VALMYND ×

Fréttir

Umferðaröryggi

Nú er daginn tekið að lengja og þá vex umferð barna í umferðinni, bæði við leik og á leið til og frá skóla. Því er við hæfi að rifja upp nokkur atriði varðandi umferðaröryggi sem gott er að hafa í huga. Umferðarfræðsla í grunnskólum ber mestan árangur þar sem gott samstarf við heimili nemenda næst. Hlutverk heimilanna í umferðarfræðslu og forvörnum er mikilvægt því þar er mótunin sterkust.

Samgöngustofa hvetur foreldra til að nýta góða veðrið og ganga eða hjóla í skólann með börnunum sínum svo fækka megi bílum sem aka að skólanum á morgnana. Að vera börnum sínum góð fyrirmynd í umferðinni er öflugasta fræðslan ásamt því að kenna þeim um lög og reglur sem eru í gildi.

Núna fara fleiri nemendur að koma á reiðhjólum í skólann. Gæta þarf að því að öryggisbúnaður þeirra sé í lagi sem og notkun reiðhjólahjálma. Á þessari síðu er hægt að skoða fræðslumyndbönd um hjólreiðar  og í þessum ágæta bæklingi er m.a. hægt að fræðast um atriði sem hafa ber í huga varðandi hjólreiðahjálma.

Á náms- og fræðsluvefnum www.umferd.is er svæði ætlað foreldrum/forráðamönnum. Hugmyndin er að leita eftir samstarfi við foreldra um leiðir sem þeir telja að komi sér vel í umferðarfræðslunni. 

   

Athygli er vakin á að:

 

  • samkvæmt 40. gr. umferðarlaga mega börn yngri en 7 ára ekki vera hjólandi í umferðinni nema í fylgd með 15 ára og eldri.

 

  • eigi má reiða farþega á reiðhjóli eða rafvespu. Þó má vanur reiðhjólamaður sem náð hefur 15 ára aldri reiða barn yngra en 7 ára en ber þó að nota viðeigandi öryggissæti og búnað.

 

  • best er að nota hjálm, það er eina vitið. Börnum yngri en 15 ára er skylt að nota reiðhjólahjálma og viðeigandi hlífðarbúnað þegar þau ferðast um á reiðhjólum, rafvespum, hjólabrettum og línuskautum.

 

Þjónusta talmeinafræðings

Ísafjarðarbær hefur gert samning við talmeinafræðinginn Dagnýju Annasdóttur og  kemur hún reglulega til Ísafjarðar og þjónustar börn í leik- og grunnskólum.  Dagný sér bæði um greiningar á vanda og þjálfun, auk þess sem hún mun leiðbeina foreldrum og kennurum um atriði sem hægt er að þjálfa með börnum sem glíma við málþroska eða framburðarvanda.

 

Dagur barnabókarinnar

Á hverju ári standa alþjóðasamtök IBBY fyrir degi barnabókarinnar – tilefni sem er nýtt til þess að vekja athygli á bókum handa börnum og bóklestri barna.   Íslandsdeild samtakanna heldur sem fyrr upp á daginn með því að færa öllum grunnskólanemum landsins smásögu að gjöf. IBBY á Íslandi bað í fyrra þær Birgittu Elínu Hassell og Ísfirðinginn Mörtu Hlín Magnadóttur um að skrifa sögu til að fagna degi barnabókarinnar. Sagan er nú tilbúin og verður flutt á Rás 1 þriðjudaginn 5. apríl kl. 9:10.

IBBY á Íslandi eru frjáls félagasamtök áhugamanna um barnabókmenntir og barnamenningu á Íslandi. Markmið samtakanna er að efla þessar greinar með umfjöllun, útgáfustarfsemi og viðurkenningum.

