Starfsdagur
Föstudaginn 7. september er starfsdagur í skólanum og engin kennsla. Dægradvöl er samt opin frá kl. 13:20 - 16:00 og eru foreldrar beðnir að láta vita þar ef börnin mæta.
Föstudaginn 7. september er starfsdagur í skólanum og engin kennsla. Dægradvöl er samt opin frá kl. 13:20 - 16:00 og eru foreldrar beðnir að láta vita þar ef börnin mæta.
Í Grunnskólanum á Ísafirði eru nokkur börn með bráðaofnæmi fyrir hnetum og því mikilvægt að taka tillit til þeirra þar sem hnetur geta valdið mjög slæmum og hættulegum ofnæmisviðbrögðum.
Skólinn er því hnetulaus skóli sem þýðir að hvorki börn né starfsmenn koma með hnetur inn í skólann. Við viljum biðja foreldra að gæta þess að börnin komi ekki með nesti sem inniheldur hnetur. Dæmi um slíkt er: hnetujógúrt, abt mjólk með hnetumúsli, brauð með hnetusmjöri, hnetur í poka, alls kyns orkustykki, sumar brauðtegundir, morgunkorn og fleira.
Rannís hefur úthlutað úr menntahluta Erasmus+ áætlunarinnar um 3 milljónum evra eða um 370 milljónum króna til 43 evrópskra samstarfsverkefna. Að þessu sinni voru styrkt 34 skólaverkefni sem er sérstakur verkefnaflokkur þar sem megináherslan er á samstarf skóla, starfsmanna þeirra og nemenda. Aldrei hafa jafn mörg verkefni fengið styrk í þessum verkefnaflokki og veitir þetta skólum einstakt tækifæri til að efla alþjóðlegt samstarf og nýsköpun.
Grunnskólinn á Ísafirði hlaut styrk upp á 39.724 EUR vegna verkefnisins Living in a challenging world en það er í flokki verkefna undir íslenskri verkefnastjórn. Auk G.Í. munu skólar frá Grikklandi, Svíþjóð, Hollandi og Búlgaríu taka þátt í verkefninu sem snýst um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Jóna Benediktsdóttir, starfandi skólastjóri G.Í. á síðasta skólaári, sótti um fyrir hönd skólans síðastliðinn vetur og mun hún halda utan um verkefnið ásamt Bergljótu Halldórsdóttur kennara.
Eins og fram kom í foreldraviðtölum í síðustu viku, þá hafa orðið breytingar á stundaskrá á yngsta stigi frá því í fyrra. Breytingin kemur til út af styttingu á frístund, úr einni klukkustund niður í 40 mínútur. Þar af leiðandi eru nemendur í 1. - 4. bekk búnir í kennslu kl. 13:20 daglega. Þeir sem eiga að fara í dægradvöl eða annað skipulagt frístundastarf fara beint þangað, en aðrir fá gæslu á skólalóð eða á skólasafni fram að strætóferð kl. 14:00. Í framhaldi af því viljum við biðja foreldra að minna börn sín á bílbelti í strætisvögnunum.
Mikið er um spurningar varðandi Mentor umsjónarkerfið í upphafi skólaárs, ekki síst hjá hjá þeim foreldrum sem eru að sjá kerfið í fyrsta skiptið. Mentor hefur nú gefið út leiðbeiningar sem snúa að algengustu spurningum aðstandenda og er hægt að nálgast þær hér. Við vonum að þessar leiðbeiningar komi sér vel fyrir marga.
Nú er fyrsti kennsludagurinn runninn upp og allir spenntir fyrir komandi skólaári. Líkt og undanfarin ár hefst veturinn hjá 7. bekk á ferð í Skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði. Lagt verður af stað n.k. mánudag kl. 7:30 og er mæting kl. 7:15 við skólahliðið á Norðurvegi (við Ísafjarðarbíó). Árgangurinn dvelur á Reykjum alla vikuna og er áætluð heimkoma seinni part föstudags.
Nú í upphafi skólaárs vill Samgöngustofa koma upplýsingum til foreldra og unglinga varðandi notkun og öryggi léttra bifhjóla. Gefinn hefur verið út bæklingur sem inniheldur upplýsingar um helstu atriði og eru allir hvattir til að kynna sér innihald hans.
Sérstaklega er bent á að ökumenn verða að vera orðnir 13 ára, skylt er skv. lögum að vera með hjálm og ekki er leyfilegt að reiða farþega á hjólunum nema að ökumaður sé 20 ára og hjólið til þess gert.
Með leiðbeiningum og fræðslu fækkum við slysum og óhöppum. Með réttri notkun og með öryggið í fyrirrúmi verða létt bifhjól ekki til vandræða. Munum að slysin verða ekki aftur tekin.