VALMYND ×

Fréttir

Mentor opnar

Mánudaginn 21. ágúst opnar Mentor fyrir skráningar í foreldraviðtöl, en viðtölin sjálf verða á miðvikudaginn. Á forsíðunni má finna myndbönd með leiðbeiningum fyrir foreldra.

Sendur verður tölvupóstur heim til foreldra um leið og opnað verður fyrir skráningar í mataráskrift.

Nýtt skólaár

Líkt og undanfarin ár er nemendum Ísafjarðarbæjar séð fyrir öllum gögnum sem þeir þurfa til náms í skólanum, að því undanskildu að nemendur í 8. - 10. bekk þurfa að koma með skriffæri.

Skólasetning verður með sama sniði og í fyrra. Miðvikudaginn 23. ágúst mæta nemendur og foreldrar í viðtöl til umsjónarkennara þar sem farið verður yfir helstu atriði varðandi skólastarfið. Opnað verður fyrir skráningar í viðtölin mánudaginn 21. ágúst á www.mentor.is  

 

 

Olga í námsleyfi

Á næsta skólaári mun Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, verða í námsleyfi. Jóna Benediktsdóttir, aðstoðarskólastjóri, mun koma úr námsleyfi og leysa hana af og Helga Snorradóttir verður áfram starfandi aðstoðarskólastjóri.

Nokkrar aðrar breytingar verða á starfsmannahópnum næsta vetur þar sem nokkrir nýir starfsmenn koma til starfa. Þá lét Hlíf Guðmundsdóttir kennari af störfum nú í vor eftir 48 ára farsæla kennslu og þökkum við henni vel unnin störf.

Heimsókn til Varsjár

Nú í lok skólaársins lögðu 15 starfsmenn skólans upp í ferðalag til Varsjár til að heimsækja þar nokkra skóla en heimsóknirnar hafa verið í undirbúningi um nokkurt skeið. Hópurinn lagði af stað miðvikudaginn 7. júní og kom til baka sunnudagskvöldið 11. júní. Heimsóttir voru fjórir skólar í borginni, sem allir hafa nokkra sérstöðu, hver á sinn hátt. Í þeim fyrsta fer kennsla fram bæði á ensku og pólsku og þar eru nemendur allt upp í 18 ára, svo verður farið í tvo svokallaða Montessori-skóla, einn fyrir yngri börn og annan fyrir miðstig en síðasti skólinn hefur sérhæft sig í útikennslu. Í öllum skólunum ræddu Ísfirðingarnir við kennara og nemendur, skoðuðu húsnæði og aðstöðu og tóku þátt í skólastarfinu.

Það er alltaf áhugavert og lærdómsríkt að kynnast skólastarfi annars staðar, ekki síst í öðrum löndum. Það er þó sérstaklega áhugavert fyrir okkur að kynnast pólskum skólum og skólastarfi þegar það er haft í huga að u.þ.b. 10% nemenda okkar eru af pólsku bergi brotin. Því er einstaklega spennandi að fá svolitla innsýn inn í þær aðstæður sem svo margir nemendur okkar og fjölskyldur þeirra koma úr.

Skólaslit

Þann 2. júní 2017 var Grunnskólanum á Ísafirði slitið í 142. skipti og fór athöfnin fram í Ísafjarðarkirkju. Hefð er fyrir því að nemendur úr 9. bekk kynni dagskrána og voru kynnar að þessu sinni þau Davíð Hjaltason og Rán Kjartansdóttir

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, flutti ávarp og Ólöf Einarsdóttir flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema. Ásdís Halla Guðmundsdóttir og Þuríður Þorsteinsdóttir léku á píanó og Ísabella Benediktsdóttir og Ólöf Einarsdóttir sungu við undirleik Hildar Karenar Jónsdóttur.

 Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar fyrir góðan námsárangur. 

8. bekkur:

Sveinbjörn Orri Heimisson hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir. 

 9. bekkur:

Þuríður Þorsteinsdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.

Í vetur luku 14 nemendur í 10. bekk smáskipaprófi sem er bóklegi hlutinn fyrir skipstjórnarréttindi á skip sem eru styttri en 12 metrar. Þetta er fjórða árið sem skólinn er í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða um kennslu í þessari valgrein, undir stjórn Guðbjörns Páls Sölvasonar, en margra ára hefð er fyrir henni við Grunnskólann á Ísafirði.  Nemendur sem luku prófi eru:  Einar Ásvaldur Sigurðsson, Georg Rúnar Elvarsson, Gísli Steinn Njálsson, Guðjón Andri Kristjánsson, Hafsteinn Már Sigurðsson, Hildur Karen Jónsdóttir, Jakob Daníelsson, Kolfinna Íris Rúnarsdóttir, Kristófer Leví Kristjánsson, Margrét Linda Antonsdóttir, Michal Glodkowski, Ólöf Einarsdóttir, Óskar Sæberg Brynjarsson og Rakel María Björnsdóttir

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 10. bekk:

Kvenfélagið Hlíf gaf eftirfarandi viðurkenningar fyrir verk- og listgreinar:

Viðurkenningu fyrir framfarir og vinnubrögð í textílmennt hlaut Lára Ósk Albertsdóttir.

