VALMYND ×

Fréttir

G.Í. í úrslit Skólahreysti

Frá vinstri: Ívar Tumi Tumason, Einar Torfi Torfason, Dagný Björg Snorradóttir, Daníel Wale Adeleye, Ólöf Einarsdóttir og Guðbjörg Ásta Andradóttir.
Frá vinstri: Ívar Tumi Tumason, Einar Torfi Torfason, Dagný Björg Snorradóttir, Daníel Wale Adeleye, Ólöf Einarsdóttir og Guðbjörg Ásta Andradóttir.

Grunnskólinn á Ísafirði sigraði í dag Vestfjarðariðilinn í Skólahreysti. Með sigri tryggði liðið sér sæti í úrslitunum, sem fara fram í næsta mánuði. Í öðru sæti varð Grunnskóli Vesturbyggðar og Grunnskóli Bolungarvíkur í því þriðja. Við óskum okkar fólki innilega til hamingju og erum virkilega stolt af þeim.

Opið hús í Menntaskólanum

Á morgun, fimmtudaginn 10. mars frá kl. 17:30-19:00, verður opið hús í Menntaskólanum á Ísafirði. Markmið opna hússins er að kynna starfsemi skólans fyrir nemendum í 10. bekk á norðanverðum Vestfjörðum og forráðamönnum þeirra sem og öðrum sem hafa hug á að kynna sér starfsemi skólans.


Meira

Riðlakeppni Skólahreysti

Grunnskólinn á Ísafirði keppir í Vestfjarða- og Vesturlandsriðli Skólahreysti, miðvikudaginn 9. mars kl. 13:00, í Mýrinni í Garðabæ. Fyrir hönd G.Í. keppa þau Einar Torfi Torfason og Ólöf Einarsdóttir í hraðabraut, Dagný Björg Snorradóttir í armbeygjum og hreystigreip, og Daníel Wale Adeleye í upphífingum og dýfum. Til vara verða þau Guðbjörg Ásta Andradóttir og Ívar Tumi Tumason.

Við óskum okkar fólki góðs gengis og hlökkum til að fylgjast með þeim. 

Úrslit Stóru upplestrarkeppninnar

Frá vinstri: Sveinbjörn Orri Heimisson, Rósbjörg Edda Rúnarsdóttir, Sigrún Jóhannsdóttir og Björk Einisdóttir, formaður dómnefndar.
Frá vinstri: Sveinbjörn Orri Heimisson, Rósbjörg Edda Rúnarsdóttir, Sigrún Jóhannsdóttir og Björk Einisdóttir, formaður dómnefndar.
1 af 3

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Hömrum í gærkvöldi. Á hátíðinni lásu 10 nemendur úr 7. bekk, brot úr sögu eftir Bryndísi Björgvinsdóttir og ljóð  eftir Guðmund Böðvarsson. Fulltrúar okkar voru þau Helena Haraldsdóttir, Júlíana Lind Jóhannsdóttir, Rakel Damilola Adeleye, Rósbjörg Edda Rúnarsdóttir og Sveinbjörn Orri Heimisson, auk þess sem tríó úr 7. bekk G.Í. lék eitt lag.


Meira

Vertu næs

Nemendur 8. - 10. bekkjar var boðið á fræðsluerindið
Nemendur 8. - 10. bekkjar var boðið á fræðsluerindið
1 af 2

Í morgun hélt Rauði krossinn fræðsluerindi fyrir 8. - 10. bekk í Hömrum, undir yfirskriftinni (V)ertu næs?  - fjölbreytileiki og fordómar.  Fræðslan var létt og skemmtileg, um annars alvarlegt efni, sem þau Anna Lára Steindal og Juan Camilo stýrðu.

Í erindinu hvetur Rauði krossinn landsmenn til þess að bera virðingu fyrir náunganum, sama hvaðan hann er upprunninn.  Á Íslandi búa 320.000 manns og þar af eru um 10% af erlendum uppruna, eða um þrjátíu þúsund einstaklingar. Borið hefur á því að fólki sé mismunað eftir þjóðerni og getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagið allt.

