VALMYND ×

Fréttir

Dagbjört Ósk valin í ungmennaráð

Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir
Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir

Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, nemandi í 10. bekk, er ein af tólf ungmennum sem valin hafa verið í ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Umsækjendur voru rúmlega 140 af öllu landinu.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkjanna árið 2015 og tóku gildi í byrjun árs 2016. Fimm meginþemu markmiðanna eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf en með þeim er jafnframt lögð áhersla á allar þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar; hina félagslegu, efnahagslegu og umhverfislegu. Eitt af meginstefum Heimsmarkmiðanna er samvinna milli ólíkra hagsmunaaðila, þ.á.m. ungmenna, við innleiðingu markmiðanna. Í ljósi þess og einnig 12. og 13. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveða skýrt á um rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif á málefni er þau varða, var ákveðið að virkja þátttöku ungmenna á Íslandi í gegnum ungmennaráðið. Er það í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að framfylgja skuli ákvæðum Barnasáttmálans, m.a. um aukin áhrif barna í samfélaginu.

Meginmarkmið ungmennaráðsins er að vekja athygli á Heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, bæði meðal jafningja sem og samfélagsins í heild sinni. Ungmennaráðinu er ætlað að vera lifandi vettvangur þar sem Heimsmarkmiðin og Barnasáttmálinn eru höfð að leiðarljósi og rædd með gagnrýnum og lausnamiðuðum hætti. Ungmennum er með þessum hætti gefinn vettvangur til að vekja athygli á Heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun og skapa þannig jafningjum tækifæri til að láta rödd sína heyrast um fyrrgreind málefni.

Ungmennaráðið samanstendur af tólf fulltrúum á aldursbilinu 13-18 ára og kemur saman sex sinnum á ári og fundar jafnframt árlega með ríkisstjórn. Hlutverk ráðsins er að fræðast og fjalla um Heimsmarkmiðin ásamt því að vinna og miðla gagnvirku efni á samfélagsmiðlum um markmiðin og sjálfbæra þróun.

Það er ljóst að Dagbjört Ósk er verðugur fulltrúi í ungmennaráðinu og óskum við henni innilega til hamingju með útnefninguna.

 

Úrslit í Skólahreysti

Lið G.Í. í Skólahreysti vorið 2018.
Lið G.Í. í Skólahreysti vorið 2018.

Grunnskólinn á Ísafirði hefur lokið keppni í Skólahreysti þetta árið, en liðið hafnaði í öðru sæti í Vestfjarðariðlinum. Sameinað lið Grunnskólanna á Suðureyri og í Súðavík sigraði riðilinn og vann sér þar með þátttökurétt í úrslitakeppninni, sem haldin verður í Laugardalshöllinni þann 2. maí n.k.

Við erum stolt af krökkunum okkar og óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn og einnig óskum við sigurvegurum til hamingju með sinn glæsilega árangur.

G.Í. keppir í Skólahreysti

Riðlakeppnin í Skólahreysti er hafin þetta árið og keppir G.Í. á morgun í TM höllinni í Garðabæ kl.13:00. Þar eigast við 16 lið af Vesturlandi og Vestfjörðum og keppa um sæti í úrslitakeppninni, sem haldin verður miðvikudaginn 2. maí í Laugardalshöllinni. 

Guðný Stefanía Stefánsdóttir hefur þjálfað liðið okkar í vetur, en Atli Freyr Rúnarsson er liðsstjóri og fylgir nemendum suður til keppni. Fyrir hönd skólans keppa þau Davíð Hjaltason og Hafdís Bára Höskuldsdóttir í hraðaþraut, Helgi Ingimar Þórðarson í upphýfingum og dýfum og Linda Rós Hannesdóttir í armbeygjum og hreystigreip. Til vara eru þau Svava Rún Steingrímsdóttir og Blessed Gil Parilla.

Við fylgjumst spennt með krökkunum okkar og óskum þeim góðs gengis.

Árshátíð skólans

Frá árshátíð G.Í. 2015
Frá árshátíð G.Í. 2015

Árshátíð skólans verður haldin dagana 21. og 22. mars undir yfirskriftinni ,,Internetið". 

