VALMYND ×

Fréttir

Uppskerutíð

1 af 3

Undanfarin ár hafa nemendur G.Í. sett niður kartöflur og fræ að vori og vitjað uppskerunnar að hausti. Í vor var heldur betur bætt í þessa vinnu. Að undirlagi garðyrkjustjóra Ísafjarðarbæjar voru keyptar litlar plöntur og komið fyrir í beðum og kössum í nágrenni skólans. Nemendur í 1. og 3. bekk riðu á vaðið ásamt Guðlaugu Jónsdóttur heimilisfræðikennara, þegar þeir fóru og tóku upp hluta grænmetisins, skáru niður og færðu starfsfólki mötuneytisins. Grænmetið var sett í salatbarinn og vakti mikla lukku enda varla hægt að finna ferskara og nýrra hráefni. Þetta verkefni mun án efa efla umhverfisvitund nemenda og ekki síður hafa jákvæð áhrif á neysluvenjur þeirra. 

Haustferð 10. bekkjar

Hesteyri (www.hesteyri.is)
Hesteyri (www.hesteyri.is)

Í dag fer 10. bekkur í sína árlegu haustferð norður í Jökulfirði. Siglt verður að Hesteyri og gengið þaðan að Sléttu undir leiðsögn Njáls Gíslasonar og er búist við að gangan taki um 4 - 5 klukkustundir. Farangurinn verður settur í land á Sléttu þar sem gist verður í tjöldum. Áætluð heimkoma er um kl. 13:00 á föstudag. Við óskum hópnum góðrar ferðar og vonum að veðrið leiki við þau líkt og undanfarna daga.

Fjallgöngu frestað

9. bekkur hefur frestað fjallgöngu sem átti að vera í dag, til betri tíma.

Líf og fjör í skólabúðum

7. bekkur er þessa viku í skólabúðum að Reykjum í Hrútafirði. Krakkarnir láta vel af sér, enda nóg við að vera frá morgni til kvölds. Heimavistarstemningin þjappar hópnum saman, auk þess sem nemendur kynnast öðrum krökkum frá Bolungarvík, Flateyri, Akureyri og Vopnafirði, sem einnig dvelja í skólabúðunum þessa viku.

Hópurinn er væntanlegur heim seinni part föstudags.

Lesfimi

Af hverju er alltaf verið að prófa börn í hraðlestri?

Er það ekki lesskilningurinn sem skiptir mestu máli?

 

Þetta eru góðar og gildar spurningar sem skólafólk heyrir stundum og hér skal reynt að svara þeim eftir bestu getu.

  • Við viljum forðast að tala um hraðlestur en notum frekar orðið lesfimi sem lýsir betur hvað átt er við, því ekki er eingöngu verið að prófa hversu hratt barnið les, heldur líka hversu rétt og örugglega. Villur eru dregnar frá atkvæðafjöldanum. Sá sem ekki skilur það sem hann les, gerir fleiri villur, getur jafnvel hlaupið yfir línur án þess að taka eftir því o.s.frv. þannig að skilningur getur líka haft mikil áhrif á niðurstöðuna á lesfimiprófi.
  • Lesfimipróf eru einföld og þægileg leið til að meta hversu góðum tökum nemendur hafa náð á lestrartækni. Lestrartækni er bara einn þáttur í góðu læsi, lesskilningur og framsögn eru aðrir þættir sem ekki eru síður mikilvægir og eru líka prófaðir. En tækni er ein af undirstöðum læsis, ásamt málþroska og orðaforða - enginn nær góðum lesskilningi án þess að hafa góð tök á lestrartækninni, góða lesfimi.
  • Þegar börn taka lesfimipróf er mikilvægt að aðstæður séu þægilegar og við reynum að gera börnin ekki stressuð. Við biðjum þau að lesa eðlilega, vanda sig að lesa rétt og halda vel áfram – ekki segja okkur söguna af Sigga frænda í miðju prófi, eins og stundum gerist – en ekki flýta sér. J
  • Við forðumst að ræða niðurstöður lesfimiprófanna við yngstu nemendurna, þær eru fyrst og fremst til upplýsingar fyrir okkur fullorðna fólkið, kennarana og foreldrana. Við viljum ekki ýta undir samkeppni og meting á milli barnanna þótt við hvetjum þau til að sinna lestrarnáminu vel og vera dugleg að lesa heima.
  • Þegar nemendur hafa náð 300 atkvæðum á mínútu er lokamarkmiði skólans náð og við mælum ekki meiri hraða. Fluglæs manneskja sem les eins hratt og hún getur, nær auðveldlega a.m.k. tvöföldum þeim atkvæðafjölda. Við erum því ekki að ýta undir að nemendur lesi óeðlilega hratt, þótt við fylgjumst vel með lesfimi þeirra.
  • Lestrarnámið er samstarfsverkefni heimilanna og skólans. Gott samstarf við foreldra er því algerlega nauðsynlegt og mikilvægt að sátt ríki um þær aðferðir sem notaðar eru. Við hvetjum foreldra eindregið til að hafa samband og ræða málin við okkur ef þeir hafa spurningar eða athugasemdir. /HMH

