VALMYND ×

Fréttir

Æfingapróf Menntamálastofnunar

Samræmd könnunarpróf í 9. og 10. bekk verða lögð fyrir dagana 7. - 10. mars n.k. Menntamálastofnun hefur nú gefið út æfingapróf, annars vegar fyrir nemendur og foreldra og hins vegar fyrir kennara. Prófin eru hugsuð fyrir nemendur og foreldra til að skoða og prófa kerfið sem prófin verða þreytt á. Eins fyrir kennara til að geta undirbúið sig áður en að sjálfu prófinu kemur og kynna sér uppsetningu prófsins og ræsingu þess. Kennarar, jafnt sem nemendur og foreldrar eru hvattir til að kynna sér prófið með því að fara í gegnum það.  

Hægt er að fylgjast með upplýsingum um innleiðingu rafrænna prófa á Facebook síðu Menntamálastofnunar.

Jákvæðar niðurstöður PISA-könnunar

Nemendur í grunnskólum Ísafjarðarbæjar voru yfir landsmeðaltali í öllum greinum PISA-könnunarinnar 2015 og yfir OECD-meðaltali í tveimur flokkum af þremur. Sé litið til einstakra sveitarfélaga þar sem niðurstöður hafa verið birtar er Ísafjarðarbær með besta árangur allra í náttúruvísindum og einungis Garðabær betri í stærðfræði og lesskilningi. PISA-rannsóknin er alþjóðleg rannsókn sem framkvæmd er á þriggja ára fresti og metur breytingar á frammistöðu nemenda og stöðu þeirra við lok skyldunáms. Menntamálastofnun birti niðurstöður 8 stærstu sveitarfélaga landsins og var strax kallað eftir upplýsingum um árangur hjá grunnskólum Ísafjarðarbæjar sem hafa nú borist.

Í náttúrufræði voru nemendur í Ísafjarðarbæ með 503 stig, eða heilum 30 stigum yfir landsmeðaltali og 10 stigum yfir OECD-meðaltali. Í stærðfræði skoraði Ísafjarðarbær 507 stig (19 stigum yfir landsmeðaltali og 17 yfir OECD) og 489 í lesskilningi (7 stigum yfir landsmeðaltali, 4 stigum undir OECD).

Það sem kannski mestu máli skiptir er að nemendur í Ísafjarðarbæ bæta sig umtalsvert í öllum flokkum milli áranna 2012 og 2015 eins og sést í meðfylgjandi töflu. Í kjölfar dapra niðurstaðna 2012 var ráðist í umtalsverða vinnu sem hafði það einfalda markmið að bæta námsárangur barna, sjálfmynd þeirra og framtíð. Vel var fylgst með því sem önnur sveitarfélög voru að gera, settar voru upp skimunaráætlanir og lestrar- og stærðfræðiteymi tóku til starfa. Lestrarteymið lagði í heilmikla vinnu og á allra næstu dögum kemur út ný lestrarstefna Ísafjarðarbæjar og stærðfræðistefna er svo væntanleg með vorinu.

Þessa góðu niðurstöðu verður litið á sem hvatningu til frekari dáða, en ekki vísbendingu um að öllum markmiðum sé nú náð. Það er mjög mikilvægt að enginn sofni á verðinum; starfsfólk skólanna, nemendur eða foreldrar, og allir verða að muna að næg vinna er framundan.

Dansæfingar fyrir þorrablót

Hringdansinn var æfður í morgun ásamt skottís o.fl. dönsum.
Hringdansinn var æfður í morgun ásamt skottís o.fl. dönsum.

Hið árlega þorrablót 10. bekkjar verður haldið föstudaginn 20. janúar næstkomandi. Eins og allir vita er nauðsynlegt að vera vel undirbúinn fyrir gömlu dansana á slíkum samkomum. Árgangurinn leggur nú allt kapp á dansfimi sína og eru dansæfingar hafnar undir styrkri stjórn Sigurrósar Evu Friðþjófsdóttur, danskennara, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Lestrarátak Ævars snýr aftur

Ævar Þór Benediktsson, betur þekktur sem Ævar vísindamaður, heldur áfram að stuðla að auknum lestri barna. Nú í upphafi árs hleypir hann af stokkunum þriðja lestrarátaki sínu sem hann heldur utan um. Lestrarátakinu lýkur 1. mars n.k. á því að dregnir verða út nokkrir þátttakendur sem verða persónur í næstu bók um bernskubrek Ævars vísindamanns.

