VALMYND ×

Fréttir

List fyrir alla

Mynd: List fyrir alla.is
Mynd: List fyrir alla.is

Í dag fóru nemendur 1. - 4. bekkjar á barnaóperuna um Gilitrutt í Edinborgarhúsinu, í boði verkefnisins List fyrir alla.  Þjóðsagan er flutt til nútímans þar sem Gilitrutt og bóndahjónin eiga farsíma og Gilitrutt kvartar yfir því að ná engu fólki lengur því það bruni bara framhjá á jeppum og týnist aldrei lengur uppi í fjöllum. Sagan heldur sér þó nokkurn veginn óbreytt. 

List fyrir alla er ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag. Við þökkum kærlega fyrir góða heimsókn hingað vestur.

Samræmdum prófum lokið

Í gær og dag tók 4. bekkur samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði og 7. bekkur gerði slíkt hið sama í síðustu viku. Fyrirlögnin gekk vel ef frá er talið innanhússvandamál með tölvur í fyrsta prófinu, en því var bjargað eins og best var á kosið og gekk allt eins og smurt eftir það.

Nemendur voru einstaklega einbeittir og gerðu allir sitt besta og því ekki hægt að fara fram á meira. Við þökkum foreldrum og kennurum fyrir þeirra undirbúning og aðstoð.

Tangram

Í morgun fóru nemendur 9. bekkjar í liðakeppni í Tangram, sem er leikur með form og gengur út á það að raða saman formum eftir fyrirmynd á skjá. Krakkarnir stóðu sig með mikilli prýði og höfðu gaman af, enda reyndi á marga þætti stærðfræðinnar eins og rökhugsun, fínhreyfingar, rýmisgreind og samvinnu.

Ólympíuhlaup ÍSÍ

Á morgun fer fram  hið árlega skólahlaup, sem nefnist nú Ólympíuhlaup ÍSÍ. Nemendur geta nú sem áður valið á milli þriggja vegalengda í hlaupinu, þ.e. 2,5 km, 5 km eða 10 km. Að hlaupinu loknu fær hver þátttakandi og hver skóli viðurkenningarskjal þar sem greint er frá árangri. Það skal tekið fram að hér er fyrst og fremst lögð áhersla á holla hreyfingu og að allir taki þátt. 

1. - 4. bekkur hleypur af stað kl. 10:00 frá Bæjarbrekku og inn að Engi, 5. -7. bekkur hleypur af stað kl. 10:05 inn að Seljalandi og 8. - 10. bekkur getur valið um hlaup inn að Seljalandi eða golfskála kl.10:10.

Nú vonum við bara að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir og allir njóti hreyfingarinnar.

Verum ástfangin af lífinu

Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur með meiru. Mynd: mbl.is
Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur með meiru. Mynd: mbl.is

Í dag heimsækir Þorgrímur Þráinsson rithöfundur okkur og heldur tvo fyrirlestra, einn fyrir 8. - 10. bekk og annan fyrir 6. og 7. bekk. 

Fyrri fyrirlesturinn sem ætlaður er 8. - 10. bekk nefnist ,,Verum ástfangin af lífinu" og fjall­ar um mik­il­vægi þess að ung­ling­ar axli ábyrgð á eig­in vel­ferð, krakk­arn­ir láti drauma sína ræt­ast og séu óhrædd­ir við að fara út fyr­ir þæg­inda­hring­inn. Lífið er núna en ekki í gær eða á morg­un.

Í seinni fyrirlestrinum upplýsir Þorgrímur nemendur 6. - 7. bekkjar um hvernig hann vinnur sem rithöfundur og leiðbeinir þeim varðandi skapandi skrif með það að markmiði að efla læsi og styrkja þar með sjálfsmynd nemenda.

Í kvöld býður foreldrafélag skólans foreldrum nemenda í 8. - 10. bekk upp á fyrirlestur Þorgríms ,,Verum ástfangin af lífinu". Fyrirlesturinn hefst kl. 20:00 og er í dansstofu skólans.

Listakonur í heimsókn

Í tilefni af Degi myndlistar 1. nóvember næstkomandi munu rússnesku listakonurnar Maria og Natalia Petschatnikov koma í heimsókn í myndmenntartíma 20. september og eru öllum nemendum á unglingastigi velkomið að sitja tímann. Þær stöllur munu fræða nemendur um verk sín og ræða um það hvernig er að vera myndlistamaður.

 

 

 

Fjármálafræðsla

Þessi hópur heimsótti Íslandsbanka
Þessi hópur heimsótti Íslandsbanka

Í gær buðu Landsbankinn og Íslandsbanki upp á fjármálafræðslu fyrir 10. bekk, en það er hluti af stærðfræðinámi árgangsins. Til umræðu voru smálán og verslun á netinu, húsakaup og markmiðssetning svo eitthvað sé nefnt. Í skólanum voru nemendur búnir að reikna út kostnað varðandi rekstur heimila og voru vel undirbúnir fyrir umræður um fjármálin. Við þökkum starfsfólki bankanna kærlega fyrir góða fræðslu og móttökur. 

Útivistartími barna

Frá 1. september s.l. breyttist útvistartími barna en um hann er fjallað í 92. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum.

Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir. 