Leynast fordómar gagnvart innflytjendum í okkar litla samfélagi? Höfum við undirbúið jarðveginn þannig að fjölbreytileikinn dafni, og allir fái að njóta sín jafnt? Leitast var við að svara ofangreindum spurningum, enda er þetta mál sem kemur okkur öllum við og krefst þess að við lítum öll í eigin barm og athugum hvort við getum gert betur.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fer fran í Hömrum, sal Tónlistarskólans á Ísafirði fimmtudaginn 3. mars kl. 20:00.

Á hátíðinni munu 11 nemendur úr 7. bekk, þ.e. 1 frá Flateyri, 1 frá Þingeyri, 1 frá Suðureyri, 3 frá Bolungarvík og 5 frá Ísafirði, lesa brot úr sögu eftir Bryndísi Björgvinsdóttir og ljóð  eftir Guðmund Böðvarsson. Fulltrúar okkar verða þau Helena Haraldsdóttir, Júlíana Lind Jóhannsdóttir, Rakel Damilola Adeleye, Rósbjörg Edda Rúnarsdóttir og Sveinbjörn Orri Heimisson. Dómnefnd mun velja þrjá bestu upplesarana og veita  þeim verðlaun. Ungir hljóðfæraleikarar munu leika fyrir gesti á milli atriða.   Áætlað er að athöfnin standi í tvær klukkustundir.

Gestir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Lestrarátaki Ævars lokið

Nú er lestrarátaki Ævars vísindamanns lokið þetta árið, en átakið var tilraun til þess að kveikja áhuga barna í 1. – 7. bekk í grunnskólum landsins á lestri. Átakið stóð frá 1. janúar til 1. mars 2016 og er hugarfóstur Ævars Þórs Benediktssonar leikara, rithöfundar og dagskrárgerðarmanns.

Þátttakendur í átakinu lásu og kvittuðu fyrir hverja bók á sérstakan miða.  Miðunum var svo safnað saman á bókasafni skólans, en voru sendir til Heimilis og skóla í gær.  Ævar mun svo draga út nöfn fimm barna og fá þau í verðlaun að verða persónur í nýrri ævintýrabók sem hann er að skrifa (Bernskubrek Ævars vísindamanns 2: Árás vélmennakennaranna) sem kemur út með vorinu hjá Forlaginu – svo það er til mikils að vinna. Nú er bara að vona að nöfn einhverra nemenda skólans verði dregin út.

Nýsköpunarkeppni grunnskólanna

Grunnskólinn á Ísafirði stefnir á þátttöku í nýsköpunarkeppni grunnskólanna 2016. Öllum nemendum í 5. - 7. bekk býðst að taka þátt í keppninni. Umsóknareyðublöð má nálgast á vefsíðu keppninnar  eða hjá Ólöfu Dómhildi Jóhannsdóttur, myndmenntakennara. Við hvetjum alla nemendur til að leggja höfuðið í bleyti, vanda vinnubrögðin og taka þátt.

Skilafrestur umsókna er 11. apríl 2016 og er Ólöf Dómhildur til ráðgjafar fyrir áhugasama.

Allt í köku

Auður Líf Benediktsdóttir
Auður Líf Benediktsdóttir
1 af 10

Þær voru glæsilegar terturnar sem sumir nemendur tóku með sér heim s.l. fimmtudag. Nokkur hópur nemenda hefur verið í valgreininni Allt í köku hjá Guðlaugu Jónsdóttur, heimilisfræðikennara. Meðal verkefna þar er bakstur og sykurmassagerð og var afraksturinn svo sannarlega glæsilegur, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.  

Góður dagur í Tungudal

1 af 2

Útivistardagurinn í Tungudal s.l. föstudag gekk mjög vel, ef frá er talið eitt beinbrot. Veðrið var eins og best var á kosið og ágætis færi. Nemendur 5. - 10. bekkjar nutu þess að renna sér á skíðum, brettum, sleðum, þotum og ruslapokum. 

Í dag er hinsvegar allt með hefðbundnum hætti hér í skólanum og allir farnir að huga að árshátíð sem haldin verður 16. og 17. mars n.k.