VALMYND ×

Fréttir

Opnun kaffihúss

Í morgun opnaði kaffihúsið ,,Kaffihús skrítnu strumpanna" hér í skólanum og var það opið í eina klukkustund. Starfsmönnum skólans var boðið og fengu þeir kennslupeninga við innganginn og gátu keypt sér veitingar. Boðið var upp á skonsur með rifsberjahlaupi og sólberjasultu með döðlum og eplum, en sólberin voru ræktuð hér á skólalóðinni. Einnig var á boðstólnum volg hjónabandssæla og pizzusnúðar með basil sem ræktað var hér í skólanum. Auk þess gátu gestir fengið sér melónu, djús og kakó.

Starfsmenn kaffihússins sem eru nokkrir nemendur í 9. og 10. bekk sáu um alla framreiðslu; þjónuðu til borðs, bökuðu skonsurnar jafnóðum og stóðu sig eins og þaulreyndir í veitingabransanum, enda fengu þeir ríflegt af þjórfé og allir kennslupeningarnir vel nýttir. Nafnið á kaffihúsið völdu þeir í sameiningu.

Kaffihúsið er hluti af heimilisfræðikennslu Guðlaugar Jónsdóttur kennara sem stýrt hefur þessu skemmtilega verkefni ásamt Árnýju Einarsdóttur stuðningsfulltrúa og eiga þær hrós skilið fyrir framtakið.

Í næstu viku er svo von á öðru kaffihúsi og hlökkum við til að fylgjast með opnun þess.

Frumsýning Þjóðleikhússins

Í morgun bauð Þjóðleikhúsið nemendum 5. - 7. bekkjar upp á frumsýningu leikritsins Oddur og Siggi eftir Björn Inga Hilmarsson og leikhópinn. Leikritið segir frá þeim Oddi og Sigga sem hafa verið bestu vinir í 10 ár og bjóða til veislu þar sem þeir fagna vinskap sínum.  En það getur orðið flókið að eiga vini og gott að búa sér til sinn eigin draumaheim, til að komast burt úr veruleikanum. Í leikritinu er fjallað af einlægni og húmor um flókin samskipti í heimi skólabarna.

Leikarar í sýningunni eru þeir Oddur Júlíusson og Sigurður Þór Óskarsson, sem einnig sömdu tónlistina og náðu þeir vel til áhorfenda. Við þökkum Þjóðleikhúsinu kærlega fyrir þessa skemmtilegu heimsókn.


Þjónusta talmeinafræðings

Dagný Annasdóttir talmeinafræðingur hefur rekið talmeinastofu sína Lestur-mál ehf á 4. hæð stjórnsýsluhússins á Ísafirði frá s.l. vetri og hefur hún komið hingað vestur og dvalið eina viku í mánuði.

Einnig vinnur hún sem verktaki hjá Ísafjarðarbæ og metur málþroska barna í kjölfar tilvísana frá foreldrum og skólum.

Börn sem greinast með væg frávik og sem ekki falla undir viðmið Sjúkratrygginga Íslands v. kostnaðarþátttöku, en þurfa þó þjálfun að mati talmeinafræðings geta fengið allt að 3 þjálfunartíma á kostnað sveitarfélagsins. Þau börn fá þjálfunartíma inn á sínum skólum og er úthlutaður tími af kennurum skólans.

Þau börn sem falla undir viðmið Sjúkratrygginga Íslands og fá samþykkt allt að 20 skipti í talþjálfun á hverju 12 mánaða tímabili,  fá sína þjálfunartíma á löggildri stofu og eru bókuð og boðuð í þjálfun af Dagnýju talmeinafræðingi sjálfri.

 

Heimsókn frá Ölduselsskóla

Í síðustu viku komu nemendur 10. bekkjar Ölduselsskóla í heimsókn til jafnaldra sinna hér í G.Í. ásamt fjórum kennurum. Hópurinn kom við í Reykjanesi á leið sinni vestur og naut náttúrunnar og gaf sér tíma til að taka sundsprett. Komið var til Ísafjarðar seinni part þriðjudagsins 19. sept. og fékk hópurinn gistingu í Sigurðarbúð og kann Kiwanismönnum bestu þakkir fyrir gestrisnina. Á miðvikudeginum var svo komið hingað í skólann og dvöldu krakkarnir hér fram yfir hádegið, en héldu svo yfir í Dýrafjörð þar sem sýning Gísla Súrssonar beið þeirra í Haukadal. Á fimmtudeginum  var komið við í Ósvör áður en haldið var heim á leið og áð í Heydal á leið inn Ísafjarðardjúp.

