VALMYND ×

Fréttir

Heimsókn á vegum Evrópusambandsins

Hópurinn samankominn í Grunnskólanum á Ísafirði
Hópurinn samankominn í Grunnskólanum á Ísafirði

Eins og fram hefur komið fengu Grunnskólarnir á Ísafirði og Suðureyri styrk frá Evrópusambandinu til að vinna samstarfsverkefni með fjórum öðrum Evrópulöndum, Grikklandi, Svíþjóð, Búlgaríu og Hollandi.  Í verkefninu munu nemendur vinna með mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og skoða hvernig ólík lífsskilyrði og viðhorf hafa áhrif á möguleika fólks til að fá notið þeirra réttinda að fullu.  Markmið með verkefninu er að auka skilning og umburðarlyndi gagnvart ólíkum aðstæðum fólks.  Nemendur 9.bekkjar verða þátttakendur af okkar hálfu og fjölmargir starfsmenn skólanna taka einnig þátt í verkefninu með einum eða öðrum hætti.  Í verkefninu felst einnig að nemendur fara í heimsóknir á milli landanna og kynnast þar af eigin raun ólíkum aðstæðum.  Fyrsta heimsóknin í verkefninu var undirbúningsfundur allra kennaranna sem taka þátt í vinnunni með nemendum sínum og fór sú heimsókn fram hér á Íslandi núna í október. 

Hópurinn ferðaðist akandi frá Keflavík til Ísafjarðarbæjar þar sem voru vinnustofur og skoðunarferðir í þrjá daga.  Það er alltaf gaman að taka á móti gestum því það krefst þess að maður velti fyrir sér hvað er skemmtilegt að sýna ferðamönnum.  Að þessu sinni fóru þátttakendur í sögugöngu með Jónu Símoníu Bjarnadóttur, fóru í Seefood-trail, göngu á Suðureyri, kynningu hjá Ísafjarðarbæ og borðuðu í Tjöruhúsinu, auk þess að vera í skólaheimsóknum og fræðast um skólakerfið á Íslandi. 

Næsta heimsókn verður til Grikklands og áður en hún fer fram verða nemendur búnir að fjalla um þær greinar mannréttindayfirlýsingarinnar sem fjalla um frelsi til að hafa skoðanir, jafnræði og virðingu og fróðlegt verður að sjá ólíka nálgun nemenda á þessu viðfangsefni eftir því hver bakgrunnur þeirra er.

Hrekkjavökuskemmtun

Í næstu viku ætlar foreldrafélagið að vera með hrekkjavökuskemmtun í Grunnskólanum á Ísafirði. 

Halloween skemmtun fyrir 1.-4. bekk kl. 16:30-18:00 miðvikudaginn 31. október.
Halloween skemmtun fyrir 5.-7. bekk kl. 18:00-19:45 miðvikudaginn 31. október.
Boðið uppá dans, föndur, andlitsmálningu og graskera úrskurð (ATH.mæta þarf með hreinsað grasker tilbúið til úrskurðar) Hvetjum alla til að mæta í búning, bæði foreldra og börn og mælumst til að börn séu í fylgd með fullorðnum.

Hallowen dla klas of 1.-4. odbedzie sie 31 pazdziernika og godz.16.30-18.00. 
Hallowen dla klas od 5.-7. odbedzie sie 31 pazdziernika og godz 18.00-19:45                                          
Tance, malowanie twarzy,robienie ozdob i wycinanie z dyni ( trzeba przyjsc ze swoja juz oprozniona dynia).  Wszystkich zapraszamy w kostiumach-dzieci i rodzicow. Uprzejmie prosimy aby rodziece wzieli w tym udzial i mieli pod opieka swoje dzieci.

 

Next week the parent committee is planning a Halloweenparty at Grunnskólinn á Ísafirði. 
Times for grades 1. - 4. grades, October 31st between 16.30 - 18.00.
Times for grades 5.-7. grades, October 31st between 18.00-19:45.
There will be dancing, crafts, face paint and optional pumpkin carving for those that want (Please come with fully cleansed pumpkin ready for carving). Feel free to wearing costumes.  Please do not send children without supervision.

Skáld í skólum

Í morgun bauð Höfundamiðstöð Rithöfundasambands Íslands upp á bókmenntadagskrána Skáld í skólum, þar sem höfundar heimsækja skóla til að fjalla um bókmenntir af ýmsu tagi.

Höfundateymið Kjartan Yngvi Björnsson, furðusagnahöfundur og bókmenntafræðingur og Snæbjörn Brynjarsson, leiklistarmaður, blaðamaður og furðusagnahöfundur, spjölluðu við 8. - 10. bekk um furðusögur, hvernig eitt agnarsmátt hugmyndafræ getur blómstrað og orðið að heilum sagnaskógi og hvernig maður uppgötvar nýja veröld. Þeir Kjartan Yngvi og Snæbjörn upplýstu nemendur um hvernig höfundar endurnýta hugmyndir og stef úr mannkynssögunni, bókmenntum, þjóðsögum og goðsögum og setja í nýjan búning þegar þeir skapa sína eigin heima. Þeir félagar hafa á undanförnum árum sent frá sér fjórar skáldsögur í bókaröðinni Þriggja heima saga, sú nýjasta, Draugsól, kom út í maí og er sú fimmta í vinnslu.

