Haustfrí
Framundan er löng helgi en engin kennsla er föstudaginn 16. október, mánudaginn 19. október og þriðjudaginn 20. október. Við vonum að allir mæti endurnærðir á miðvikudaginn eftir gott frí.
Framundan er löng helgi en engin kennsla er föstudaginn 16. október, mánudaginn 19. október og þriðjudaginn 20. október. Við vonum að allir mæti endurnærðir á miðvikudaginn eftir gott frí.
Grunnskólinn á Ísafirði og Bæjarbókasafnið hafa sammælst um að efla samstarf sín á milli og verður næsti mánuður því nokkurs konar bókasafnsmánuður í skólanum. Hann hófst í dag, 14. október, með því að allir nemendur á unglingastigi fóru upp á bókasafn og hlýddu á fyrirlestur Ómars Smára Kristinssonar myndlistarmanns um teiknimyndasögur. Farið var í nokkrum hópum enda ekki pláss fyrir alla nemendur í 8.-10. bekk í einu í sal bókasafnsins. Ómar Smári er manna fróðastur um teiknimyndasögur og var fyrirlesturinn bæði mjög fróðlegur og skemmtilegur og er útilokað annað en að hann hafi kveikt áhuga hjá mörgum unglinganna á að kynna sér heim teiknimyndasagnanna betur – enda er sá heimur mjög fjölbreyttur og hægt að finna allt mögulegt þar.
Þann 4. nóvember fara unglingarnir aftur að hlusta á fyrirlestur á bæjarbókasafninu, í það skiptið tekur Fjölnir Ásbjörnsson á móti þeim og talar um vísindaskáldsögur. Auk þess verður farið í fleiri heimsóknir af margvíslegu tilefni og m.a. verður gerð heimildamynd um bókasafnið./HMH
Þann 2. október s.l. var forvarnardagurinn og hélt 9. bekkur upp á hann í gær og fylgdi dagskrá sem gefin er út af UMFÍ, skátunum og fleirum. Guðný Stefanía Stefánsdóttir formaður HSV og íþróttakennari við skólann, ræddi við krakkana og horft var á hvatningarmyndband þar sem forseti Íslands ávarpaði unglingana og ýmsir þjóðkunnir Íslendingar sögðu skoðun sína á áfengis- og vímuefnanotkun og ræddu um mikilvægi skipulegs tómstundastarfs og samveru fjölskyldunnar. Að því loknu ræddu nemendur þessi mál í litlum hópum og skiluðu niðurstöðum inn á heimasíðu forvarnardagsins. Síðasti hluti dagskrárinnar, ratleikur þar sem ipad er í verðlaun fyrir 3 heppna þátttakendur, er á heimasíðu verkefnisins. Leikurinn er opinn næstu tvær vikurnar og geta krakkarnir tekið þátt ef og þegar þau vilja. Á heimasíðunni er einnig hægt að sjá myndböndin, þau eru stutt og skemmtileg og tilvalið fyrir foreldra að kíkja á þau.
Föstudaginn 9. október er nemendum í 8.-10. bekk boðið á hina árlegu íþróttahátíð í Bolungarvík. Setning hátíðarinnar er klukkan 10 og mun henni ljúka rúmlega sex. Keppt verður í fótbolta, körfubolta, bandý, dodgeball, sundblaki, sundi, skák, borðtennis og spurningakeppni. Ekki eru lengur lið frá hverjum skóla heldur er öllum sem óska eftir að keppa, blandað í fjögur lið og fá allir að keppa í a.m.k. einni grein. Að keppni lokinni er svo ball í sal grunnskólans sem lýkur kl. 23:00.
Nemendur frá Ísafirði fara með rútum til Bolungarvíkur. Klukkan 9:30 fer rúta frá Holtahverfi sem stoppar á strætóleiðinni um Urðarveg. Klukkan 9:45 fer rúta frá skólanum sem stoppar í Króknum og í Hnífsdal. Klukkan 19:00 er síðan rúta frá
Bolungarvík inn á Ísafjörð og önnur eftir ballið (23:00) sem fer strætóleiðina inn í Holtahverfi.
Nemendur frá GÍ hafa verið til fyrirmyndar í framkomu undanfarin ár og vonandi skemmta allir sér vel.
Síðastliðinn föstudag heimsóttu þær Elísabet Samúelsdóttir og Þórunn Snorradóttir 10. bekk á vegum Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) með námsefnið Fjármálavit. Námsefnið er fyrir nemendur á efsta stigi grunnskóla og er tilgangurinn að veita innblástur í kennslu um fjármál. Efnið er þróað af SFF í samvinnu við starfsmenn þeirra, kennara og kennaranema.
