VALMYND ×

Jákvæðar niðurstöður PISA-könnunar

Nemendur í grunnskólum Ísafjarðarbæjar voru yfir landsmeðaltali í öllum greinum PISA-könnunarinnar 2015 og yfir OECD-meðaltali í tveimur flokkum af þremur. Sé litið til einstakra sveitarfélaga þar sem niðurstöður hafa verið birtar er Ísafjarðarbær með besta árangur allra í náttúruvísindum og einungis Garðabær betri í stærðfræði og lesskilningi. PISA-rannsóknin er alþjóðleg rannsókn sem framkvæmd er á þriggja ára fresti og metur breytingar á frammistöðu nemenda og stöðu þeirra við lok skyldunáms. Menntamálastofnun birti niðurstöður 8 stærstu sveitarfélaga landsins og var strax kallað eftir upplýsingum um árangur hjá grunnskólum Ísafjarðarbæjar sem hafa nú borist.

Í náttúrufræði voru nemendur í Ísafjarðarbæ með 503 stig, eða heilum 30 stigum yfir landsmeðaltali og 10 stigum yfir OECD-meðaltali. Í stærðfræði skoraði Ísafjarðarbær 507 stig (19 stigum yfir landsmeðaltali og 17 yfir OECD) og 489 í lesskilningi (7 stigum yfir landsmeðaltali, 4 stigum undir OECD).

Það sem kannski mestu máli skiptir er að nemendur í Ísafjarðarbæ bæta sig umtalsvert í öllum flokkum milli áranna 2012 og 2015 eins og sést í meðfylgjandi töflu. Í kjölfar dapra niðurstaðna 2012 var ráðist í umtalsverða vinnu sem hafði það einfalda markmið að bæta námsárangur barna, sjálfmynd þeirra og framtíð. Vel var fylgst með því sem önnur sveitarfélög voru að gera, settar voru upp skimunaráætlanir og lestrar- og stærðfræðiteymi tóku til starfa. Lestrarteymið lagði í heilmikla vinnu og á allra næstu dögum kemur út ný lestrarstefna Ísafjarðarbæjar og stærðfræðistefna er svo væntanleg með vorinu.

Þessa góðu niðurstöðu verður litið á sem hvatningu til frekari dáða, en ekki vísbendingu um að öllum markmiðum sé nú náð. Það er mjög mikilvægt að enginn sofni á verðinum; starfsfólk skólanna, nemendur eða foreldrar, og allir verða að muna að næg vinna er framundan.

Deila