Snemma á sunnudagsmorguninn 21. maí lögðu nemendur 10. bekkjar af stað í sól og blíðu í vorferðalagið sitt ásamt fríðu föruneyti foreldra og kennara. Leiðin lá í Skagafjörð og var gist að Bakkaflöt. Þar biðu alls konar ævintýri, byrjað var á að fara í þrautabraut þar sem færi gafst að gera sig bæði blautan og skítugan og var það mjög hressandi eftir langa keyrslu í rútunni. Eftir þrautabrautina fóru margir að synda í ánni og þótti heimamönnum það hraustlega gert, enda vatnið jökulkalt.
Að loknum kvöldverði var haldin kvöldvaka með söng, dansi og skemmtiatriðum sem nemendur hristu fram úr erminni af sinni alkunnu snilld.
Daginn eftir fór hópurinn í loftbolta og litbolta og eftir hádegið var farið í flúðasiglingu á Vestari Jökulsá. Allt gekk þetta slysalaust og vel og var fullkomnað með drjúgri setu í heita pottinum að Bakkaflöt á eftir. Eftir dýrindis kvöldverð að hætti Bakkaflatar var farið í leiki úti á túni sem enduðu með ísbíltúr í Varmahlíð.
Á þriðjudag var ekið af stað í rútunni, fyrst að Grettislaug þar sem flestir prófuðu að dýfa a.m.k. tánum ofan í, sumir fóru alla leið og stungu sér jafnvel í ískaldan sjóinn á eftir. Síðan settist hópurinn inn í lítinn torfbæ og þar sagði Jón Eiríksson Drangeyjarjarl ýmsar skemmtilegar sögur af Gretti Ásmundarsyni þar til risastór könguló tók að sér að flæma hópinn út.
Eftir það var haldið til Sauðárkróks á veitingastaðinn Grettistak og snædd súpa og brauð. Þaðan lá leiðin á Samgönguminjasafnið að Stóragerði í Óslandshlíð, sem er mjög glæsilegt og þar gefur að líta alls konar farartæki frá upphafi bílaaldar á Íslandi fram til okkar daga, enda komu margir sjálfum sér á óvart og létu heillast af fallegum bílum og forvitnilegum. Safnstjóri þar hafði sérstakt orð á því að gaman væri að taka á móti Ísfirðingum, þeir væru yfirleitt sérlega kurteisir og áhugasamir gestir.
Frá Stóragerði lá leiðin út í Hofsós og þar fór hópurinn í sund í hinni frægu Hofsóslaug. Eftir sundið var haldið aftur til Sauðárkróks í dýrindis pizzuveislu. Eftir matinn var frjáls tími og þá fóru krakkarnir í körfubolta og fleiri leiki og eitthvað var kíkt í „mollið“ hjá Kaupfélagi Skagfirðinga.
Um kvöldið var keppt í alls kyns þrautum, s.s. sögugerð, púsli, skósparki, pílukasti og fleiru, við mikla kátínu.
Að morgni miðvikudags var pakkað saman og haldið af stað heimleiðis klukkan 10. Stoppað í Staðarskála og snæddir hamborgarar. Síðan var ekið viðstöðulaust þar til komið var í Skötufjörð. Þar fór hópurinn inn í Hlaðið, hlaðinn grjóthring sem þar er, og þá voru afhent verðlaun þeim hópi sem hafði staðið sig best í þrautunum kvöldið áður.
Það var þreyttur en ánægður hópur sem kom heim um sex-leytið á miðvikudaginn. Eflaust hafa margir verið fegnir að eiga fjögurra daga frí framundan og hefur ekki veitt af, enda var það ekki forgangsmál í ferðinni að fara snemma að sofa.
Fararstjórar úr hópi foreldra voru Auður Ólafsdóttir, Jenný Jensdóttir og Sigurður Jón Hreinsson. Kennarar voru Monica Mackintosh og Herdís M. Hübner.