VALMYND ×

Fréttir

G.Í. sigraði á íþróttahátíðinni

Verðlaunagripir sigurliða G.Í.
Verðlaunagripir sigurliða G.Í.
Íþróttahátíðin í Bolungarvík fór fram 10. október s.l. Grunnskólinn á Ísafirði sendi 2 lið til keppni í öllum greinum nema dansi og stóðu allir nemendur sig með stakri prýði.
Að þessu sinni var keppt í dansi, borðtennis, badminton, sundi, sundblaki, skák, spurningakeppni, víðavangshlaupi, körfubolta, fótbolta, förðun, hár og hönnun. Sigur vannst í flestum greinum sem varð til þess að skólinn stóð uppi sem sigurvegari með hundrað stig. Ný grein var kynnt á þessari hátíð, Fifa 15 (Playstation) og keppt verður í henni á næsta ári til stiga.
Það er mikil keppni á milli skóla og í einn dag á ári verða samherjar í hinum ýmsu íþróttagreinum miklir mótherjar og er gaman að sjá keppnisskapið hleypa þeim enn lengra. Það munu verða breytingar á keppninni á næsta ári og verður spennandi að sjá hvernig þær verða útfærðar. Við eigum flotta krakka og þeir nemendur sem ekki tóku þátt sem keppendur tóku svo sannarlega þátt sem stuðningsmenn og er það hverjum skóla gulls ígildi að eiga þannig nemendur.  

Bleikur dagur

Október er mánuður Bleiku slaufunnar, árveknis- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameinum hjá konum. Af því tilefni biður félagið alla landsmenn um að klæðast einhverju bleiku fimmtudaginn 16. október eða hafa bleikan lit í fyrirrúmi þann dag og sýna þannig samstöðu.
Við hvetjum alla starfsmenn og nemendur G.Í. til að styðja við átakið með því að taka þátt í bleika deginum á morgun.

 

 

Allir lesa

Landsleikurinn ALLIR LESA hefst í fyrsta sinn 17. október og lýkur á degi íslenskrar tungu 16. nóvember. Miðstöð íslenskra bókmennta og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO standa að þessum skemmtilega leik og um að gera að hvetja nemendur sem og aðra til að taka þátt. Leikurinn gengur út á að þátttakendur skrá þá titla sem þeir lesa og þann tíma sem þeir verja í lestur.

Skráning liða á www.allirlesa.is hófst þann 10. október þegar vefurinn var formlega opnaður. Nánari upplýsingar má sjá hér.

Stattu með þér!

Í dag verður fræðslumyndin Stattu með þér! frumsýnd í öllum grunnskólum á landinu sem eiga þess kost, en myndin er á vegum Vitundarvakningar um kynferðislegt, andlegt, og líkamlegt ofbeldi gegn börnum. Hlutverk Vitundarvakningar er að kortleggja, samhæfa og stuðla að umfangsmiklu forvarnarstarfi í málaflokknum í samstarfi við viðkomandi aðila, huga að rannsóknum varðandi ofbeldi gegn börnum og stuðla að aukinni samfélagsvitund um málaflokkinn. Fræðsla og forvarnir beinast fyrst og fremst að börnum, fólki sem vinnur með börnum, réttarvörslukerfinu sem og almenningi.

Vefurinn www.stattumeðþér.is hefur verið opnaður formlega. Þar er hægt að nálgast myndina í heild sinni eða eftir köflum ásamt kennsluleiðbeiningum sem höfundar skrifuðu samhliða stuttmyndinni og lagið „Stattu með þér“ eftir Baldur Ragnarsson í Skálmöld. Myndin hefur verið textuð á sex tungumálum og eru þær útgáfur væntanlegar á vefinn.

Verkefnisstjórn Vitundarvakningar, Þórdís Elva Þorvaldsdóttir handritshöfundur, Brynhildur Björnsdóttir leikstjóri og aðrir aðstandendur Stattu með þér! óska nemendum, skólafólki og foreldrum til hamingju með fræðsluefnið, sem er fyrsta sinnar tegundar fyrir þennan aldurshóp, og vona að það nýtist þeim sem allra best. 

Íþróttahátíðin í Bolungarvík

Föstudaginn 10. október verður hin árlega íþrótthátíð 8. - 10. bekkjar haldin í Bolungarvík, þar sem skólar á norðanverðum Vestfjörðum etja kappi í hinum ýmsu íþróttagreinum, s.s. dansi, sundi, borðtennis, sundblaki, víðavangshlaupi, badminton, körfubolta o.fl.  Keppnin hefst kl. 11:00  og fer rúta frá skólanum kl. 10:30 (frá Stórholti kl. 10:15) og tekur nemendur í Hnífsdal við Félagsheimilið. Ekki er kennsla hjá 8. - 10. bekk þennan dag og eiga allir að mæta á íþróttahátíðina, hvort heldur er til að keppa eða hvetja nemendur.

