Snillingar keppa
Snillingarnir er heiti á bókmenntaspurningakeppni sem nú er haldin í þriðja sinn á miðstigi Grunnskólans á Ísafirði og hefur staðið yfir undanfarnar vikur. Nemendur 4.-7. bekkjar fengu lista yfir 8 barnabækur s.l. vor og voru hvattir til að lesa sem mest af listanum. Valin voru tvö þriggja manna keppnislið úr hverjum árgangi en auk þess má spyrja sinn bekk til að fá aðstoð og því afar mikilvægt að allir undirbúi sig vel.
Úrslitakeppnin var haldin í gær, miðvikudaginn 5.desember í salnum, þar sem 4.KB og 7.KG áttust við. Eftir æsispennandi keppni fóru leikar þannig að 7.KG hafði betur.
Þetta frækna lestrarlið 7.KG er skipað þeim Frosta Gunnarssyni, Hákoni Ara Heimissyni og Matildu Maeekalle og hlaut bekkurinn glæsileg bókarverðlaun að launum.
Silfurliðið í 4.KB skipuðu lestrarhestarnir þau Ásthildur Elma Stefánsdóttir, Sigurbjörg Danía Árnadóttir, Hálfdán Ingólfur Hálfdánsson og Dagný Emma Kristinsdóttir og komu þau svo sannarlega sterk inn í keppnina og verður gaman að fylgjast með þeim á næstu árum.
Öll liðin stóðu sig frábærlega og reyndust sannkallaðir snillingar og ekki síður stuðningsmennirnir sem jafnvel gátu ráðið úrslitum á stundum. Aðstandendur keppninnar þakka öllum þátttakendum kærlega fyrir góða frammistöðu og drengilega keppni.
Deila