VALMYND ×

Fréttir

Fjármálafræðsla

Þessi hópur heimsótti Íslandsbanka
Þessi hópur heimsótti Íslandsbanka

Í gær buðu Landsbankinn og Íslandsbanki upp á fjármálafræðslu fyrir 10. bekk, en það er hluti af stærðfræðinámi árgangsins. Til umræðu voru smálán og verslun á netinu, húsakaup og markmiðssetning svo eitthvað sé nefnt. Í skólanum voru nemendur búnir að reikna út kostnað varðandi rekstur heimila og voru vel undirbúnir fyrir umræður um fjármálin. Við þökkum starfsfólki bankanna kærlega fyrir góða fræðslu og móttökur. 

Útivistartími barna

Frá 1. september s.l. breyttist útvistartími barna en um hann er fjallað í 92. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum.

Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir. 

Nægur svefn er mikilvæg forsenda góðrar heilsu, vellíðunar og árangurs í skólanum sem og annarsstaðar og því nauðsynlegt að allir standi saman um að framfylgja þessum reglum.

Tilmæli frá Persónuvernd

Persónuvernd hefur gefið út tilmæli til leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og íþróttafélaga um notkun á samfélagsmiðlum. Um er að ræða álitaefni sem rætt hefur verið í lögfræðingahópi Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við nýju persónuverndarlögin nr. 90/2018. Ljóst er að tilmælin kalla á breytt verklag við miðlun upplýsinga um skólastarf í hverju sveitarfélagi ásamt umræðum um nánari útfærslu þess.

Tilmælin eru eftirfarandi:

Að gefnu tilefni bendir Persónuvernd á að sérhver skóli, frístundaheimili og íþróttafélag, sem vinnur persónuupplýsingar um börn í starfi sínu, ber ábyrgð á slíkri vinnslu. Það er ávallt hlutverk ábyrgðaraðila að gæta að því að öll vinnsla persónuupplýsinga sé í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Miðlun persónuupplýsinga um börn í gegnum samfélagsmiðla, svo sem Facebook, telst til vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir gildissvið laganna. Í þessu samhengi er vert að árétta að ljósmyndir af einstaklingum teljast almennt til persónuupplýsinga.

Miðlun upplýsinga um tímasetningar eða viðburði á vegum skóla og félaga, starfsemi þeirra, t.d. fjáröflunarverkefni og tilkynningar þar um, teljast hins vegar ekki til vinnslu persónuupplýsinga og ekkert því til fyrirstöðu að nýta slíka miðla til að dreifa þeim upplýsingum. Þá verður almennt ekki gerð athugasemd við að þar séu birtar myndir af opnum viðburðum á vegum skóla og félaga sem ekki sýna neinar aðstæður viðkvæms eðlis.

Í skilmálum Facebook, sem notendur miðilsins samþykkja, kemur fram að Facebook safnar þeim upplýsingum sem miðlað er í gegnum síðuna. Þegar persónuupplýsingum er miðlað til foreldra í gegnum Facebook-hóp er þeim því samtímis miðlað til Facebook. Þá liggur fyrir að Facebook deilir persónuupplýsingum með fyrirtækjum sem tengjast Facebook, sem og öðrum aðilum (þ.e. þriðju aðilum), við nánar tilgreindar aðstæður. Þeir sem nota slíka samfélagsmiðla hafa því ekki fulla stjórn á því efni sem þar er sett inn.

Til þess að heimilt sé að vinna með persónuupplýsingar, svo sem með því að miðla þeim til annarra, þarf vinnslan að styðjast við heimild í persónuverndarlögum ( lögum nr. 90/2018). Sú heimild sem einkum kemur til greina í þessu tilviki er samþykki hins skráða, þ.e. þess einstaklings sem upplýsingarnar varða. Þegar um ólögráða einstaklinga er að ræða, eins og á við þegar börn eiga í hlut, fara foreldrar eða forsjáraðilar þeirra með hæfi til að veita samþykki fyrir vinnslu upplýsinga, sbr. 1. mgr. 51. gr. lögræðislaga . Áður en samþykki er veitt ber ábyrgðaraðila vinnslunnar að veita hinum skráða (hér foreldrum/forsjáraðilum hans) fullnægjandi fræðslu um vinnsluna, svo sem um tilgang hennar, viðtakendur upplýsinganna og fleira. Að öðrum kosti telst fræðsla ekki í samræmi við persónuverndarlög.

Með vísan til framangreinds, sem og 2. tölul. 43. gr. laga nr. 90/2018, beinir Persónuvernd þeim tilmælum til leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila, íþróttafélaga og allra annarra opinberra aðila og einkaaðila, sem koma að starfi með börnum, að þeir noti ekki Facebook, eða sambærilega miðla, sem samskiptamiðla fyrir miðlun persónuupplýsinga um ólögráða börn, hvort heldur sem um almennar eða viðkvæmar persónuupplýsingar þeirra er að ræða.

