VALMYND ×

Fréttir

Vestfjarðameistarar í Skólahreysti

Keppendur G.Í. sigurglaðir
Keppendur G.Í. sigurglaðir
1 af 2

Í dag fór fram keppni í Vestfjarðariðlinum í Skólahreysti. Grunnskólinn á Ísafirði sigraði riðilinn og tryggði sér þar með þátttöku í úrslitakeppninni sem fram fer í Laugardalshöll 22. apríl n.k.

Fyrir hönd G.Í. kepptu þau Einar Torfi Torfason, Guðný Birna Sigurðardóttir, Gunnar Þór Valdimarsson og Katrín Ósk Einarsdóttir. Varamenn voru þau Birkir Eydal og Eva Rún Andradóttir.

Við óskum krökkunum innilega til hamingju með þennan glæsilega sigur og fylgjumst spennt með áframhaldinu.

Skólahreysti

Fimmtudaginn 5. mars keppir Grunnskólinn á Ísafirði í Vestfjarða- og Vesturlandsriðli í skólahreysti, í Mýrinni í Garðabæ kl. 13:00.  Fyrir hönd skólans keppa þau Einar Torfi Torfason í upphífingum og dýfum, Guðný Birna Sigurðardóttir í armbeygjum og hreystigreip og þau Katrín Ósk Einarsdóttir og Gunnar Þór Valdimarsson í hraðaþraut.

Við óskum okkar fólki góðs gengis og fylgjumst spennt með.

PISA könnun

Miðvikudaginn 4. mars verður PISA (Programme for International Student Assessment) könnun lögð fyrir nemendur 10. bekkjar, en hún reynir á færni 15 ára nemenda í náttúrufræði, stærðfræði og lestri.

Rannsóknin er á vegum OECD (Efnahags- og framfarastofn­unarinnar) og er Ísland ein af 70 þjóðum sem þátt taka í rannsókninni.

Markmiðið er að afla upplýsinga sem nýtast stjórnvöldum, fræðimönnum og skólastjórnendum til að meta núverandi stöðu grunnmenntunar og móta menntakerfi framtíðarinnar. Með endurteknum könnunum fæst bæði samanburður milli landa og einnig mikilvægar upplýsingar um þróun menntamála hér á landi miðað við önnur lönd. Rannsóknin var fyrst framkvæmd árið 2000, endurtekin 2003, 2006, 2009 og 2012 og er nú lögð fyrir í sjötta skiptið.

Skólakeppni stóru upplestrarkeppninnar

Lesararnir 6 sem valdir voru til þátttöku á lokahátíð upplestrarkeppninnar
Lesararnir 6 sem valdir voru til þátttöku á lokahátíð upplestrarkeppninnar
1 af 3

Í morgun var skólakeppni stóru upplestrarkeppninnar haldin í sal skólans. 13 nemendur úr 7. bekk lásu sögubrot og ljóð fyrir dómara. Sex nemendur voru valdir áfram til að keppa fyrir hönd skólans á lokahátíð keppninnar, sem haldin verður á næstu vikum. Þeir nemendur eru: Davíð Hjaltason, Hafdís Bára Höskuldsdóttir, Hilmir Hallgrímsson, Hugi Hallgrímsson, Rebekka Skarphéðinsdóttir og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir. Til vara verður Dagný Björg Snorradóttir.

Dómarar voru þær Herdís Hübner, Margrét Halldórsdóttir og Sigurlína Jónasdóttir og á meðan þær réðu ráðum sínum, var boðið upp á tónlistaratriði nokkurra 7. bekkinga.

Við óskum öllum 7. bekk til hamingju með góðan árangur í upplestrarkeppninni í vetur og vonum að okkar lesarar standi sig vel á lokahátíðinni, sem haldin verður föstudaginn 13. mars kl. 20:00 í Hömrum.

Akstur strætisvagna fellur niður í dag

í dag, 26. febrúar falla allar ferðir strætisvagna niður í Ísafjarðarbæ. Skólinn er hins vegar opinn en búast má við að kennslan verði með óhefðbundnum hætti þar margir nemendur og starfsfólk komast væntanlega ekki til skóla og vinnu.