Við hvetjum alla nemendur í 1. - 7. bekk að skrá sig til leiks og njóta lestursins.

Jólakveðja

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði óskar öllum gleðilegra jóla, árs og friðar. Skólastarf hefst að jólaleyfi loknu fimmtudaginn 5. janúar 2017.

Skreytingadagur og litlu jól

Mánudaginn 19. desember er skreytingadagur hér í skólanum. Stundaskrá helst óbreytt hjá 1. - 7. bekk, en sérgreinar falla niður hjá unglingastigi og lýkur skóla hjá þeim um hádegið. Allir eru hvattir til að mæta í rauðri flík og/eða jólapeysu.

Á þriðjudaginn eru svo litlu jólin hjá okkur. Þá mæta allir prúðbúnir kl. 9:00 í sínar bekkjarstofur og eiga notalega stund til kl.12:00, skiptast á jólapökkum og dansa í kringum jólatréð. Heimilt er að taka með sér gosdrykki/fernudrykki og smákökur í nesti.

Strætó fer kl.8:40 úr Holtahverfi og Hnífsdal og til baka aftur kl.12:05. Dægradvöl opnar kl.12:00.

Að litlu jólunum loknum hefst jólafrí sem stendur til starfsdagsins 4. janúar, en kennsla hefst aftur fimmtudaginn 5. janúar 2017.

Þakkardagur vinaliða

Í morgun hittust 4. - 6. bekkur á sal skólans til að þakka vinaliðum vel unnin störf frá upphafi skólaárs og bauð umsjónarmaður verkefnisins, Árni Heiðar Ívarsson, hópnum í bíó. 

Vinaliðaverkefnið hefur verið starfrækt hér við skólann í rúm tvö ár og hefur það gengið vonum framar. Því er ætlað, samhliða góðum eineltisáætlunum, að draga úr einelti og auka vellíðan og samheldni nemenda í skólum. Helstu markmið verkefnisins eru að:

  • stuðla að fjölbreyttari leikjum í frímínútum skólanna
  • leggja grunn sem gerir nemendum kleift að tengjast sterkum vináttuböndum
  • minnka togstreitu milli nemenda og
  • hampa góðum gildum, svo sem vináttu, virðingu og því að allir fá að taka þátt.

Eftir áramót tekur svo nýr nemendahópur við keflinu, en kosið er um vinaliða tvisvar á ári.

Jólabingó 10. bekkjar

Á morgun, sunnudaginn 11. desember, heldur 10. bekkur jólabingó í Guðmundarbúð. Spjaldið kostar kr. 500 og eru veglegir vinningar í boði en auk þess bjóða nemendur upp á vöfflur og kaffi gegn vægu gjaldi. Bingóið hefst kl.14:00 og eru allir velkomnir. Nemendur vilja benda á að gott hjólastólaaðgengi er í Guðmundarbúð.

List fyrir alla

Í gær heimsótti Íslenski dansflokkurinn Ísfirðinga og nærsveitunga og sýndu dansverkið ,,Óður og Flexa halda afmæli". Nemendum 1. - 4. bekkjar var boðið á sýninguna, sem haldin var í Edinborgarhúsinu í boði verkefnisins List fyrir alla. Verkið sem er eftir Hannes Þór Egilsson og Þyri Huld Árnadóttur, fjallar um þau Óð og Flexu sem eru engir venjulegir krakkar. Þau eru ofurhetjur sem nota ímyndunaraflið til þess að fljúga og ætla sér að halda ofur skemmtilegt afmæli. 

Sýningin var mjög lifandi og skemmtileg í alla staði og skemmtu krakkar jafnt sem fullorðnir sér afar vel.

Rithöfundur í heimsókn

Í morgun kom Þröstur Jóhannesson, rithöfundur, í heimsókn í 3. - 6. bekk og las úr nýútkominni bók sinni, Bjalla og bæjarstjórinn sem gat ekki flogið. Sagan fjallar um Bjöllu sem er ein og umkomulaus í villta vestrinu. Í upphafi sögu býr hún ásamt útlaganum Gussa fingralanga í útjaðri Rjómabæjar, en óvænt brotthvarf hans breytir öllu.
Þetta er önnur barnabók Þrastar, en árið 2013 sendi hann frá sér bókina Sagan af Jóa. 

Við þökkum Þresti kærlega fyrir skemmtilegan upplestur.