Nemendum fjölgar

Nú vill svo skemmtilega til að nemendum skólans hefur fjölgað á milli ára. Síðastliðið vor voru þeir 326 talsins, en eru í dag 341. Við vonum svo sannarlega að nú sé þróuninni snúið við eftir fækkun síðustu ára.

Matseðlar tilbúnir

Nú er allt að verða klárt fyrir komandi skólaár. Matseðlar fyrir ágúst og september eru komnir inn á heimasíðuna og um að gera að ganga frá skráningu í mötuneytið sem allra fyrst.

Lykilorð í mentor

Hér fyrir neðan eru upplýsingar um hvernig nálgast má nýtt eða gleymt lykilorð í mentor, sem er upplýsingakerfið sem skólinn notar.  Við hvetjum alla  foreldra til að gera það sem fyrst og þá sérstaklega foreldra nemenda í 1. bekk.

https://www.youtube.com/watch?v=ifwOntk280M

 

Skráning í mötuneyti

Nú er búið að opna fyrir skráningar í mötuneyti skólans og eru foreldrar beðnir að skrá börn sín fyrir 19. ágúst. Við ætlum að prófa að halda skráningum inni frá því í fyrra, þannig að þeir sem vilja halda skráningum óbreyttum þurfa ekkert að gera, en þeir sem vilja breyta eða hætta við þurfa að fara inn á matartorgið og afhaka við það sem valið er. Foreldrar nemenda í 1. bekk þurfa að skrá sín börn sem og foreldrar nýrra nemenda. Nánari leiðbeiningar varðandi skráningar má nálgast hér.

Nýtt skólaár

Líkt og undanfarin ár er nemendum Ísafjarðarbæjar séð fyrir nánast öllum gögnum sem þeir þurfa til náms í skólanum.  Gert er ráð fyrir að  nemendur í 1.-7. bekk sjái sér sjálfir fyrir skriffærum og nemendur unglingastigs sjái sér sjálfir fyrir skriffærum, reglustiku, gráðuboga og litum.  Nemendur fá allar stíla– og reikningsbækur og möppur í skólanum.

Skólasetning verður með sama sniði og í fyrra. Mánudaginn 22. ágúst mæta nemendur og foreldrar í viðtöl til umsjónarkennara þar sem nemendur setja sér markmið fyrir ábyrgð og vinnu í skólanum. Opnað verður fyrir skráningar í viðtölin 17. ágúst. 

Mánudaginn 22. ágúst fer 7. bekkur í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði. Haft verður samband við foreldra í vikunni á undan varðandi skipulag ferðarinnar.