Óveður

Vegna slæmrar veðurspár vilja skólastjórnendur koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri:

 

Ísafjarðarbær hefur gefið út viðmið um hvenær loka eigi stofnunum vegna  óveðurs. Þar kemur m.a. fram að stofnunum bæjarins sé ekki lokað nema algjöra nauðsyn beri til og getur forstöðumaður lokað stofnun af einni eða fleirum af eftirtöldum ástæðum:

  • Tilmæli frá almannavörnum eða lögreglu
  • Rafmagnsleysi kemur í veg fyrir að hægt sé að halda stofnuninni opinni
  • Ófærð er svo almenn að ekki næst að kalla til lágmarksfjölda starfsmanna til að halda a.m.k. skertri þjónustu

Foreldrar eru hvattir til að fylgjast með veðurspám og fréttum af veðri því þeir leggja sjálfir mat á hvort fylgja þarf barni í skóla þótt engin tilkynning hafi borist frá skóla. Meti foreldrar aðstæður svo að ekki sé óhætt að börn þeirra sæki skóla þá skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll. Hið sama gildir ef foreldrar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa.

Skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar

11 af 13 upplesurum, en á myndina vantar þær Hafdísi Báru Höskuldsdóttur og Unu Salvöru Gunnarsdóttur.
11 af 13 upplesurum, en á myndina vantar þær Hafdísi Báru Höskuldsdóttur og Unu Salvöru Gunnarsdóttur.

Á föstudaginn kl. 8:00 verður skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar haldin í sal skólans. Þar munu 13 nemendur úr 7. bekk lesa sögubrot og ljóð fyrir sérstaka dómnefnd, sem sker úr um það hverjir munu verða fulltrúar G.Í. á lokahátíð keppninnar, sem fram fer að viku liðinni í Hömrum.

Þeir sem lesa upp á föstudaginn eru: Ásgeir Óli Kristjánsson, Dagný Björg Snorradóttir, Davíð Hjaltason, Egill Fjölnisson, Guðmundur Arnar Svavarsson, Hafdís Bára Höskuldsdóttir, Hilmir Hallgrímsson, Hugi Hallgrímsson, Ívar Breki Helgason, Nikodem Júlíus Frach, Rebekka Skarphéðinsdóttir, Una Salvör Gunnarsdóttir og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir.

Nemendur 7. bekkjar hófu allir þátttöku í keppninni þegar hún var sett á Degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember s.l.  og hafa æft vel, sérstaklega síðustu vikurnar.

Lúsin enn og aftur

Af gefnu tilefni vill skólahjúkrunarfræðingur benda á að lúsin er ennþá viðvarandi í skólanum og búin að vera það í rúmlega eitt ár. Póstur hefur verið sendur heim á alla foreldra, þar sem rætt er um mikilvægi kembingar og að foreldrar haldi áfram að kemba næstu tvær vikur og þá alla fjölskyldumeðlimi. Kemba þarf á fjögurra daga fresti næstu 2 vikur þ.e. á 1. degi, 5. degi, 9. degi og 13. degi.

Hjálpumst nú öll að og upprætum þennan óboðna gest. Það tekst ekki nema með því að ALLIR fari eftir þessum fyrirmælum!

Skyndihjálp

Gunnlaugur Grétarsson ásamt nemendum 5. bekkjar G.Í. í morgun
Gunnlaugur Grétarsson ásamt nemendum 5. bekkjar G.Í. í morgun

Í tilefni af 90 ára afmæli Rauða krossins á Íslandi eru grunnskólar á landinu heimsóttir af sjálfboðaliðum. Tilgangur heimsóknanna er að minna á mikilvægi skyndihjálpar og er lögð áhersla á rétt viðbrögð varðandi aðskotahlut í hálsi, bruna og blæðingu, auk þess sem réttu handtökin við endurlífgun eru kennd.

Gunnlaugur Grétarsson, sjálfboðaliði hjá RKÍ er þessa dagana að heimsækja bekki G.Í. og fræða þá um þessi mál, auk þess sem nemendur fá að spreyta sig á hjartahnoði. 

Nánari upplýsingar má finna á vef RKÍ auk þess sem samið hefur verið skyndihjálparlag til að festa rétt viðbrögð betur í minni.