VALMYND ×

Fréttir

Annaskil og þorrablót

Nú styttist í annaskil með viðeigandi námsmati. Haustönninni lýkur föstudaginn 22. janúar og fá nemendur vitnisburði annarinnar í byrjun febrúar. Í framhaldi af því verða svo foreldraviðtöl miðvikudaginn 17. febrúar.

Föstudaginn 22. janúar, á bóndadaginn, er einnig hið árlega þorrablót 10. bekkjar, sem hefur verið einn af hápunktunum í félagslífi nemenda síðastliðin ár. Nemendur og starfsfólk hafa nú tekið fram dansskóna og æfa gömlu dansana í tíma og ótíma og verður gaman að sjá dansfimina þegar að þorrablótinu sjálfu kemur.

Fyrirlestur frá Alnæmissamtökunum

Einar Þór Jónsson lýðheilsufræðingur og kennari, framkvæmdastjóri Alnæmissamtakanna HIV Ísland, kom og hélt fyrirlestur fyrir nemendur 9. og 10. bekkjar í fyrradag. Fyrirlesturinn var mjög fróðlegur og athyglisverður og varð tilefni umræðna fram eftir öllum degi. Við þökkum Einari kærlega fyrir komuna og fróðleikinn. 

Lestrarátak Ævars vísindamanns

Þann 1. janúar s.l. hófst lestrarátak Ævars Þórs Benediktssonar, leikara og rithöfundar. Síðustu ár hefur hann búið til mikið af barnaefni sem Ævar vísindamaður, í bókum, sjónvarpi og útvarpi. Í fyrra fór hann af stað með lestrarátak Ævars vísindamanns sem flestir skólar á landinu tóku þátt í. Árangurinn lét ekki á sér standa, en þegar allar tölur voru komnar í hús kom í ljós að í átakinu voru lesnar 60 þúsund bækur! Þetta þótti Ævari gríðarlega góður árangur og sá það sem skyldu sína að endurtaka leikinn nú í ár. Átakið stendur til 1. mars 2016 og er fyrir alla krakka í 1.-7. bekk og gengur út á það að lesa sem flestar bækur á þessu tímabili. 

Allar nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu verkefnisins.

 

Umferðaröryggi

Nú þegar mjög dimmt er á morgnana, er mikilvægt að foreldrar hugi að öryggi þeirra á leiðinni milli skóla og heimilis. Munum eftir að nota endurskinsmerkin og brýna fyrir krökkunum að fara varlega.  Ljóslaus hjól eru best geymd heima á þessum tíma og meðan snjór og hálka eru á götunum teljum við ekki öruggt að börn komi á hjólum í skólann.

Jólakveðja

Í morgun voru litlu jólin haldin hátíðleg hér hjá okkur. Haldin voru þrjú jólaböll, þar sem húsrými er ekki nægilegt fyrir alla í einu og var mikil jólastemning. Rauðklæddir sveinar runnu á sönginn og tóku þátt í gleðinni með okkur. Þeir létu sér ekki nægja að stela senunni, heldur rændu þeir einnig einum nemanda, eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi sem tekið var í morgun.

Þar með hófst jólaleyfi, sem stendur allt til 5. janúar 2016, þegar skólastarf hefst aftur ásamt dægradvöl og frístund.

 

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði óskar öllum gleðilegrar jólahátíðar og þakkar samstarfið á árinu sem er að líða.

 

Fréttabréf í desember

Fréttabréf desember mánaðar er nú komið út og er stútfullt að venju. Meðal annars er þar að finna myndband frá einni jólatrésskemmtuninni í morgun, svar við flöskuskeyti, myndband frá nemum í fornámi ökunáms og fleira.

Vel skreyttar hurðir

Fyrir þessi jól var sú nýbreytni tekin upp að allir bekkir skreyttu sínar hurðir. Útkoman var glæsileg eins og sjá má á þessum myndum og setti sterkan jólasvip á þessa síðustu daga fyrir jól.

Litlu jól

Á morgun verða litlu jólin hjá okkur hér í skólanum. Nemendur mæta prúðbúnir kl. 9:00 í sínar umsjónarstofur, sem allar eru nú orðnar vel skreyttar og tilbúnar fyrir hátíð morgundagsins. Hefð er fyrir því að nemendur skiptist á jólapökkum, borði smákökur, dansi í kringum jólatréð og eigi notalega stund með samnemendum og starfsfólki. Skóla lýkur svo um kl. 12:00 og þar með hefst jólaleyfið. Strætó fer úr Holtahverfi og Hnífsdal kl. 8:40 og heim aftur kl. 12:05.

 

Jólakveðja frá námsveri

Í skólanum okkar eru nemendur sem tala ýmis tungumál. Við fengum nokkra þeirra til að skrifa gleðileg jól  á tungumálunum og hér á meðfylgjandi mynd má sjá afraksturinn á íslensku, filipseysku, sænsku, dönsku, norsku, ensku, spænsku, portúgölsku, taílensku, pólsku og þýsku.

 

Gleðileg jól.

Rauður skreytingadagur

Á morgun er skreytingadagur hér í skólanum. Tímaplön haldast óbreytt hjá yngsta- og miðstigi, en unglingastigið fer heim um hádegisbilið.

Við hvetjum alla til að mæta í einhverju rauðu, og/eða jólapeysum á morgun til að gera stemninguna enn betri, en þessi dagur einkennist af skreytingum eins og nafnið gefur til kynna. Lítið verður um bóklegar greinar, en þeim mun meiri áhersla á aðventustemningu, þar sem hver bekkur skreytir sína kennslustofu, leggur lokahönd á allt jólaföndur, hlustar á jólatónlist og nýtur dagsins sem best.