Áætlað er að keppni ljúki milli kl. 18:30 og 19:00. Þá verður gert hlé til kl. 19:30 en þá hefst dansleikur í skólanum sem lýkur kl. 23:00 og er aðgangseyrir kr. 1000. Rúta verður frá íþróttahúsinu kl. 19:00 fyrir þá sem ekki ætla á ball og önnur kl. 23:00 strax eftir ball.  

Nánari upplýsingar eru sendar útprentaðar heim í dag.

Nemendur í smáskipanámi fá bókagjafir

Nemendur í smáskipanámi ásamt Smára Haraldssyni og Guðbirni Páli Sölvasyni. Mynd: frmst.is
Nemendur í smáskipanámi ásamt Smára Haraldssyni og Guðbirni Páli Sölvasyni. Mynd: frmst.is

Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. í Hnífsdal hefur fært þeim nemendum G.Í. sem leggja stund á smáskipanám hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Sjómannabókina eftir Pál Ægi Pétursson að gjöf. Um er að ræða handbók fyrir sjómenn í flestu því sem máli skiptir við sjómennsku og stjórnun skipa og er bókin hin vandaðasta. „Það er mikilvægt fyrir stofnun eins og Fræðslumiðstöð Vestfjarða að hafa góða bakhjarla, sem láta sig skipta starfsemi hennar og viðgang. Það á Fræðslumiðstöðin í ríkum mæli og er t.d. ánægjulegt hvað aðilar vinnumarkaðarins beggja vegna borðs, tala einum rómi í fræðslumálum fullorðinna" segir á vef fræðslumiðstöðvarinnar. 
Í vetur kennir Fræðslumiðstöð Vestfjarða smáskipanám í annað skipti  fyrir Grunnskólann á Ísafirði. Nú eru 11 nemendur úr skólanum í þessu námi og er leiðbeinandi Guðbjörn Páll Sölvason. 

Sjáumst í vetur

Á þessum tíma ársins þegar skammdegið færist yfir og myrkur verður stóran hluta sólarhringsins er gott að minna á mikilvægi þess að nota endurskinsmerki

Nemendur G.Í. gera það gott

Nemendur G.Í. hafa oftsinnis sýnt hæfileika sína utan skólans, svo eftir er tekið.

Nú á dögunum var Kjartan Óli Kristinsson í 10.BG valinn í U17 ára landslið drengja í blaki, sem fer til Englands í lok október. Þetta er í fyrsta sinn sem leikmaður frá blakfélaginu Skelli kemst í landsliðshóp og virkilega mikil viðurkenning fyrir þennan unga leikmann.

Þá hefur Nikodem Júlíus Frach í 7.HG, fiðluleikari með meiru, tekið þátt í æfingum með ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands nú undanfarið, en í sveitina eru einungis valdir framúrskarandi hljóðfæraleikarar. Sveitin hélt tónleika síðastliðinn sunnudag og verður upptaka frá þeim leikin í útvarpinu fimmtudaginn 9. október kl. 19:00. 

Við óskum þessum ungu mönnum innilega til hamingju með frábæra frammistöðu.

Vinaliðaverkefni að hefjast

Planið fyrstu vikuna
Planið fyrstu vikuna
1 af 6

Í næstu viku  hefja vinaliðar störf í frímínútum fyrstu fjóra virka daga vikunnar. Krakkarnir sem kosnir voru lýðræðislegri kosningu, hafa fengið námskeið varðandi sín hlutverk og eru með allt á hreinu og tilbúnir til starfa á mánudaginn.

Vinaliðaverkefnið snýst um það að setja upp leikstöðvar í frímínútunum hjá 4. - 7. bekk og stjórna vinaliðar því að allt fari vel fram á hverri stöð. Það er von skólans að með þessu finni allir eitthvað við sitt hæfi í frímínútunum og enginn verði afskiptur.

Nánari upplýsingar varðandi verkefnið má finna hér inni á heimasíðu Árskóla á Sauðárkróki, sem stýrir verkefninu á landsvísu.

 

Fyrsti snjórinn

Nemendur G.Í. að leik í morgun. Mynd: Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir
Nemendur G.Í. að leik í morgun. Mynd: Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir

Það voru margir sem fögnuðu fyrstu snjókornunum þetta skólaárið eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Sem betur fer voru flestir við þessu búnir og vel klæddir til útiverunnar í morgun.