VALMYND ×

Fréttir

Síðasti kennsludagur skólaársins

Í dag var síðasti kennsludagur þessa skólaárs og voru nemendur glaðir þrátt fyrir rigninguna, ýmist í leikjum, íþróttum eða á starfskynningum. Á morgun er starfsdagur, en á föstudaginn lýkur skólaárinu formlega. Þá mæta foreldrar með 1. bekkjar nemendum í foreldraviðtöl samkvæmt pöntuðum viðtalstímum.

Afhending vitnisburða hjá 2. - 7. bekk verður í þeirra bekkjarstofum kl. 10:00 og skólaslit í Ísafjarðarkirkju kl. 20:00 á föstudagskvöld, þar sem nemendur 8. - 10. bekkjar fá sína vitnisburði.

3. bekkur í sveitaferð

1 af 4

Í gær fór 3. bekkur í sveitaferð að Hólum í Dýrafirði. Þar var tekið sérlega vel á móti hópnum með djús og bakkelsi. Krakkarnir skoðuðu féð, fengu að halda á heimalningum, kynnast 3 hundum og sjá hvernig veðurathugun fer fram.

Ferðin var mjög vel heppnuð og allir alsælir. Hópurinn vill koma á framfæri þakklæti til ábúenda á Hólum.

Vorskóli verðandi 1. bekkjar

Nú er verið að ljúka við að skrá inn alla verðandi 1. bekkinga í skólavist fyrir næsta vetur. Eins og venja er, eru þeir nemendur boðaðir í svokallaðan vorskóla þriðjudaginn 6. júní kl. 13:00 og munu kennarar taka á móti börnunum í nýja anddyri skólans, gengið inn frá Aðalstræti.

Gert er ráð fyrir að nemendur dvelji í skólanum í um eina klukkustund eða til um kl. 14:00, en á meðan mun skólastjóri kynna skólastarfið fyrir foreldrum í sal skólans.

Það er alltaf eftirvænting í loftinu þegar von er á nýjum nemendum og hlökkum við til að taka á móti hópnum.

Skólaferðalag 10. bekkjar

Snemma á sunnudagsmorguninn 21. maí lögðu nemendur 10. bekkjar af stað í sól og blíðu í vorferðalagið sitt ásamt fríðu föruneyti foreldra og kennara. Leiðin lá í Skagafjörð og var gist að Bakkaflöt. Þar biðu alls konar ævintýri, byrjað var á að fara í þrautabraut þar sem færi gafst að gera sig bæði blautan og skítugan og var það mjög hressandi eftir langa keyrslu í rútunni. Eftir þrautabrautina fóru margir að synda í ánni og þótti heimamönnum það hraustlega gert, enda vatnið jökulkalt.

Að loknum kvöldverði var haldin kvöldvaka með söng, dansi og skemmtiatriðum sem nemendur hristu fram úr erminni af sinni alkunnu snilld.

Daginn eftir fór hópurinn í loftbolta og litbolta og eftir hádegið var farið í flúðasiglingu á Vestari Jökulsá. Allt gekk þetta slysalaust og vel og var fullkomnað með drjúgri setu í heita pottinum að Bakkaflöt á eftir. Eftir dýrindis kvöldverð að hætti Bakkaflatar var farið í leiki úti á túni sem enduðu með ísbíltúr í Varmahlíð.

Á þriðjudag var ekið af stað í rútunni, fyrst að Grettislaug þar sem flestir prófuðu að dýfa a.m.k. tánum ofan í, sumir fóru alla leið og stungu sér jafnvel í ískaldan sjóinn á eftir. Síðan settist hópurinn inn í lítinn torfbæ og þar sagði Jón Eiríksson Drangeyjarjarl ýmsar skemmtilegar sögur af Gretti Ásmundarsyni þar til risastór könguló tók að sér að flæma hópinn út.

