VALMYND ×

Fréttir

Foreldrakvöld í félagsmiðstöðinni

Nú í haust verða foreldrakvöld í félagsmiðstöðinni Djúpinu, þar sem foreldrar fá tækifæri til þess að koma í heimsókn og skemmta sér eina kvöldstund með krökkunum og sjá hvað félagsmiðstöðin hefur upp á að bjóða. 

Foreldrakvöld fyrir 8. bekk verður mánudaginn 14. september
Foreldrakvöld fyrir 9. bekk verður mánudaginn 21. september
Foreldrakvöld fyrir 10. bekk verður mánudaginn 28. september

 

Vonandi sjá sem flestir foreldrar sér fært að mæta og njóta samverunnar með unglingunum.

Breytingar á stundatöflum dagsins

Í dag er kennaraþing hjá kennurum á norðanverðum Vestfjörðum.  Nokkrar breytingar verða á skóladegi nemenda vegna þess, tímasetningar yngri nemenda verða þó allar með sama sniði og venjulega.

 

Kennslu lýkur hjá yngsta stigi kl. 13:00.  Þá fara allir nemendur í 1. og 2. bekk í Dægradvöl og verða þar til klukkan 13:40 eða lengur ef þeir eiga að vera þar eftir skóla.  Þeir nemendur  í 3. og 4. bekk sem eru í íþróttaskóla fara í hann kl 13:00 í stað 13:50, það er boltaskóli fyrir stelpur og sund fyrir stráka.  Aðrir nemendur 3. og 4.bekkjar verða í skólanum til 13:40 með skólastjórnendum.

 

Á miðstigi lýkur kennslu hjá 5. og 6. bekk  kl.13:00 en hjá 7.bekk kl.11:40.

Á unglingastigi lýkur allri kennslu kl.12:30.

 

Aukaferð verður með strætó kl. 13:10.  

Norræna skólahlaupið

Nemendur unglingastigs hlaupa af stað
Nemendur unglingastigs hlaupa af stað

Í morgun tóku nemendur skólans þátt í Norræna skólahlaupinu, en það hefur verið haldið allt frá árinu 1984. Allir grunnskólar á Norðurlöndunum geta tekið þátt í hlaupinu á hverju hausti. Þátttaka íslenskra grunnskólanemenda hefur verið mjög góð og almenn í gegnum árin og má geta þess að um 40 grunnskólar tóku þátt í hlaupinu í fyrra og hlupu um 10.000 nemendur rúmlega 40.000 kílómetra. Með Norræna skólahlaupinu er leitast við að hvetja nemendur skólanna til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan.

Nemendur G.Í. létu ekki sitt eftir liggja í morgun og létu smá vind og rigningu ekkert á sig fá. Hlaupið var frá Bæjarbrekku og fóru yngstu nemendurnir inn að Engi, en þeir eldri inn að Seljalandi eða inn í Tunguskóg. Sjá má fleiri myndir frá hlaupinu hér inni á myndasafni skólans. 

Alþjóðlegur dagur læsis

Kári Eydal, einn af upplesurum 6.HS í morgun
Kári Eydal, einn af upplesurum 6.HS í morgun
Árið 1965 gerðu Sameinuðu þjóðirnar 8. september að alþjóðlegum degi læsis og er fólk, hvar sem það er í heiminum, hvatt til þess að skipuleggja læsis- og lestrarviðburði.

Hér í skólanum hefur verið mikið um að vera í tilefni dagsins. 6. bekkur las t.d. upp fjölbreytt textabrot og hlýddi á sögubrot eftir Guðrúnu Helgadóttur, sem varð áttræð í gær. 9. bekkur fór og hlýddi á upplestur nemenda í 2. bekk, sem einmitt er vinabekkur þeirra. 8. bekkur heimsótti vinabekkinn sinn sem er 1. bekkur og las einn kafla úr bók Guðrúnar Helgadóttur um Jón Odd og Jón Bjarna, við góðar undirtektir yngstu nemenda skólans. Þá flutti leskór 8. bekkjar ljóðið Orð eftir Þórarin Eldjárn með tilþrifum.

Þessi alþjóðlegi dagur læsis hefur svo sannarlega verið skemmtilegur hér í skólanum og alltaf gaman að brjóta aðeins upp hefðbundið skólastarf.

