Miðvikudaginn 29. apríl kl. 20:00 verður fluttur fyrirlestur í sal Grunnskólans á Ísafirði undir yfirskriftinni Ber það sem eftir er: Um sexting, hefndarklám og netið en um er að ræða fræðslu fyrir foreldra um öryggi barna í stafrænum samskiptum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum ganga nektarmyndir af íslenskum börnum manna á milli á netinu, en lögreglunni hefur reynst erfitt að bregðast við vandamálinu. Dreifingin er stjórnlaus og netið gleymir engu. Sexting (að skiptast á nektarmyndum) meðal barna og unglinga eykur á vandann. Rík þörf er fyrir vitundarvakningu – og upplýstir foreldrar eru besta forvörnin. Ef ekkert er aðhafst gætu fleiri börn lent í því að vera ber það sem eftir er á netinu.
Aðgangur er ókeypis og allir foreldrar eru hvattir til að mæta á fyrirlesturinn enda mikilvægt að kynna sér áskoranirnar sem fylgja tækninýjungum, þótt börnin séu enn ung að árum. Fræðslan er í höndum Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur, höfundar verðlaunamyndanna Fáðu já! og Stattu með þér! sem notaðar eru í kennslu í grunnskólum landsins. Styrktaraðili átaksins er Vodafone.