VALMYND ×

Fréttir

Heimsókn frá Kaufering

Síðastliðið haust hélt hópur 10. bekkinga G.Í. og G.Þ. ásamt kennurum til Kaufering, vinabæjar Ísafjarðarbæjar í Þýskalandi.

Nú er komið að Þjóðverjum að endurgjalda heimsóknina og eru 8 nemendur ásamt 3 skólastarfsmönnum frá Kaufering, í heimsókn hjá okkur þessa vikuna. Hópurinn gistir í heimahúsum hjá nemendum 10. bekkjar G.Í. og mun hafa nóg fyrir stafni alla vikuna. Grunnskólar Ísafjarðarbæjar verða allir heimsóttir, auk þess sem litið verður inn í nokkur fyrirtæki í bæjarfélaginu. Þá verður haldið menningarkvöld, farið í bíó, borðað saman í Tjöruhúsinu og í stjórnsýsluhúsinu með bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, svo fátt eitt sé nefnt. Hópurinn heldur svo heim á leið á föstudaginn.

 

Blár apríl

Alþjóðlegur dagur einhverfu var 2. apríl síðastliðinn og stendur styrktarfélag barna með einhverfu fyrir styrktar- og vitundarátakinu Blár apríl. Stofnanir og fyrirtæki verða meðal annars lýst upp í bláum lit þennan mánuðinn.

Rétt eins og blæbrigði bláa litarins eru birtingarmyndir einhverfu óteljandi því hver einstaklingur hefur sinn stað
á rófinu með öllum þeim áskorunum sem einhverfu fylgja.

Við hvetjum starfsfólk og nemendur skólans til að klæðast einhverju bláu af þessu tilefni föstudaginn 10. apríl næstkomandi.

Dagur barnabókarinnar

Á hverju ári standa alþjóðasamtök IBBY fyrir degi barnabókarinnar – tilefni sem er nýtt til þess að vekja athygli á bókum handa börnum og bóklestri barna.
Íslandsdeild samtakanna heldur sem fyrr upp á daginn með því að færa öllum grunnskólanemum landsins smásögu að gjöf. Í ár hefur Gunnar Helgason skrifað söguna Lakkrís – eða Glæpur og refsing sem hentar lesendum á aldrinum sex til sextán ára. Sagan verður lesin á RUV í dag fimmtudaginn 9. apríl kl. 9:10.

Nýtt fréttabréf

Nýtt fréttabréf Grunnskólans fyrir mars er nýkomið út og má sjá hér. Þar er stiklað á stóru í því fjölbreytta starfi sem fram fer í skólanum og virkilega gaman að sjá hvað nemendur og starfsfólk eru að fást við.

Páskaleyfi

Þá er 5 frábærum árshátíðarsýningum lokið og virkilega gaman að sjá hversu hæfileikaríka nemendur við eigum hér í G.Í. Myndir frá undirbúningnum og sýningunum sjálfum tínast nú inn á myndasíðuna okkur og hvetjum við ykkur til að kíkja á þær.

Nú tekur páskaleyfið við og hefst kennsla aftur þriðjudaginn 7. apríl.
Við óskum nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar páskahátíðar og vonum að allir njóti vel.

Árshátíðarundirbúningur

Leikmynd í smíðum
Leikmynd í smíðum
1 af 5

Nú er undirbúningur í hámarki fyrir árshátíðina okkar sem verður dagana 25. og 26. mars næstkomandi. Yfirskriftin að þessu sinni er ,,Draugar og galdrar“. Fyrirkomulag sýninga er með breyttu sniði í ár, en nú verða sýningar seinnipart og um kvöld, sjá hér fyrir neðan.

1. sýning – miðvikudagur 25. mars kl. 17:00

Flytjendur: 1. – 7. bekkur.

Áhorfendur:  Nemendur í 1. og 2. bekk og foreldrar/gestir þeirra.

 

2. sýning – miðvikudagur 25. mars kl. 20:00

Flytjendur: 5.–10. bekkur

Áhorfendur: Nemendur í 5.–7. bekk og foreldrar/gestir

 

3. sýning – fimmtudagur 26. mars kl. 9:00 

Flytjendur: 1.-4.bekkur

Áhorfendur: Tveir elstu árgangar leikskólanna  (ásamt 8-10.b)

 

4. sýning – fimmtudaginn 26. mars kl. .17:00

Flytjendur: 1.-7.bekkur

Áhorfendur: Nemendur í 3. og 4. bekk og foreldrar/gestir þeirra

 

5. sýning – fimmtudaginn 26. mars kl. . 20:00

Flytjendur: 7.–10. bekkur,

Áhorfendur: Nemendur í 8.–10. bekk og foreldrar/gestir þeirra

Ball (fyrir nem. 8.-10. bk.) er að lokinni sýningu til miðnættis.

 

Gert er ráð fyrir að nemendur í 1.-2. bekk mæti kl. 16:00 báða dagana og þeir sem eru í dægradvöl komi beint í skólann eftir að dægradvöl lýkur.  Nemendur í 3.-7.bekk mæta kl. 16:30.

Erfitt er að áætla lengd hverrar skemmtunar en í ljósi reynslunnar má gera  ráð fyrir 1 til 1½ klst.   Gestum er bent á að virða óskir skólans varðandi það á hvaða sýningar fólk á að mæta.  Við hvetjum gesti til að sitja skemmtunina til enda.  Það hefur töluvert rask og óþægindi í för með sér að yfirgefa sýningu áður en henni lýkur. 

