VALMYND ×

Fréttir

Aðalfundur foreldrafélags G.Í.

Aðalfundur foreldrafélags G.Í. verður haldinn í dansstofu skólans fimmtudaginn 8. mars kl. 20:00. Á fundinum verða almenn aðalfundarstörf, auk fyrirlesturs um ADHD. Við hvetjum alla foreldra til að fjölmenna.

 

Samræmd könnunarpróf

Samræmd könnunarpróf verða haldin í 9. bekk dagana 7. mars (íslenska), 8. mars (stærðfræði) og 9. mars (enska).
Nemendur árgangsins eiga að mæta klukkan 8:00 þessa daga og eru boðnir í morgunmat í sal skólans, en prófin hefjast kl. 9:00. Eftir prófin heldur skólastarfið áfram og eru valgreinar á sínum stað.

Við leggjum áherslu á að þessir dagar séu sem líkastir venjulegum skóladögum að uppbyggingu og spennustigi haldið í lágmarki.

Skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar

Í morgun fór fram skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar, þar sem valdir voru fulltrúar skólans til að taka þátt í lokahátíðinni sem fram fer þriðjudaginn 13. mars n.k.

Nítján nemendur úr 7. bekk lásu sögubrot og ljóð og var dómurunum, þeim Margréti Halldórsdóttur, Rannveigu Halldórsdóttur og Sigríði Ó. Kristjánsdóttur vandi á höndum að velja 7 af þessum frambærilegu lesurum. Niðurstaðan varð þó sú að fulltrúar skólans verða þau Anja Karen Traustadóttir, Anna Marý Jónasdóttir, Ástmar Helgi Kristinsson, Daði Hrafn Þorvarðarson, Kristey Sara Sindradóttir, Saga Líf Ágústsdóttir og Solveig Amalía Atladóttir. Til vara verða Borgný Valgerður Björnsdóttir og Sigrún Betanía Kristjánsdóttir.
Við óskum öllum þátttakendum innilega til hamingju með góða frammistöðu og hlökkum til lokahátíðarinnar.

Mataráskrift

Nú er febrúar á enda og því um að gera að skrá mataráskrift fyrir mars sem fyrst á http://mataraskrift.isafjordur.is/ . Nokkuð hefur borið á því undanfarið að ekki hefur verið gengið frá skráningum hjá nemendum sem telja sig eiga að vera í áskrift og biðjum við foreldra að ganga frá þeim málum.

Hér má nálgast matseðil marsmánaðar.

Skíða- og útivistardagur

Mynd: Ágúst Atlason/Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar
Mynd: Ágúst Atlason/Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar

Föstudaginn 2. mars n.k. er skíða- og útivistardagur í Tungudal fyrir 5. - 10. bekk. Strætó fer þá frá skólanum kl. 9:30 og úr Tungudal heim aftur kl. 13:00. Þeir sem vilja vera lengur, mega það sér að kostnaðarlausu, en sjá þá um að koma sér heim aftur. Nemendur þurfa ekki að mæta í skólann að morgni en gott væri ef einhverjir foreldrar geta skutlað nemendum á skíðasvæðið til að létta á strætónum. Lyfturnar opna kl. 10:00 og er nóg að mæta þá upp eftir.
Hægt verður að leigja skíði/bretti og skó á kr. 1.500 fyrir daginn. Göngubraut verður troðin þannig að nemendur geta verið á gönguskíðum. Þeir nemendur sem ekki vilja vera á skíðum/brettum geta komið með snjóþotur, sleða eða ruslapoka til að renna sér á og einnig getum við lánað rassaþotur og skóflur.
Þeir sem eru í áskrift í mötuneyti fá nesti þaðan, samlokur og fernudrykki.

Fréttabréf febrúar

Nú hefur fréttabréf febrúarmánaðar litið dagsins ljós. Það hefur verið mikið um að vera hér í skólanum eins og endranær og er því stiklað á stóru.

