VALMYND ×

Fréttir

Minningarathöfn

Elín Þóra Friðfinnsdóttir (Mynd: Facebook).
Elín Þóra Friðfinnsdóttir (Mynd: Facebook).

Á morgun fer fram útför Elínar Þóru Friðfinnsdóttur frá Háteigskirkju í Reykjavík kl. 13:00. Elín Þóra var kennari hér við skólann s.l. fjögur ár, en varð bráðkvödd 9. apríl s.l.

Minningarathöfn um Elínu Þóru fer fram frá Ísafjarðarkirkju á morgun kl. 16:30 í umsjá sr. Fjölnis Ásbjörnssonar.

Fyrirlestur um rafrettur

María Ólafsdóttir á fyrirlestri hjá 9. bekk
María Ólafsdóttir á fyrirlestri hjá 9. bekk

Í morgun kom María Ólafsdóttir í heimsókn í 7. - 10. bekk og fræddi nemendur um rafrettur, en hún er læknir við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. María fór yfir skaðsemina sem fylgir rafrettum og fíknina af völdum nikótínsins sem þær innihalda. Nemendur voru flestir vel með á nótunum og vel upplýstir og sköpuðust góðar umræður. Við þökkum Maríu kærlega fyrir góðan og fræðandi fyrirlestur.

Löng helgi framundan

Nú er löng helgi framundan, þar sem sumardagurinn fyrsti er á fimmtudag og vorfrí á föstudag. Við vonum að allir njóti þessara daga sem best og komi endurnærðir á mánudaginn.

Upplýsingamiðlun

Í dag sendum við út örstutta könnun til allra foreldra varðandi upplýsingamiðlun. Okkur er mikið í mun að fá sem besta svörun, til að geta mætt þörfum heimila sem best. Við hvetjum því alla til að svara könnuninni sem fyrst, en hún var send í tölvupósti.

Vinabæjarheimsókn frá Kaufering

1 af 4

Undanfarna daga hafa nemendur frá Kaufering í Þýskalandi verið hér í heimsókn. Fyrsta daginn  heimsóttu þeir Suðureyri ásamt jafnöldrum sínum frá Ísafirði. Þar var farið í grunnskólann, Ísalandssögu og sund.  Síðan var farið að Bæ í Staðardal og var mikið líf og fjör í fjárhúsunum þar og höfðu margir úr hópnum aldrei komið svona nálægt kindum. Um kvöldið bauð 10.bekkur GÍ upp á menningarkvöld með skemmtiatriðum sem endaði á því að allir marseruðu saman.

Eftir heimsókn í GÍ á föstudeginum var farið í Bolungarvík og Náttúrugripasafnið og Ósvör skoðuð. Í Ósvör var boðið upp á hákarl og kom á óvart hversu margir smökkuðu og jafnvel fengu sér aftur.  Um kvöldið var svo farið í félagsmiðstöðina Djúpið.

Á laugardag var boðið upp á göngu með leiðsögn um Eyrina og skíðaferð inn í Tungudal. Það skemmtu sér allir vel á skíðum eða voru með sleða til að renna sér á.

Síðasti dagurinn var frjáls þar sem gestgjafarnir sáu um gestina og var ýmislegt í boði. Um kvöldið var síðan grillað í skíðaskálanum.

Þýsku nemendunum fannst þessir dagar vera mjög skemmtilegir og fljótir að líða. Þeir töluðu um að náttúran væri það sem stæði upp úr og það er gaman að því að Steingrímsfjarðarheiðin hefur eignast marga aðdáendur því þeim fannst hún alveg mögnuð.

Svona vinabæjarheimsóknir skilja eftir sig góðar minningar og þó tíminn hafi verið stuttur þá hafa myndast vinatengsl sem geta varað lengi.

Fræðsla um kynlíf og klám

Fyrir páska bárust okkur fréttir af því að nokkrir nemendur af miðstigi hefðu verið að senda klámmyndbönd sín á milli.  Við ákváðum því að vera með fræðslu fyrir miðstigið um kynlíf, klám og mismuninn á þessu tvennu.  5.og 7.bekkur hafa þegar fengið fræðsluna og 6.bekkur fær hana í næstu viku.

Til að við getum nú öll verið í takt með þetta viljum við bjóða foreldrum á fund þar sem við sýnum hvað við vorum með fyrir krakkana og nokkrar niðurstöður rannsókna um þetta efni.  Fundurinn verður haldinn í dansstofu skólans þriðjudaginn 10.apríl kl.17:30-18:30.  Helena Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur verður með stutt innlegg og svo verður rými fyrir spjall um þetta málefni. 

Við vonumst til að sjá sem flesta því þetta er atriði sem við verðum að vera samstíga í að taka á með krökkunum.

