VALMYND ×

Fréttir

Nýr samningur

Skrifað var undir nýjan kjarasamning á milli Félags grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær. Kennarar munu því ekki ganga út í dag og skólastarf því með eðlilegum hætti.

Kennarar ganga út?

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hyggjast grunnskólakennarar ganga út úr skólum miðvikudaginn 30. nóvember kl. 12:30 hafi ekki náðst að semja.  Kennarar í Grunnskólanum á Ísafirði hyggjast einnig gera það.  Verði ekki búið að semja fyrir hádegi á morgun mun því öll kennsla í skólanum falla niður frá kl. 12:30. Nemendur í 5.-10.bekk fara heim þá en nemendum í 1.-4. bekk býðst að vera undir eftirliti í skólanum til kl. 13:40, þar til dægradvölin hefst. 

Fullveldisfagnaður

Föstudaginn 2. desember n.k. býður 10. bekkur til fullveldisfagnaðar með frumsýningu á leikritinu Feita mamma eftir Auði Jónsdóttur. Þessi sýning er einungis fyrir nemendur í 8. - 10. bekk G.Í. og nágrannaskóla og slegið verður upp balli á eftir. Miðaverð er kr. 1.500 á báða viðburði, en kr. 1.000 á annan.

Önnur sýning verður laugardaginn 3. desember kl. 14:00 og eru allir velkomnir á þá sýningu.

 

 

Starfsdagur og vetrarleyfi

Á morgun, þriðjudaginn 22. nóvember, er starfsdagur hér í skólanum. Eftir það er vetrarleyfi út vikuna og næsti kennsludagur því mánudagurinn 28. nóvember.

Ný lesfimimarkmið

1 af 2

Menntamálastofnun hefur gefið út lesfimiviðmið fyrir 1. - 10. bekk grunnskóla.  

Viðmið um læsi barna eru verkfæri fyrir nemendur, kennara og foreldra til að fylgjast með framförum, styðja við læsi og auka þannig líkurnar á því að sem flestir geti aflað sér menntunar í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í nútímasamfélagi. 

Markmiðið með setningu lesfimiviðmiða, ásamt væntanlegum viðmiðum um lesskilning og ritun, er að stuðla að bættu læsi barna og ungmenna í íslensku skólakerfi.

Óveður

Vegna slæmrar veðurspár er eftirfarandi upplýsingum komið á framfæri: 

Ísafjarðarbær hefur gefið út viðmið um hvenær loka eigi stofnunum vegna  óveðurs. Þar kemur m.a. fram að stofnunum bæjarins sé ekki lokað nema algjöra nauðsyn beri til og getur forstöðumaður lokað stofnun af einni eða fleirum af eftirtöldum ástæðum:

  • Tilmæli frá almannavörnum eða lögreglu
  • Rafmagnsleysi kemur í veg fyrir að hægt sé að halda stofnuninni opinni
  • Ófærð er svo almenn að ekki næst að kalla til lágmarksfjölda starfsmanna til að halda a.m.k. skertri þjónustu

Foreldrar eru hvattir til að fylgjast með veðurspám og fréttum af veðri.  Skóla verður ekki aflýst nema tilmæli  komi frá Almannavörnum eða lögreglu. Komi ekki tilmæli frá Almannavörnum eða lögreglu verða foreldrar að meta hvort óhætt sé að börn þeirra sæki skóla. Ef foreldrar hafa börn sín heima  þá skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll. Hið sama gildir ef foreld­rar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa.

Strætisvagnar Ísafjarðarbæjar hafa tekið í notkun talhólfsnúmer, 8781012,  þar sem fram kemur hvort og þá hvaða ferðir falla niður. 

Foreldrar eru einnig hvattir til að fylgjast vel með  á heimasíðu almannavarna.

Dagur íslenskrar tungu

Í dag er Dagur íslenskrar tungu og var hann haldinn hátíðlegur með ýmsum hætti hér í skólanum. Í Hömrum var setningarhátíð Litlu og Stóru upplestrarkeppnanna, sem ætlaðar eru nemendum 4. og 7. bekkjar. Allir nemendur þessara árganga taka þátt og æfa framsögn af kappi næstu vikur og mánuði. Nemendur 4. bekkjar munu svo bjóða foreldrum til upplestrarhátíðar síðar í vetur. Í mars verður svo lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar hjá 7. bekk, en þangað komast þeir sem standa sig hvað best í framsögn.

