VALMYND ×

Fréttir

Útivistarreglur

SAMAN hópurinn vill vekja athygli foreldra á að útivistartími barna og unglinga breyttist 1. september s.l. Starf hópsins miðar að því að styrkja og styðja foreldra í sínu uppeldishlutverki og vinna að forvörnum, uppeldi, menntun, meðferð og ráðgjöf.

Samkvæmt útivistarreglum mega börn, 12 ára og yngri, ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.
Aldursmörk þessa ákvæðis miðast við fæðingarár en ekki fæðingardag. 

Kveðja frá London

Hjaltlandseyjar
Hjaltlandseyjar
1 af 5

Þann 10. apríl 2015 sendu nemendur 4.P nokkur flöskuskeyti á haf út, með aðstoð skipverja á Júlíusi Geirmundssyni, en verkefnið var hluti af ritunar- og enskunámi þeirra. Krakkarnir skrifuðu stuttar kveðjur og merktu inn á landakort hvar þeir væru staddir í heiminum. Þeir báðu svo finnendur um að hafa samband við Grunnskólann á Ísafirði.

Þrjú skeyti hafa nú rekið á land á Bretlandseyjum. Það fyrsta fannst í desember s.l., en það voru þær Marianna Glodkowska og Sólveig Perla Veigarsdóttir Olsen sem höfðu sent það. Annað skeyti fannst nú í vor frá þeim Lilju Björgu Kristjánsdóttur og Guðrúnu Dagbjörtu Sigurðardóttur. Nú um liðna helgi barst skólanum svo tölvupóstur, þar sem 9 ára gamall drengur frá London, Brian að nafni, hafði fundið þriðja flöskuskeytið í sumarfríinu sínu á Hjaltlandseyjum. Það skeyti reyndist vera frá Sigurjóni Degi Júlíussyni og Daða Hrafni Þorvarðarsyni. Brian vill endilega vera í sambandi við þá félaga og hafa þeir nú fengið netfang hans og móður hans til að svara fyrirspurnum hans. 

 

 

,,Bieber fever"

Poppgoðið Justin Bieber
Poppgoðið Justin Bieber

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að kanadíska poppgoðið Justin Bieber heldur tónleika þessa dagana á Íslandi. Í dag eru rúmlega 80 nemendur skráðir í leyfi hér í skólanum, en það er rúmur fjórðungur allra nemenda. Það má því með sanni segja að Bieber hafi áhrif á skólastarf dagsins.

Við vonum að allir skemmti sér vel á tónleikunum og komi heilir heim.

Norræna skólahlaupið

Í morgun tóku nemendur skólans þátt í Norræna skólahlaupinu, en það hefur verið haldið allt frá árinu 1984. Allir grunnskólar á Norðurlöndunum geta tekið þátt í hlaupinu á hverju hausti. Með Norræna skólahlaupinu er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan.

Nemendur G.Í. létu ekki sitt eftir liggja í morgun. Hlaupið var frá Bæjarbrekku og fóru yngstu nemendurnir inn að Engi, miðstigið hljóp inn að Seljalandi og unglingarnir inn að Golfskálanum í Tungudal og til baka.  

Kynning á læsissáttmála Heimilis og skóla

Á morgun, miðvikudaginn 7. september,  mun starfsfólk Heimilis og skóla kynna nýjan læsissáttmála samtakanna fyrir foreldrum og skólafólki. Kynningin hefst kl. 20:00 hér í skólanum og eru allir hvattir til að mæta.

Markmiðið með sáttmálanum er að hann verði notaður reglulega um land allt sem liður í að efla læsi barna á Íslandi og einnig að hann stuðli að því að styrkja samstarf heimila og skóla í landinu.

Stígamót með fundi á Vestfjörðum

Starfskonur Stígamóta halda fundi á Vestfjörðum þessa dagana og á morgun verða þær í Stjórnsýsluhúsinu kl. 17:15 - 19:00. Þar munu þær kynna samtökin og þá þjónustu sem þau veita, en Stígamót eru grasrótarsamtök sem berjast gegn kynferðisofbeldi og veita aðstoð fyrir fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi. Í ferðinni verður bæði boðið upp á opna fundi auk þess sem fundað verður með fagfólki á hverjum stað, líkt og lögreglu, læknum og heilsugæslufólki, skólastjórum og leikskólastjórum, prestum, starfsfólki tómstundamiðstöðva og öðrum þeim sem líklegt þykir að mæti brotaþolum í starfi sínu. Þar verður einnig rætt hvað gera megi til þess að koma í veg fyrir ofbeldi og bæta þjónustu við brotaþola.