Nægur svefn er mikilvæg forsenda góðrar heilsu, vellíðunar og árangurs í skólanum sem og annarsstaðar og því nauðsynlegt að allir standi saman um að framfylgja þessum reglum.

Tilmæli frá Persónuvernd

Persónuvernd hefur gefið út tilmæli til leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila og íþróttafélaga um notkun á samfélagsmiðlum. Um er að ræða álitaefni sem rætt hefur verið í lögfræðingahópi Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við nýju persónuverndarlögin nr. 90/2018. Ljóst er að tilmælin kalla á breytt verklag við miðlun upplýsinga um skólastarf í hverju sveitarfélagi ásamt umræðum um nánari útfærslu þess.

Tilmælin eru eftirfarandi:

Að gefnu tilefni bendir Persónuvernd á að sérhver skóli, frístundaheimili og íþróttafélag, sem vinnur persónuupplýsingar um börn í starfi sínu, ber ábyrgð á slíkri vinnslu. Það er ávallt hlutverk ábyrgðaraðila að gæta að því að öll vinnsla persónuupplýsinga sé í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Miðlun persónuupplýsinga um börn í gegnum samfélagsmiðla, svo sem Facebook, telst til vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir gildissvið laganna. Í þessu samhengi er vert að árétta að ljósmyndir af einstaklingum teljast almennt til persónuupplýsinga.

Miðlun upplýsinga um tímasetningar eða viðburði á vegum skóla og félaga, starfsemi þeirra, t.d. fjáröflunarverkefni og tilkynningar þar um, teljast hins vegar ekki til vinnslu persónuupplýsinga og ekkert því til fyrirstöðu að nýta slíka miðla til að dreifa þeim upplýsingum. Þá verður almennt ekki gerð athugasemd við að þar séu birtar myndir af opnum viðburðum á vegum skóla og félaga sem ekki sýna neinar aðstæður viðkvæms eðlis.

Í skilmálum Facebook, sem notendur miðilsins samþykkja, kemur fram að Facebook safnar þeim upplýsingum sem miðlað er í gegnum síðuna. Þegar persónuupplýsingum er miðlað til foreldra í gegnum Facebook-hóp er þeim því samtímis miðlað til Facebook. Þá liggur fyrir að Facebook deilir persónuupplýsingum með fyrirtækjum sem tengjast Facebook, sem og öðrum aðilum (þ.e. þriðju aðilum), við nánar tilgreindar aðstæður. Þeir sem nota slíka samfélagsmiðla hafa því ekki fulla stjórn á því efni sem þar er sett inn.

Til þess að heimilt sé að vinna með persónuupplýsingar, svo sem með því að miðla þeim til annarra, þarf vinnslan að styðjast við heimild í persónuverndarlögum ( lögum nr. 90/2018). Sú heimild sem einkum kemur til greina í þessu tilviki er samþykki hins skráða, þ.e. þess einstaklings sem upplýsingarnar varða. Þegar um ólögráða einstaklinga er að ræða, eins og á við þegar börn eiga í hlut, fara foreldrar eða forsjáraðilar þeirra með hæfi til að veita samþykki fyrir vinnslu upplýsinga, sbr. 1. mgr. 51. gr. lögræðislaga . Áður en samþykki er veitt ber ábyrgðaraðila vinnslunnar að veita hinum skráða (hér foreldrum/forsjáraðilum hans) fullnægjandi fræðslu um vinnsluna, svo sem um tilgang hennar, viðtakendur upplýsinganna og fleira. Að öðrum kosti telst fræðsla ekki í samræmi við persónuverndarlög.

Með vísan til framangreinds, sem og 2. tölul. 43. gr. laga nr. 90/2018, beinir Persónuvernd þeim tilmælum til leikskóla, grunnskóla, frístundaheimila, íþróttafélaga og allra annarra opinberra aðila og einkaaðila, sem koma að starfi með börnum, að þeir noti ekki Facebook, eða sambærilega miðla, sem samskiptamiðla fyrir miðlun persónuupplýsinga um ólögráða börn, hvort heldur sem um almennar eða viðkvæmar persónuupplýsingar þeirra er að ræða.

Ef þörf er talin á að miðla upplýsingum um ólögráða börn með rafrænum hætti hjá framangreindum aðilum er æskilegt að til þess verði nýttur hugbúnaður sem tryggir ábyrgðaraðilum fulla stjórn yfir þeim persónuupplýsingum sem miðlað er. Tryggja þarf að upplýsingunum verði ekki miðlað til óviðkomandi aðila, þær verði ekki unnar í öðrum tilgangi en lagt var upp með, og að öryggis þeirra sé gætt með fullnægjandi hætti. Þá þarf alltaf að ganga úr skugga um það fyrirfram að heimild til vinnslunnar sé til staðar samkvæmt persónuverndarlögum.

Nýr afgreiðslutími skólasafns

Það er gaman frá því að segja að nú hefur afgreiðslutími skólasafnsins lengst og er opið alla virka daga frá kl. 8:00 - 16:00. Nemendur geta því nýtt sér safnið til náms eða dægrastyttingar eftir skóla. Í dag er einmitt Bókasafnsdagurinn og er hann tileinkaður vísindum af öllum toga.