ásamt kennurum og starfsfólki skólans. Húsið opnar kl. 19:30 og gert er ráð fyrir að borðhald hefjist kl. 20:00.

Þorrablót þetta er upp á gamla mátann og hefur verið haldið allt frá árinu 1981. Gestir hafa með sér mat í trogum og einnig þarf að hafa með sér diska og hnífapör. Drykkir (gos og kristall) eru seldir í sjoppunni og fer ágóðinn af því í ferðasjóð 10.bekkjar, sem tekur eingöngu við reiðufé á staðnum. Glös eru til staðar og boðið er upp á kaffi eftir matinn. Hefð er fyrir því að foreldrar annist skipulagningu og skemmtiatriði, sem iðulega hefur slegið í gegn. Að borðhaldi loknu er svo stiginn dans og hafa nemendur æft gömlu dansana af kappi undanfarna viku.

Dansæfingar fyrir þorrablót

Hið árlega þorrablót 10. bekkjar verður haldið föstudaginn 19. janúar næstkomandi, á sjálfan bóndadaginn. Eins og allir vita er nauðsynlegt að vera vel undirbúinn fyrir gömlu dansana á slíkum samkomum. Árgangurinn leggur nú allt kapp á dansfimi sína og standa nú yfir stífar dansæfingar, undir styrkri stjórn Sigurrósar Evu Friðþjófsdóttur, danskennara. 

Hér má nálgast stutt myndband af dansæfingum í morgun og eins og sjá má eru krakkarnir orðnir virkilega fótafimir.

Óveður

Nú er komið vont veður þar sem gengur á með mjög dimmum éljum.  Starfsfólk Dægradvalar mun koma yfir í skóla og sækja þau börn sem ljúka deginum þar en við óskum eftir að foreldrar geri ráðstafanir til að sækja þá sem ekki eiga að fara í Dægradvöl.

Strætó gengur enn og reynt að halda áætlun en farþegar beðnir um að sýna þolinmæði. Sjálfvirkur símsvari hjá strætó er 878-1012.

Bókakaup

Það er mikilvægt að börn og unglingar hafi aðgang að lesefni sem höfðar til þeirra. Nú í desember prófuðum við að leyfa nemendum sjálfum að velja bækur inn á skólabókasafnið. Nemendur 4. og 7. bekkjar fóru með kennurum sínum og bókaverðinum okkar út í bókabúð og hver nemandi valdi eina bók sem hann fær svo að lesa fyrstur. 

Foreldradagur

Miðvikudaginn 10. janúar n.k. eru foreldraviðtöl hér í skólanum. Líkt og undanfarin ár, bóka foreldar viðtalstíma í gegnum Mentor.

Hér má nálgast kynningarmyndband varðandi skráningu.

Skráning í mötuneyti

Nú hefur verið tekið í notkun nýtt skráningarkerfi í mötuneyti skólans og þurfa því allir sem vilja að börn sín borði í mötuneytinu á vorönninni að skrá þau hér. Við vonum að allir geti gengið frá áskrift sem allra fyrst. Nánari leiðbeiningar hafa verið sendar í tölvupósti á aðstandendur, en meðfylgjandi er tafla/mynd af verðskránni.

 

Gleðileg jól

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði óskar nemendum, fjölskyldum þeirra og öðrum gleðilegrar jólahátíðar, árs og friðar. Skólastarf hefst á nýju ári samkvæmt stundaskrá fimmtudaginn 4. janúar 2018.