Við setningarathöfnina lásu nokkrir nemendur úr 8. bekk sögubrot og ljóð og léku á hljóðfæri. Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir stýrði dagskránni og Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, setti hátíðina formlega. 

 

 

Snjókoma í kortunum

Næstu daga er gert ráð fyrir snjókomu og viljum við minna alla á að koma klædda eftir veðri. Á þessum dimmasta tíma ársins sem nú fer í hönd er einnig nauðsynlegt að sjást vel í umferðinni og geta endurskinsmerki gert gæfumuninn. 

Heimsókn til Kýpur

Þann 23.október fóru kennararnir Bergljót Halldórsdóttir og Bryndís Bjarnason til Kýpur vegna Erasmus+ verkefnis sem skólinn er þátttakandi í og voru móttökur höfðinglegar.

Haldnir voru vinnufundir þar sem hver skóli kynnti verkefni sem unnin höfðu verið í viðkomandi skólum og voru þau mörg áhugaverð. 
Portúgalarnir voru með verkefni sem þeir höfðu unnið með 11 – 13 ára nemendum þar sem þeir lærðu að nota GPS til að finna ákveðna staði. 
Króatar kynntu verkefni sem byggðist á samþættingu stærðfræði, samfélagsfræði, þjóðfélagsfræði og textílmennt. Króatísku nemendurnir gerðu húfu sem fylgir þjóðbúningi karlmanna þar í landi og voru milkir útreikningar á bak við þeirra vinnu. Í Króatíu er ekki hefðbundin textílkennsla og fengu nemendur í þessu verkefni tilsögn í saumaskap.
Lettar kynntu stærðfræðivef í 6 þyngdarflokkum sem er ætlaður nemendum sem eiga í stærðfræðiörðugleikum og eru tvítyngdir. Það þurfti ekki mikinn orðaforða til að vinna verkefnin. 
Þjóðverjar kynntu hvernig þeir vinna með tvítyngdum nemendum til að koma þeim betur inn í þýskt málsamfélag.
Kýpverjar sýndu verkefni þar sem samþætt var ljóð og drama og vakti ljóðið upp margar siðferðislegar pælingar.
Þær Bergljót og Bryndís kynntu verkefni sem nemendur G.Í. höfðu unnið með mismunandi bókmenntagreinar og gert kynningar fyrir jafnaldra sína.

Að loknum kynningum voru umræður. Einnig höfðu allar þjóðirnar átt að vinna efnafræðiverkefni þar sem tónlist var nýtt til þess að auðvelda tök á efnafræðinni. Þetta verkefni var að undirlagi Pólverja og hafði verkefnið fengið verðlaun í Portúgal og vildu þeir vita hvernig og hvort hægt væri að nýta það annars staðar í heiminum.

Þessir dagar voru ekki eingöngu nýttir til vinnu. Farið var í skoðunarferð til Limasol og um höfðuborgina Nicosíu. Það var skrítið að dvelja í borg sem lýtur  stjórn tveggja landa, Kýpur og Tyrklands. Þátttakendur uður áþreifanlega varir við  spennu sem er þarna á milli. Það er lítið mál að fara yfir landamærin en Kýpurbúar fara ekki á milli. Þeim líkar ekki að ferðast um eigið land og þurfa að sýna skilríki til að fara yfir á Tyrklandshlutann. /BB

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér.

 

Góð frammistaða G.Í. í FIRST LEGO League

1 af 3

Nú er keppni lokið í Háskólabíói og stóðu okkar menn sig frábærlega. Þeir kepptu undir nafninu Grísa og unnu til verðlauna fyrir besta hönnun og forritun. Þetta er virkilega góður árangur hjá þessum ungu strákum í sinni frumraun í keppni sem þessari og er framtíðin svo sannarlega björt hjá þeim. Innilega til hamingju strákar, við erum virkilega stolt af ykkur!