Skipulag sýninga verður sem hér segir:

 

Miðvikudagur 21.mars

Kl. 10:00 1. sýning, 1.-5.b. sýnir og eru einnig áhorfendur.

kl. 17:00  2. sýning, 1.-7.b. sýnir, áhorfendur: foreldrar 1. og 2. b.

kl. 20:00  3. sýning, 6.-10.b. sýnir, áhorfendur: foreldrar 6. og 7.b.

 

Fimmtudagur 22. mars

kl. 10:00  4.sýning, 6.-10.b. sýnir og eru einnig áhorfendur.

kl. 17:00  5. sýning, 1.-7.b. sýnir, áhorfendur: foreldrar 3., 4. og 5.b.

kl. 20:00  6. sýning, 7.-10.b. sýnir, áhorfendur: foreldrar 8., 9. og 10.b.

 Aukasýning verður föstudaginn 23. mars þar sem 1.-4.b. sýnir fyrir leikskólabörn á Tanga og nemendur 7.-10.b.

Erfitt er að áætla lengd hverrar sýningar, en gera má ráð fyrir 60-90 mínútum og hvetjum við gesti til að sitja sýningar á enda til að koma í veg fyrir rask og óþægindi. Ef foreldrar komast ekki á þær sýningar sem merktar eru einstökum árgöngum er að sjálfsögðu í lagi að koma á öðrum tímum, en þó ekki á 1. og 4. sýningu. Þær sýningar sem eru feitletraðar eru sölusýningar og ætlaðar almenningi og er aðgangseyrir kr. 1.000. Ekki er tekið við greiðslukortum. Frítt er inn fyrir 67 ára og eldri og aðrir greiða aðeins inn á eina sýningu. Frekari upplýsingar hafa verið sendar heim til foreldra.

 

Nýir nemendur frá Sýrlandi og Írak

Fljótlega munu nemendur og starfsfólk G.Í. taka á móti nýjum nemendum frá Sýrlandi og Írak sem komu til Ísafjarðar og Flateyrar í byrjun mars mánaðar. Þess vegna viljum við koma til ykkar örstuttum upplýsingum og hvetja til jákvæðrar umræðu heima um nauðsyn þess að hjálpa hvert öðru á þessum sameiginlega hnetti okkar.

Heimahagar

Fjölskyldurnar komu upprunalega frá Daraa í Sýrlandi, frá þeim stað sem stríðið þar í landi hófst og Basra í Suður Írak. Báðar fjölskyldur neyddust til að flýja heimkynni sín til Amman í Jórdaníu þar sem þær dvöldu í nokkur ár. Eins og flestir vita hefur styrjöld geysað í Sýrlandi í sjö ár og í Írak í 15 ár eða allt frá innrás Bandaríkjanna árið 2003. Milljónir manna hafa verið í þessum sömu sporum og fjölskyldurnar okkar, og fjölmargir eru það enn.

Fyrstu vikurnar á Ísafirði/Flateyri

Fyrstu vikurnar var í mörg horn að líta. Það þurfti að sækja um dvalarleyfi og hver einstaklingur þurfti að fara í læknisskoðun. Nú hefur íslenskukennsla hafist og samfélagsfræðsla fyrir allan hópinn.

Nemendahópurinn

Í hópnum eru fjórir nemendur á grunnskólaaldri sem hefja nám hér í skólanum fljótlega. Þrjú eru systkini frá Sýrlandi, tvö þeirra fara í 10. bekk og litli bróðir í 6. bekk. Stelpan heitir Ayaa og bræður hennar Abdulla og Abdulrahman. Ein stelpa sem heitir Qamar kemur frá Írak og fer í 10. bekk. Börnin eru spennt að byrja í skólanum og afar jákvæð og áhugasöm. Nú leggja þau sig fram við að læra íslensku áður en þau hefja hefðbundna skólagöngu og munu fá sérstaka aðstoð við það áfram í skólunum sínum.

Kjarni okkar allra er sá sami, þó ólíkt umhverfi, menning og saga móti okkur með ólíku móti.

Við bjóðum nýja nemendur velkomna í skólann og mætum þeim jákvæð og glöð.

