VALMYND ×

Fréttir

Viðurkenning í eldvarnagetraun

Orri Norðfjörð ásamt Hlyni Kristjánssyni frá Slökkviliði Ísafjarðarbæjar
Orri Norðfjörð ásamt Hlyni Kristjánssyni frá Slökkviliði Ísafjarðarbæjar

Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna fór fram í grunnskólum landsins í nóvember síðast liðinn. þar sem nemendur í 3. bekk fengu m.a. fræðslu um eldvarnir. Nemendur tóku þátt í eldvarnagetraun slökkviálfanna Loga og Glóðar og er nú búið að draga úr réttum lausnum.

Einn nemandi Grunnskólans á Ísafirði var dreginn út og fékk viðurkenningu, en það var Orri Norðfjörð í 3.ÁH. Þeir Hlynur Kristjánsson og Hermann G. Hermannsson frá Slökkviliði Ísafjarðarbæjar komu í heimsókn í gær og afhentu Orra verðlaunin.

Skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar

Lesararnir í morgun þau Hrefna Dís, Lena Rut, Jóhanna Ýr, Kári, Gautur Óli, Arnar, Lilja Borg, Viktoría Rós og Snæfríður.
Lesararnir í morgun þau Hrefna Dís, Lena Rut, Jóhanna Ýr, Kári, Gautur Óli, Arnar, Lilja Borg, Viktoría Rós og Snæfríður.

Í morgun fór fram skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar, þar sem valdir voru fulltrúar skólans til að taka þátt í lokahátíðinni sem fram fer 9. mars.

Níu nemendur úr 7. bekk lásu sögubrot og ljóð og var dómurunum, þeim Jónu Benediktsdóttur, Birnu Lárusdóttur og Baldri Inga Jónassyni vandi á höndum að velja 5 af þessum frambærilegu lesurum. Niðurstaðan varð þó sú að fulltrúar skólans verða þau Arnar Rafnsson, Kári Eydal, Lena Rut Ásgeirsdóttir, Lilja Borg Jóhannsdóttir og Snæfríður Lillý Árnadóttir. Til vara verður Viktoría Rós Þórðardóttir.
Við óskum öllum þátttakendum innilega til hamingju með góða frammistöðu og hlökkum til lokahátíðarinnar.

Samræmd könnunarpróf í 9. og 10. bekk

Nú líður að samræmdum könnunarprófum í 9. og 10. bekk, en þau verða lögð fyrir dagana 7. - 10. mars n.k. Allar nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Menntamálastofnunar.

Foreldrakönnun Skólapúlsins

Fyrr í mánuðinum var opnað fyrir foreldrakönnun Skólapúlsins, þar sem sendur var hlekkur á ákveðið úrtak foreldra og þeir beðnir að svara. 

Mikilvægt er að sem flestir taki þátt en 80% svörun þarf til að könnunin teljist marktæk. Við hvetjum alla þá sem ekki eru búnir að svara könnuninni að gera það fyrir 28. febrúar til að skólinn geti nýtt sér þær niðurstöður fyrir innra mat skólans; séð hvað vel gengur og hvar tækifærin liggja til sóknar. 

Snillingar keppa

Snillingarnir sem kepptu til úrslita, f.v. Daði Hrafn, Ásdís Ósk, Saga Líf, Halla María, Jóhanna Ýr og Ásgerður Pála
Snillingarnir sem kepptu til úrslita, f.v. Daði Hrafn, Ásdís Ósk, Saga Líf, Halla María, Jóhanna Ýr og Ásgerður Pála

Snillingarnir er heiti á bókmenntaspurningakeppni sem nú er haldin í fyrsta sinn á miðstigi Grunnskólans á Ísafirði og hefur staðið yfir undanfarnar vikur. Nemendur 4.-7. bekkjar fengu lista yfir 13 barnabækur sl. vor og voru hvattir til að lesa sem mest af listanum. Keppnin var formlega sett á Degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember. Þá höfðu verið valin tvö þriggja manna keppnislið úr hverjum árgangi en keppnin sjálf hófst ekki fyrr en eftir áramótin. Þótt aðeins þrír séu í keppnisliðinu er mikilvægt að allir undirbúi sig vel, því að liðin mega spyrja bekkinn og fá aðstoð úr salnum.

Fyrsta umferð fór fram í bekkjarstofum en sigurvegararnir mættust síðan í tveimur undanúrslitakeppnum sem fóru fram í sal skólans með viku millibili að viðstöddum öllum nemendum og kennurum í 4.-7. bekk.

Úrslitakeppnin var haldin í gær, þriðjudaginn 14. febrúar í salnum og er óhætt að segja að mikil spenna hafi legið í loftinu. Eftir æsispennandi keppni fóru leikar þannig að liðið 6. bekkur A sigraði eftir að hafa lagt liðið Banana-ananas úr 7. bekk að velli.

Þetta frækna lestrarlið 6. bekkjar er skipað þeim Daða Hrafni Þorvarðarsyni, Sögu Líf Ágústsdóttur og Ásdísi Ósk Brynjarsdóttur og hlutu þau að launum bókina Vetrarhörkur eftir Hildi Knútsdóttur, sem nýlega hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barnabóka. Auk þess fengu þau derhúfu merkta skólanum.

