Fréttir
Rauður skreytingadagur
Á morgun er skreytingadagur hér í skólanum. Tímaplön haldast óbreytt hjá yngsta- og miðstigi, en unglingastigið fer heim um hádegisbilið.
Við hvetjum alla til að mæta í einhverju rauðu, og/eða jólapeysum á morgun til að gera stemninguna enn betri, en þessi dagur einkennist af skreytingum eins og nafnið gefur til kynna. Lítið verður um bóklegar greinar, en þeim mun meiri áhersla á aðventustemningu, þar sem hver bekkur skreytir sína kennslustofu, leggur lokahönd á allt jólaföndur, hlustar á jólatónlist og nýtur dagsins sem best.
Vinaliðum þökkuð vel unnin störf
Í dag voru vinaliðar í 4. - 7. bekk kallaðir á sal til að þakka þeim vel unnin störf. Hlutverk vinaliða er fyrst og fremst að skapa skemmtilegt og notalegt leikjaumhverfi í frímínútum, stjórna leikjum og vera til fyrirmyndar í hvívetna. Vinaliðar fá leiðtogaþjálfun og námskeið undir stjórn Árna Heiðars Ívarssonar og fá því töluvert út úr sínu hlutverki.
Vinaliðum var boðið í sund til Bolungarvíkur í morgun, í ,,musteri vatns og vellíðunar" eins og sundlaugin er stundum kölluð. Þar átti hópurinn skemmtilega stund og kom svo til baka í skólann um hádegisbilið.
Eftir áramót verða nýir vinaliðar kjörnir af nemendum, en við það val eru nemendur skólans sérstaklega beðnir um að tilnefna einstaklinga sem þeim finnst vera vingjarnlegir og sýni öðrum nemendum virðingu.
Jólasýning Safnahússins
Árleg jólasýning Safnahússins stendur nú yfir, þar sem fjallað er um jólavætti. Umgjörð sýningarinnar var hönnuð af listamanninum Ómari Smára Kristinssyni.
Þegar skammdegið er svartast eru ýmsar vættir á ferð sem ekki vilja sjást. Tröll, huldufólk, jólasveinar og jólakötturinn eru meðal þeirra en áður og fyrr þótti bæði tröllum og jólakettinum gott að fá mannakjöt í jólamatinn. Skammdegisvættirnar eru ævafornar, Grýla er t.d. nefnd í Snorra-Eddu þó ekki sé hún kennd við jól fyrr en á 17. öld. Jólasveinarnir hafa sýnt ótrúlega aðlögunarhæfni en þeir hafa á sinni löngu ævi breyst úr illum vættum í ljúfa karla sem gleðja börnin á aðventunni.
Nemendum skólans er boðið á sýninguna og hópast bekkirnir nú þessa dagana, enda alveg sérstakur andi í þessu góða húsi og umgjörðin alveg einstök.
Dagur myndlistar
Í tilefni af Degi myndlistar sem haldinn var hátíðlegur 30. október s.l., bauð Samband íslenskra myndlistarmanna skólum upp á kynningu á starfi myndlistarmannsins, sjötta árið í röð. Kynningarnar veita ungu fólki innsýn í það viðamikla starf sem felst í því að vera myndlistarmaður og bæta þannig grunnþekkingu á faginu.
Í fyrra fékk Grunnskólinn á Ísafirði Solveigu Eddu Vilhjálmsdóttur í heimsókn, en í ár var það Gunnar Jónsson listamaður sem kynnti starf sitt fyrir nemendum í myndlistavali á unglingastigi og nemendum í 6. bekk. Gunnar sýndi myndir af verkum sínum og ræddi við nemendur um myndlist.
Skóli í dag
Skólinn verður opinn í dag, en ferðir strætó falla niður til hádegis.
Nú höfum við fengið upplýsingar um að strætó byrjar að ganga kl. 15:00.
Upplýsingasími hjá strætó er 8781012.
Óveður í aðsigi
Ísafjarðarbær hefur gefið út viðmið um hvenær loka eigi stofnunum vegna óveðurs. Þar kemur m.a. fram að stofnunum bæjarins sé ekki lokað nema algjöra nauðsyn beri til og getur forstöðumaður lokað stofnun af einni eða fleirum af eftirtöldum ástæðum:
- Tilmæli frá almannavörnum eða lögreglu
- Rafmagnsleysi kemur í veg fyrir að hægt sé að halda stofnuninni opinni
- Ófærð er svo almenn að ekki næst að kalla til lágmarksfjölda starfsmanna til að halda a.m.k. skertri þjónustu
Foreldrar eru hvattir til að fylgjast með veðurspám og fréttum af veðri. Skóla verður ekki aflýst nema tilmæli komi frá Almannavörnum eða lögreglu. Komi ekki tilmæli frá Almannavörnum eða lögreglu verða foreldrar að meta hvort óhætt sé að börn þeirra sæki skóla. Ef foreldrar hafa börn sín heima þá skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll. Hið sama gildir ef foreldrar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa.
Strætisvagnar Ísafjarðarbæjar hafa tekið í notkun talhólfsnúmer, 8781012, þar sem fram kemur hvort og þá hvaða ferðir falla niður.
Foreldrar eru einnig hvattir til að fylgjast vel með á heimasíðu almannavarna.
Bakarar framtíðarinnar
Laufabrauðsgerð
Lokasýning
Í kvöld er lokasýning leiklistarvals skólans á leikritinu Ársæll Veru- og Friðfinnsson & hið fjarstæðukennda mál, eftir Michael Maxwell, í þýðingu og leikstjórn Hörpu Henrysdóttur.
Sýningin hefst kl. 20:00 í sal skólans og er aðgangseyrir kr. 1.000, en ágóði rennur í sérstakan sjóð sem ætlaður er til að endurnýja tæki og tól sem nýtast við sviðslistir í skólanum.