VALMYND ×

Fréttir

Sumarlestur

Bókasafnið á Ísafirði verður með sumarlestur fyrir börn í 1. - 6. bekk, frá 1. júní til 22. ágúst.
Til að vera með koma börnin á bókasafnið með skírteinið sitt, fá lestrarpésa og bækur að láni. Þegar búið er að lesa bók er settur miði í lukkupott og límmiði er settur í lestrarpésann. Dregið er úr lukkupottinum í lok sumars og öll börn sem hafa tekið þátt fá glaðning.
Bókasafnið hvetur foreldra til að taka þátt í þessu og koma með börnum sínum á bókasafnið til að velja bækur. Starfsfólk aðstoðar gjarnan þá sem vilja og bókalistar munu liggja frammi. Það er mikilvægt að börnin finni eitthvað að lesa sem þeim finnst skemmtilegt og sem hæfir lestrargetu þeirra til að efla lestur og auka orðaforða. Athugið að ekki er leyfilegt að skila bók samdægurs.
Foreldrar barna í 1.- 3. bekk sem fá sitt fyrsta skírteini komi með börnunum, en fyrsta skírteini er ókeypis.

Nýtt fréttabréf

Nú hefur fréttabréf maímánaðar litið dagsins ljós og er það líflegt og skemmtilegt að vanda, enda mikið sem gerist hér í skólanum.

Útistærðfræði

Nú er allur snjór loksins horfinn úr portinu hjá okkur og hitastigið á uppleið. 2. bekk fannst því upplagt að drífa sig út í stærðfræði og unnu krakkarnir á þremur stöðvum. Á einni stöðinni áttu þeir að velja hluti til mælinga á lengd og breidd, á þeirri næstu var farið í leikinn 10-20 og á síðustu stöðinni var bíll látinn renna á þremur mismunandi brautum og niðurstöður skráðar. Það var mikil gleði og kátína í þessum stærðfræðitíma eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. 

Uppstigningardagur

Á morgun, fimmtudaginn 14. maí, er uppstigningardagur og engin kennsla.

Súpa dagsins

Súpugerðarmeistarar dagsins f.v. Jóhanna, Birna, Tekla, Bjarni Pétur, Guðrún og Karolina.
Súpugerðarmeistarar dagsins f.v. Jóhanna, Birna, Tekla, Bjarni Pétur, Guðrún og Karolina.

Í dag fékk heimilisfræðivalið það verkefni að laga súpu án uppskriftar. Nemendur máttu velja úr ákveðnu hráefni og fengu rúma klukkustund til þess að elda súpu, finna nafn á hana og framreiða síðan einn disk fyrir dómara til smökkunar. Þetta tókst ljómandi vel en keppt var um útlit og bragð. Upphaflega átti verkefnið ekki að snúast um keppni en krakkarnir höfðu mikinn áhuga á þvi þannig að hóað var í sex starfsmenn skólans til að dæma súpurnar góðu. Súpan Heitt mix þótti best, en hinar tvær voru hnífjafnar að stigum.

Þátttakendum þótti þetta fyrirkomulag hið skemmtilegasta og verður það örugglega endurtekið við tækifæri.

Þjóðleikur

Hilda María Sigurðardóttir og Pétur Ernir Svavarsson í sínum hlutverkum á Þjóðleik. Mynd: Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir.
Hilda María Sigurðardóttir og Pétur Ernir Svavarsson í sínum hlutverkum á Þjóðleik. Mynd: Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir.

Nú um helgina var Þjóðleikur, leiklistarhátíð ungs fólks, haldinn í Edinborgarhúsinu hér á Ísafirði. Hátíðin er haldin annað hvert ár á landsbyggðinni, að frumkvæði Þjóðleikhússins, í samstarfi við menningarráð, skóla, leikfélög og fjölda annarra aðila. Sex leikhópar ungs fólks af Vestfjörðum og Norðurlandi vestra sýndu tvö glæný íslensk leikverk. Í hópi þessa ungu listamanna voru 28 nemendur úr leiklistarvali og tækniráði Grunnskólans á Ísafirði, undir leikstjórn Hörpu Henrýsdóttur. Krakkarnir voru í tveimur hópum og sýndu bæði leikverk hátíðarinnar, þ.e. Útskriftarferðina eftir Björk Jakobsdóttur og Hlauptu/Týnstu eftir Berg Ebba.

Krakkarnir stóðu sig frábærlega vel og er greinilegt að skólinn á margt efnilegt listafólk, sem við eigum eflaust eftir að sjá meira af í framtíðinni.

Heimsókn í 3X Technology

Í fyrradag var nemendum 10. bekkjar boðið í heimsókn í 3X Technology. Þar tók Karl Ásgeirsson rekstrarstjóri á móti hópnum, kynnti fyrirtækið og sýndi alla þá ótrúlega miklu hönnun og framleiðslu sem þar fer fram. Að lokum fengu allir veitingar og voru leystir út með gjöf eins og meðfylgjandi mynd sýnir.

Nemendur voru hæstánægðir með heimsóknina og þakka kærlega höfðinglegar móttökur.

 

Nýtt nemendaráð G.Í.

Í morgun fór fram kjör formanns nemendaráðs Grunnskólans á Ísafirði 2015-2016. Nýr formaður var kosinn Bjarni Pétur Marel Jónasson og varaformaður verður Ólöf Einarsdóttir.

Við óskum þeim til hamingju og hlökkum til að vinna með þeim næsta vetur.

Vordagskrá 2015

Nú er skipulagið fyrir vordaga komið hér inn á síðuna og hvetjum við alla til að kynna sér það vel. Nánari upplýsingar t.d. tímasetningar ferða og slíkt, verða sendar heim þegar nær dregur.

Grænmetisræktun hjá 1. bekk

1. bekkur að huga að grænmetisræktun
1. bekkur að huga að grænmetisræktun
1 af 12

Það er ekki einungis 4. bekkur sem farinn er að huga að grænmetisræktun. Fyrsti bekkur undirbýr nú vorkomuna með því að láta kartöflur spíra og sá baunum og kryddjurtum. Krakkarnir eru líka mjög duglegir að borða grænmeti og eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, þá er einnig hægt að gera heil listaverk úr grænmetinu.