Fyrirlestur um tölvufíkn

Menntaskólinn á Ísafirði, Grunnskólinn á Ísafirði og foreldrafélög beggja skólanna bjóða foreldrum og forráðamönnum á fyrirlestur Þorsteins Kristjáns Jóhannssonar um tölvufíkn, þriðjudagskvöldið 5. apríl n.k. Þorsteinn er kennari og hefur sjálfur glímt við tölvufíkn. Hann heldur úti vefsíðunni www.tolvufikn.is en síðan er hönnuð til að hjálpa foreldrum barna í tölvuuppeldi, aðstoða tölvufíkla til að takast á við fíknina og fræða almennt um tölvufíkn. Á fyrirlestrinum er farið lauslega yfir helstu einkenni tölvufíknar og skoðað hverjir eru líklegir til þess að þróað með sér slíka fíkn. Einnig er farið í ýmsar ráðleggingar fyrir tölvufíkla og aðstandendur þeirra. Nemendur MÍ og nemendur á unglingastigi GÍ munu daginn eftir fara á fyrirlestur með Þorsteini. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrarsal Menntaskólans á Ísafirði og hefst kl. 20:00. Allir velkomnir.

Börnin fyrst og fremst

Í gær veitti Kiwanisklúbburinn Básar á Ísafirði skólanum styrk að upphæð kr. 100 þúsund til bókakaupa. Klúbburinn er 40 ára um þessar mundir og styrkti hann af því tilefni ýmsar stofnanir og félagasamtök, um samtals eina milljón króna.  Yfirskrift verkefnisins er ,,Börnin fyrst og fremst“ og kemur þessi styrkur sér svo sannarlega vel fyrir skólann.

Blár föstudagur

Blár apríl, árlegt styrktar- og vitundarátak styrktarfélags barna með einhverfu, hefst á Alþjóðlegum degi einhverfunnar, laugardaginn 2. apríl. Af því tilefni hvetjum við alla til að klæðast bláu föstudaginn 1. apríl og vekja þannig athygli á málefnum einhverfra barna en blái liturinn hefur fest sig í sessi um allan heim sem litur einhverfunnar. 

 „Blár er alþjóðlegur litur einhverfu. Rétt eins og blæbrigði bláa litarins eru birtingarmyndir einhverfu óteljandi því hver einstaklingur hefur sinn stað á rófinu með öllum þeim áskorunum sem einhverfu fylgja," segir á Facebook síðu Styrktarfélags barna með einhverfu.

Árshátíðarsýningum lokið

Nú er lokið 5 árshátíðarsýningum og eru allir í skýjunum yfir útkomunni. Yfirskriftin þetta árið var Sjónvarp í 50 ár og var einstaklega gaman að sjá mismunandi útfærslur árganga. Flestallir nemendur skólans stigu á svið eða komu að tæknimálum og er alveg einstakt að upplifa stemninguna sem ríkir þessa daga. Nám er svo mikið meira en lestur og stærðfræði og reynir virkilega á alla þætti þessa daga.

Við erum mjög stolt af krökkunum okkar og förum öll glöð inn í páskaleyfið sem hefst eftir morgundaginn. Á morgun, föstudag, er kennt samkvæmt stundaskrá, en 7. - 10. bekkur mætir kl. 9:40 í skólann. Kennsla hefst að páskaleyfi loknu þriðjudaginn 29. mars og vonum við að allir njóti þess vel. Gleðilega páska!

Nemendaverkefni kynnt í Þýskalandi

Þessa dagana fundar Erasmus+ hópurinn í Lüdenscheid í Þýskalandi.  Í dag voru kynningar á Sad and glorious moments in my country og sýndu fulltrúar G.Í., þær Guðbjörg Halla Magnadóttir og Helga Björt Möller, myndband sem nemendur í 6. og 8. bekk unnu fyrir verkefnið. Einnig verður farið yfir greiningar á námsárangri nemenda í 5. -9. bekk í íslensku og stærðfræði til að skoða dreifingu á námsárangri nemenda. Tilgangur verkefnisins er að skoða stöðu tvítyngdra nemenda og hvernig nýjar kennsluaðferðir geta gagnast sem best til að einstaklingsmiða nám. Allar kynningar verður hægt að nálgast á heimasíðu verkefnisins. 