Námsefnið er byggt upp sem sjálfstæðar kennslustundir með umræðum og verkefnum, en til stuðnings eru einnig nokkur stutt myndbönd sem nemendur geta horft á til að tengja við viðfangsefnið. Myndböndin segja á gamansaman hátt frá þremur unglingum og vangaveltum þeirra um fjármál.
Verndari Fjármálavits er Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistarmaður sem veitir ungu fólki heilræði í stuttu myndbandi og vitnar þar í eigin reynslu af fjármálum.
Fjármálavit hóf göngu sína í Evrópskri peningaviku í mars 2015. Yfir þúsund nemendur í efstu bekkjum grunnskóla fengu þá heimsókn frá starfsmönnum fjármálafyrirtækja með efni Fjármálavits og verður áfram boðið upp á heimsóknir í skóla í vetur, að því er fram kemur á heimasíðu verkefnisins.
Í dag er Alþjóðadagur kennara haldinn hátíðlegur um allan heim. Að forgöngu UNESCO er 5. október sérstaklega helgaður kennurum og þennan dag nota þeir samtakamátt sinn til að tryggja að hugað sé að þörfum barna fyrir menntun í nútíð og framtíð. Um leið er 5. október tákn þess að fólk kunni að meta framlag kennara til menntunar, framþróunar samfélaga og þroskunar einstaklinga.
,,Hlutverk kennara hefur aldrei verið eins mikilvægt og nú í að byggja upp sjálfbært samfélag en stór liður í því er gæðamenntun fyrir alla, jöfn tækifæri til menntunar og vel menntaðir einstaklingar. Menntun er réttur allra en ekki fárra útvaldra. Kennarar gegna meginhlutverki í því að vinna að réttlátu samfélagi í öllum heiminum.“
Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein Þórðar Hjaltested, formanns KÍ, og Aðalheiðar Steingrímsdóttur, varaformanns KÍ, sem birtist á Vísi í dag, í tilefni dagsins.
Nú er nýtt fréttabréf komið út hjá skólanum. Þar er stiklað á stóru í skólastarfinu og þeim fjölbreyttu verkefnum sem við tökum okkur fyrir hendur dags daglega.
Nú er samsöngurinn hafinn og syngja 1. - 6. bekkur saman í dansstofu skólans í tveimur hópum, við undirleik Olgu skólastjóra. Krakkarnir stóðu sig mjög vel í morgun og hafa mikið skólast í söngmenningunni.
Sjá má myndbrot frá söng 4. - 6. bekkjar í morgun hér vinstra megin á síðunni undir hnappnum myndbönd.
Á hverju ári er Evrópska tungumáladeginum fagnað þann 26. september. Að þessu sinni bar hann upp á laugardag, svo að við ákváðum að halda upp á hann í skólanum í dag.
Dönsku- og enskukennarar í 9. og 10. bekk settu upp ýmsar stöðvar með margvíslegum viðfangsefnum og nemendur í báðum árgöngunum unnu saman fyrstu tvo tímana. Á stöðvunum var eitt og annað í boði, m.a. var ein stöð um esperantó, þar sem nemendur gátu kynnt sér það tungumál, skoðað íslenskar bækur sem hafa verið þýddar á esperantó og skrifað nokkrar setningar. Á annarri stöð tók Nadja Widell frönskukennari í M.Í. á móti krökkunum og spjallaði við þau á finnsku og fleiri tungumálum um leið og hún fræddi þau um tungumálanám og gildi þess að kunna erlend tungumál. Ein stöðin var helguð færeysku og þar gátu nemendur séð og heyrt það skemmtilega tungumál og skrifað nokkrar setningar. Danska átti sína stöð og þar var verið að skoða skemmtilegan vef á netinu, þar sem t.d. einn drengur ættaður frá Ísafirði sagði frá lífi sínu í Danmörku. Enska átti líka sína stöð og þar var verið að vinna í öðrum skemmtilegum vef á netinu. Á einni stöð var þýðandi að kynna sín störf og segja frá ferlinu við þá vinnu. Ein stöð var helguð vef með alls konar fróðleik um alls konar tungumál.
Eins og sjá má voru stöðvarnar margvíslegar og fjölbreyttar og hver lota tók aðeins tuttugu mínútur svo að það var víða komið við. En við vonum og teljum að nemendur hafi haft gaman af þessari tilbreytingu og séu margs vísari um evrópsk tungumál eftir þessa vinnu. /HMH