VALMYND ×

Fréttir

Frá fjölmiðlahóp þemadaganna

Við tókum  að okkur að undirbúa þemadagana.    Tveir  nemendur úr fimmta til tíunda bekk voru valdir, einn strákur og ein stelpa. Við fundum nafnið Þjöppum okkur saman og markmiðið er að vinna með hópefli og þjappa nemendum og starfsfólki meira saman.   Stjórnendurnir voru Kristín og Monica. 

Í þemadagaundirbúningsnefndinni voru: Egill, Hrafnhildur Una, Þráinn, Ásthildur, Kolfinna, Guðrún Ósk, Birna, Lilja, Arnar, Anja, Arnór og Helgi Ingimar. Á myndina vantar: Hrafnhildi Unu, Önju og Kolfinnu og Helga Ingimar.                                                                   

                                                           

Þemadagar

Á morgun og föstudaginn eru þemadagar hér í skólanum undir yfirskriftinni Þjöppum okkur saman. Öllum nemendum skólans er skipt í 13 hópa og eru þá 24-25 nemendur í hverjum hópi, þvert á árganga og blandast nemendur því mjög vel í hópunum. Áhersla er lögð á að eldri nemendur aðstoði þá yngri og að hver og einn hópur fylgist að þessa tvo daga.

Útbúnar hafa verið 13 stöðvar og fær hver hópur hálftíma á hverri þeirra. Í boði er myndlist, tónlist, morðgátur, ,,minute to win it", íþróttaleikir, ratleikur, leiklist, tæknilegó, dans, heimilisfræði, tilraunir, leikir og samsaumur, þannig að fjölbreytnin er mikil.

Formlegur skóladagur er frá kl. 8:00 - 12:35 á fimmtudegi og frá kl. 8:00 - 13:00 á föstudegi og gengur strætó strax að skóla loknum. Nemendur þurfa ekki að koma með skólatöskur þessa daga, eingöngu nesti í bakpoka.

Fatasöfnun

Þessa dagana stendur yfir fatasöfnun fyrir flóttafólk á Lesbos. Hægt er að koma með föt í söfnunina frá og með deginum í dag og fram á fimmtudag, 5. nóvember, til kl. 15:30. Óskað er sérstaklega eftir flís og ullarfatnaði, hlýjum teppum, sokkum, húfum og vettlingum, svefnpokum, karlmanns og kvenmanns skóm og almennt hlýjum fatnaði fyrir börn 10-14 ára og fyrir fullorðna.

Hægt að skila inn í söfnunina í anddyri Grunnskólans á Ísafirði, Hafraholti 10 og Aðalstræti 33. Athugið að hægt er að skilja fötin eftir í regnheldum pokum á þessum stöðum.

Nánari upplýsingar má nálgast hér á Facebook síðu verkefnisins.

 

Læsisátak

Eitt af markmiðum ráðherra menntamála er að bæta læsi íslenskra ungmenna, í samræmi við markmið sem sett eru fram í Hvítbók menntamála. Til að það markmið geti náðst hafa læsisráðgjafar verið ráðnir við Menntamálastofnun.  Tveir af ráðgjöfunum eru væntanlegir til Ísafjarðar í næstu viku og funda þeir meðal annars með kennurum og  stjórnendum grunnskóla. Þessir ráðgjafar ætla einnig að kynna læsisátakið fyrir foreldrum í sal G.Í. þriðjudaginn 3. nóvember kl. 17 og hvetjum við alla til að mæta.

Hrekkjavökuball

Í gær hélt nemendaráð skólans hrekkjavökuball fyrir nemendur unglingastigs. Búningar nemenda voru sumir hverjir ekki fyrir viðkvæma, en allir voru þeir glæsilegir engu að síður og virkilega gaman að sjá hugmyndaflugið og sköpunina sem bjó að baki.

Hér má sjá myndir frá ballinu.

Rýmingaræfing

Í morgun var framkvæmd rýmingaræfing hér í skólanum, undir styrkri stjórn slökkviliðs Ísafjarðar. Brunaboðinn var ræstur kl. 9:10 og tók 3:42 að rýma allt húsnæði skólans. 