 

 

Tónlist fyrir alla

Karl Olgeirsson og Sigga Eyrún
Karl Olgeirsson og Sigga Eyrún
1 af 2

Í dag fengum við aldeilis góða heimsókn, þegar tónlistarfólkið Karl Olgeirsson og Sigríður Eyrún Friðriksdóttir komu og sungu og léku fyrir alla árganga skólans, í boði verkefnisins Tónlist fyrir alla. Nemendur voru til mikillar fyrirmyndar og tóku virkan þátt í atriðinu, þar sem spunninn var söguþráður og tónlist á staðnum.

Tónlist fyrir alla er samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga sem hefur staðið fyrir reglubundnu tónleikahaldi í grunnskólum landsins fyrir tugþúsundir barna frá árinu 2002. Á þessum árum hefur verkefnið skipað sér fastan sess og orðið til þess að góð lifandi tónlist nær eyrum barna sem mörg hver færu á mis við hana ella. Eru allir sammála um ágæti þessa uppeldisstarfs, jafnt tónlistarmennirnir, sem vilja miðla list sinni til barna, skólamenn og ekki síst börnin sjálf sem oftast eru gagntekin af þessari reynslu.

Nýtt nemendaráð G.Í.

Nemendaráð G.Í. 2015-2016 var kosið í morgun og eru eftirtaldir í stjórn:


Formaður: Bjarni Pétur Marel Jónasson
Varaformaður: Ólöf Einarsdóttir


8. bekkur
Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir
Hafdís Bára Höskuldsdóttir
Hugi Hallgrímsson
Einar Geir Jónasson


9. bekkur
Hanna Þórey Björnsdóttir
Kolfinna Íris Rúnarsdóttir
Georg Rúnar Elfarsson
Daníel Wale


10. bekkur 
Ína Guðrún Gísladóttir
Birta Rós Þrastardóttir
Jón Ómar Gíslason
Bergsteinn Bjarkason

 

Við óskum þessum nemendum velfarnaðar í starfi í vetur og hlökkum til samstarfsins.

Tengiliðir foreldra

Nú í upphafi skólaárs er að mörgu að hyggja. Eitt af því sem skiptir okkur öll miklu máli er gott samstarf heimilis og skóla, ekki síst nemendanna vegna, því velferð þeirra er markmið okkar allra sem að skólastarfinu komum. Á næstunni mun skólinn leita til foreldra eftir tengiliðum eða bekkjarfulltrúum. Hlutverk þeirra er að efla og styrkja samstarf foreldra/forráðamanna og nemenda auk þess að leitast við að treysta samband heimila og skóla innan hverrar bekkjardeildar. 

Við vonum að foreldrar bregðist vel við og gefi sig í það skemmtilega starf og hlökkum við til samstarfsins í vetur.

Fjallgöngur

Við njótum þeirra forréttinda hér á Ísafirði að vera í nánum tengslum við náttúruna og þurfum ekki langt að fara til að njóta hennar. Í allmörg ár hafa árgangar skólans farið í fjallgöngur að hausti og á hver árgangur ,,sitt fjall" eða gönguleið. Þannig hafa 1. bekkingar gengið upp í Stórurð, 4. bekkingar í Naustahvilft og 7. bekkingar upp að Fossavatni, svo dæmi séu tekin. Við lok 10. bekkjar þekkja nemendur því vel nærumhverfi sitt og mörg örnefni.

Þessa vikuna má búast við að sjá nemendur skólans upp um fjöll og firnindi, enda spáir vel næstu daga. 

Við bendum á að nú eru engar bekkjarsíður hér á heimasíðunni, en fréttir frá hverjum og einum árgangi verða settar inn á mentor.is.

Heimferðin gengur vel

Heimferðin frá Reykjum gengur vel.  Rútan var í Hólmavík um 14:30 og því má búast við að hún verði við skólann um 17:30.

7. bekkur á heimleið frá Reykjum

Nú er 7. bekkur á heimleið frá skólabúðunum að Reykjum í Hrútafirði, eftir vel heppnaða dvöl. Áætluð heimkoma er á milli kl. 18:00 og 19:00 í kvöld, en nákvæmari tímasetning mun koma hér inn á síðuna þegar nær dregur.