Gísli Súrsson í heimsókn

Elfar Logi Hannesson leikari heimsótti 10. bekk í gær í gervi Gísla Súrssonar og sýndi leikrit sitt  og Jóns Stefáns Kristjánssonar um útlagann mikla en nemendur hafa einmitt verið að lesa sögu hans síðustu vikurnar. Elfar Logi bregður sér raunar í allra kvikinda líki og nýtir alls konar leikhústöfra til að galdra fram ótal persónur og ólíka staði og koma þessari miklu sögu sem er bæði löng og flókin, til skila á einfaldan og skýran hátt á 50 mínútum.  Krakkarnir gerðu góðan róm að sýningunni og höfðu sum þeirra á orði að nú loksins skildu þau þessa sögu almennilega! 

Svo er ætlunin að fylgja Gísla eftir í vor og heimsækja heimaslóðir hans í Haukadal í Dýrafirði þegar snjóa leysir. /HMH


Nýsköpunarkeppni grunnskólanna

Ólöf, Sigurjón og Ástmar  kynna NKG fyrir nemendum 5. bekkjar.
Ólöf, Sigurjón og Ástmar kynna NKG fyrir nemendum 5. bekkjar.

Nú er Nýsköpunarkeppni grunnskólanna (NKG) að hefjast, en hún er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í 5. – 7. bekk grunnskóla. Undirbúningur fer fram í skólum landsins samhliða skólaárinu þar sem nemendur fá kennslu við að þróa verkefni á sínu áhugasviði, allt frá hugmyndum til veruleika.

NKG hefst á haustin og lýkur á vorin með vinnusmiðju þar sem þátttakendur í úrslitum fá tækifæri til að útfæra hugmyndir sínar frekar með aðstoð leiðbeinenda frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og annarra samstarfsaðila. Í kjölfarið er haldið lokahóf þar sem  forseti Íslands afhendir stórglæsileg verðlaun og viðurkenningarskjöl.

Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, kennari hér við skólann, kynnti keppnina nú á dögunum fyrir nemendum, ásamt þeim Ástmar Helga Kristinssyni og Sigurjóni Degi Júlíussyni. Þeir félagar komust einmitt í úrslit fyrir tveimur árum með hugmynd sína að smáforritinu ,,Út að leika". Við vonum að sem flestir taki þátt í keppninni þetta árið og láti hugmyndir sínar verða að veruleika. Allar nánari upplýsingar um keppnina má nálgast hér.

Jákvæð samskipti

Pálmar Ragnarsson ásamt nemendum 5. - 7. bekkjar
Pálmar Ragnarsson ásamt nemendum 5. - 7. bekkjar

Í gær fengum við Pálmar Ragnarsson í heimsókn í 5. - 7. bekk. Pálmar er körfuboltaþjálfari sem hefur staðið sig einstaklega vel við að breiða út jákvæðni í íþróttum og samskiptum og byggja upp liðsheild. Hann höfðaði vel til nemenda og lagði mikla áherslu á að hver og einn skiptir máli í hópnum, ekki bara í íþróttum, heldur einnig í skólanum og hvar sem er.

Pálmar hélt einnig fyrirlestur fyrir starfsmenn skólans á sömu nótum. Jákvæð samskipti geta gert gæfumuninn hvað varðar vellíðan á vinnustöðum og alveg nauðsynlegt að fríska aðeins upp á það annað slagið.

 

Eldvarnargetraun

Dagný Emma Kristinsdóttir datt í lukkupottinn þegar dregið var í eldvarnargetraun Landsambands slökkviliðs og sjúkraflutningamanna. Getraunin var lögð var fyrir alla þriðju bekki í landinu í framhaldi af heimsókn slökkviliðsmanna í skólana í lok nóvember og byrjun desember s.l. Verðlaunin voru ekki af verri endanum, bakpoki, reykskynjari og bolur, sem Hermann Hermannsson afhenti Dagnýju í morgun eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.