 

Páskaleyfi

1.bekkur klár á árshátíð
1.bekkur klár á árshátíð

Í dag lauk árshátíðarsýningum þar sem allir nemendur 1. - 10. bekkjar tóku þátt, hvort heldur var á sviði, við förðun, sviðs- og tæknimál, skreytingar, dyravörslu, eða miðasölu. Við erum afar stolt af okkar fólki og alveg frábært að sjá hvað uppskeran er alltaf blómleg eftir mikið skipulag og æfingar.

Nú tekur páskaleyfið við og hefst kennsla aftur að því loknu miðvikudaginn 4. apríl samkvæmt stundaskrá. Við þökkum öllum sem komu á sýningarnar hjá okkur og síðast en ekki síst nemendum, sem stóðu sig allir með sóma. Gleðilega páska!

Dagbjört Ósk valin í ungmennaráð

Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir
Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir

Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, nemandi í 10. bekk, er ein af tólf ungmennum sem valin hafa verið í ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Umsækjendur voru rúmlega 140 af öllu landinu.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkjanna árið 2015 og tóku gildi í byrjun árs 2016. Fimm meginþemu markmiðanna eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf en með þeim er jafnframt lögð áhersla á allar þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar; hina félagslegu, efnahagslegu og umhverfislegu. Eitt af meginstefum Heimsmarkmiðanna er samvinna milli ólíkra hagsmunaaðila, þ.á.m. ungmenna, við innleiðingu markmiðanna. Í ljósi þess og einnig 12. og 13. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveða skýrt á um rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif á málefni er þau varða, var ákveðið að virkja þátttöku ungmenna á Íslandi í gegnum ungmennaráðið. Er það í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að framfylgja skuli ákvæðum Barnasáttmálans, m.a. um aukin áhrif barna í samfélaginu.

Meginmarkmið ungmennaráðsins er að vekja athygli á Heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, bæði meðal jafningja sem og samfélagsins í heild sinni. Ungmennaráðinu er ætlað að vera lifandi vettvangur þar sem Heimsmarkmiðin og Barnasáttmálinn eru höfð að leiðarljósi og rædd með gagnrýnum og lausnamiðuðum hætti. Ungmennum er með þessum hætti gefinn vettvangur til að vekja athygli á Heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun og skapa þannig jafningjum tækifæri til að láta rödd sína heyrast um fyrrgreind málefni.

Ungmennaráðið samanstendur af tólf fulltrúum á aldursbilinu 13-18 ára og kemur saman sex sinnum á ári og fundar jafnframt árlega með ríkisstjórn. Hlutverk ráðsins er að fræðast og fjalla um Heimsmarkmiðin ásamt því að vinna og miðla gagnvirku efni á samfélagsmiðlum um markmiðin og sjálfbæra þróun.

Það er ljóst að Dagbjört Ósk er verðugur fulltrúi í ungmennaráðinu og óskum við henni innilega til hamingju með útnefninguna.

 

Úrslit í Skólahreysti

Lið G.Í. í Skólahreysti vorið 2018.
Lið G.Í. í Skólahreysti vorið 2018.

Grunnskólinn á Ísafirði hefur lokið keppni í Skólahreysti þetta árið, en liðið hafnaði í öðru sæti í Vestfjarðariðlinum. Sameinað lið Grunnskólanna á Suðureyri og í Súðavík sigraði riðilinn og vann sér þar með þátttökurétt í úrslitakeppninni, sem haldin verður í Laugardalshöllinni þann 2. maí n.k.

Við erum stolt af krökkunum okkar og óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn og einnig óskum við sigurvegurum til hamingju með sinn glæsilega árangur.

G.Í. keppir í Skólahreysti

Riðlakeppnin í Skólahreysti er hafin þetta árið og keppir G.Í. á morgun í TM höllinni í Garðabæ kl.13:00. Þar eigast við 16 lið af Vesturlandi og Vestfjörðum og keppa um sæti í úrslitakeppninni, sem haldin verður miðvikudaginn 2. maí í Laugardalshöllinni. 

Guðný Stefanía Stefánsdóttir hefur þjálfað liðið okkar í vetur, en Atli Freyr Rúnarsson er liðsstjóri og fylgir nemendum suður til keppni. Fyrir hönd skólans keppa þau Davíð Hjaltason og Hafdís Bára Höskuldsdóttir í hraðaþraut, Helgi Ingimar Þórðarson í upphýfingum og dýfum og Linda Rós Hannesdóttir í armbeygjum og hreystigreip. Til vara eru þau Svava Rún Steingrímsdóttir og Blessed Gil Parilla.

Við fylgjumst spennt með krökkunum okkar og óskum þeim góðs gengis.