Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda
Föstudaginn 15. apríl rann út frestur til að skila umsóknum í Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda (NKG) og voru 16 umsóknir sendar frá nemendum í Grunnskólanum á Ísafirði. Nýsköpunarkeppnin er hugmyndasamkeppni fyrir nemendur í 5. 6. og 7. bekk í grunnskóla og mega nemendur senda inn eins margar hugmyndir og þeim sýnist. Í vetur var boðið upp á val í nýsköpun þar sem nemendur þjálfuðu hugmyndavöðvann og spreyttu sig á ýmsum verkefnum tengdum nýsköpun. Einnig voru nemendur hvattir til að senda inn umsókn í keppnina. Öllum nemendum í 5., 6. og 7. bekk gafst þó kostur á að skila inn umsóknum og fá ráðgjöf frá Ólöfu Dómhildi Jóhannsdóttur, myndlistar- og nýsköpunarkennara.
Matsnefnd NKG leggur mat á innsendar umsóknir og velur úr þeim yfir 2000 umsóknir sem berast ár hvert frá yfir 3000 nemendum og fer vandlega yfir hverja og eina, með viðmiðin raunsæi, hagnýti og nýnæmi í huga. Verði nemandi valinn í úrslit er boðið upp á vinnusmiðju til að vinna að hugmyndinni undir leiðsögn. Vinnusmiðjur verða á höfuðborgarsvæðinu en nemendur geta sótt um ferðastyrk. Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu verkefnisins.
Deila