VALMYND ×

Fréttir

Gjöf til nemenda í smáskipanámi

Mynd: www.frmst.is
Mynd: www.frmst.is

Hraðfrystihúsið − Gunnvör h.f. gaf hverjum nemanda úr Grunnskólanum á Ísafirði, sem eru í smáskipanámi hjá Fræðslumiðstöðinni, Sjómannabókina eftir Pál Ægi Pétursson. Sjómannabókin er aðalkennslubókin í smáskipanáminu og tekur á flestu er varðar sjómennsku og skipstjórn á þessu stigi. Er þetta í annað sinn sem HG gefur grunnskólanemum þessa bók.

Nemendur úr Grunnskólanum á Ísafirði hafa í nokkur ár getað tekið smáskipanám hjá Fræðslumiðstöðinni sem valgrein og eru nú 14 nemendur í þessu námi.

Eldbarnið

1 af 3

Í morgun bauð Möguleikhúsið nemendum 5. - 7. bekkjar upp á leiksýninguna um Eldbarnið, sem byggt er á heimildum um Skaftárelda og afleiðingar þeirra. Sýningin er helguð minningu sr. Jóns Steingrímssonar og samtímafólks hans sem þurfti af eigin rammleik að takast á við einhverjar mestu náttúruhamfarir Íslandssögunnar.

Leikstjórn er í höndum Sigrúnar Valbergsdóttur, en leikarar eru þau Andrea Ösp Karlsdóttir, Alda Arnardóttir og Pétur Eggerz. Nemendur nutu sýningarinnar og þökkum við kærlega fyrir þessa góðu heimsókn.

Vegna umræðu um eineltismál

Haldinn var fundur meðal foreldra í 10.bekk nú síðdegis vegna umfjöllunar í DV um einelti í árganginum.  Móðir umrædds nemanda mætti á fundinn og skýrði sína hlið málsins og ljóst er að þessi umfjöllun á ekki við nein rök að styðjast.  Okkur er öllum brugðið vegna þessa og fundurinn sendir frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

 

Ályktun frá fjölmennum fundi foreldra 10.bekkinga, kennara og stjórnenda Grunnskólans á Ísafirði

Í frétt á DV um nýliðna helgi var slegið upp umræðu um eineltismál á Ísafirði.  Rétt er að taka fram að fréttin er í besta falli byggð á misskilningi og flest í henni beinlínis rangt.  Nemandinn sem um er rætt hefur ekki orðið fyrir aðkasti í skólanum og samnemendur hans tóku sig ekki saman um að hafna afmælisboði frá honum.  Þetta staðfestir móðir drengsins.   Foreldrum, starfsfólki skólans og ekki síst nemendum var verulega brugðið við fréttaflutninginn og umræðuna sem skapaðist í kjölfarið.

Umræða um einelti er mikilvæg í öllum samfélögum og öll erum við sammála um að við viljum stuðla að jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum.  Sú umræða sem birtist í fjölmiðlum um þetta tiltekna mál virðist eingöngu hafa þann tilgang að rífa niður.  Hún er ekki byggð á traustum heimildum eða rannsóknarvinnu og leggur þar með neikvæðum samskiptum lið.  Slíku viljum við ekki taka þátt í.  Við munum leggja áherslu á að nýta umræðuna sem skapaðist til að halda áfram að kenna krökkunum okkar að lesa fréttir með gagnrýnum augum, bera ábyrgð á orðum sínum og gæta virðingar í samskiptum við aðra. 

Foreldrar nemenda í 10.bekk, kennarar og stjórnendur.

Starfsdagur

Mánudaginn 28. september er starfsdagur hér í skólanum og því engin kennsla.

Tvítyngi og fjöltyngi

Frá vinstri: Gabriela, Jessica, Nikola og Michal.
Frá vinstri: Gabriela, Jessica, Nikola og Michal.

Börn sem tala eitt tungumál heima hjá sér og annað utan heimilis eru tvítyngd. Þau sem tala tvö eða fleiri tungumál heima og annað utan heimilis eru tvítyngd eða fjöltyngd. Um 70% jarðarbúa eru tvítyngdir og nota fleiri en eitt tungumál í daglegu lífi. Börn geta vel lært tvö tungumál á sama tíma. Sum börn tala íslensku einungis utan heimilisins. Önnur börn alast upp á heimilum þar sem annað foreldrið talar íslensku en hitt eitthvert annað tungumál.

Öll eru börnin tvítyngd og styrking þess tungumáls sem ekki er íslenska er mikilvæg fyrir sjálfsmynd þeirra og þroska.

