VALMYND ×

Fréttir

Kjaftað um kynlíf

Sigga Dögg kynfræðingur og höfundur bókarinnar Kjaftað um kynlíf mun heimsækja Ísafjörð í næstu viku. Á þriðjudag og miðvikudag mun hún hitta nemendur í 8. - 10. bekk og þriðjudagskvöldið 26. apríl verður foreldrafundur í sal GÍ klukkan 20:00. Nánari uppýsingar má sjá á meðfylgjandi mynd.

Holtaskóli sigraði Skólahreysti

Keppendur G.Í., þau Ívar Tumi Tumason, Einar Torfi Torfason, Dagný Björg Snorradóttir, Daníel Adeleye Wale, Ólöf Einarsdóttir og Guðbjörg Ásta Andradóttir.
Keppendur G.Í., þau Ívar Tumi Tumason, Einar Torfi Torfason, Dagný Björg Snorradóttir, Daníel Adeleye Wale, Ólöf Einarsdóttir og Guðbjörg Ásta Andradóttir.

Í kvöld fóru fram úrslit í Skólahreysti í Laugardalshöll. Tólf lið víðsvegar að af landinu kepptu sín á milli, eftir sigur í sínum riðlum, en upphaflega tóku 104 lið þátt í keppninni. Grunnskólinn á Ísafirði hafnaði í 12. sæti og stóðu krakkarnir sig með miklu sóma. Það fór svo að Holtaskóli í Reykjanesbæ sigraði keppnina, Síðuskóli á Akureyri hafnaði í 2. sæti og Stóru-Vogaskóli í því 3.

 

Kiwanismenn gefa 1. bekkingum hjálma

Undanfarin ár hafa Kiwanishreyfingin og Eimskip gefið nemendum 1. bekkjar hjálma til notkunar á reiðhjólum, hlaupahjólum, línuskautum og hjólabrettum. Yfir 20 þúsund börn hafa notið góðs af þessari gjöf og hafa hjálmarnir nú þegar sannað gildi sitt. Góð samvinna við grunnskóla landsins hefur skipt miklu og er markmiðið að stuðla að bættu öryggi barna í umferðinni, allir fái sinn hjálm og enginn verði útundan. 

Það voru glaðir nemendur í 1. bekk G.Í. sem tóku við þessari rausnarlegu gjöf frá Kiwanisklúbbnum Básum í dag og vonum við að allir verði duglegir að nota hjálmana.

Löng helgi framundan

Í dag vantar um 100 nemendur af 340 nemendum skólans. Margir eru farnir til Akureyrar á Andrésar andar leikana á skíðum, auk þess sem hópur nemenda af unglingastigi fylgir keppendum skólans í Skólahreysti, sem fram fer í Laugardalshöll í kvöld.

Á morgun er sumardagurinn fyrsti og á föstudaginn er vorfrí, þannig að framundan er löng helgi og vonum við að allir njóti vel.

Úrslitakeppni Skólahreysti

Keppendur G.Í. (Mynd: www.skolahreysti.is)
Keppendur G.Í. (Mynd: www.skolahreysti.is)

Í kvöld mun lið Grunnskólans á Ísafirði keppa til úrslita í Skólahreysti, ásamt 11 öðrum skólum víðs vegar að af landinu. Keppnin hefst kl. 20:00 í Laugardalshöll og verður sýnd í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu.

Fyrir hönd G.Í. keppa þau Einar Torfi Torfason, Dagný Björg Snorradóttir, Daníel Adeleye Wale og Ólöf Einarsdóttir. Til vara eru þau Ívar Tumi Tumason og Guðbjörg Ásta Andradóttir. Guðný Stefanía Stefánsdóttir, íþróttakennari, er þjálfari liðsins, en auk hennar er hópur stuðningsmanna með í för. Við óskum keppendum góðs gengis og fylgjumst að sjálfsögðu vel með.

Bókasöfnun

Foreldrafélag Grunnskólans á Ísafirði stendur þessa dagana fyrir bókasöfnun fyrir skólasafn G.Í., í samstarfi við Pennann Eymundsson. Foreldrum og öðrum velunnurum er boðið að kaupa bækur á 20% afslætti dagana 20. - 25. apríl og ánafna bókasafni skólans. Starfsmenn Pennans Eymundssonar sjá svo um að koma þeim til skólans að átakinu loknu. Til að hjálpa til við valið hefur verið gefinn út óskalisti sem liggur frammi í verslun Pennans hér á Ísafirði.

Við hvetjum alla velunnara til að nýta sér þetta tilboð og efla þannig aðgang nemenda að fjölbreyttu lesefni í skólanum.

 

 

 

Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda

Föstudaginn 15. apríl rann út frestur til að skila umsóknum í Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda (NKG) og voru 16 umsóknir sendar frá nemendum í Grunnskólanum á Ísafirði. Nýsköpunarkeppnin er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í 5. 6. og 7. bekk í grunnskóla og mega nemendur senda inn eins margar hugmyndir og þeim sýnist. Í vetur var boðið upp á val í nýsköpun þar sem nemendur þjálfuðu hugmyndavöðvann og spreyttu sig á ýmsum verkefnum tengdum nýsköpun. Einnig voru nemendur hvattir til að senda inn umsókn í keppnina. Öllum nemendum í 5., 6. og 7. bekk gafst þó kostur á að skila inn umsóknum og fá ráðgjöf frá Ólöfu Dómhildi Jóhannsdóttur, myndlistar- og nýsköpunarkennara.

Matsnefnd NKG leggur mat á innsendar umsóknir og velur úr þeim yfir 2000 umsóknir sem berast ár hvert frá yfir 3000 nemendum og fer vandlega yfir hverja og eina, með viðmiðin raunsæi, hagnýti og nýnæmi í huga. Verði nemandi valinn í úrslit er boðið upp á vinnusmiðju til að vinna að hugmyndinni undir leiðsögn. Vinnusmiðjur verða á höfuðborgarsvæðinu en nemendur geta sótt um ferðastyrk. Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu verkefnisins.

Aðstoðarskólastjóri í námsleyfi

Jóna Benediktsdóttir aðstoðarskólastjóri verður í námsleyfi næsta skólaár. Helga S. Snorradóttir kennari mun leysa hana af og verður því aðstoðarskólastjóri skólaárið 2016-2017.

Styrkur til fjölmenningar

Nú nýverið veitti Sprotasjóður Grunnskólanum á Ísafirði styrk til að útfæra verkefnið Þríþraut – fjölmenningarlegt verkefni um sjálfsmynd, menningu og fordóma.

Markmið verkefnisins er að vinna markvisst að bættri stöðu nemenda af erlendum uppruna þannig að sá

nemendahópur hafi sömu tækifæri og aðrir nemendur til náms og í lífinu almennt. Skólinn á að geta skilgreint sig

sem fjölmenningarlegan skóla þar sem kennsluhættir henta jafnt öllum nemendum, að valdastaða foreldra

grunnskólabarna sé jöfn (óháð uppruna) og að bæði nemendur og kennarar séu stolt af því að tilheyra

fjölmenningarlegu skólasamfélagi og líti á það sem styrkleika skólans. Markmið verkefnisins er einnig að

vinna markvisst gegn fordómum þannig að allir í skólasamfélaginu hafi tök á að blómstra, óháð sérstöðu

sinni.

Verkefnið verður unnið skólaárið 2016-2017.

Fréttabréf í apríl

Nýtt fréttabréf er komið út og hvetjum við alla til að lesa það og fylgjast þannig með því sem gerist utan hinna hefðbundnu starfa í skólanum.