Athugið:

  • Þar sem húsrými er takmarkað eru allir beðnir um að virða óskir um það hverjir mæta á hvaða sýningar.  Mikilvægt er að fólk mæti tímanlega svo hægt sé að hefja sýningu á tilsettum tíma.
  • Aðgangseyrir á árshátíðarsýningu er 1000 kr.  Nemendur og starfsfólk GÍ svo og þeir sem eru 67 ára eða eldri greiða ekki aðgangseyri.  Fólk borgar aðeins inn á eina sýningu, þeir sem sækja fleiri sýningar (þ.e. eiga fleiri en eitt barn í skólanum) sýna fyrri aðgöngumiða við innganginn.  Hagnaður af sýningum rennur í ferðasjóð 7. bk. vegna skólabúða.
  • Aðgangseyrir á diskótekið er 500 kr.
  • Ekki  er tekið við kortum.
  • Hefðbundin kennsla  í 7.-10.b hefst kl. 9:40 á föstudeginum.
  • Mötuneytið verður opið báða árshátíðardagana.

Sólmyrkvi

Föstudaginn 20. mars verður mesti sólmyrkvi sem sést hefur á Íslandi í rúm 60 ár. Sólmyrkvinn verður á skólatíma og mikil umræða hefur verið meðal kennara um hvernig unnt sé að leyfa nemendum að fylgjast með honum.  Það eru tvo atriði sem strandar á.  Annarsvegar að sólin sést ekki frá skólanum á þessum tíma og hinsvegar hætta á augnskemmdum ef ekki er farið varlega. 

Því bjóðum við foreldrum að sækja börn sín kl. 9:00 á föstudagsmorgninum og fara með þau að fylgjast með sólmyrkvanum, en það er t.d. hægt að gera það frá Félagsheimilinu í Hnífsdal. Þeir foreldrar sem vilja gera það eru beðnir um að láta umsjónarkennara vita fyrir fimmtudaginn 19. mars og einnig að láta vita ef þeir bjóða vinum barna sinna með.

 

Samkvæmt upplýsingum frá augnlækni er HÆTTULEGT að horfa á sólmyrkvann án sólmyrkvagleraugna!

Skólabörn fá ókeypis gleraugu og aðrir eiga kost á að kaupa þau. Flestir kannast við að hægt er að valda bruna með því að beina sólargeislum í gegnum stækkunargler. Hið sama getur gerst í auganu þegar augasteinninn brýtur sólargeislana og beinir þeim í brennipunkt á sjónhimnu augans. Þar sem augað horfir beint í sólina getur því myndast brunagat á versta stað, það er í miðgróf sjónhimnunnar og veldur það blindum bletti í miðju sjónsviðsins, misstórum, með tilheyrandi sjónskerðingu sem oft er varanleg. Augnlæknar beina því til þeirra sem verða með stóra hópa barna að horfa á myrkvann, að brýna fyrir þeim að horfa allan tímann í gegnum gleraugun, það þarf ekki langan tíma til að valda óbætanlegum skaða. 

Skólinn faðmaður

Vel gekk að mynda keðju utan um skólann í morgun í blíðskaparveðri og taka þannig þátt í verkefninu Hönd í hönd. Mannréttindaskrifstofa Íslands hefur útbúið fræðsluefni um kynþáttafordóma og munum við nýta okkur það til áframhaldandi fræðslu varðandi þessi mál.

Hönd í hönd fyrir margbreytileika

Þann 21. mars er alþjóðlegur dagur gegn kynþáttamisrétti. Af því tilefni eru um alla Evrópu haldnir viðburðir tengdir fjölbreytileika undir yfirskriftinni Evrópuvika gegn kynþáttamisrétti. Síðustu ár hefur Mannréttindaskrifstofa Íslands staðið að margvíslegum viðburðum í samstarfi við ýmsa hópa ungs fólks á Íslandi.

Þemað í ár er Hönd í hönd og hvetur Mannréttindaskrifstofan alla grunnskólanemendur á landinu að fara út úr skólabyggingunni kl. 11:00 þriðjudaginn 17. mars og leiðast í kringum hana og þannig standa saman með margbreytileika í okkar samfélagi. Skilaboðin eru skýr: Það er bannað að mismuna vegna útlits eða uppruna, njótum þess að vera ólík og allskonar.

Grunnskólinn á Ísafirði ætlar að sjálfsögðu að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni og munu nemendur mynda keðju utan um skólabygginguna á morgun kl. 11:00. 

Hilmir las til sigurs

Hilmir Hallgrímsson, sigurvegari í stóru upplestrarkeppninni (Mynd: Birna Lárusdóttir).
Hilmir Hallgrímsson, sigurvegari í stóru upplestrarkeppninni (Mynd: Birna Lárusdóttir).
1 af 2

Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar fór fram í gærkvöld í Hömrum. Þar lásu 14 nemendur 7. bekkja á norðanverðum Vestfjörðum ljóð og sögubrot fyrir áheyrendur og dómara.

Úrslitin urðu þau að Hilmir Hallgrímsson G.Í. sigraði. Í öðru sæti varð Davíð Hjaltason G.Í. og í því þriðja hafnaði Stefanía Silfá Sigurðardóttir frá G.B.

Dómarar voru þau Aðalbjörg Sigurðardóttir, Björk Einisdóttir, Hrafnhildur Hafberg og Pétur G. Markan. 

Við óskum öllum þessum frambærilegu upplesurum innilega til hamingju með árangurinn.