Eftir það var haldið til Sauðárkróks á veitingastaðinn Grettistak og snædd súpa og brauð. Þaðan lá leiðin á Samgönguminjasafnið að Stóragerði í Óslandshlíð, sem er mjög glæsilegt og þar gefur að líta alls konar farartæki frá upphafi bílaaldar á Íslandi fram til okkar daga, enda komu margir sjálfum sér á óvart og létu heillast af fallegum bílum og forvitnilegum. Safnstjóri þar hafði sérstakt orð á því að gaman væri að taka á móti Ísfirðingum, þeir væru yfirleitt sérlega kurteisir og áhugasamir gestir.

Frá Stóragerði lá leiðin út í Hofsós og þar fór hópurinn í sund í hinni frægu Hofsóslaug. Eftir sundið var haldið aftur til Sauðárkróks í dýrindis pizzuveislu. Eftir matinn var frjáls tími og þá fóru krakkarnir í körfubolta og fleiri leiki og eitthvað var kíkt í „mollið“ hjá Kaupfélagi Skagfirðinga.

Um kvöldið var keppt í alls kyns þrautum, s.s. sögugerð, púsli, skósparki, pílukasti og fleiru, við mikla kátínu.

Að morgni miðvikudags var pakkað saman og haldið af stað heimleiðis klukkan 10. Stoppað í Staðarskála og snæddir hamborgarar. Síðan var ekið viðstöðulaust þar til komið var í Skötufjörð. Þar fór hópurinn inn í Hlaðið, hlaðinn grjóthring sem þar er, og þá voru afhent verðlaun þeim hópi sem hafði staðið sig best í þrautunum kvöldið áður.

Það var þreyttur en ánægður hópur sem kom heim um sex-leytið á miðvikudaginn. Eflaust hafa margir verið fegnir að eiga fjögurra daga frí framundan og hefur ekki veitt af, enda var það ekki forgangsmál í ferðinni að fara snemma að sofa.

Fararstjórar úr hópi foreldra voru Auður Ólafsdóttir, Jenný Jensdóttir og Sigurður Jón Hreinsson. Kennarar voru Monica Mackintosh og Herdís M. Hübner.

Pólskukennsla

1 af 2

Í vetur var boðið upp á móðurmálskennslu fyrir pólska nemendur í skólanum.  Marzena Glodkowska sá um kennslu fyrir nemendur á yngsta- og miðstigi hér í skólanum og eldri nemendur voru í fjarnámi frá Tungumálaveri Laugalækjarskóla. Á laugardaginn var síðasta kennslustund vetrarins og lauk henni með sýningu fyrir foreldra, þar sem nemendur lásu og sungu á pólsku. Í lokin fengu nemendur viðurkenningu frá pólska sendiráðinu og fyrir lestrarátak.  Mjög góð reynsla er af pólskukennslunni í vetur og stefnt er að því að bjóða upp á hana næsta vetur.

Frú Eliza Reid í heimsókn

Á vorverkadaginn í fyrradag fengum við góða heimsókn, þegar Eliza Reid forsetafrú heiðraði okkur með nærveru sinni. Hún ræddi við nemendur í 8. bekk um tvítyngi og mikilvægi þess að hlúa að móðurmáli sínu, en um þriðjungur nemenda í 8. bekk er af erlendum uppruna. Nokkrir nemendur lásu ljóð á spænsku, pólsku, bisaya og íslensku og voru krakkarnir duglegir að spyrja, einlægir og kurteisir.

