VALMYND ×

Fréttir

Allir lesa

Nú er landsleikurinn Allir lesa í fullum gangi og tæplega 2.000 þátttakendur hafa lesið í rúmlega 20.400 klukkustundir, en það jafngildir 850 dögum á þeim 13 dögum sem af eru keppni. Nóg er eftir og enn bætast við nýir þátttakendur daglega.

Til að gera lesturinn enn skemmtilegri er hér bókabingó sem hægt er að prenta út. Þetta er fyrst og fremst til gamans gert og tilvalið fyrir yngri lesendur sem vantar lestrarhvatningu en eldri lesendur geta líka fundið margt við sitt hæfi á bingóspjaldinu. Þátttakendur eru hvattir til að deila myndum af lestrinum á Instagram og Facebook með myllumerkinu #allirlesa. Frumlegasta lestrarmyndin verður valin og eigandinn verðlaunaður í lok landsleiksins.

Fleiri skemmtileg lestrarbingó má finna vef Heimilis og skóla, m.a. jóla-, páska- og sumarlestrarbingó.

 

Kampakátir meistarar

Kátir Vestra drengir ásamt Sveinfríði Olgu Veturliðadóttur og Guðríði Sigurðardóttur.
Kátir Vestra drengir ásamt Sveinfríði Olgu Veturliðadóttur og Guðríði Sigurðardóttur.

Það voru kampakátir körfuboltadrengir sem mættu í skólann í morgun, eftir frábæra keppnisferð til Reykjavíkur. Vestri keppti þar við Val í úrslitum Maltbikarsins í 9. flokki karla og gerði sér lítið fyrir og sigraði með 60 stigum gegn 49.

Í tilefni af bikarmeistartitlinum voru strákarnir kallaðir á sal, ásamt Nökkva Harðarsyni, aðstoðarþjálfara, sem einnig er starfsmaður við skólann og var klappað rækilega fyrir þessu frábæra liði og árangri þeirra. Það er svo einnig skemmtileg tilviljun að fyrir 50 árum varð Guðríður Sigurðardóttir, kennari við skólann, Íslandsmeistari með 2. flokki KFÍ.

Við óskum Vestra enn og aftur innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.

Minnkandi matarsóun

Fyrr í vetur stóð umhverfisteymi G.Í. fyrir fræðsluverkefni um matarsóun. Stofnuð var umhverfisnefnd í skólanum en í henni sátu sex nemendur á unglingastigi. Verkefnið hófst með því að kennarar í umhverfisteyminu gerðu leynilega könnun í eina viku í mötuneyti skólans þar sem fylgst var með því hversu miklum mat nemendur í fjórum yngstu bekkjunum hentu í lok máltíðar. Mælingarnar stóðu yfir í eina viku og voru allar niðurstöður skráðar. Að því loknu tóku unglingarnir í umhverfisnefndinni til starfa. Þeir settu saman fræðsluefni og fóru skipulega í alla bekki á yngsta stigi. Fræðslan miðaði að því að útskýra fyrir yngri börnunum hvernig hægt væri að minnka eða jafnvel koma alveg í veg fyrir matarsóun. Einnig komu unglingarnir aðeins inn á skynsamlega notkun á pappír og sápu. Á þessum tímapunkti voru nokkrar vikur liðnar frá mælingunum. Gert hafði verið samkomulag við starfsfólk mötuneytisins og var nákvæmlega sami matseðill nú hafður í eina viku. Aftur voru allar matarleifar mældar og nú með vitneskju nemenda.
Fræðsla unglinganna skilaði sér svo sannarlega því mikill munur var á niðurstöðum milli mælinganna í öllum árgöngum. Í dag kynntu unglingarnir niðurstöðurnar fyrir yngri börnunum og hengdu þær upp fyrir framan stofur barnanna. Á morgun, á foreldradegi, fá börnin tækifæri til að sýna foreldrum sínum árangurinn.

Nemendur í umhverfisnefnd G.Í. eru:
Gísli Steinn 10.bekk, Edda Lind 10.bekk, Ásgeir Óli 9.bekk, Rán 9.bekk, Sigríður 8.bekk og Sveinbjörn Orri 8.bekk.

Kennarar í umhverfisteymi G.Í. eru:
Agnes Karlsdóttir, Árni Heiðar Ívarsson, Guðlaug Jónsdóttir, Katrín Björnsdóttir, Kristín Berglind Oddsdóttir og Sigurrós Eva Friðþjófsdóttir.

Skráning í foreldraviðtöl

Fimmtudaginn 9. febrúar er foreldradagur hér í skólanum, en þá mæta nemendur ásamt foreldrum eða forráðamönnum í viðtöl hjá umsjónarkennurum. Búið er að opna fyrir tímapantanir á mentor.is þar sem foreldrar geta valið sér hentuga viðtalstíma.