 

Í Grunnskólanum á Ísafirði eru margir nemendur tvítyngdir/fjöltyngdir. Í námsveri skólans fer m.a. fram kennsla í íslensku sem annað mál og margir tvítyngdir nemendur frá miðstigi og upp úr koma nokkur skipti í viku til að skerpa á íslenskunni. Unnið er með talað mál, spil, tölvuforrit, vinnubækur, ritun og ýmislegt fleira. Á meðfylgjandi mynd má sjá nokkra nemendur í 9. bekk vinna á námsvefnum Kæra dagbók sem er kennsluvefur í íslensku sem annað mál. /HBM

Samræmd könnunarpróf

Í næstu viku fara fram samræmd könnunarpróf í 4., 7. og 10. bekk. Meginhlutverk samræmdra könnunarprófa er að veita nemendum, foreldrum þeirra og skólum, upplýsingar um námsstöðu þeirra við upphaf skólaárs. Stefnt er að því að leggja könnunarprófin fyrir eins fljótt og unnt er að hausti svo niðurstöður þeirra nýtist sem best í skólastarfinu. Þannig er tilgangi þeirra náð með sem skilvirkustum hætti.

Prófaskipulagið er eftirfarandi: 

 

10. bekkur

Íslenska mánudagur 21. sept. kl. 09:00 - 12:00
Enska þriðjudagur 22. sept. kl. 09:00 - 12:00
Stærðfræði miðvikudagur 23. sept. kl. 09:00 - 12:00


7. bekkur

Íslenska fimmtudagur 24. sept. kl. 09:00 - 12:00
Stærðfræði föstudagur 25. sept. kl. 09:00 - 12:00

 

4. bekkur

Íslenska                  fimmtudagur          24. sept.        kl. 8:30 - 11:00
Stærðfræði             föstudagur             25. sept.         kl. 8:30 - 11:00

 

4. bekkur mætir báða þessa daga kl. 8:00 og lýkur skóla hjá þeim kl. 13:40.

 

Nánari upplýsingar varðandi samræmdu prófin má nálgast hér á vef Námsmatsstofnunar.

Uppskerutími

Í morgun fór hluti 2. bekkjar út í skólagarðinn góða við Tónlistarskólann og tók upp grænmeti sem sett var niður í vor. Uppskeran var fín hjá hópnum og mátti sjá t.d. kartöflur og grænkál. Á næstunni munu krakkarnir svo matreiða úr uppskerunni í heimilisfræðinni hjá Guðlaugu Jónsdóttur.

Þjóðarsáttmáli um læsi

Frá vinstri: Lína Björg, Pétur, Illugi og Nanný Arna (Mynd: Ísafjarðarbær).
Frá vinstri: Lína Björg, Pétur, Illugi og Nanný Arna (Mynd: Ísafjarðarbær).
1 af 2

Í morgun undirrituðu Illugi Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra, Lína Björg Tryggvadóttir frá Heimili og skóla, Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og Pétur Georg Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, undir þjóðarsáttmála um læsi í Safnahúsinu hér á Ísafirði. Nemendur 8. bekkjar G.Í. tóku virkan þátt í athöfninni og spiluðu á hljóðfæri við góðar viðtökur viðstaddra.

Menntamálastofnun hefur umsjón með verkefninu um læsi og verða ráðnir ráðgjafar sem styðja munu við lærdómssamfélag skóla og sveitarfélaga, halda námskeið og leiðbeina skólafólki um læsi og lestrarnám. Markmiðið er að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns.

Nýir vinaliðar

Nú er að hefjast annað ár vinaliðaverkefnis skólans. Þátttakendur eru nemendur 4. - 7. bekkjar og hafa þeir kosið sína vinaliða. Í dag eru þeir á námskeiði og fá þjálfun í sínu hlutverki.

Vinaliðaverkefnið er norskt að uppruna og hefur á fáum árum náð mikilli útbreiðslu og er nú starfrækt í yfir 1000 skólum í Noregi. Hér á Íslandi eru skólarnir orðnir 29 og þeim fjölgar jafnt og þétt. Vinaliðaverkefnið er hluti af Vinaverkefninu og gengur út á það að hvetja nemendur til meiri þátttöku í afþreyingu í frímínútunum og skapa betri skólaanda.

Skólalóðin og frímínúturnar eru samkvæmt eineltisrannsóknum, því miður, helsti vettvangurinn fyrir einelti. Vinaliðaverkefnið er ekki eineltisáætlun heldur stuðningsverkefni við eineltisáætlun skólans og er hugmyndafræðin sú að þar sem boðið er upp á skipulagt starf, fái gerendur eineltis aðra hluti til að hugsa um. Aðgerðarleysi er nefnilega oft rótin að slæmum hlutum.

Kannanir og próf á unglingastigi

Nemendur í 8. - 10. bekk sem eru veikir eða í leyfi þegar kaflapróf eru lögð fyrir munu framvegis hafa tök á að taka þau á miðvikudögum kl. 15:00 í stofu 212. Þetta kemur í veg fyrir að nemendur missi enn meira úr kennslu því oft er verið að hefja innlögn á nýju efni í tímanum eftir próf.