Frakklandsferð nemenda
Frétt frá nemendum í Erasmus+ vali:
Mánudaginn 24.nóvember fóru átta nemendur ásamt tveimur kennurum í Grunnskólanum á Ísafirði til Frakklands í ferð á vegum Erasmus+. Hópurinn þurfti að vakna eldsnemma og hittast á BSÍ kl. 4:15. Þau tóku rútu til Keflavíkur og svo flugið til Frankfurt, sem var 3,5 klst. Eftir það fóru þau í lest frá Frankfurt til Strassborg og svo með tramminu á hótelið. Hópurinn hitti nemendur og starfsfólk úr samstarfsskólunum okkar frá Þýskalandi og Portúgal áður en þau fóru í kvöldmat.
Á þriðjudeginum fóru þau í Evrópuráðið og fengu að vita ýmislegt um störf fólks þar. Svo kom Gréta Gunnarsdóttir, sem er fulltrúi Íslands í Evrópuráðinu, og sagði hópnum frá starfinu sínu. Seinni partinn fór hópurinn í ratleik þar sem nemendum var skipt í hópa með Þjóðverjunum og Portúgölunum.
Á miðvikudeginum fór hópurinn í Alsace-Moselle memorial og þar lærðu þau ýmislegt um sögu heimsstyrjaldanna. Eftir hádegið fór hópurinn í bátsferð um Strassborg þar sem þau lærðu um sögu borgarinnar.
Á fimmtudeginum fór hópurinn á Evrópuþingið að hlusta á þingmenn rökræða um loftslagsbreytingar í The Hemicycle og svo að hitta Dr. Peter Liese, sem er einn af fulltrúum Þýskalands á þinginu. Liese talaði um vandamálin sem hann sér um að leysa í Evrópu og hvernig það er að vera þingmaður á Evrópuþinginu. Seinna um daginn var farið að skoða og versla á jólamarkaðinum, sem er einn sá allra flottasti í Evrópu.
Á föstudeginum var mjög rólegur dagur, þau kvöddu Þjóðverjana um morguninn og löbbuðu svo að fallegu kirkjunni sem var nálægt hótelinu. Eftir það var farið í verslunarleiðangur í miðbænum, hádegismatur á McDonald's og svo var afslöppun á hótelinu fyrir lokakvöldverð ferðarinnar.
Allur hópurinn vaknaði eldsnemma á laugardagsmorgni og fór með tramminu á lestarstöðina. Þar borðuðu þau morgunmat og tóku tvær lestir til Frankfurt á flugvöllinn þar. Klukkan var um fjögur þegar þau lentu á Íslandi, svo var farið með rútu á BSÍ og þá var þessari frábæru ferð lokið.
Deila