VALMYND ×

Fréttir

Tómatarækt í 4. bekk

1 af 4

Það eru ýmis störf sem tekin eru fyrir núna á vordögum. Í heimilisfræðinni eru krakkarnir i 4. bekk til dæmis að rækta tómataplöntur. Í dag var umpottað og nú gerum við okkur vonir um að plönturnar taki vaxtarkipp og við förum jafnvel að sjá blóm fara að myndast. Við fylgjumst spennt með framhaldinu á næstu vikum.

Samvera hjá 2. og 3. bekk

Í mörg ár hefur tíðkast sá skemmtilegi siður hér í skólanum að hafa svokallaða samveru hjá yngri bekkjum. Í síðustu viku hittust 2. og 3. bekkur og höfðu þannig samverustund. Margir nemendur stigu á stokk og sýndu hæfileika sína á ýmsum sviðum og má þar nefna söng, fiðludúett, brandara, töfrabrögð, grínatriði, pýramída og fleira.  Það getur reynst erfitt fyrir krakka að standa fyrir framan stóran hóp og leika listir sínar, en þessir krakkar eru orðnir vanir að koma fram og stóðu sig eins og hetjur. Í lokin sungu krakkarnir svo árshátíðarlögin sín og hafa engu gleymt. 

Mánuður eftir af skólastarfinu

Það styttist óðum í skólalok þetta skólaárið, en síðasti kennsludagur er 3. júní. Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á vorskipulagið og mun það birtast fljótlega hér á síðunni.

Við minnum á að skóladagatalið í heild sinni er að finna hér ef fólk vill hafa það til hliðsjónar við skipulagningu sumarfrísins. Við megum ekki gleyma því að þó að lítið bóklegt nám fari fram hér í skólanum síðustu kennsludagana, að þá er heilmikið annað sem nemendur fá út úr þeim dögum. 

1. maí

Á morgun er 1. maí, alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins og engin kennsla.

Góður fyrirlestur um hrelliklám

1 af 3

Í gær hélt Þórdís Elva Þorvaldsdóttir fyrirlestur fyrir foreldra í sal skólans um þá hættu sem myndbirtingar á Netinu geta valdið. Í morgun var 5. - 10. bekk einnig boðið upp á slíka fræðslu og rætt um þær alvarlegu afleiðingar sem hrelliklám og sexting getur haft á börn. Krakkarnir voru mjög opinskáir og spurðu góðra spurninga og spruttu upp góðar umræður um þessi viðkvæmu en mikilvægu mál.

Töfrastund

1 af 2

Í morgun fengum við töframennina Einar Mikael og Eyrúnu Önnu í heimsókn og sýndu þau nemendum 1. - 4. bekkjar nokkur töfrabrögð við mikinn fögnuð. Í lokin færðu þau svo öllum töfraspil að gjöf.

Samkvæmt heimasíðu Einars er hann færasti sjónhverfingamaður sem Ísland hefur átt. Hann smíðar allar sínar sjónhverfingar sjálfur enda með sveinspróf í sjónhverfingum og smíðum. 

 

Lestrarsprettur

Paralestur í 5. bekk
Paralestur í 5. bekk

Í skólanum er mikil áhersla lögð á lestur, enda er hann grunnur að öllu frekara námi. Þessa dagana er sérstakur lestrarsprettur, þar sem reynt er að útfæra lesturinn á fjölbreyttan hátt. Sem dæmi um slíkt er paralestur þar sem tveir lesa saman sömu bókina og skiptast á við lesturinn, lestrarbingó, lestrarkapp með tímatöku og fleira.

Við vonum að þessi sprettur okkar skili árangri og hvetji einnig alla til að vera duglega við heimalesturinn.

 

,,Ber það sem eftir er"

Miðvikudaginn 29. apríl kl. 20:00 verður fluttur fyrirlestur í sal Grunnskólans á Ísafirði undir yfirskriftinni Ber það sem eftir er: Um sexting, hefndarklám og netið en um er að ræða fræðslu fyrir foreldra um öryggi barna í stafrænum samskiptum. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum ganga nektarmyndir af íslenskum börnum manna á milli á netinu, en lögreglunni hefur reynst erfitt að bregðast við vandamálinu. Dreifingin er stjórnlaus og netið gleymir engu. Sexting (að skiptast á nektarmyndum) meðal barna og unglinga eykur á vandann. Rík þörf er fyrir vitundarvakningu – og upplýstir foreldrar eru besta forvörnin. Ef ekkert er aðhafst gætu fleiri börn lent í því að vera ber það sem eftir er á netinu.

 

Aðgangur er ókeypis og allir foreldrar eru hvattir til að mæta á fyrirlesturinn enda mikilvægt að kynna sér áskoranirnar sem fylgja tækninýjungum, þótt börnin séu enn ung að árum. Fræðslan er í höndum Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur, höfundar verðlaunamyndanna Fáðu já! og Stattu með þér! sem notaðar eru í kennslu í grunnskólum landsins. Styrktaraðili átaksins er Vodafone.

 

7. sæti í Skólahreysti

Úrslitin í kvöld
Úrslitin í kvöld

Keppendur Grunnskólans á Ísafirði í Skólahreysti stóðu sig mjög vel í úrslitum keppninnar í kvöld. Skólinn endaði í 7. sæti með 40,5 stig, en Holtaskóli í Reykjanesbæ sigraði með 58,5 stig.

Við óskum okkar fólki, bæði keppendum, þjálfara og stuðningsmönnum, innilega til hamingju og góðrar heimferðar.

1. bekkingar fá reiðhjólahjálma

Gunnlaugur Gunnlaugsson, Rannveig Pálsdóttir og Árný Herbertsdóttir ásamt nemendum 1. bekkjar með hjálmana góðu.
Gunnlaugur Gunnlaugsson, Rannveig Pálsdóttir og Árný Herbertsdóttir ásamt nemendum 1. bekkjar með hjálmana góðu.

Í morgun kom Gunnlaugur Gunnlaugsson, umdæmisstjóri Kiwanishreyfingarinnar, færandi hendi og gaf öllum nemendum 1. bekkjar reiðhjólahjálma að gjöf. Það munu vera 25 ár síðan hreyfingin hóf að gefa slíka hjálma og er fjöldi þeirra kominn upp í 120-130 þúsund stykki.

Það munu vera öruggir krakkar sem hjóla út í sumarið á komandi vikum og ekki vafi að þessar rausnarlegu gjafir koma sér vel.