VALMYND ×

Fréttir

Fullveldisdagurinn - opinn dagur

Á morgun er fullveldisdagurinn, 1. desember. Þann dag árið 1918 tóku sambandslögin gildi, en samkvæmt þeim varð þjóðin fullvalda. Í tilefni dagsins hefur sú hefð skapast hér í skólanum að unglingar og starfsfólk klæðist ,,betri" fötum. Yngri nemendum er einnig frjálst að taka þátt í þessari hefð ef þeir kjósa svo.

Þennan dag er venjan sú að hafa svokallaðan ,,opinn dag", en þá eru foreldrar boðnir í heimsókn, hvenær sem er dagsins, líta við í kennslustofum og sjá hvað nemendur eru að sýsla. Foreldrar eru að sjálfsögðu alltaf velkomnir í heimsókn, en sérstaklega þennan dag.

1. des. leiksýning nemenda

Föstudaginn 27. nóvember kl. 20:00 frumsýnir leiklistarval skólans leikritið Ársæll Veru- og Friðfinnsson & hið fjarstæðukennda mál, eftir Michael Maxwell, í þýðingu og leikstjórn Hörpu Henrysdóttur. Fjölmargir nemendur koma að sýningunni á einn eða annan hátt og hafa æfingar verið stífar undanfarnar vikur.

Frumsýningin er einungis ætluð nemendum skólans, enda er leikritið hluti af 1. des. hátíð þeirra. Önnur sýning er laugardaginn 28. nóvember kl. 15:00 í sal skólans og er aðgangseyrir kr. 1.000. 

Bætt hefur verið við aukasýningu miðvikudaginn 2. desember kl. 20:00.  
Ágóðinn af sýningunni rennur í sérstakan sjóð sem ætlaður er til að endurnýja tól, tæki og búnað sem nýtist við sviðslistir í skólanum.

 

Lestrarsprettur

Næstu tvær vikurnar verður lestrarsprettur hér í skólanum og vonumst við til að heimilin geri slíkt hið sama. Til eru ýmsar leiðir til þjálfunar og bendum við foreldrum á að hafa samband við kennara til að fá hugmyndir að slíkum leiðum.

Að lestrarspretti loknum verða hraðlestrarpróf, þ.e. í vikunni 7. - 11. desember n.k.

Allt í köku

Krakkarnir með sínar glæsilegu kökur
Krakkarnir með sínar glæsilegu kökur

Í haust var sett upp tvenns konar val í heimilisfræði fyrir unglinga í 9. og 10 bekk. Í öðru valinu er áherslan meiri á eldamennsku en það valfag kallast Mannsins megin. Hitt nefnist Allt í köku, en eins og nafnið ber með sér er bakstur aðal viðfangsefnið þar. Stærsta verkefnið í því valfagi er sykurmassakaka sem krakkarnir gera alveg frá grunni, baka, laga krem og sykurmassa og skreyta. Í dag fóru nemendur heim með kökurnar sínar. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd var útkoman frábær - alls konar kökur sem báru vitni um listræna hæfileika og sköpunargleði.

Á aðventunni munu svo krakkarnir í hinum valhópnum spreyta sig á hinum árlegu piparkökuhúsum. Hér má sjá fleiri myndir af þessum girnilegu kökum. /GJ

Evrópudagur um vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi

Mynd: Velferðarráðuneytið
Mynd: Velferðarráðuneytið

Evrópuráðið hefur tekið ákvörðun um að helga 18. nóvember baráttu gegn kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri misneytingu barna. Tilgangurinn er að stuðla að aukinni umræðu og samfélagsvitund um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og að kynna  samning Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðisofbeldi, svonefndan Lanzarote samning. 

Evrópuráðið hefur í tilefni dagsins gefið út teiknimynd sem er um 3 mínútur að lengd og var unnin í samráði við hóp barna. Myndin er með einföldum og aðgengilegum boðskap fyrir börn á aldrinum 9 – 13 ára. Börn eru hvött til þess að leita til einhvers sem þau treysta ef þau eða einhver sem þau þekkja hefur verið eða er beittur ofbeldi. Myndin er með íslensku tali, með leyfi Evrópuráðsins, og verður sýnd nemendum 4. - 7. bekkjar G.Í. í dag. Með því móti leggur skólinn sitt að mörkum til að leiðbeina börnum sem kunna að vera í viðkvæmri stöðu og stuðlar jafnframt að aukinni samfélagsvitund um kynferðisofbeldi gegn börnum.

Fellum grímuna

Í dag fengu eldri nemendur skólans að sjá myndina Fellum grímuna, sem er ný heimildarmynd sem ætlað er að varpa ljósi á þá staðreynd að við erum öll mannleg og enginn fullkominn. Þekktir einstaklingar koma fram og segja frá því þeir sem hafa verið að glíma við svo sem kvíða, meðvirkni, fíkn o.fl. Myndin er forvarnarverkefni sem þær Sigurbjörg Bergsdóttir og Jóhanna Jakobsdóttir hafa sett saman undir merkjum fyrirtækis sem þær kalla Ekta Ísland. 

Með þessu forvarnarvídeói eru þær að benda á að allir þessir frægu einstaklingar sem taka þátt í myndinni, eru að glíma við eitthvað en hafa náð langt þrátt fyrir það og hafa ekki látið það sem þeir eru að glíma við sigra sig. 

 

Listhneigðir nemendur

1 af 3

Það er virkilega gaman að ganga um skólann og sjá fallega unnin verk nemenda á veggjum. Listin birtist í hinum ýmsu verkefnum og námsgreinum og nálgun og túlkun nemenda misjöfn, sem gerir útkomuna ennþá skemmtilegri fyrir vikið. Hér er hægt að fara í stutta ,,gönguferð" um skólann.

Nýtt fréttabréf

Fréttabréf nóvembermánaðar er nú komið út og er hægt að nálgast það hér. Þar er stiklað á stóru í skólastarfinu, enda mikið um að vera síðustu vikurnar s.s. læsisátak, þemadagar, bókasafnsheimsóknir, bekkjarsáttmálar, vinaliðaverkefni o.fl.

Dagur íslenskrar tungu

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir setur Litlu og Stóru upplestrarkeppnirnar
Sveinfríður Olga Veturliðadóttir setur Litlu og Stóru upplestrarkeppnirnar
1 af 9

Í dag er Dagur íslenskrar tungu og var hann haldinn hátíðlegur með ýmsum hætti hér í skólanum. Í Hömrum var setningarhátíð Litlu og Stóru upplestrarkeppnanna, sem ætlaðar eru nemendum 4. og 7. bekkjar. Allir nemendur þessara árganga taka þátt og æfa framsögn af kappi næstu vikur og mánuði. Nemendur 4. bekkjar munu svo bjóða foreldrum til upplestrarhátíðar sem nefnist Litla upplestrarkeppnin. Í mars verður svo lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar hjá 7. bekk, en þangað komast þeir sem standa sig best í framsögn.

Það verður gaman að fylgjast með þessum krökkum næstu misserin og sjá framfarirnar hjá þeim.

Sungið inn í helgina

Í dag var samsöngur hjá 4. - 6. bekk eins og flesta aðra föstudaga, en 1. - 3. bekkur gerir slíkt hið sama á fimmtudögum. Það var mikil gleði í söngnum í dag eins og sjá má og heyra á meðfylgjandi myndbandi.

Við óskum öllum góðrar helgar með þessum skemmtilegu tónum.