VALMYND ×

Fréttir

Samræmd könnunarpróf

Endurfyrirlögn samræmdra könnunarprófa í íslensku og ensku í 9. bekk hófst í gær mánudaginn 30. apríl en próftímabilið stendur yfir til 11. maí. Öllum nemendum býðst að þreyta könnunarpróf að nýju, hvort sem þeir náðu að ljúka prófum í mars eða ekki. Skólar gátu valið að hafa prófdaga í vor eða haust en alls verða 13 prófdagar.

Grunnskólinn á Ísafirði ákvað að velja dagana 2. og 3. maí og verður enskuprófið því lagt fyrir á morgun og íslenskuprófið á fimmtudag. Þrír nemendur úr 9. bekk völdu að taka enskuprófið og tveir íslenskuprófið, af 27 nemendum árgangsins.

Starfsfólk Menntamálastofnunar hefur undanfarnar vikur undirbúið endurfyrirlögn prófanna. Vandlega hefur verið farið yfir ferla og viðbragðsáætlanir endurbættar, þannig að nú er bara að vona að allt gangi eins og best verður á kosið.

Útileikfimi

Mynd frá íþróttadegi G.Í. fyrir nokkrum árum
Mynd frá íþróttadegi G.Í. fyrir nokkrum árum

Nú er apríl að renna sitt skeið á enda og við tekur maí með öllu sínu vorskipulagi. Við erum að ganga frá skipulagningu á öllum þeim viðburðum sem verða á dagskránni og birtum um leið og lokið er.

Útileikfimin hófst í dag og hitta krakkarnir í 1. - 4. bekk sína íþróttakennara við Sundhöllina, en 5. - 10. bekkur mætir áfram upp á Torfnes og nýtir sér aðstöðuna þar. Við minnum alla á að vera klædda til útiveru.

Nemendum gefnir hjálmar

1 af 4

Í morgun komu þeir Gunnlaugur Gunnlaugsson og Sigurður Ólafsson frá Kiwanisklúbbnum Básum hér á Ísafirði og færðu öllum 1. bekkingum, alls 50 krökkum, reiðhjólahjálma að gjöf. Lögreglumenn voru einnig viðstaddir afhendinguna og ræddi Þórir Guðmundsson við nemendur um hvar má hjóla og hvar ekki og nauðsyn hjálmanotkunar.

Um leið og við þökkum Kiwanismönnum kærlega fyrir þessar rausnarlegu gjafir, þá minnum við alla á nauðsyn hjálmanotkunar, bæði á reiðhjólum og hlaupahjólum.

Minningarathöfn

Elín Þóra Friðfinnsdóttir (Mynd: Facebook).
Elín Þóra Friðfinnsdóttir (Mynd: Facebook).

Á morgun fer fram útför Elínar Þóru Friðfinnsdóttur frá Háteigskirkju í Reykjavík kl. 13:00. Elín Þóra var kennari hér við skólann s.l. fjögur ár, en varð bráðkvödd 9. apríl s.l.

Minningarathöfn um Elínu Þóru fer fram frá Ísafjarðarkirkju á morgun kl. 16:30 í umsjá sr. Fjölnis Ásbjörnssonar.

Fyrirlestur um rafrettur

María Ólafsdóttir á fyrirlestri hjá 9. bekk
María Ólafsdóttir á fyrirlestri hjá 9. bekk

Í morgun kom María Ólafsdóttir í heimsókn í 7. - 10. bekk og fræddi nemendur um rafrettur, en hún er læknir við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. María fór yfir skaðsemina sem fylgir rafrettum og fíknina af völdum nikótínsins sem þær innihalda. Nemendur voru flestir vel með á nótunum og vel upplýstir og sköpuðust góðar umræður. Við þökkum Maríu kærlega fyrir góðan og fræðandi fyrirlestur.

Löng helgi framundan

Nú er löng helgi framundan, þar sem sumardagurinn fyrsti er á fimmtudag og vorfrí á föstudag. Við vonum að allir njóti þessara daga sem best og komi endurnærðir á mánudaginn.