Dagur stærðfræðinnar

Dagur stærðfræðinnar er í dag, en hann er haldinn fyrsta föstudag í febrúar ár hvert. Markmið með deginum er annars vegar að vekja nemendur og sem flesta aðra til umhugsunar um stærðfræði og hlutverk hennar í samfélaginu og hins vegar að fá nemendur til að koma auga á möguleika stærðfræðinnar og sjá hana í víðara samhengi.

Flötur, samtök stærðfræðikennara, hefur gefið út fjölmörg verkefni í tilefni dagsins og geta áhugasamir nálgast þau hér.

Rauður dagur

Febrúar er hjartamánuðurinn og er honum fagnað víða um land. Árið 2009 fór Ísland í samstarf með alþjóða hjartasamtökunum og GoRed verkefninu með megináherslu á konur og hjartasjúkdóma. Verkefnið hefur síðan þróast í gegnum árin og að þessu sinni er allur mánuðurinn undir, efnið óháð kyni og aldri því hjartaheilsa varðar alla. 

Rauði dagurinn er að þessu sinni er föstudagur 3. febrúar n.k. Þá eru starfsmenn sveitarfélaga og þá sérstaklega í skólum, ásamt nemendum, hvattir til að klæðast rauðu og sýna þannig í verki að við eigum að hugsa vel um hjartað okkar, undirstöðu þess að við erum á lífi. 

Mætum í rauðu á morgun!

Katla og Ásrós sigruðu Samvest

Sigurvegararnir þær Katla og Ásrós
Sigurvegararnir þær Katla og Ásrós

Undankeppni Samfés fór fram í gær og kepptu 12 atriði um þátttökurétt í aðalkeppninni, sem fram fer í Reykjavík 24. - 26. mars n.k.

Sigurvegarar voru þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir úr Grunnskólanum á Suðureyri og Þingeyri, en þær fluttu lagið Big Jet Plane eftir Angus og Julie Stone. í 2. sæti höfnuðu Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, Rakel Damilola Adeleye og Helena Haraldsdóttir úr G.Í. með lagið Þessi reynsla, sem er frumsamið rapplag. Í 3. sæti urðu Ólöf Einarsdóttir, Hlynur Ingi Árnason, Árný Margrét Sævarsdóttir og Ísabella Rut Benediktsdóttir úr G.Í. með lagið Little Talks eftir hljómsveitina Of Monsters and Men.

Dómarar voru söngfuglarnir Dagný Hermannsdóttir, Málfríður Hjaltadóttir og Benedikt Sigurðsson. Við óskum öllum þessum flytjendum til hamingju með árangurinn og fylgjumst spennt með siguratriðinu í lokakeppninni.

 

 

SAMVEST

Samvest undankeppnin fyrir söngkeppni félagsmiðstöðva, fer fram í sal skólans í kvöld kl. 19:30. Tólf atriði frá norðanverðum Vestfjörðum eru skráð til leiks og keppa um þátttöku í aðalkeppni Samfés, sem haldin verður helgina 24. - 26. mars n.k. í Reykjavík.

Keppnin í kvöld er opin almenningi og er miðaverð kr. 1.000.

Allir lesa

Nú styttist í hinn stórskemmtilega landsleik Allir lesa og eru foreldrar sérstaklega hvattir til að mynda lið með börnunum sínum. Bæði er hægt að skrá þann tíma sem hver og einn liðsmaður les sjálfur og einnig má skrá tíma sem lesinn er fyrir börnin, bæði á þann sem les og þann sem hlustar. Þegar börn lesa fyrir foreldra gildir hið sama, tíminn skráist á báða aðila. Lið samanstanda af þremur eða fleiri liðsmönnum og má skrá allan aldur, jafnvel nokkurra daga gömul kríli geta verið mikilvægir liðsmenn. Börn og fullorðnir verja æ meiri tíma fyrir framan skjái og því er tilvalið að byrja árið á því að verja meiri tíma í yndislestur.

Landsleikurinn varir frá 27. janúar til 19. febrúar og allir geta myndað lið, eða keppt sem einstaklingar. 

Skráning er hafin á allirlesa.is en þar er einnig að finna frekari upplýsingar um leikinn.

Þorrablót 10. bekkjar

Þorrablót 10. bekkjar verður  haldið föstudaginn 20. janúar kl. 20:00 í sal skólans. Skemmtiatriði verða í höndum foreldra og starfsmanna skólans, sem hafa unnið að undirbúningi síðustu vikur. Einnig hafa nemendur æft gömlu dansana af kappi, þannig að búast má við frábæru kvöldi.

Gestir koma sjálfir með sinn mat í trogum ásamt áhöldum, en 10. bekkur selur drykki á staðnum. Húsið opnar kl. 19:30.