Haldinn var fundur meðal foreldra í 10.bekk nú síðdegis vegna umfjöllunar í DV um einelti í árganginum. Móðir umrædds nemanda mætti á fundinn og skýrði sína hlið málsins og ljóst er að þessi umfjöllun á ekki við nein rök að styðjast. Okkur er öllum brugðið vegna þessa og fundurinn sendir frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
Ályktun frá fjölmennum fundi foreldra 10.bekkinga, kennara og stjórnenda Grunnskólans á Ísafirði
Í frétt á DV um nýliðna helgi var slegið upp umræðu um eineltismál á Ísafirði. Rétt er að taka fram að fréttin er í besta falli byggð á misskilningi og flest í henni beinlínis rangt. Nemandinn sem um er rætt hefur ekki orðið fyrir aðkasti í skólanum og samnemendur hans tóku sig ekki saman um að hafna afmælisboði frá honum. Þetta staðfestir móðir drengsins. Foreldrum, starfsfólki skólans og ekki síst nemendum var verulega brugðið við fréttaflutninginn og umræðuna sem skapaðist í kjölfarið.
Umræða um einelti er mikilvæg í öllum samfélögum og öll erum við sammála um að við viljum stuðla að jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum. Sú umræða sem birtist í fjölmiðlum um þetta tiltekna mál virðist eingöngu hafa þann tilgang að rífa niður. Hún er ekki byggð á traustum heimildum eða rannsóknarvinnu og leggur þar með neikvæðum samskiptum lið. Slíku viljum við ekki taka þátt í. Við munum leggja áherslu á að nýta umræðuna sem skapaðist til að halda áfram að kenna krökkunum okkar að lesa fréttir með gagnrýnum augum, bera ábyrgð á orðum sínum og gæta virðingar í samskiptum við aðra.
Foreldrar nemenda í 10.bekk, kennarar og stjórnendur.