VALMYND ×

Fréttir

Útivistardagur

Stefnt er að útivistardegi í Tungudal  föstudaginn 26. febrúar fyrir nemendur í 5.-10. bekk. Gert er ráð fyrir að nemendur verði á skíðasvæðinu frá  kl. 9:00-13:00. 

Farið er þess á leit við foreldra að þeir keyri börn sín á skíðasvæðið og sæki þau aftur.  Við vitum að ekki eiga allir foreldrar auðvelt með það og því bjóðum við upp á eina ferð fyrir nemendur sem ekki eiga annarra kosta völ.  Ferð frá skóla verður kl. 8:45 og heim aftur frá skíðasvæðinu kl 13:00.

Á skíðasvæðinu er hægt að leigja skíði og kostar það um 1500 kr.  Þeir nemendur sem ekki fara á skíði geta haft með sér sleða og þotur.

Ekkert gjald verður tekið í lyfturnar. Mötuneytið mun sjá um hádegishressingu fyrir þá nemendur sem eru í áskrift í mötuneytinu.  Aðrir þurfa að koma með nesti að heiman.

Nemendur eru hvattir til að koma með hjálma og þeir nemendur sem ekki eiga hjálma geta fengið þá lánaða á staðnum (það má nota reiðhjólahjálma).

Foreldrar eru alltaf velkomnir með í útivistarferðir skólans og skíðandi foreldrar vel þegnir. Það spáir vel fyrir föstudaginn og vonandi munum við njóta dagsins sem best.

Fréttabréf

Út er komið nýtt fréttabréf skólans, en þar er m.a. fjallað um breytta heimanámsstefnu og málþing um jafnrétti sem haldið var í skólanum í gær.

Jafnréttisþing

Á morgun, fimmtudaginn 18. febrúar, verður blásið til jafnréttisþings hér í skólanum. Þátttakendur eru allir nemendur í 6. - 10. bekk og verður þeim skipt í hópa þvert á árganga. Elstu nemendur skólans stýra umræðum í sínum hópum og hafa þeir fengið sérstakar leiðbeiningar og þjálfun varðandi þann þátt. 

Bergljót Þrastardóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, mun verða með innlegg í upphafi þingsins og leiða nemendur af stað. Hóparnir munu fjalla um það hvað nemendur, starfsfólk og foreldrar geta gert til að auka jafnrétti í skólanum, heima og jafnvel víðar. Þingið stendur frá kl. 8:00 - 11:00 og verður virkilega spennandi að sjá niðurstöður.

Foreldradagur

Á morgun, miðvikudaginn 17. febrúar er foreldradagur hér í skólanum. Nemendur mæta þá til sinna umsjónarkennara ásamt foreldrum í stutt spjall. 

 

Strætóferðir

Ferðir strætisvagna hefjast kl. 14:00 og ættu nemendur því að geta nýtt sér ferðir þeirra heim eftir skóla.

Íþróttir á Torfnesi

Það verða ekki íþróttir á Torfnesi í dag.  Nemendur í 8. bekk eiga að mæta beint í skólann.

Ferðir strætisvagna

Ferðir strætisvangna falla niður í dag vegna mikillar hálku og hvassviðris.

 

Skráningar í foreldraviðtöl

Í gær fengu nemendur vitnisburði haustannar og vonum við að allir hafi náð sínum markmiðum sem þeir settu sér á haustdögum.

Miðvikudaginn 17. febrúar verða foreldraviðtöl hér í skólanum og engin kennsla. Í dag er opnað fyrir skráningar viðtala í mentor og geta foreldrar því valið sér sjálfir þann tíma sem hentar best.

Vinningshafi í eldvarnagetraun

Hlynur Kristjánsson, Dagur Atli Guðmundsson og Hermann Hermannsson
Hlynur Kristjánsson, Dagur Atli Guðmundsson og Hermann Hermannsson

Í desember komu þeir Hlynur Kristjánsson og Hermann Hermannsson frá slökkviliði Ísafjarðbæjar í heimsókn í 3. bekk til að uppfræða nemendur um eldvarnir í tilefni af eldvarnaviku. Við það tækifæri fengu allir nemendur bekkjarins að taka þátt í eldvarnagetraun.  Það er hefð að afhenda svo vinninga til vinningshafa getraunarinnar á 1-1-2 daginn og komu þeir félagar í dag með verðlaun fyrir einn nemanda bekkjarins og var það Dagur Atli Guðmundsson sem var svona heppinn. Að launum fékk hann viðurkenningarskjal, reykskynjara og tíuþúsund krónur.  Við óskum honum innilega til hamingju með vinninginn.

Rósaball í kvöld

10. bekkur stendur fyrir hinu árlega Rósaballi í kvöld í sal skólans og stendur gleðin frá kl. 20:00 - 23:30. Aðgangseyrir er kr. 1.000 fyrir einstaklinga en kr. 1.500 fyrir pör, sem mega að sjálfsögðu vera af sama kyni.