 

Solveig Amalía las til sigurs

Mariann, Solveig Amalía og Anja Karen
Mariann, Solveig Amalía og Anja Karen
1 af 2

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Hömrum í gær. Þar lásu 12 nemendur úr 7. bekkjum grunnskólanna á Ísafirði, Suðureyri, Flateyri og Bolungarvík sögubrot eftir Sigrúnu Eldjárn og ljóð eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson. Ennfremur lásu nemendur eitt sjálfvalið ljóð.

Dómarar keppninnar voru þau Þorleifur Hauksson, Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Dagný Arnalds, Heiðrún Tryggvadóttir og Jónína H. Símonardóttir. Það var ekki auðvelt val að velja 3 bestu lesarana, en úrslit urðu þau að Solveig Amalía Atladóttir, G.Í. sigraði, Mariann Rähni, GB, hafnaði í öðru sæti og Anja Karen Traustadóttir, G.Í. í því þriðja.

Við óskum öllum lesurum innilega til hamingju með frábæra frammistöðu.

Samræmdu prófi í ensku frestað

Í morgun gat enginn nemandi í 9. bekk hér við skólann skráð sig inn á samræmt könnunarpróf í ensku, þar sem einhver bilun kom upp í prófakerfi Menntamálastofnunar. Þetta vandamál var víða um land, en svo virðist sem einhverjum hafi þó tekist að klára próf.

Í gær gekk stærðfræðiprófið eins og í sögu, en fresta þurfti íslenskuprófinu sem leggja átti fyrir í fyrradag, vegna sömu tæknilegu vandamála og voru í morgun.

Á fundi forstjóra Menntamálastofnunar með mennta- og menningarmálaráðherra í fyrradag var ákveðið að ráðuneytið myndi boða fulltrúa skólastjóra, kennara, nemenda, foreldra og sveitarfélaga til fundar þar sem farið verður yfir stöðuna. Í framhaldinu verður tekin ákvörðun um hvort íslensku- og enskupróf verða lögð fyrir að nýju fyrir þá nemendur sem ekki náðu að ljúka þeim eða prófin felld niður.

Við þökkum nemendum 9. bekkjar einstaka biðlund og þolinmæði. Þeim verður nú boðið upp á notalega samverustund með léttum veitingum.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fer fram í Hömrum þriðjudaginn 13. mars n.k. kl. 17:00. Þar munu nemendur úr 7. bekk sem valdir hafa verið úr skólum byggðarlagsins, lesa sögubrot og ljóð. 

Fyrir hönd Grunnskólans á Ísafirði munu þau Anja Karen Traustadóttir, Anna Marý Jónasdóttir, Ástmar Helgi Kristinsson, Daði Hrafn Þorvarðarson, Kristey Sara Sindradóttir, Saga Líf Ágústsdóttir og Solveig Amalía Atladóttir lesa. Til vara verða þær Borgný Valgerður Björnsdóttir og Sigrún Betanía Kristjánsdóttir. 

Stóra upplestrarkeppnin fyrir 7. bekk hófst veturinn 1996 - 1997 með þátttöku 223 barna í Hafnarfirði og á Álftanesi. Sex árum síðar voru börnin 4579 úr 151 skóla hringinn í kringum landið. Upplestrarkeppnin er ekki ,,keppni" í neinum venjulegum skilningi heldur þróunarverkefni. Höfuðáherslan er lögð á  bekkjarstarfið og að allir nemendur njóti góðs af.

Við hvetjum alla áhugasama til að mæta á þennan skemmtilega viðburð og njóta vandaðs upplesturs.

 

Erfiðleikar með samræmt próf

Þar sem netþjónn Menntamálastofnunar stóð ekki undir því álagi sem fylgdi prófatöku 9.bekkjar í íslensku í morgun lentu flestir skólar landsins í vandræðum. Hjá okkur komust nokkrir nemendur inn í prófið og gátu byrjað, en duttu síðan út aftur. Þegar við höfðum beðið í 70 mínútur án þess að kerfið væri komið í lag ákváðum við að ekki væri ástæða til að bíða lengur þar sem niðurstöður yrðu hvort sem er ómarktækar. Við bíðum nú ákvörðunar Menntamálastofnunar um hvort reynt verður að endurtaka prófið síðar eða ekki og erum þar í sömu sporum og margir aðrir skólar.

Við höldum okkar striki hvað varðar stærðfræðiprófið á morgun og treystum því að kerfið verði þá komið í lag.