 

Íþróttahátíðin í Bolungarvík

Hin árlega íþróttahátíð í Bolungarvík verður haldin fimmtudaginn 25. október. Hátíðin verður sett kl. 10 og henni lýkur svo með balli kl.23:00. Ef allt gengur að óskum verður keppni lokið um kl.18:45 og ballið byrjar kl.20:00. Tímann á milli er hægt að nota til að borða og græja sig fyrir ball. Allir skólar fá afnot af kennslustofu sem verður læst þar sem hægt er að geyma dót og verðmæti. Einarshús og Sjoppan verða með einhver tilboð á mat þennan dag og þeir nemendur sem eru í mataráskrift fá afhentar samlokur við litla anddyri skólans (nær íþróttahúsinu) milli 11:45 og 12:45. Einnig verður sjoppa á staðnum þar sem hægt verður að kaupa samlokur og drykki og einnig miða á ballið.
Ballið er haldið í skólanum og er miðaverð 1.200 kr. og sjá Aron Can og DJ um skemmtunina 
Rúta fer frá Holtahverfi kl. 9:45 og fer strætóleið út í bæ og tekur upp nemendur á sínum stoppistöðvum. Önnur rúta fer frá skólanum kl. 9:45, tekur upp nemendur í króknum og á strætóstoppistöð í Hnífsdal. Rúta fer frá Bolungarvík kl. 19:00 og önnur að loknu balli kl. 23:15. Starfsmenn frá skólanum verða á svæðinu allan tímann.
Grunnskólinn á Ísafirði treystir því að allir mæti með góða skapið og keppnisskapið fyrir leikina.

Foreldrafræðsla

Þriðjudaginn 23. október 2018 verður Heimili og skóli og Rannsókn og greining með fræðslu fyrir foreldra ungmenna í dansstofu G.Í. kl. 17:00 (gengið inn frá Aðalstræti).

Dagskrána má sjá hér að neðan og hvetjum við alla foreldra/forráðamenn til að mæta, það er alltaf hægt að bæta við sig þekkingu.

Dagskrá:
Hvernig líður börnunum okkar?
Margrét Lilja Guðmundsdóttir sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu  og kennari á íþróttafræðisviði Háskólans í Reykjavík fjallar um niðurstöður rannsókna meðal barna og unglinga í okkar sveitarfélagi.

Foreldrar skipta máli
Bryndís Jónsdóttir verkefnastjóri hjá Heimili og skóla fjallar um mikilvægi foreldra í forvörnum og 18 ára ábyrgð.

Miðað er við að fræðslan með umræðum og hléi taki um 2 klukkustundir.

Foreldraviðtöl og haustfrí

Eins og fram hefur komið í fréttabréfi og tölvupósti, þá er foreldradagur á morgun. Nemendur mæta þá ásamt foreldrum í viðtöl til umsjónarkennara. Aðrir kennarar eru einnig til viðtals ef óskað er.

Á fimmtudag og föstudag er haustfrí og engin kennsla. 

Stjórnarfundur Foreldrafélags G.Í.

Stjórnarfundur Foreldrafélags G.Í. var haldinn s.l. föstudag þar sem ný stjórn skipti með sér verkum. Sveinbjörn Magnason verður áfram formaður félagsins og áheyrnarfulltrúi í fræðslunefnd. Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir verður ritari og Lea Valdís Bergsveinsdóttir gjaldkeri. Auk þeirra sitja í stjórn þær Agnieszka Tyka og Petra Hólmgrímsdóttir og til vara eru Elfa Hermannsdóttir og Kolbrún Fjóla Arnarsdóttir.

Stjórnin skipaði einnig tvo fulltrúa í skólaráð, þær Elfu Hermannsdóttur og Petru Hólmgrímsdóttur.

Kjaftað um kynlíf

Í kvöld býður foreldrafélag G.Í. upp á fyrirlestur Siggu Daggar um hvernig megi ræða um kynlíf við unglinga. Markmið fyrirlestrarins er að kynfræðsla verði sjálfsagður hluti af samræðum foreldra við börn sín og að fræðslan styrki þeirra samskipti. Í lokin gefst foreldrum kostur á að spyrja og spjalla.

Sigga Dögg er með B.A. gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og M.A. gráðu í kynfræði (sexology) frá Curtin háskóla í Vestur Ástralíu. Sérstaða hennar sem kynfræðari er hispurslaus og hreinskilin nálgun á kynlífi sem byggir á innlendum og erlendum rannsóknum, ásamt reynslu af kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum víðsvegar um landið.

Fyrirlesturinn er í framhaldi af fræðslu sem Sigga Dögg er með hér í skólanum í dag fyrir 6. - 10. bekk og verður í dansstofu skólans kl. 20:00 - 21:30.

Forritun í myndmennt

Það er margt hægt að gera til að brjóta upp hefðbundið nám. Í myndmennt hjá 3. bekk voru nemendur t.d. að forrita Róbótinn Mars (Micro bit smátölvu) til að teikna fyrir sig. Árangurinn lét ekki á sér standa og kom þetta líka glæsilega listaverk út úr því eins og sjá má hér.