Nauðsynlegt er að framkvæma æfingu sem þessa reglulega, enda að mörgu að hyggja. Flóttaleiðir þurfa að vera á hreinu úr öllum rýmum hússins og allir starfsmenn og nemendur að þekkja sínar leiðir og viðbrögð ef hættuástand skapast. Hver árgangur á sinn söfnunarstað í hæfilegri fjarlægð frá skólanum og rötuðu allir á sinn stað í morgun. Taka þarf manntal á söfnunarsvæðinu, bæði hjá nemendum og starfsmönnum, þannig að engin hætta sé á að einhver hafi orðið innlyksa í skólanum.

Eftir rýmingaræfingu sem þessa er svo farið yfir alla þætti, t.d. hvort heyrist nógu vel í brunabjöllu allsstaðar í byggingunni, hvort að einhver svæði teppist o.s.frv. og gerðar úrbætur í framhaldinu ef þurfa þykir.

Alþjóðlegi bangsadagurinn

Í dag er alþjóðlegi bangsadagurinn, en hann er haldinn hátíðlegur víða um heim.

Í tilefni dagsins var öllum bangsabókum tjaldað til á skólasafninu þar sem nemendur gátu komið og átt notalega stund. Yngstu krakkarnir buðu böngsunum sínum með sér í skólann í dag og voru því óvenju margir í yngstu bekkjunum, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Sinfóníutónleikar

Sinfóníuhljómsveit Íslands bauð 1. - 4. bekk á tónverkið Maximús Músíkus í Íþróttahúsinu á Torfnesi í dag. Verkið er eftir Hallfríði Ólafsdóttur flautuleikara en hún var einnig við stjórn Sinfóníunnar við flutning á sögunni. Þetta er mögnuð saga sem inniheldur nokkur falleg tónverk sem þau fengu að heyra hjá Vali Frey Einarssyni sögumanni.

Krakkarnir skemmtu sér hið besta og þökkum við kærlega fyrir þetta skemmtilega framtak.

Nýsköpunarnámskeið grunnskóla

Sykurpúðaáskorun á námskeiðinu í dag. Mynd: Facebook síða námskeiðsins
Sykurpúðaáskorun á námskeiðinu í dag. Mynd: Facebook síða námskeiðsins
1 af 3

Í dag hófst nýsköpunarnámskeið grunnskólanna á Vestfjörðum og stendur það til föstudags. Námskeiðið er haldið af Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, í samstarfi við Landsbankann, Íslandsbanka, Sóknaráætlun Vestfjarða og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

9. bekkur G.Í. tekur þátt í námskeiðinu fyrir hönd skólans og verður gaman að sjá hvaða afurðir líta dagsins ljós eftir hugstormun nemenda. Ekki er nóg að hrinda hugmynd í framkvæmd, heldur þarf einnig að huga að fjármálum og markaðsmálum og er allt tekið með í reikninginn á námskeiðinu.

eTwinning verkefni hafið

Í fyrrahaust skráði skólinn sig í eTwinning  verkefni (rafrænt skólastarf) á vegum Erasmus+ sem er styrkjaáætlun ESB á sviði menntamála, æskulýðsstarfs og íþrótta. Eitt markmiða Erasmus+ er að auka gæði í menntun og þjálfun innan þeirra 34 Evrópulanda sem eiga aðild að áætluninni og stuðla að aukinni Evrópuvídd í menntastarfi. Þátttakendur í þetta skiptið eru auk Íslands; Króatía, Þýskaland, Lettland, Portúgal og Kýpur.

Fyrir skemmstu var skólanum veittur styrkur frá Landsskrifstofu Erasmus að upphæð 14.660 evrum eða rétt um 2 milljónum íslenskra króna. Þeir fjármunir verða nýttir í þróun og framkvæmd nýrra aðferða til kennslu í stærðfræði, vísindum og tungumálum í fjölþjóðlegum evrópskum kennslustofum, til að auka læsi og koma í veg fyrir að nemendur hætti snemma í námi og þá sérstaklega tví/fjöltyngdir nemendur.

Verkefnastjórar skólans eru þær Guðbjörg Halla Magnadóttir og Bryndís Bjarnason og eru þær nú farnar til Gaia í Portúgal á fyrsta fund verkefnisins, sem haldinn er dagana 21.-23. október.