VALMYND ×

Fréttir

Jólasýning Safnahússins

Björn Baldursson og Jóna Símonía Bjarnadóttir lesa fyrir nemendur og fræða þá um gamlar jólahefðir.
Björn Baldursson og Jóna Símonía Bjarnadóttir lesa fyrir nemendur og fræða þá um gamlar jólahefðir.

Árleg jólasýning Safnahússins stendur nú yfir, þar sem fjallað er um jólavætti. Umgjörð sýningarinnar var hönnuð af listamanninum Ómari Smára Kristinssyni. 

Þegar skammdegið er svartast eru ýmsar vættir á ferð sem ekki vilja sjást. Tröll, huldufólk, jólasveinar og jólakötturinn eru meðal þeirra en áður og fyrr þótti bæði tröllum og jólakettinum gott að fá mannakjöt í jólamatinn. Skammdegisvættirnar eru ævafornar, Grýla er t.d. nefnd í Snorra-Eddu þó ekki sé hún kennd við jól fyrr en á 17. öld. Jólasveinarnir hafa sýnt ótrúlega aðlögunarhæfni en þeir hafa á sinni löngu ævi breyst úr illum vættum í ljúfa karla sem gleðja börnin á aðventunni. 

Nemendum skólans er boðið á sýninguna og hópast bekkirnir nú þessa dagana, enda alveg sérstakur andi í þessu góða húsi og umgjörðin alveg einstök.

Dagur myndlistar

Mynd: www.gunnarjonsson.net
Mynd: www.gunnarjonsson.net

Í tilefni af Degi myndlistar sem haldinn var hátíðlegur 30. október s.l., bauð Samband íslenskra myndlistarmanna skólum upp á kynningu á starfi myndlistarmannsins, sjötta árið í röð. Kynningarnar veita ungu fólki innsýn í það viðamikla starf sem felst í því að vera myndlistarmaður og bæta þannig grunnþekkingu á faginu.

Í fyrra fékk Grunnskólinn á Ísafirði Solveigu Eddu Vilhjálmsdóttur í heimsókn, en í ár var það Gunnar Jónsson listamaður sem kynnti starf sitt fyrir nemendum í myndlistavali á unglingastigi og nemendum í 6. bekk. Gunnar sýndi myndir af verkum sínum og ræddi við nemendur um myndlist. 

Skóli í dag

Skólinn verður opinn í dag, en ferðir strætó falla niður til hádegis.

 

Nú höfum við fengið upplýsingar um að strætó byrjar að ganga kl. 15:00.

Upplýsingasími hjá strætó er 8781012.

 

Óveður í aðsigi

Ísafjarðarbær hefur gefið út viðmið um hvenær loka eigi stofnunum vegna  óveðurs. Þar kemur m.a. fram að stofnunum bæjarins sé ekki lokað nema algjöra nauðsyn beri til og getur forstöðumaður lokað stofnun af einni eða fleirum af eftirtöldum ástæðum:

  • Tilmæli frá almannavörnum eða lögreglu
  • Rafmagnsleysi kemur í veg fyrir að hægt sé að halda stofnuninni opinni
  • Ófærð er svo almenn að ekki næst að kalla til lágmarksfjölda starfsmanna til að halda a.m.k. skertri þjónustu

 

Foreldrar eru hvattir til að fylgjast með veðurspám og fréttum af veðri.  Skóla verður ekki aflýst nema tilmæli  komi frá Almannavörnum eða lögreglu. Komi ekki tilmæli frá Almannavörnum eða lögreglu verða foreldrar að meta hvort óhætt sé að börn þeirra sæki skóla. Ef foreldrar hafa börn sín heima  þá skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll. Hið sama gildir ef foreld­rar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa.

Strætisvagnar Ísafjarðarbæjar hafa tekið í notkun talhólfsnúmer, 8781012,  þar sem fram kemur hvort og þá hvaða ferðir falla niður. 

Foreldrar eru einnig hvattir til að fylgjast vel með  á heimasíðu almannavarna.

Bakarar framtíðarinnar

Þau eru aldeilis glæsileg piparkökuhúsin sem krakkarnir í heimilisfræðivali hafa verið að nostra við. Í dag var verkið fullkomnað eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og mega krakkarnir aldeilis vera stoltir af þessum meistaraverkum.

Laufabrauðsgerð

Nokkrir nemendur við laufabrauðsgerðina.
Nokkrir nemendur við laufabrauðsgerðina.

Á fimmtudaginn var laufabrauðsgerð hjá unglingum í heimilisfræðivali. Laufabrauðið var gert alveg frá grunni, undir styrkri stjórn Guðlaugar Jónsdóttur, kennara. Piparkökuhúsin eru einnig í vinnslu og verður gaman að sjá þegar þau verða fullunnin.

Lokasýning

Í kvöld er lokasýning leiklistarvals skólans á leikritinu Ársæll Veru- og Friðfinnsson & hið fjarstæðukennda mál, eftir Michael Maxwell, í þýðingu og leikstjórn Hörpu Henrysdóttur. 

Sýningin hefst kl. 20:00 í sal skólans og er aðgangseyrir kr. 1.000, en ágóði rennur í sérstakan sjóð sem ætlaður er til að endurnýja tæki og tól sem nýtast við sviðslistir í skólanum. 

 

 

Fullveldisdagurinn - opinn dagur

Á morgun er fullveldisdagurinn, 1. desember. Þann dag árið 1918 tóku sambandslögin gildi, en samkvæmt þeim varð þjóðin fullvalda. Í tilefni dagsins hefur sú hefð skapast hér í skólanum að unglingar og starfsfólk klæðist ,,betri" fötum. Yngri nemendum er einnig frjálst að taka þátt í þessari hefð ef þeir kjósa svo.

Þennan dag er venjan sú að hafa svokallaðan ,,opinn dag", en þá eru foreldrar boðnir í heimsókn, hvenær sem er dagsins, líta við í kennslustofum og sjá hvað nemendur eru að sýsla. Foreldrar eru að sjálfsögðu alltaf velkomnir í heimsókn, en sérstaklega þennan dag.

1. des. leiksýning nemenda

Föstudaginn 27. nóvember kl. 20:00 frumsýnir leiklistarval skólans leikritið Ársæll Veru- og Friðfinnsson & hið fjarstæðukennda mál, eftir Michael Maxwell, í þýðingu og leikstjórn Hörpu Henrysdóttur. Fjölmargir nemendur koma að sýningunni á einn eða annan hátt og hafa æfingar verið stífar undanfarnar vikur.

Frumsýningin er einungis ætluð nemendum skólans, enda er leikritið hluti af 1. des. hátíð þeirra. Önnur sýning er laugardaginn 28. nóvember kl. 15:00 í sal skólans og er aðgangseyrir kr. 1.000. 

Bætt hefur verið við aukasýningu miðvikudaginn 2. desember kl. 20:00.  
Ágóðinn af sýningunni rennur í sérstakan sjóð sem ætlaður er til að endurnýja tól, tæki og búnað sem nýtist við sviðslistir í skólanum.

 

Lestrarsprettur

Næstu tvær vikurnar verður lestrarsprettur hér í skólanum og vonumst við til að heimilin geri slíkt hið sama. Til eru ýmsar leiðir til þjálfunar og bendum við foreldrum á að hafa samband við kennara til að fá hugmyndir að slíkum leiðum.

Að lestrarspretti loknum verða hraðlestrarpróf, þ.e. í vikunni 7. - 11. desember n.k.