Heimsókn á vegum Evrópusambandsins
Eins og fram hefur komið fengu Grunnskólarnir á Ísafirði og Suðureyri styrk frá Evrópusambandinu til að vinna samstarfsverkefni með fjórum öðrum Evrópulöndum, Grikklandi, Svíþjóð, Búlgaríu og Hollandi. Í verkefninu munu nemendur vinna með mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og skoða hvernig ólík lífsskilyrði og viðhorf hafa áhrif á möguleika fólks til að fá notið þeirra réttinda að fullu. Markmið með verkefninu er að auka skilning og umburðarlyndi gagnvart ólíkum aðstæðum fólks. Nemendur 9.bekkjar verða þátttakendur af okkar hálfu og fjölmargir starfsmenn skólanna taka einnig þátt í verkefninu með einum eða öðrum hætti. Í verkefninu felst einnig að nemendur fara í heimsóknir á milli landanna og kynnast þar af eigin raun ólíkum aðstæðum. Fyrsta heimsóknin í verkefninu var undirbúningsfundur allra kennaranna sem taka þátt í vinnunni með nemendum sínum og fór sú heimsókn fram hér á Íslandi núna í október.
Hópurinn ferðaðist akandi frá Keflavík til Ísafjarðarbæjar þar sem voru vinnustofur og skoðunarferðir í þrjá daga. Það er alltaf gaman að taka á móti gestum því það krefst þess að maður velti fyrir sér hvað er skemmtilegt að sýna ferðamönnum. Að þessu sinni fóru þátttakendur í sögugöngu með Jónu Símoníu Bjarnadóttur, fóru í Seefood-trail, göngu á Suðureyri, kynningu hjá Ísafjarðarbæ og borðuðu í Tjöruhúsinu, auk þess að vera í skólaheimsóknum og fræðast um skólakerfið á Íslandi.
Næsta heimsókn verður til Grikklands og áður en hún fer fram verða nemendur búnir að fjalla um þær greinar mannréttindayfirlýsingarinnar sem fjalla um frelsi til að hafa skoðanir, jafnræði og virðingu og fróðlegt verður að sjá ólíka nálgun nemenda á þessu viðfangsefni eftir því hver bakgrunnur þeirra er.