VALMYND ×

Fréttir

Páskaleyfi

Í dag er síðasti kennsludagur fyrir páskaleyfi. Kennsla hefst að því loknu samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 18. apríl. Gleðilega páska.

Samspil hjá 4. og 8. bekk

Í morgun buðu Tónlistarskóli Ísafjarðar og Listaskóli Rögnvaldar upp á samspils tónleika í Hömrum. Þar léku tónlistarnemendur 4. og 8. bekkjar fyrir bekkjarfélaga sína og stóðu sig með stakri prýði. Fjölbreytnin var mikil þar sem nemendur sungu, spiluðu á píanó, gítar, trommur og bassa. 

Samspil þetta hjá 4. og 8. bekk er orðið að hefð og virkilega gaman að sjá hversu gróskumikið starf fer fram hér í tónlistarskólum bæjarins. Hér er hægt að nálgast fleiri myndir frá samspilinu.

Árshátíð lokið

Síðustu daga hefur svo sannarlega verið líf og fjör hér í skólanum. Nemendur og starfsfólk hafa staðið í ströngu við að gera árshátíð skólans sem veglegasta og má með sanni segja að það hafi tekist enn eitt árið. 

Yfirskrift árshátíðarinnar að þessu sinni var Tónlist og voru sýningar 5 talsins fyrir fullu húsi í hvert skipti. Því miður geta ekki allir nemendur séð alla bekki á sviði, þar sem við þurfum að takmarka aðgang vegna plássleysis. En sýningarnar voru allar teknar upp og verða aðgengilegar á næstunni.

Við viljum þakka öllum fyrir frábæra árshátíð, ekki síst nemendum sem fara alltaf á kostum ár eftir ár.

 

Bilun í símkerfi

Þessa stundina er bilun í símkerfi og ekki hægt að ná sambandi við skiptiborð skólans.
Vinsamlegast hringið í síma 894-1688 á meðan viðgerð fer fram.

Árshátíð skólans

Árshátíð skólans verður haldin á miðvikudag og fimmtudag og er yfirskriftin að þessu sinni Tónlist. Fyrirkomulag sýninga er eftirfarandi:

1. sýning – miðvikudagur 29. mars kl. 17:00

Flytjendur: 1. – 7. bekkur. Áhorfendur:  Nemendur í 1. og 2. bekk og foreldrar/gestir þeirra.

2. sýning – miðvikudagur 29. mars kl. 20:00

Flytjendur: 5.–10. bekkur. Áhorfendur: Nemendur í 5.–7. bekk og foreldrar/gestir. 

3. sýningfimmtudagur 30. mars kl. 10:00

Flytjendur: 1.-4.bekkur. Áhorfendur: Tveir elstu árgangar leikskólanna  (ásamt 8-10.b).

4. sýning – fimmtudaginn 30. mars kl. 17:00

Flytjendur: 1.-7.bekkur. Áhorfendur: Nemendur í 3. og 4. bekk og foreldrar/gestir þeirra.

5. sýning – fimmtudaginn 30. mars kl. 20:00

Flytjendur: 7.–10. bekkur. Áhorfendur: Nemendur í 8.–10. bekk og foreldrar/gestir þeirra.

Reynt er að halda stundaskrá eins og hægt er. Gert er ráð fyrir að nemendur í 1.-2. bekk séu í skólanum báða dagana frá kl. 8:00 - 13:40 og mæti svo aftur kl. 16:00 og þeir sem eru í Dægradvöl komi beint í skólann eftir að henni lýkur.  Nemendur í 3. - 7.bekk mæta kl. 16:30 í seinni lotu dagsins.

Erfitt er að áætla lengd hverrar skemmtunar en í ljósi reynslunnar má gera  ráð fyrir 1 til 1½ klst.   Gestum er bent á að virða óskir skólans varðandi það á hvaða sýningar fólk á að mæta og hvetjum við gesti til að sitja skemmtunina til enda. Það hefur töluvert rask og óþægindi í för með sér að yfirgefa sýningu áður en henni lýkur. Mikilvægt er að fólk mæti tímanlega svo hægt sé að hefja sýningu á tilsettum tíma.

Aðgangseyrir á árshátíðarsýningu er 1000 kr. og er ekki tekið við greiðslukortum. Nemendur og starfsfólk GÍ svo og þeir sem eru 67 ára eða eldri greiða ekki aðgangseyri.  Fólk borgar aðeins inn á eina sýningu, þeir sem sækja fleiri sýningar sýna fyrri aðgöngumiða við innganginn.  Hagnaður af sýningum rennur í ferðasjóð 7. bk. vegna skólabúða. Mötuneytið verður opið báða árshátíðardagana.

Umsjónarkennarar senda upplýsingar heim varðandi frekara skipulag.

