VALMYND ×

Heiður sigraði í Stóru upplestrarkeppninni

Frá vinstri: Hákon Ari Heimisson, Guðrún Eva Bjarkadóttir og Heiður Hallgrímsdóttir
Frá vinstri: Hákon Ari Heimisson, Guðrún Eva Bjarkadóttir og Heiður Hallgrímsdóttir
1 af 3

Í gær fór lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fram í Hömrum. Tíu nemendur frá fjórum skólum á norðanverðum Vestfjörðum lásu sögubrot og ljóð, en þessir nemendur höfðu verið valdir sem fulltrúar sinna skóla. Fyrir hönd G.Í. lásu þau Guðrún Eva Bjarkadóttir, Guðrún Helga Sigurðardóttir, Hákon Ari Heimisson, Heiður Hallgrímsdóttir, Helgi Rafn Hermannsson og Unnur Guðfinna Daníelsdóttir.

Í hléi léku þeir Ívar Hrafn Ágústsson á trommur, Pétur Örn Sigurðsson á hljómborð og Hákon Ari Heimisson á trommur, lagið Happier eftir Marshmello Bastille, sem þeir útsettu sjálfir.

Dómarar þetta árið voru þau Baldur Sigurðsson, Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Anna Sigríður Ólafsdóttir, Dagný Annasdóttir og Dagný Arnalds og var fundarstjórn í höndum Guðrúnar Birgisdóttur, skóla- og sérkennslufulltrúa Ísafjarðarbæjar. Ávörp fluttu þeir Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri og Baldur Sigurðsson, formaður dómnefndar. Mariann Rähni frá Grunnskóla Bolungarvíkur kynnti skáld keppninnar, en hún hafnaði í 3. sæti keppninnar í fyrra.

Niðurstaða dómnefndar varð sú að Heiður Hallgrímsdóttir sigraði, Hákon Ari Heimsson hafnaði í 2. sæti og Guðrún Eva Bjarkadóttir í því 3., öll úr Grunnskólanum á Ísafirði. Aukaverðlaun fyrir framúrskarandi flutning á Guttavísum hlaut Kristinn Hallur Jónsson frá Grunnskólanum í Bolungarvík. Við óskum öllum lesurum innilega til hamingju með frábæra frammistöðu. Ekki má heldur gleyma þeim kennurum sem hafa séð um þjálfun þeirra ásamt foreldrum, árangurinn er einnig þeirra. 

Deila