Viðurkenningu fyrir framfarir og skapandi vinnubrögð í myndmennt hlaut Margrét Inga Gylfadóttir.

Viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur, dugnað, samviskusemi og metnað í heimilisfræði hlaut Jessica Maria Nieduzak.

Tungumálaver Laugalækjarskóla veitir viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í pólsku.  Þá viðurkenningu fær Michal Glodkowski.

Einar og Guðrún Farestveits Fond styrkja norskukennslu í íslenskum skólum. Sá styrkur er m.a. notaður til að gefa öllum sem útskrifast úr norsku í grunnskólum gjöf.  Þessa gjöf fá þær Edda Lind Guðmundsdóttir og Hildur Karen Jónsdóttir.

Georg Rúnar Elvarsson hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.

Stúdíó Dan gaf viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í íþróttum. Þau verðlaun hlutu Daníel Wale Adeleye og Hanna Þórey Björnsdóttir

Danska Menntamálaráðuneytið gaf viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í dönsku og hlaut Árný Margrét Sævarsdóttir þau verðlaun.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Fab-lab á Ísafirði gefa viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í Fab-lab, þá viðurkenningu hlaut Einar Ásvaldur Sigurðsson

Grunnskólinn á Ísafirði veitti eftirfarandi viðurkenningar:

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í íslensku hlaut Sigríður Erla Magnúsdóttir.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í stærðfræði hlaut Þuríður Þorsteinsdóttir.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í samfélagsfræði hlaut Ólöf Einarsdóttir.

Viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í ensku hlutu þeir Hlynur Ingi Árnason og Magni Jóhannes Þrastarson.

Viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í náttúrufræði hlaut Þráinn Ágúst Arnaldsson

Ísfirðingarfélagið í Reykjavík gaf gjöf til minningar um Hannibal Valdimarsson. Þessi viðurkenning er veitt nemanda í 10. bekk  fyrir lofsverða ástundun, framfarir í námi og virka þátttöku í félagsstarfi.  Þá viðurkenningu hlaut Ólöf Einarsdóttir

Viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur vorið 2017 hlýtur Árný Margrét Sævarsdóttir.

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði þakkar árgangi 2001 samfylgdina í gegnum árin og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Síðasti kennsludagur skólaársins

Í dag var síðasti kennsludagur þessa skólaárs og voru nemendur glaðir þrátt fyrir rigninguna, ýmist í leikjum, íþróttum eða á starfskynningum. Á morgun er starfsdagur, en á föstudaginn lýkur skólaárinu formlega. Þá mæta foreldrar með 1. bekkjar nemendum í foreldraviðtöl samkvæmt pöntuðum viðtalstímum.

Afhending vitnisburða hjá 2. - 7. bekk verður í þeirra bekkjarstofum kl. 10:00 og skólaslit í Ísafjarðarkirkju kl. 20:00 á föstudagskvöld, þar sem nemendur 8. - 10. bekkjar fá sína vitnisburði.

3. bekkur í sveitaferð

1 af 4

Í gær fór 3. bekkur í sveitaferð að Hólum í Dýrafirði. Þar var tekið sérlega vel á móti hópnum með djús og bakkelsi. Krakkarnir skoðuðu féð, fengu að halda á heimalningum, kynnast 3 hundum og sjá hvernig veðurathugun fer fram.

Ferðin var mjög vel heppnuð og allir alsælir. Hópurinn vill koma á framfæri þakklæti til ábúenda á Hólum.

Vorskóli verðandi 1. bekkjar

Nú er verið að ljúka við að skrá inn alla verðandi 1. bekkinga í skólavist fyrir næsta vetur. Eins og venja er, eru þeir nemendur boðaðir í svokallaðan vorskóla þriðjudaginn 6. júní kl. 13:00 og munu kennarar taka á móti börnunum í nýja anddyri skólans, gengið inn frá Aðalstræti.

Gert er ráð fyrir að nemendur dvelji í skólanum í um eina klukkustund eða til um kl. 14:00, en á meðan mun skólastjóri kynna skólastarfið fyrir foreldrum í sal skólans.

Það er alltaf eftirvænting í loftinu þegar von er á nýjum nemendum og hlökkum við til að taka á móti hópnum.