Umferðaröryggi

Nú er daginn tekið að lengja og þá vex umferð barna í umferðinni, bæði við leik og á leið til og frá skóla. Því er við hæfi að rifja upp nokkur atriði varðandi umferðaröryggi sem gott er að hafa í huga. Umferðarfræðsla í grunnskólum ber mestan árangur þar sem gott samstarf við heimili nemenda næst. Hlutverk heimilanna í umferðarfræðslu og forvörnum er mikilvægt því þar er mótunin sterkust.

Foreldrar eru hvattir til að nýta góða veðrið og ganga eða hjóla í skólann með börnum sínum svo fækka megi bílum sem aka að skólanum á morgnana. Að vera börnum sínum góð fyrirmynd í umferðinni er öflugasta fræðslan ásamt því að kenna þeim um lög og reglur sem eru í gildi.

Gæta þarf að því að öryggisbúnaður barna sé í lagi sem og notkun reiðhjólahjálma. Á þessari síðu er hægt að skoða fræðslumyndbönd um hjólreiðar og í þessum ágæta bæklingi er m.a. hægt að fræðast um atriði sem hafa ber í huga varðandi hjólreiðahjálma.

Á náms- og fræðsluvefnum www.umferd.is  er svæði ætlað foreldrum/forráðamönnum. Hugmyndin er að leita eftir samstarfi við foreldra um leiðir sem þeir telja að komi sér vel í umferðarfræðslunni. Allar hugmyndir og ábendingar eru vel þegnar og hægt er að senda þær á þetta netfang

Athygli er vakin á að samkvæmt 40. gr. umferðarlaga mega börn yngri en 7 ára ekki vera hjólandi í umferðinni nema í fylgd með 15 ára og eldri. Ekki má reiða farþega á reiðhjóli eða rafvespu, þó má vanur reiðhjólamaður sem náð hefur 15 ára aldri reiða barn yngra en 7 ára en ber þó að nota viðeigandi öryggissæti og búnað. Best er að nota hjálm, það er eina vitið. Börnum yngri en 15 ára er skylt að nota reiðhjólahjálma og viðeigandi hlífðarbúnað þegar þau ferðast um á reiðhjólum, rafvespum, hjólabrettum og línuskautum.

Alþjóðlegi Downs dagurinn

Á morgun, þriðjudaginn 21. mars, er alþjóðlegi downs dagurinn. Fólk um allan heim klæðist mislitum sokkum þennan dag til að fagna og sýna samstöðu með margbreytileikanum og hvetjum við alla til að taka þátt.

Þróunarverkefni í bígerð næsta vetur

Næsta vetur stendur til að fara af stað með þróunarverkefni í 1. bekk sem snýst um að vera með aukinn stuðning á yngsta stigi þannig að auðveldara verði að mæta þörfum allra nemenda og styðja umsjónarkennara til að sinna teymiskennslu. Verðandi 1. bekkur eru 47 nemendur og stefnt er að fimm kennara teymi. Hér er frábært tækifæri fyrir framsækna kennara til að takast saman á við teymiskennslu með faglegum stuðningi.
Frekari upplýsingar veitir skólastjóri Sveinfríður Olga Veturliðadóttir.

Náum áttum

Náum áttum er fræðslu- og forvarnahópur sem skipuleggur morgunverðarfundi um ýmis mál er varða forvarnir og velferð barna og ungmenna. Á síðasta fundi hópsins var fjallað um netnotkun barna og unglinga í snjalltækjum og hvernig best sé að bregðast við þeim vanda sem við blasir í nýjum könnunum meðal skólabarna. Upptökur af erindum má nálgast hér  og hvetjum við foreldra til að fylgjast með þessum fróðlegu erindum og nýta sér þau í uppeldishlutverkinu.

G.Í. í Skólahreysti

Í dag keppti Grunnskólinn á Ísafirði í Vestfjarðariðlinum í Skólahreysti ásamt Bolvíkingum, Súgfirðingum og Hólmvíkingum. Keppnin fór fram í íþróttahúsinu Mýrinni í Garðabæ fyrir fullu húsi.

Úrslit urðu þau að G.Í. hafnaði í öðru sæti á eftir Bolvíkingum og kemst því ekki í úrslitakeppnina. Við erum stolt af okkar fólki um leið og við óskum Bolvíkingum tll hamingju með góðan sigur. Fyrir hönd G.Í. kepptu þau Dagný Björg Snorradóttir í armbeygjum og hreystigreip, Davíð Hjaltason í upphífingum og dýfum, Daníel Wale Adeleye í hraðabraut og Hafdís Bára Höskuldsdóttir í hraðabraut. Varamenn voru þau Phakawat Janthawong og Svava Rún Steingrímsdóttir og þjálfari Guðný Stefanía Stefánsdóttir.