Verkefni þetta hófst í fyrrahaust þegar skólinn skráði sig í eTwinning (rafrænt skólastarf) á vegum Erasmus+ sem er styrkjaáætlun ESB á sviði menntamála, æskulýðsstarfs og íþrótta. Eitt markmiða Erasmus+ er að auka gæði í menntun og þjálfun innan þeirra 34 Evrópulanda sem eiga aðild að áætluninni og stuðla að aukinni Evrópuvídd í menntastarfi. Þátttakendur í þetta skiptið eru auk Íslands; Króatía, Þýskaland, Lettland, Portúgal og Kýpur.

Árshátíð skólans

Nú er undirbúningur í hámarki fyrir árshátíð skólans sem verður dagana 16. og 17. mars næstkomandi. Yfirskriftin að þessu sinni er Sjónvarp í 50 ár. Fyrirkomulag sýninga er með sama sniði og í fyrra.

1. sýning – miðvikudagur 16. mars kl. 17:00

Flytjendur: 1. – 7. bekkur.  Áhorfendur:  Nemendur í 1. og 2. bekk og foreldrar/gestir þeirra.

2. sýning – miðvikudagur 16. mars kl. 20:00

Flytjendur: 5.–10. bekkur. Áhorfendur: Nemendur í 5.–7. bekk og foreldrar/gestir þeirra.

3. sýningfimmtudagur 17. mars kl. 9:00

Flytjendur: 1.-4.bekkur. Áhorfendur: Tveir elstu árgangar leikskólanna, ásamt 8. og 10. bekk.

4. sýning – fimmtudaginn 17. mars kl. 17:00

Flytjendur: 1.-7.bekkur. Áhorfendur: Nemendur í 3. og 4. bekk og foreldrar/gestir þeirra.

5. sýning – fimmtudaginn 17. mars kl. 20:00

Flytjendur: 7.–10. bekkur. Áhorfendur: Nemendur í 8.–10. bekk og foreldrar/gestir þeirra.

Gert er ráð fyrir að nemendur í 1.-2. bekk mæti kl. 16:00 báða dagana og þeir sem eru í dægradvöl komi beint í skólann eftir að dægradvöl lýkur.  Nemendur í 3.-7.bekk mæta kl. 16:30.

Erfitt er að áætla lengd hverrar skemmtunar en í ljósi reynslunnar má gera  ráð fyrir 1 til 1½ klst.   

Athugið:

  • Þar sem húsrými er takmarkað eru allir beðnir um að virða óskir um það hverjir mæta á hvaða sýningar.  Mikilvægt er að mæta tímanlega svo hægt sé að hefja sýningu á tilsettum tíma og sitja skemmtunina til enda til að forðast truflanir og óþægindi.
  • Aðgangseyrir á árshátíðarsýningu er 1000 kr.  Nemendur og starfsfólk GÍ svo og þeir sem eru 67 ára eða eldri greiða ekki aðgangseyri.  Fólk borgar aðeins inn á eina sýningu, þeir sem sækja fleiri sýningar (þ.e. eiga fleiri en eitt barn í skólanum) sýna fyrri aðgöngumiða við innganginn.  Hagnaður af sýningum rennur í ferðasjóð 7. bk. vegna skólabúða.
  • Ekki  er tekið við kortum.
  • Mötuneytið verður opið báða árshátíðardagana.

Nýtt útlit heimasíðu

Eins og allir taka eftir, þá hefur heimasíða skólans fengið nýtt útlit. Þetta er gert til að síðan verði aðgengilegri og hafa starfsmenn Snerpu haft veg og vanda að uppfærslunni. Von okkar er sú að þessi breyting reynist vel en allar ábendingar eru vel þegnar.