VALMYND ×

Fréttir

Þakkardagur vinaliða

Vinaliðar 4. - 6. bekkjar vorið 2017
Vinaliðar 4. - 6. bekkjar vorið 2017

Í morgun hittust 4. - 6. bekkur á sal skólans til að þakka vinaliðum vel unnin störf frá áramótum. Að því loknu fara vinaliðarnir ásamt Árna Heiðari Ívarssyni, umsjónarmanni verkefnisins í bíó. Hópurinn er svo væntanlegur aftur í skólann um hádegisbilið.

Vinaliðaverkefnið hefur verið starfrækt hér við skólann í þrjú ár og hefur það gengið vonum framar. Því er ætlað, samhliða góðum eineltisáætlunum, að draga úr einelti og auka vellíðan og samheldni nemenda í skólum. Helstu markmið verkefnisins eru að:

  • stuðla að fjölbreyttari leikjum í frímínútum skólanna
  • leggja grunn sem gerir nemendum kleift að tengjast sterkum vináttuböndum
  • minnka togstreitu milli nemenda og
  • hampa góðum gildum, svo sem vináttu, virðingu og því að allir fá að taka þátt.
Árskóli á Sauðárkróki er móðurskóli verkefnisins en fjölmargir grunnskólar víðs vegar um landið taka nú þátt í verkefninu. Þess má geta að Árskóli fékk á dögunum gilda tilnefningu og þar með viðurkenningu Heimilis og skóla fyrir verkefnið.

Erlendir gestir í heimsókn

Hópurinn í Ósvör í dag
Hópurinn í Ósvör í dag

Í tvö ár hafa sex skólar víðsvegar að úr Evrópu starfað saman undir merkjum Erasmus+ sem er menntaáætlun Evrópusambandsins.  Þessir skólar eru frá Íslandi, Þýskalandi, Portúgal, Kýpur, Króatíu og Lettlandi.  Verkefnið sem hópurinn vinnur að snýst um að skoða frammistöðu minnihlutahópa í sínum skóla, hvort munur sé á námsframvindu þeirra og ef svo er hvað er hægt að gera til að leiðrétta það.

Núna í maí er síðasti fundur verkefnisins haldinn hér á Ísafirði, þar sem Grunnskólinn á Ísafirði er þátttakandi í þessu verkefni. Auk 4 kennara hér við skólann taka 12 kennarar frá hinum löndunum þátt í verkefninu og eru nú komnir hingað í heimsókn. Samhliða því að setja saman lokaskýrsluna kynnum við skólann, Ísafjarðarbæ og landið fyrir hópnum. Þriðjudaginn 16. maí var heimsókn í Stjórnsýsluhúsið þar sem Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri, Þórdís Sif Sigurðardóttir bæjarritari og Margrét Halldórsdóttir sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs tók á móti hópnum. Í dag var ferðinni heitið til Bolungarvíkur þar sem Ósvör var m.a. heimsótt og á morgun verður bæjarrölt um Ísafjörð á dagskránni undir leiðsögn. Erlendi hópurinn heldur svo heim á leið á föstudag.

Bókasöfnun

Foreldrafélag G.Í. hefur á undanförnum árum staðið fyrir bókasöfnun  í tengslum við Dag bókarinnar, 23. apríl til að styrkja bókasafn skólans​ og þeirri hefð var viðhaldið á þessu vori. Penninn/Eymundsson hefur tekið þátt í átakinu með því að veita 20% afslátt af þeim barnabókum sem keyptar hafa verið í þessum tilgangi. Gott skólabókasafn er mjög mikilvægur þáttur í því að viðhalda og efla lestraráhuga barna enda sýna kannanir að flest börn á skólaaldri fá nánast allar bækur sem þau lesa, einmitt þar. Söfnunin skilaði að þessu sinni nokkrum nýjum bókum á safnið og við þökkum kærlega fyrir þær.

Heimsókn í Skagann 3X

Fimmtudaginn 11. maí var nemendum 10. bekkjar boðið í heimsókn í fyrirtækið Skaginn 3X á Ísafirði. Karl Kristján Ásgeirsson rekstrarstjóri tók á móti hópnum og byrjaði á því að segja svolítið frá sögu fyrirtækisins og starfsemi þess.  Síðan leiddi hann hópinn um allar deildir, allt frá skrifstofunni þar sem m.a. hönnunarvinnan fer fram í tölvum og gegnum salina þar sem vélarnar eru smíðaðar, stálið skorið, sveigt og beygt skv. teikningunum og svo var endað á klefanum þar sem hinir ýmsu hlutir eru sprautaðir með glersalla til að gefa þeim rétta áferð. Krakkarnir þurftu margs að spyrja og voru mjög áhugasamir um starfsemina á þessum stóra vinnustað. Þeir voru að lokum leystir út með veitingum og gjöfum.