Upplýsingamiðlun

Í dag sendum við út örstutta könnun til allra foreldra varðandi upplýsingamiðlun. Okkur er mikið í mun að fá sem besta svörun, til að geta mætt þörfum heimila sem best. Við hvetjum því alla til að svara könnuninni sem fyrst, en hún var send í tölvupósti.

Vinabæjarheimsókn frá Kaufering

1 af 4

Undanfarna daga hafa nemendur frá Kaufering í Þýskalandi verið hér í heimsókn. Fyrsta daginn  heimsóttu þeir Suðureyri ásamt jafnöldrum sínum frá Ísafirði. Þar var farið í grunnskólann, Ísalandssögu og sund.  Síðan var farið að Bæ í Staðardal og var mikið líf og fjör í fjárhúsunum þar og höfðu margir úr hópnum aldrei komið svona nálægt kindum. Um kvöldið bauð 10.bekkur GÍ upp á menningarkvöld með skemmtiatriðum sem endaði á því að allir marseruðu saman.

Eftir heimsókn í GÍ á föstudeginum var farið í Bolungarvík og Náttúrugripasafnið og Ósvör skoðuð. Í Ósvör var boðið upp á hákarl og kom á óvart hversu margir smökkuðu og jafnvel fengu sér aftur.  Um kvöldið var svo farið í félagsmiðstöðina Djúpið.

Á laugardag var boðið upp á göngu með leiðsögn um Eyrina og skíðaferð inn í Tungudal. Það skemmtu sér allir vel á skíðum eða voru með sleða til að renna sér á.

Síðasti dagurinn var frjáls þar sem gestgjafarnir sáu um gestina og var ýmislegt í boði. Um kvöldið var síðan grillað í skíðaskálanum.

Þýsku nemendunum fannst þessir dagar vera mjög skemmtilegir og fljótir að líða. Þeir töluðu um að náttúran væri það sem stæði upp úr og það er gaman að því að Steingrímsfjarðarheiðin hefur eignast marga aðdáendur því þeim fannst hún alveg mögnuð.

Svona vinabæjarheimsóknir skilja eftir sig góðar minningar og þó tíminn hafi verið stuttur þá hafa myndast vinatengsl sem geta varað lengi.

Fræðsla um kynlíf og klám

Fyrir páska bárust okkur fréttir af því að nokkrir nemendur af miðstigi hefðu verið að senda klámmyndbönd sín á milli.  Við ákváðum því að vera með fræðslu fyrir miðstigið um kynlíf, klám og mismuninn á þessu tvennu.  5.og 7.bekkur hafa þegar fengið fræðsluna og 6.bekkur fær hana í næstu viku.

Til að við getum nú öll verið í takt með þetta viljum við bjóða foreldrum á fund þar sem við sýnum hvað við vorum með fyrir krakkana og nokkrar niðurstöður rannsókna um þetta efni.  Fundurinn verður haldinn í dansstofu skólans þriðjudaginn 10.apríl kl.17:30-18:30.  Helena Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur verður með stutt innlegg og svo verður rými fyrir spjall um þetta málefni. 

Við vonumst til að sjá sem flesta því þetta er atriði sem við verðum að vera samstíga í að taka á með krökkunum.

 

Páskaleyfi

1.bekkur klár á árshátíð
1.bekkur klár á árshátíð

Í dag lauk árshátíðarsýningum þar sem allir nemendur 1. - 10. bekkjar tóku þátt, hvort heldur var á sviði, við förðun, sviðs- og tæknimál, skreytingar, dyravörslu, eða miðasölu. Við erum afar stolt af okkar fólki og alveg frábært að sjá hvað uppskeran er alltaf blómleg eftir mikið skipulag og æfingar.

Nú tekur páskaleyfið við og hefst kennsla aftur að því loknu miðvikudaginn 4. apríl samkvæmt stundaskrá. Við þökkum öllum sem komu á sýningarnar hjá okkur og síðast en ekki síst nemendum, sem stóðu sig allir með sóma. Gleðilega páska!