Ef þörf er talin á að miðla upplýsingum um ólögráða börn með rafrænum hætti hjá framangreindum aðilum er æskilegt að til þess verði nýttur hugbúnaður sem tryggir ábyrgðaraðilum fulla stjórn yfir þeim persónuupplýsingum sem miðlað er. Tryggja þarf að upplýsingunum verði ekki miðlað til óviðkomandi aðila, þær verði ekki unnar í öðrum tilgangi en lagt var upp með, og að öryggis þeirra sé gætt með fullnægjandi hætti. Þá þarf alltaf að ganga úr skugga um það fyrirfram að heimild til vinnslunnar sé til staðar samkvæmt persónuverndarlögum.

Nýr afgreiðslutími skólasafns

Það er gaman frá því að segja að nú hefur afgreiðslutími skólasafnsins lengst og er opið alla virka daga frá kl. 8:00 - 16:00. Nemendur geta því nýtt sér safnið til náms eða dægrastyttingar eftir skóla. Í dag er einmitt Bókasafnsdagurinn og er hann tileinkaður vísindum af öllum toga.

Fjallgöngur

Frá Aðalvík
Frá Aðalvík

Á hverju hausti fara allir árgangar skólans í fjallgöngur eða gönguferðir. Í upphafi skólagöngunnar er byrjað á að fara upp í Stórurð, en svo smám saman verður gangan erfiðari, en hver árgangur fær úthlutað sinni gönguleið. Þegar grunnskólagöngunni lýkur hafa því allir nemendur kynnst mörgum fjallgönguleiðum hér í kring s.s. upp í Naustahvilft, á Hnífa, Sandfell og Kistufell svo fátt eitt sé nefnt. Þessa dagana skunda nemendur upp um fjöll og firnindi og fór 10. bekkur t.d. siglandi norður á Hesteyri í fyrradag og gekk yfir í Aðalvík og þótti sú ferð takast alveg einstaklega vel. Sú ferð er skipulögð og kostuð af foreldrum og væri ekki framkvæmanleg án þeirra og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Fjallgöngurnar eru mikilvægar til að efla samstöðu og félagsþroska nemenda en í þeim fá þeir tækifæri til að aðstoða samnemendur og  eiga í fjölbreyttum samskiptum um leið og þeir fræðast um nærumhverfi sitt og náttúruna.  

Fræðsluerindi

Mánudaginn 10. september kl. 20:00 mun Sólveig Norðfjörð sálfræðingur, bjóða upp á fræðsluerindi fyrir foreldra 5 og 6 ára barna. Þetta er almenn fræðsla varðandi uppeldi, kvíða, hegðunarvanda, ADHD o.fl. og verður á jákvæðum og fyrirbyggjandi nótum. Erindið sem verður um 60 mínútur að lengd, verður haldið í salnum á 4. hæð Stjórnsýsluhússins á Ísafirði. 

Boðið verður upp á spurningar og umræður að erindi loknu og er aðgangur ókeypis.

 

Starfsdagur

Föstudaginn 7. september er starfsdagur í skólanum og engin kennsla. Dægradvöl er samt opin frá kl. 13:20 - 16:00 og eru foreldrar beðnir að láta vita þar ef börnin mæta.

Hnetulaus skóli

Í Grunnskólanum á Ísafirði eru nokkur börn með bráðaofnæmi fyrir hnetum og því mikilvægt að taka tillit til þeirra þar sem hnetur geta valdið mjög slæmum og hættulegum ofnæmisviðbrögðum.
Skólinn er því hnetulaus skóli sem þýðir að hvorki börn né starfsmenn koma með hnetur inn í skólann. Við viljum biðja foreldra að gæta þess að börnin komi ekki með nesti sem inniheldur hnetur. Dæmi um slíkt er: hnetujógúrt, abt mjólk með hnetumúsli, brauð með hnetusmjöri, hnetur í poka, alls kyns orkustykki, sumar brauðtegundir, morgunkorn og fleira.


Uppskerutíð

Síðastliðið vor setti þáverandi 5. bekkur niður grænmeti hér á skólalóðinni. Uppskeran er nú komin í hús og voru krakkarnir í óða önn að skera niður í salat með hádegismatnum í morgun. Þrátt fyrir heldur rýra uppskeru þetta árið, þá er fátt betra en heimaræktað grænmeti.

G.Í. leiðir fjölþjóðlegt samstarfsverkefni

1 af 2

Rannís hefur úthlutað úr menntahluta Erasmus+ áætlunarinnar um 3 milljónum evra eða um 370 milljónum króna til 43 evrópskra samstarfs­verkefna. Að þessu sinni voru styrkt 34 skólaverkefni sem er sérstakur verkefnaflokkur þar sem megináherslan er á samstarf skóla, starfsmanna þeirra og nemenda. Aldrei hafa jafn mörg verkefni fengið styrk í þessum verkefnaflokki og veitir þetta skólum einstakt tækifæri til að efla alþjóðlegt samstarf og nýsköpun.

Grunnskólinn á Ísafirði hlaut styrk upp á 39.724 EUR vegna verkefnisins Living in a challenging world en það er í flokki verkefna undir íslenskri verkefnastjórn. Auk G.Í. munu skólar frá Grikklandi, Svíþjóð, Hollandi og Búlgaríu taka þátt í verkefninu sem snýst um barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Jóna Benediktsdóttir, starfandi skólastjóri G.Í. á síðasta skólaári, sótti um fyrir hönd skólans síðastliðinn vetur og mun hún halda utan um verkefnið ásamt Bergljótu Halldórsdóttur kennara.