VALMYND ×

Fréttir

Góð staða í lesfimi

Við höfum löngum lagt mikla áherslu á lestur í Grunnskólanum á Ísafirði og höfum alltaf fylgst vel með framförum nemenda. Nú hefur Menntamálastofnun gefið út samræmd lesfimipróf fyrir 2. -10. bekk sem við leggjum fyrir þrisvar á ári. Nýlega sendi Menntamálastofnun frá sér niðurstöður úr þessum prófum þar sem fram kemur, ekki aðeins hversu nálægt viðmiðum stofnunarinnar nemendur G.Í. eru, heldur líka hvernig við stöndum miðað við aðra skóla á Íslandi.

Skemmst er frá því að segja að nemendur okkar eru þó nokkuð yfir landsmeðaltali í nánast öllum árgöngum og fögnum við því að sjálfsögðu. Lestrarnámið er samvinnuverkefni heimila og skóla, svo okkur þykir mjög ánægjulegt að geta sagt foreldrum frá þessu, við erum greinilega að standa okkur vel í þessu samstarfsverkefni!

Svo er vert að ítreka það að lesfimipróf mæla lestrarhraða og hversu rétt og vel er lesið – en að sjálfsögðu er erfitt að lesa fimlega texta sem maður skilur ekki, svo lesskilningurinn hefur áhrif á lesfimina líka. Við leggjum vitaskuld einnig mikla áherslu á aðra þætti lestrar í kennslu og námsmati, t.d. lesskilning, framsögn og lestraráhuga.

Það síðastnefnda er e.t.v. stærsta áskorunin nú orðið. Vert að hafa það í huga nú þegar jólabókaflóðið stendur sem hæst og nýjar barnabækur streyma á markaðinn.

Færni í lestri er svo mikilvæg að segja má að hún sé lykillinn að öllu námi og við ætlum að sjálfsögðu að halda okkar striki og stefnum að því að bæta okkur enn frekar. Næstu lesfimipróf MMS verða lögð fyrir í janúar./Herdís M. Hübner

Endurskoðun skólastefnu Ísafjarðarbæjar

Mánudaginn 4. desember kl. 18:00 verður haldinn íbúafundur í tengslum við endurskoðun skólastefnu Ísafjarðarbæjar. Allir þeir sem áhugasamir eru um skólamál sveitarfélagsins eru hvattir til að mæta. Í upphafi fundar verður stutt innlegg frá sviðsstjóra skóla- og tómstundasviði og formanni fræðslunefndar og svo ætlar Ingvi Hrannar Ómarsson að leyfa okkur að skygnast inn í skóla framtíðarinnar. Boðið verður upp á veitingar um kl. 19 og í framhaldi verður vinna í hópum. Við munum ljúka fundinum fyrir kl. 21. Mikilvægt er að fólk skrái svo hægt sé að gera ráð fyrir fjölda í mat. Skráning fer fram á Facebook síðu Ísafjarðarbæjar.

Opinn dagur og leiksýning

Föstudaginn 1. des er fullveldisfagnaður hér í skólanum.  Þann dag er opið hús hjá okkur, þar sem foreldrar og aðrir gestir eru sérstaklega velkomnir í heimsókn í kennslustundir.

Klukkan 17:00 og 20:00 sýnir leiklistarval skólans leikritið Manstu efitr Sölku Guðmundsdóttur í leikstjórn Ólafar Dómhildar Jóhannsdóttur í salnum og eftir seinni sýninguna er ball á vegum 10. bekkjar.  Aðgangseyrir er 1000 kr. á leikritið og 1000 kr. á ballið en hægt er að kaupa miða á báða viðburði á 1500 kr.  Eins og undanfarin ár er nemendum á unglingastigi í nágrannaskólum boðið að koma og fagna fullveldinu með jafnöldrum sínum á Ísafirði.

Námskeið fyrir foreldra

Þann 29. nóvember n.k verður haldið „hvað get ég gert“ námskeið fyrir foreldra. Árný Ingvarsdóttir sálfræðingur og höfundur bókanna sem hefjast á ,,Hvað get ég gert“ og eru ætlaðar nemendum frá 6-11 ára til að fást við ýmis vandamál. Bækurnar eru ætlaðar til að vinna með fullorðnum og við bjóðum foreldrum upp á námskeið til að geta unnið með þessar bækur með börnum sínum.
Klukkan 17:30 verður fjallað um hvernig er árangursríkast að vinna með bókina ,,Hvað get ég gert við of miklar áhyggjur“ sem er ætluð börnum sem glíma við kvíða.

Klukkan 20:00 verður fjallað um hvernig best er nota bókina ,,Hvað get ég gert þegar reiði tekur völdin“.

Námskeiðin eru ætluð foreldrum sem vilja vinna með þessi atriði með börnum sínum og eru foreldrum að kostnaðarlausu.
Námskeiðin verða haldin í dansstofu Grunnskólans á Ísafirði, gengið inn frá Aðalstræti.

Starfsdagur á þriðjudag

Þriðjudaginn 28. nóvember er starfsdagur hér í skólanum og því ekkert skólahald.

Frestun á fundi

Ákveðið hefur verið að fresta fundinum varðandi endurskoðun skólastefnu Ísafjarðarbæjar til 4. desember n.k. vegna ófærðar.

Slæm veðurspá

Vegna slæmrar veðurspár er eftirfarandi upplýsingum komið á framfæri: 

Ísafjarðarbær hefur gefið út viðmið um hvenær loka eigi stofnunum vegna  óveðurs. Þar kemur m.a. fram að stofnunum bæjarins sé ekki lokað nema algjöra nauðsyn beri til og getur forstöðumaður lokað stofnun af einni eða fleirum af eftirtöldum ástæðum:

  • Tilmæli frá almannavörnum eða lögreglu
  • Rafmagnsleysi kemur í veg fyrir að hægt sé að halda stofnuninni opinni
  • Ófærð er svo almenn að ekki næst að kalla til lágmarksfjölda starfsmanna til að halda a.m.k. skertri þjónustu

Foreldrar eru hvattir til að fylgjast með veðurspám og fréttum af veðri.  Skóla verður ekki aflýst nema tilmæli  komi frá Almannavörnum eða lögreglu. Komi ekki tilmæli frá Almannavörnum eða lögreglu verða foreldrar að meta hvort óhætt sé að börn þeirra sæki skóla. Ef foreldrar hafa börn sín heima  þá skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll. Hið sama gildir ef foreld­rar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa.

Strætisvagnar Ísafjarðarbæjar hafa tekið í notkun talhólfsnúmer, 878-1012,  þar sem fram kemur hvort og þá hvaða ferðir falla niður. 

Foreldrar eru einnig hvattir til að fylgjast vel með  á heimasíðu almannavarna.

Besti vinur mannsins

Í haust var boðið upp á nýja valgrein á miðstigi, sem nefnist ,,hundar sem gæludýr". Markmið kennslunnar er að nemendur kynnist umhirðu hunda og mikilvægum þáttum í samskiptum þeirra við manninn. Auður Yngvadóttir kennir þessa valgrein, en hún hefur áralanga reynslu af hundum og hefur m.a. þjálfað björgunarhunda til starfa.

Í dag kom hún með hundinn Kára með sér í kennslustund og vakti það mikla gleði hjá nemendum. Kári kunni einnig vel að meta heimsóknina, var hinn kátasti og fór að mestu eftir skólareglum.