Við þökkum Ölduselsskóla kærlega fyrir komuna og vonumst til þess að geta endurgoldið þeim heimsóknina við tækifæri.

Ný stjórn nemendaráðs

Í fyrradag kusu nemendur unglingastigs nýja stjórn nemendaráðs. Úr 8. bekk verða þær Lilja Borg Jóhannsdóttir og Snæfríður Lillý Árnadóttir í stjórn, en enginn strákur bauð sig fram úr árganginum. Í 9. bekk verða það Helena Haraldsdóttir, Sara Emily Newman, Sveinbjörn Orri Heimisson og Haukur Hildimar Davíðsson og frá 10. bekk þau Dagný Björg Snorradóttir, Theódóra Björg Elíasdóttir, Einar Geir Jónasson og Sindri Freyr Sveinbjörnsson.

Formaður nemendaráðs er Ívar Breki Helgason og varaformaður Hafdís Bára Höskuldsdóttir, en þau hlutu kosningu s.l. vor.

Við óskum öllum nemendum til hamingju með þessa nýju stjórn og hlökkum til að starfa með henni í vetur.

Námskeið fyrir foreldra

Mánudaginn 9. október n.k. heldur Helga Kristjánsdóttir leik- og grunnskólakennari námskeið fyrir foreldra varðandi leiðir til að efla lestrarkunnáttu barna. Lestur er undirstaða alls náms og því mikilvæt að styrkja grunninn og auðvelda börnum lestrarnámið eins og kostur er. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem vilja styðja vel við nám barna sinna og styrkja þekkingu þeirra á bókstöfum og hljóðum og efla þannig lestrarkunnáttu þeirra. Á námskeiðinu verða kynntar árangursríkar, fjölbreyttar og skemmtilegar leiðir til að æfa bókstafi, hljóð og hljóðtengingu sem allt er grunnur í lestrarnáminu.

Frítt er á námskeiðið, en skráning fer fram hjá skóla- og sérkennslufulltrúa Ísafjarðarbæjar á netfangið gudrunbi@isafjordur.is þar sem fram þarf að koma nafn og netfang eða símanúmer. Námskeiðið fer fram í Stjórnsýsluhúsinu, 4.hæð og stendur yfir frá kl. 19:30-21:30.

Norræna skólahlaupið

Frá skólahlaupinu 2015
Frá skólahlaupinu 2015

Á morgun þriðjudaginn 19. september verður hið árlega skólahlaup. Hlaupið verður frá Bæjarbrekku/Seljalandsvegi og inn Seljalandsveg, inn að Seljalandi og þaðan áfram inn í skóg hjá þeim sem lengst fara.

Kl. 10.00 1.-4. bekkur fer að Engi
Kl. 10.05 5.-7. bekkur fer að Seljalandi
Kl. 10.10 8.- 10. bekkur má ráða, Seljaland eða Tunguskógur

Við hvetjum nemendur til að koma á góðum skóm og klædda miðað við veður, en við gætum átt von á smá vætu.

Kynning fyrir foreldra

Fulltrúi frá Rannsóknum og greiningu kynnir skýrslu um hagi og líðan ungs fólks, í fyrirlestrarsal Menntaskólans á Ísafirði á morgun, þriðjudaginn 12. september kl. 17:30. Kynningin nær yfir grunn- og framhaldsskólastig og tekur á ýmsum þáttum s.s. vímuefnaneyslu, félagslegum þáttum, líðan, mataræði, svefntíma og hreyfingu.

Það eru skýr og afdráttarlaus skilaboð til foreldra í niðurstöðum þessara kannana.  Skóla- og tómstundasvið Ísafjarðarbæjar hvetur því foreldra og aðra áhugasama eindregið til að sýna samstöðu og mæta, enda er um börnin okkar að ræða.

Göngum í skólann

Nú stendur yfir verkefnið Göngum í skólann og er Grunnskólinn á Ísafirði skráður til leiks. Einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu og hjólreiðar. Ávinningur er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða. Þeir aðilar sem að verkefninu standa hérlendis eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Embætti landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofa og Landssamtökin Heimili og skóli.

Við hvetjum alla til að taka þátt í þessu verkefni sem stendur yfir til 4. október.