Rýmingaræfing
Í morgun fór fram rýmingaræfing hér í skólanum, undir styrkri stjórn slökkviliðs Ísafjarðar. Brunaboðinn var ræstur kl. 9:10 og tók rúmar tvær mínútur að rýma húsið.
Nauðsynlegt er að framkvæma æfingu sem þessa reglulega, enda að mörgu að hyggja. Flóttaleiðir þurfa að vera á hreinu úr öllum rýmum hússins og allir starfsmenn og nemendur að þekkja sínar leiðir og viðbrögð ef hættuástand skapast. Hver árgangur á sinn söfnunarstað í hæfilegri fjarlægð frá skólanum og rötuðu allir á sinn stað í morgun. Taka þarf manntal á söfnunarsvæðinu, bæði hjá nemendum og starfsmönnum, þannig að engin hætta sé á að einhver hafi orðið innlyksa í skólanum.
Eftir rýmingaræfingu sem þessa er svo farið yfir alla þætti, t.d. hvort heyrist nógu vel í brunabjöllu allsstaðar í byggingunni, hvort að einhver svæði teppist o.s.frv. og gerðar úrbætur í framhaldinu ef þurfa þykir.
Deila