Allir eru velkomnir á fundi Stígamóta sem verða sem hér segir:
Menntaskólinn á Ísafirði 6.9. Kl. 12-13 Fundur á sal með nemendum
Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði 6.9. Kl. 17.15 Opinn fundur fyrir almenning
Grunnskólinn á Þingeyri 7.9. Kl. 17-19 Opinn fundur fyrir almenning

Reglur um létt bifhjól og rafmagnsreiðhjól

Að gefnu tilefni viljum við benda á að börn undir 13 ára aldri mega ekki vera á léttum bifhjólum. Ökuréttindi þarf til að aka slíku tæki sem nær allt að 50 km. hraða. Þau má fá að undangengnu ökunámi og prófi við 15 ára aldur.

Rafmagnsreiðhjólum er nú skipt í tvo flokka:

  1. Létt bifhjól sem ná ekki yfir 25 km/klst á hraða. Ekki yfir 4Kw og má vera hvort sem heldur raf/bensíndrifið. Um þessi tæki gildir:
    1. 13 ára aldurstakmark
    2. Ekki gerð krafa um réttindi
    3. Skráningarskyld
    4. Má aka bæði á götum og gangstéttum/hjólastígum
  2. Reiðhjól með hjálparmótor en þó með stig/sveifarbúnaði. Þessi hjól mega ekki vera meira en 0,25kw. að afli þar sem afköst minnka og stöðvast alveg við 25 km/klst.

Samkvæmt umferðarlögum flokkast tæki II sem reiðhjól, sé þess gætt að þau fylgi skilyrðum, til dæmis hvað varðar hraða. Tæki sem flokkast í flokk I eru hinsvegar skilgreind sem létt bifhjól og þarf ökumaður þeirra að hafa náð 13 ára aldri og tækið að vera skráð. Ekki er gerð krafa um réttindi ökumanns eða tryggingar.

Nýtt nemendaráð G.Í.

Í morgun kusu nemendur unglingastigs nýja stjórn nemendaráðs. Úr 8. bekk verða þau Helena Haraldsdóttir, James Parilla og Sveinbjörn Orri Heimisson í stjórn. Í 9. bekk verða það Blessed Parilla, Einar Geir Jónasson, Hafdís Bára Höskuldsdóttir og Marta Sóley Hlynsdóttir og frá 10. bekk þau Hanna Þórey Björnsdóttir, Kolfinna Íris Rúnarsdóttir, Magni Jóhannes Þrastarson og Þráinn Ágúst Arnaldsson.

Formaður nemendaráðs er Daníel Wale og varaformaður Ásthildur Jakobsdóttir, en þau hlutu kosningu s.l. vor.

Við óskum öllum nemendum til hamingju með þessa nýju stjórn og hlökkum til að starfa með henni í vetur.

 

Haustball 10. bekkjar

Félagslífið er að lifna við eftir sumarleyfi og heldur 10. bekkur fyrsta ball skólaársins föstudaginn 2. september. Ballið er haldið í sal skólans frá kl. 20:00 - 23:30 og aðgangseyrir kr. 1.000 sem rennur í ferðasjóð 10. bekkjar.

Bíldudalsbingó

Elfar Logi Hannesson og Jón Sigurður Eyjólfsson. Mynd: visir.is
Elfar Logi Hannesson og Jón Sigurður Eyjólfsson. Mynd: visir.is

Í dag komu þeir félagarnir Elfar Logi Hannesson og Jón Sigurður Eyjólfsson í heimsókn í 4. og 5. bekk. Þeir kynntu þar og lásu upp úr bókinni Bíldudals bingó, sem er uppfull af sprenghlægilegum uppvaxtarsögum þeirra félaga á Bíldudal á níunda áratugnum. Nemendur kunnu vel að meta upplesturinn og þökkum við þeim kærlega fyrir komuna.