VALMYND ×

Fréttir

Skólanum færð gjöf

Arndís Baldursdóttir færir Sveinfríði Olgu Veturliðadóttur skólastjóra gjöfina, fyrir hönd árgangs 1970.
Arndís Baldursdóttir færir Sveinfríði Olgu Veturliðadóttur skólastjóra gjöfina, fyrir hönd árgangs 1970.

Árgangur 1970 kom færandi hendi í skólann nú fyrir helgi og gaf honum 100.000 krónur sem hópurinn átti uppsafnað eftir síðustu afmælismót og var mikil samstaða innan hópsins með þá ráðstöfun. Skólinn þakkar árgangnum kærlega fyrir þessa rausnarlegu gjöf, sem á svo sannarlega eftir að nýtast vel.

Danssýningar

Síðustu daga hafa nemendur 1. - 4. bekkjar sýnt dansfimi sína á danssýningum og hefur foreldrum verið boðið til áhorfs. Þessir krakkar eru virkilega efnilegir og frábært að geta boðið upp á danskennslu í skólanum, en Sigurrós Eva Friðþjófsdóttir hefur kennt af stakri snilld í mörg ár.

Vorverkadagur

Frá vorverkadegi 2015
Frá vorverkadegi 2015

Á morgun er vorverkadagur hjá skólanum í samstarfi við umhverfisdeild bæjarins. Allir árgangar fá þá ákveðið verkefni til úthlutunar, sem stuðlar að bættu umhverfi. Um hádegið býður mötuneytið svo öllum nemendum upp á grillaðar pylsur.

Hreyfivika

Frá og með deginum í dag og til sunnudags er Hreyfivika UMFÍ í gangi og taka HSV og Ísafjarðarbær þátt að venju. Frítt er í allar sundlaugar Ísafjarðarbæjar, farið er í gönguferðir og fjallgöngur, sjósund, kajak, jóga og ýmislegt fleira. Bæjarbúar eru hvattir til að taka þátt og auka hreyfingu þessa viku. Nemendur G.Í. létu ekki sitt eftir liggja í dag, þegar þeir söfnuðust saman úti í porti, héldu boltum á lofti og léku sér með svifdiska (frisbí).

Skólaferðalag 10. bekkjar

Bakkaflöt í Skagafirði
Bakkaflöt í Skagafirði

Í gær hélt 10. bekkur í sitt árlega skólaferðalag og var ferðinni heitið að Bakkaflöt í Skagafirði, líkt og síðustu ár. Næstu daga mun hópurinn njóta þess sem Skagafjörður hefur upp á að bjóða og fara í flúðasiglingar, klettaklifur, kayakferðir, sund og fleira. Heimkoma er áætluð á miðvikudag.

Fundað í Split í Króatíu

Kennarahópurinn sem fundar nú í Split í Króatíu
Kennarahópurinn sem fundar nú í Split í Króatíu

Þessa dagana funda þær Bryndís Bjarnason og Halla Magnadóttir í Split í Króatíu, ásamt öðrum samstarfsþjóðum í Erasmus+ verkefninu. Fjallað er um hvernig skólar geta aðstoðað börn sem hafa annað tungumál, við að læra og aðlagast skólasamfélaginu. Einnig skiptast kennarar á góðum hugmyndum og kennsluaðferðum.

Valgreinar næsta vetur

Í dag fá nemendur unglingastigs valblað fyrir næsta vetur, sem skila á í síðasta lagi þriðjudaginn 24. maí n.k. Hægt er nálgast upplýsingar varðandi valið hér á síðu skólans.

Nemendur 5. - 7. bekkjar fengu einnig í hendur sitt valblað sem þau eiga að fylla út heima ásamt foreldrum og skila til kennara í síðasta lagi 26. maí n.k.

Kveðjukaffi 10. bekkjar

Í dag er síðasti formlegi skóladagur 10. bekkjar og bauð starfsfólk skólans árgangnum í kveðjukaffi af því tilefni. Næstu dagar eru prófdagar hjá krökkunum og n.k. sunnudag fara þeir svo í skólaferðalag norður á Bakkaflöt í Skagafirði.

Þakkardagur vinaliða

Vinaliðar vorannar 2016
Vinaliðar vorannar 2016
1 af 2

Í morgun hittust 4. - 7. bekkur á sal skólans til að þakka vinaliðum vel unnin störf frá áramótum. Að því loknu fóru vinaliðarnir ásamt Árna Heiðari Ívarssyni, umsjónarmanni verkefnisins í bíó. Hópurinn er svo væntanlegur aftur í skólann um hádegisbilið.

Vinaliðaverkefnið hefur verið starfrækt hér við skólann í tvö ár og hefur það gengið vonum framar. Því er ætlað, samhliða góðum eineltisáætlunum, að draga úr einelti og auka vellíðan og samheldni nemenda í skólum. Helstu markmið verkefnisins eru að:

  • stuðla að fjölbreyttari leikjum í frímínútum skólanna
  • leggja grunn sem gerir nemendum kleift að tengjast sterkum vináttuböndum
  • minnka togstreitu milli nemenda og
  • hampa góðum gildum, svo sem vináttu, virðingu og því að allir fá að taka þátt.
Árskóli á Sauðárkróki er móðurskóli verkefnisins en fjölmargir grunnskólar víðs vegar um landið taka nú þátt í verkefninu. Þess má geta að Árskóli fékk á dögunum gilda tilnefningu og þar með viðurkenningu Heimilis og skóla fyrir verkefnið.

Vordagskrá

Nú er vorskipulagið orðið klárt með öllum sínum uppbrotsdögum og námsmati. Ef nemandi er fjarverandi þegar próf er lagt fyrir er meginreglan sú að prófið er ekki lagt fyrir nemandann. Kennari gefur þá einkunn sem miðast við ástundun og verkefnavinnu.

Vorskipulagið er hægt að nálgast hér.