Hönnunarkeppni First Lego
Liðið Filipo Berio úr Garðaskóla sigraði í hinni árlegu tækni- og hönnunarkeppni FIRST LEGO League sem fram fór í Háskólabíói s.l. laugardag. Liðið vann sér um leið þátttökurétt í norrænni keppni FIRST LEGO League sem fram fer í Osló í byrjun desember.
Markmiðið með keppninni er að efla færni og vekja áhuga ungs fólks á tækni og vísindum með því að leggja fyrir þau spennandi verkefni sem örva nýsköpun, byggja upp sjálfstraust og efla samskipta- og skipulagshæfni. Háskóli Íslands hefur staðið fyrir keppninni í rúman áratug.
Að þessu sinni voru 21 lið frá 18 grunnskólum skráð til þátttöku en alls voru þátttakendur um 200 talsins. Liðin höfðu unnið ötullega að undirbúningi í allt haust og mættu þrautþjálfuð til leiks. Grunnskólinn á Ísafirði var á meðal þeirra skóla sem tóku þátt og stóð liðið sig með stakri prýði og samstaðan til fyrirmyndar, undir styrkri stjórn Jóns Hálfdáns Péturssonar, kennara og þjálfara liðsins. Þetta er í annað skiptið sem G.Í. tekur þátt í þessari keppni, en í fyrra vann liðið til verðlauna fyrir besta hönnun og forritun vélmennis.
Deila