Skólaferðalag 10. bekkjar

Snemma á sunnudagsmorguninn 21. maí lögðu nemendur 10. bekkjar af stað í sól og blíðu í vorferðalagið sitt ásamt fríðu föruneyti foreldra og kennara. Leiðin lá í Skagafjörð og var gist að Bakkaflöt. Þar biðu alls konar ævintýri, byrjað var á að fara í þrautabraut þar sem færi gafst að gera sig bæði blautan og skítugan og var það mjög hressandi eftir langa keyrslu í rútunni. Eftir þrautabrautina fóru margir að synda í ánni og þótti heimamönnum það hraustlega gert, enda vatnið jökulkalt.

Að loknum kvöldverði var haldin kvöldvaka með söng, dansi og skemmtiatriðum sem nemendur hristu fram úr erminni af sinni alkunnu snilld.

Daginn eftir fór hópurinn í loftbolta og litbolta og eftir hádegið var farið í flúðasiglingu á Vestari Jökulsá. Allt gekk þetta slysalaust og vel og var fullkomnað með drjúgri setu í heita pottinum að Bakkaflöt á eftir. Eftir dýrindis kvöldverð að hætti Bakkaflatar var farið í leiki úti á túni sem enduðu með ísbíltúr í Varmahlíð.

Á þriðjudag var ekið af stað í rútunni, fyrst að Grettislaug þar sem flestir prófuðu að dýfa a.m.k. tánum ofan í, sumir fóru alla leið og stungu sér jafnvel í ískaldan sjóinn á eftir. Síðan settist hópurinn inn í lítinn torfbæ og þar sagði Jón Eiríksson Drangeyjarjarl ýmsar skemmtilegar sögur af Gretti Ásmundarsyni þar til risastór könguló tók að sér að flæma hópinn út.

Eftir það var haldið til Sauðárkróks á veitingastaðinn Grettistak og snædd súpa og brauð. Þaðan lá leiðin á Samgönguminjasafnið að Stóragerði í Óslandshlíð, sem er mjög glæsilegt og þar gefur að líta alls konar farartæki frá upphafi bílaaldar á Íslandi fram til okkar daga, enda komu margir sjálfum sér á óvart og létu heillast af fallegum bílum og forvitnilegum. Safnstjóri þar hafði sérstakt orð á því að gaman væri að taka á móti Ísfirðingum, þeir væru yfirleitt sérlega kurteisir og áhugasamir gestir.

Frá Stóragerði lá leiðin út í Hofsós og þar fór hópurinn í sund í hinni frægu Hofsóslaug. Eftir sundið var haldið aftur til Sauðárkróks í dýrindis pizzuveislu. Eftir matinn var frjáls tími og þá fóru krakkarnir í körfubolta og fleiri leiki og eitthvað var kíkt í „mollið“ hjá Kaupfélagi Skagfirðinga.

Um kvöldið var keppt í alls kyns þrautum, s.s. sögugerð, púsli, skósparki, pílukasti og fleiru, við mikla kátínu.

Að morgni miðvikudags var pakkað saman og haldið af stað heimleiðis klukkan 10. Stoppað í Staðarskála og snæddir hamborgarar. Síðan var ekið viðstöðulaust þar til komið var í Skötufjörð. Þar fór hópurinn inn í Hlaðið, hlaðinn grjóthring sem þar er, og þá voru afhent verðlaun þeim hópi sem hafði staðið sig best í þrautunum kvöldið áður.

Það var þreyttur en ánægður hópur sem kom heim um sex-leytið á miðvikudaginn. Eflaust hafa margir verið fegnir að eiga fjögurra daga frí framundan og hefur ekki veitt af, enda var það ekki forgangsmál í ferðinni að fara snemma að sofa.

Fararstjórar úr hópi foreldra voru Auður Ólafsdóttir, Jenný Jensdóttir og Sigurður Jón Hreinsson. Kennarar voru Monica Mackintosh og Herdís M. Hübner.

Pólskukennsla

1 af 2

Í vetur var boðið upp á móðurmálskennslu fyrir pólska nemendur í skólanum.  Marzena Glodkowska sá um kennslu fyrir nemendur á yngsta- og miðstigi hér í skólanum og eldri nemendur voru í fjarnámi frá Tungumálaveri Laugalækjarskóla. Á laugardaginn var síðasta kennslustund vetrarins og lauk henni með sýningu fyrir foreldra, þar sem nemendur lásu og sungu á pólsku. Í lokin fengu nemendur viðurkenningu frá pólska sendiráðinu og fyrir lestrarátak.  Mjög góð reynsla er af pólskukennslunni í vetur og stefnt er að því að bjóða upp á hana næsta vetur.