Silfurliðið í 2. sæti skipuðu þær  Jóhanna Ýr Barðadóttir, Ásgerður Pála Hilmarsdóttir og Halla María Ólafsdóttir og þær hlutu bókina Pabbi prófessor eftir Gunnar Helgason en hún var einmitt líka tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Öll liðin stóðu sig frábærlega og reyndust sannkallaðir snillingar og ekki síður stuðningsmennirnir sem jafnvel gátu ráðið úrslitum á stundum. Aðstandendur keppninnar þakka öllum þátttakendum kærlega fyrir góða frammistöðu og drengilega keppni.

Ákveðið hefur verið að endurtaka leikinn á næsta skólaári en byrja þá fyrr og halda keppnina að hausti. Bókalistum verður dreift fyrir vorið og nemendur hvattir til að nýta sumarið til undirbúnings.

Sundhöllin lokuð

Á morgun, fimmtudaginn 16. febrúar, verður skipt um hreinsibúnað í Sundhöllinni og verður því engin kennsla í lauginni.

Allir lesa

Nú er landsleikurinn Allir lesa í fullum gangi og tæplega 2.000 þátttakendur hafa lesið í rúmlega 20.400 klukkustundir, en það jafngildir 850 dögum á þeim 13 dögum sem af eru keppni. Nóg er eftir og enn bætast við nýir þátttakendur daglega.

Til að gera lesturinn enn skemmtilegri er hér bókabingó sem hægt er að prenta út. Þetta er fyrst og fremst til gamans gert og tilvalið fyrir yngri lesendur sem vantar lestrarhvatningu en eldri lesendur geta líka fundið margt við sitt hæfi á bingóspjaldinu. Þátttakendur eru hvattir til að deila myndum af lestrinum á Instagram og Facebook með myllumerkinu #allirlesa. Frumlegasta lestrarmyndin verður valin og eigandinn verðlaunaður í lok landsleiksins.

Fleiri skemmtileg lestrarbingó má finna vef Heimilis og skóla, m.a. jóla-, páska- og sumarlestrarbingó.

 

Kampakátir meistarar

Kátir Vestra drengir ásamt Sveinfríði Olgu Veturliðadóttur og Guðríði Sigurðardóttur.
Kátir Vestra drengir ásamt Sveinfríði Olgu Veturliðadóttur og Guðríði Sigurðardóttur.

Það voru kampakátir körfuboltadrengir sem mættu í skólann í morgun, eftir frábæra keppnisferð til Reykjavíkur. Vestri keppti þar við Val í úrslitum Maltbikarsins í 9. flokki karla og gerði sér lítið fyrir og sigraði með 60 stigum gegn 49.

Í tilefni af bikarmeistartitlinum voru strákarnir kallaðir á sal, ásamt Nökkva Harðarsyni, aðstoðarþjálfara, sem einnig er starfsmaður við skólann og var klappað rækilega fyrir þessu frábæra liði og árangri þeirra. Það er svo einnig skemmtileg tilviljun að fyrir 50 árum varð Guðríður Sigurðardóttir, kennari við skólann, Íslandsmeistari með 2. flokki KFÍ.

Við óskum Vestra enn og aftur innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.

Minnkandi matarsóun

Fyrr í vetur stóð umhverfisteymi G.Í. fyrir fræðsluverkefni um matarsóun. Stofnuð var umhverfisnefnd í skólanum en í henni sátu sex nemendur á unglingastigi. Verkefnið hófst með því að kennarar í umhverfisteyminu gerðu leynilega könnun í eina viku í mötuneyti skólans þar sem fylgst var með því hversu miklum mat nemendur í fjórum yngstu bekkjunum hentu í lok máltíðar. Mælingarnar stóðu yfir í eina viku og voru allar niðurstöður skráðar. Að því loknu tóku unglingarnir í umhverfisnefndinni til starfa. Þeir settu saman fræðsluefni og fóru skipulega í alla bekki á yngsta stigi. Fræðslan miðaði að því að útskýra fyrir yngri börnunum hvernig hægt væri að minnka eða jafnvel koma alveg í veg fyrir matarsóun. Einnig komu unglingarnir aðeins inn á skynsamlega notkun á pappír og sápu. Á þessum tímapunkti voru nokkrar vikur liðnar frá mælingunum. Gert hafði verið samkomulag við starfsfólk mötuneytisins og var nákvæmlega sami matseðill nú hafður í eina viku. Aftur voru allar matarleifar mældar og nú með vitneskju nemenda.
Fræðsla unglinganna skilaði sér svo sannarlega því mikill munur var á niðurstöðum milli mælinganna í öllum árgöngum. Í dag kynntu unglingarnir niðurstöðurnar fyrir yngri börnunum og hengdu þær upp fyrir framan stofur barnanna. Á morgun, á foreldradegi, fá börnin tækifæri til að sýna foreldrum sínum árangurinn.

Nemendur í umhverfisnefnd G.Í. eru:
Gísli Steinn 10.bekk, Edda Lind 10.bekk, Ásgeir Óli 9.bekk, Rán 9.bekk, Sigríður 8.bekk og Sveinbjörn Orri 8.bekk.

Kennarar í umhverfisteymi G.Í. eru:
Agnes Karlsdóttir, Árni Heiðar Ívarsson, Guðlaug Jónsdóttir, Katrín Björnsdóttir, Kristín Berglind Oddsdóttir og Sigurrós Eva Friðþjófsdóttir.

Skráning í foreldraviðtöl

Fimmtudaginn 9. febrúar er foreldradagur hér í skólanum, en þá mæta nemendur ásamt foreldrum eða forráðamönnum í viðtöl hjá umsjónarkennurum. Búið er að opna fyrir tímapantanir á mentor.is þar sem foreldrar geta valið sér hentuga viðtalstíma.