VALMYND ×

Fréttir

Nýtt fréttabréf

Fréttabréf nóvembermánaðar er nú komið út og er hægt að nálgast það hér. Þar er stiklað á stóru í skólastarfinu, enda mikið um að vera síðustu vikurnar s.s. læsisátak, þemadagar, bókasafnsheimsóknir, bekkjarsáttmálar, vinaliðaverkefni o.fl.

Dagur íslenskrar tungu

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir setur Litlu og Stóru upplestrarkeppnirnar
Sveinfríður Olga Veturliðadóttir setur Litlu og Stóru upplestrarkeppnirnar
1 af 9

Í dag er Dagur íslenskrar tungu og var hann haldinn hátíðlegur með ýmsum hætti hér í skólanum. Í Hömrum var setningarhátíð Litlu og Stóru upplestrarkeppnanna, sem ætlaðar eru nemendum 4. og 7. bekkjar. Allir nemendur þessara árganga taka þátt og æfa framsögn af kappi næstu vikur og mánuði. Nemendur 4. bekkjar munu svo bjóða foreldrum til upplestrarhátíðar sem nefnist Litla upplestrarkeppnin. Í mars verður svo lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar hjá 7. bekk, en þangað komast þeir sem standa sig best í framsögn.

Það verður gaman að fylgjast með þessum krökkum næstu misserin og sjá framfarirnar hjá þeim.

Sungið inn í helgina

Í dag var samsöngur hjá 4. - 6. bekk eins og flesta aðra föstudaga, en 1. - 3. bekkur gerir slíkt hið sama á fimmtudögum. Það var mikil gleði í söngnum í dag eins og sjá má og heyra á meðfylgjandi myndbandi.

Við óskum öllum góðrar helgar með þessum skemmtilegu tónum.

Spjaldtölvuvæðingin heldur áfram

Nemendur 7. bekkjar með spjaldtölvurnar
Nemendur 7. bekkjar með spjaldtölvurnar

Í dag er mikil gleði hjá 7. bekk, en nemendur hafa nú fengið iPad spjaldtölvur til afnota. Nemendur í 6. - 10. bekk skólans eru því allir komnir með spjaldtölvur í námi, auk þess sem nokkur tæki eru til í öllum yngri árgöngum.

Spjaldtölvurnar gefa mikla möguleika til fjölbreyttra kennsluhátta og hafa reynst afar vel það sem af er, en þetta er annað skólaárið sem skólinn hefur afnot af slíkum tækjum.

Foreldraviðtöl

Á morgun, miðvikudaginn 11. nóvember, eru foreldraviðtöl hér í skólanum. Nemendur mæta þá til sinna umsjónarkennara ásamt foreldrum og fellur öll kennsla niður.

Norræn bókasafnsvika

Í dag hófst norræn bókasafnsvika og er yfirskrift hennar þetta árið Vinátta á Norðurlöndunum. Skólasafnið bauð nemendum í heimsókn í morgun og las Rannveig Halldórsdóttir bókavörður kafla úr bókinni Vöffluhjarta eftir Maria Parr. Nemendur kunnu vel að meta boðið og hlýddu af áhuga og áttu notalega stund saman.

Frá fjölmiðlahóp þemadaganna

Við tókum  að okkur að undirbúa þemadagana.    Tveir  nemendur úr fimmta til tíunda bekk voru valdir, einn strákur og ein stelpa. Við fundum nafnið Þjöppum okkur saman og markmiðið er að vinna með hópefli og þjappa nemendum og starfsfólki meira saman.   Stjórnendurnir voru Kristín og Monica. 

Í þemadagaundirbúningsnefndinni voru: Egill, Hrafnhildur Una, Þráinn, Ásthildur, Kolfinna, Guðrún Ósk, Birna, Lilja, Arnar, Anja, Arnór og Helgi Ingimar. Á myndina vantar: Hrafnhildi Unu, Önju og Kolfinnu og Helga Ingimar.                                                                   

                                                           

Þemadagar

Á morgun og föstudaginn eru þemadagar hér í skólanum undir yfirskriftinni Þjöppum okkur saman. Öllum nemendum skólans er skipt í 13 hópa og eru þá 24-25 nemendur í hverjum hópi, þvert á árganga og blandast nemendur því mjög vel í hópunum. Áhersla er lögð á að eldri nemendur aðstoði þá yngri og að hver og einn hópur fylgist að þessa tvo daga.

Útbúnar hafa verið 13 stöðvar og fær hver hópur hálftíma á hverri þeirra. Í boði er myndlist, tónlist, morðgátur, ,,minute to win it", íþróttaleikir, ratleikur, leiklist, tæknilegó, dans, heimilisfræði, tilraunir, leikir og samsaumur, þannig að fjölbreytnin er mikil.

Formlegur skóladagur er frá kl. 8:00 - 12:35 á fimmtudegi og frá kl. 8:00 - 13:00 á föstudegi og gengur strætó strax að skóla loknum. Nemendur þurfa ekki að koma með skólatöskur þessa daga, eingöngu nesti í bakpoka.

Fatasöfnun

Þessa dagana stendur yfir fatasöfnun fyrir flóttafólk á Lesbos. Hægt er að koma með föt í söfnunina frá og með deginum í dag og fram á fimmtudag, 5. nóvember, til kl. 15:30. Óskað er sérstaklega eftir flís og ullarfatnaði, hlýjum teppum, sokkum, húfum og vettlingum, svefnpokum, karlmanns og kvenmanns skóm og almennt hlýjum fatnaði fyrir börn 10-14 ára og fyrir fullorðna.

Hægt að skila inn í söfnunina í anddyri Grunnskólans á Ísafirði, Hafraholti 10 og Aðalstræti 33. Athugið að hægt er að skilja fötin eftir í regnheldum pokum á þessum stöðum.

Nánari upplýsingar má nálgast hér á Facebook síðu verkefnisins.

 

Læsisátak

Eitt af markmiðum ráðherra menntamála er að bæta læsi íslenskra ungmenna, í samræmi við markmið sem sett eru fram í Hvítbók menntamála. Til að það markmið geti náðst hafa læsisráðgjafar verið ráðnir við Menntamálastofnun.  Tveir af ráðgjöfunum eru væntanlegir til Ísafjarðar í næstu viku og funda þeir meðal annars með kennurum og  stjórnendum grunnskóla. Þessir ráðgjafar ætla einnig að kynna læsisátakið fyrir foreldrum í sal G.Í. þriðjudaginn 3. nóvember kl. 17 og hvetjum við alla til að mæta.