Ævintýraferð til Suðureyrar

1 af 4

Fyrstu tvær vikurnar í maí  var  1. bekkur í þemavinnu um fiska.  Fyrst var unnið út frá bókinni Regnbogafiskurinn í Byrjendalæsi og síðan var tekinn fyrir fræðitexti um fiska og unnið á ýmsan hátt með hann. Krakkarnir lærðu að þekkja og nota ýmis orð sem tengjast fiskum t.d. tálkn, roð, hreistur, sundmagi, hrogn, hrygna, hængur og sporður.  Einnig lærðu þeir að þekkja nokkra algenga fiska t.d. ýsu, þorsk, rauðmaga, steinbít og lax.  Lokahnykkurinn á þessari þemavinnu var síðan heimsókn í Íslandssögu og Klofning á Suðureyri. Þar fékk árgangurinn frábærar móttökur. Fiskvinnslan var skoðuð og nemendur fengu að sjá hvernig fisknum er breytt í verðmæta útflutningsvöru. Allt er nýtt eins vel og hægt er, meira að segja fiskhausarnir og beinin. Krakkarnir sáu margt spennandi, allskonar vélar, tæki og tól. Hápunktur ferðarinnar hjá flestum var að prófa að setjast í  lyftarann og láta gaffalinn á honum fara upp og niður.   Nemendur fengu líka að sjá hvenig fiskur er þurrkaður í fyrirtækinu Klofningi. Mörgum fannst nú lyktin þar ekki góð en létu það ekki á sig fá. Að skoðunarferðinni lokinni var hópurinn síðan leystur út með gjöfum og fengu allir fisk með sér heim í soðið. Það fréttist að „besti“ fiskur í heimi hefði verið eldaður  þann 16. maí á heimilum 1. bekkinga.  Kæru vinir á Suðureyri takk fyrir okkur. /HA

Vorverkadagur

Nemendur gæddu sér á grilluðum pylsum að góðu dagsverki loknu
Nemendur gæddu sér á grilluðum pylsum að góðu dagsverki loknu
1 af 3

Í dag var vorverkadagur hér í skólanum, þar sem hverjum árgangi var úthlutað ákveðið verkefni í samstarfi við Ísafjarðarbæ, en þessa vikuna er einmitt græn vika. Sjá mátti nemendur víða um bæinn við að gróðursetja, hreinsa beð og stíga, raka og setja niður kartöflur svo fátt eitt sé nefnt. Veðrið lék við okkur og í lokin bauð mötuneytið öllum upp á grillaðar pylsur.

Stelpur og tækni

1 af 4

Háskólinn í Reykjavík hefur undanfarin ár staðið fyrir deginum Stelpur og tækni (Girls in ICT day). Þá býður skólinn öllum stúlkum úr 9. bekk á höfuðborgarsvæðinu til sín til þess að kynnast tækninámi og þeim starfsmöguleikum sem býðst í tæknigeiranum. Tekið er á móti stelpunum í HR þar sem þær fara í eina vinnustofu og fá að prufa spreyta sig á ýmsum tæknilegum úrlausnum. Að  því loknu fara þær í heimsókn í fyrirtæki þar sem þær hitta konur í tæknistörfum og eru þá fyrirtækin og tækifærin í þeim geira kynnt fyrir hópnum.

Í morgun bauð svo HR í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða, stúlkum hér á svæðinu upp á vinnustofu fyrir hópinn og að því loknu var farið í heimsókn í 3X Skagann til að kynna sér starfsmöguleika í tæknigeiranum. Tuttugu stúlkur úr 9. bekk G.Í. nýttu sér tækifærið og hafa vonandi bæði haft gagn og gaman af.

Litla upplestrarkeppnin

Í gær fór Litla upplestrarkeppnin fram hér í skólanum. Nemendur 4. bekkjar taka þátt í keppninni en hún er undirbúningur fyrir Stóru upplestrarkeppnina sem haldin er reglulega í 7. bekk. Meginmarkmið keppninnar er að nemendur flytji íslenskt mál sjálfum sér og öðrum til ánægju og að þeir hafi vandvirkni og virðingu að leiðarljósi við flutninginn. Keppnishugtakið felur eingöngu í sér það markmið að keppa við sjálfan sig, að verða betri í dag enn í gær. Keppnin er í raun uppskeruhátíð eftir lestrarþjálfun vetrarins og var nemendum 3. bekkjar boðið á hátíðina ásamt foreldrum og öðrum velunnurum.

Krakkarnir í 4. bekk stóðu sig eins og hetjur og spreyttu sig á ýmsum bókmenntaverkum og var virkilega gaman á að hlýða. Auk þess lásu tveir nemendur úr 7. bekk ljóð og sögubrot og nokkrir nemendur 4. bekkjar léku á trommur og gítar á milli lestraratriða.