Það er mikilsvert fyrir ungt fólk að fá að heimsækja svo glæsilegt fyrirtæki á heimaslóðum og við þökkum kærlega fyrir okkur.​ /HMH

Vordagskráin

Nú er vordagskráin frágengin og ljóst að nóg verður um að vera það sem eftir lifir skólaársins. Ekki má vanmeta það nám sem á sér stað utan skólastofunnar, þar sem nemendur fá enn frekari þjálfun í mörgum grunnþáttum menntunar eins og t.d. læsi, sköpun, heilbrigði og velferð. Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum. Við vonum því að nemendur njóti þess náms sem á sér stað í hinum ýmsu viðburðum sem boðið er upp á nú í mánuðinum, innan dyra sem utan.

 

Hópefli og sjálfstyrking

Elísabet Lorange
Elísabet Lorange

Þessa viku er Elísabet Lorange í heimsókn hjá okkur. Hún er sjálfstætt starfandi listmeðferðarfræðingur, en frá árinu 2006 hefur hún starfað á einkastofu ásamt því að þjónusta Foreldahús/Vímulaus æska, Ljósið, Líknardeild LSH, menntastofnanir, barnaverndanefndir og fleira.

Elísabet mun aðallega hitta nemendur 4. - 7. bekkjar og leggur hún áherslu á hópefli og sjálfstyrkingu. Hún býður einnig foreldrum nemenda í 4. - 7. bekk upp á fund í dansstofu skólans n.k. fimmtudag kl. 17:00 - 18:00 (gengið inn frá Aðalstræti). 

Aðalfundur nemendafélagsins

Nemendaráð skólans skólaárið 2016-2017
Nemendaráð skólans skólaárið 2016-2017

Nemendafélag skólans hélt aðalfund sinn í morgun. Á fundinum var Nemendaráði þakkað fyrir góð störf og minnt á mikilvægi þess að hafa öflugt félag. Fráfarandi varaformaður, Ásthildur Jakobsdóttir, fór yfir starfsárið, í fjarveru Daníels Adeleye formanns.

Eftir fund fór fram kosning formanns og varaformanns fyrir næsta skólaár. Nýr formaður var kjörinn Ívar Breki Helgason og varaformaður verður Hafdís Bára Höskuldsdóttir. Við óskum þeim til hamingju með það traust sem þeim er sýnt og hlökkum til samstarfsins næsta vetur.

Frestun á forvarnarfræðslu

Þar sem ekki hefur verið flogið í dag frestast forvarnarfræðsla Magga Stef, sem vera átti í dag, til fimmtudags. Tímasetningar haldast óbreyttar.

Útileikfimi

Eins og undanfarin ár, þá hefst útileikfimin í maí. Við hvetjum því alla til að vera klædda eftir veðri og taka á móti vorinu!

Forvarnarfræðsla Magga Stef

Forvarnarfræðsla Magga Stef verður með opinn fræðslufund fyrir foreldra barna og unglinga undir yfirskriftinni Hvenær er besti tími dagsins til þess að ala upp barn, miðvikudaginn 3. maí n.k. kl. 20:00 í Stjórnsýsluhúsinu. Á fundinum verður m.a. fjallað um:

  • Uppeldistengd málefni: gildi, hefðir og venjur
  • Hvernig við styrkjum tilfinningagreind og sjálfstraust barna
  • Kannabisplöntuna (hass/gras/weed/vax/olía) og skaðleg áhrif af neyslu.
  • MDMA, Purple Sprite, Kókaín, læknadóp, Blunt, gas, spítt, Spice, K2, Fentanyl, Krókadíl og fleiri efni

Einnig verða sýnd helstu einkenni fíkniefnaneyslu og hvernig er gott að bregðast við ef grunur um neyslu kemur upp.

Fyrirlesari er Magnús Stefánsson fjölskylduráðgjafi ICADC/ICPS sem hefur starfað hjá Maritafræðslunni síðan árið 2001. Magnús hefur getið sér gott orð í því að ná til ungmenna við að útskýra mögulega skaðsemi vímugjafaneyslu, auk þess sem hann er tónlistarmaður og hefur spilað með hljómsveitum s.s. UTANGARÐSMÖNNUM, EGO og SÁLINNI HANS JÓNS MÍNS. 

Uppfræddir og meðvitaðir foreldrar eru besta forvörn sem völ er á og rannsóknir sýna að unglingar taka mark á því sem foreldrar þeirra segja. Þess vegna er mikilvægt að foreldrar séu virkir í umræðunni og taki fullan þátt í að fræða unglingana sína. Það þarf heilt þorp til þess að ala upp barn og eru foreldrar/forráðamenn hvattir til að mæta.

Auk þessa opna fræðslufundar býður Magnús upp á eftirfarandi fundi:

Þriðjudaginn 2. maí kl. 10:00-11:00 fyrir nemendur 8. - 10. bekkjar, í sal skólans

Þriðjudaginn 2. maí kl. 12:00-13:20 fyrir nemendur 4. bekkjar og foreldra þeirra, í dansstofu skólans

Þriðjudaginn 2. maí kl. 16:30-17:30 fyrir nemendur 5. - 7. bekkjar og foreldra þeirra, í sal skólans.