VALMYND ×

Fréttir

Foreldradagur

Á morgun, miðvikudaginn 11. febrúar er foreldradagur í skólanum. Þá er engin kennsla, en nemendur mæta í sínar umsjónarstofur ásamt foreldrum/forráðamönnum á þeim tíma sem þeir hafa skráð sig. 

Foreldrakönnun

Grunnskólinn á Ísafirði notar sjálfsmatskerfið Skólapúlsinn til að fylgjast með og bæta innra starf skólans. Liður í því er að spyrja úrtak foreldra/forráðamanna í skólanum um nám og kennslu, velferð nemenda, aðstöðu og þjónustu, samstarf við skólann og heimanám.

Það er mjög mikilvægt fyrir skólann að allir sem lentu í úrtakinu taki þátt. Því viljum við biðja alla þá foreldra að svara könnuninni, en þeir hinir sömu hafa fengið tölvupóst með öllum nánari upplýsingum.  

 

Stillum saman strengi

Nú er skólinn lagður af stað í umfangsmikið þróunarverkefni sem kallað er Stillum saman strengi.   Í því felst meðal annars að við leggjum fyrir fleiri skimanapróf en áður og vinnum markvisst með niðurstöðurnar.  Allir kennarar skólans eru að vinna í að bæta kunnáttu sína til að efla lesskilning nemenda, undir leiðsögn frá Háskólanum á Akureyri.  Einnig er unnið að aukinni tæknifærni og eru fleiri árgangar að fá spjaldtölvur til afnota í skólanum.  Við stígum samt sem áður varlega til jarðar í þessu því það er mikilvægt að láta tæknina þjóna verkefnunum og gæta þess að hún verði til að auka fjölbreytni en ekki bara til að gera allt eins og áður með nýjum verkfærum.  

Kynningarfundur fyrir foreldra nemenda í 8. - 10. bekk var haldinn í síðustu viku og fundur fyrir foreldra yngri nemenda verður á morgun, þriðjudaginn 3. febrúar kl. 18 - 19.

Fleiri fréttir úr skólalífinu má sjá í nýju fréttabréfi, sem leit dagsins ljós í dag.

Sólarkaffi

Sólargleði hjá 2. bekk
Sólargleði hjá 2. bekk

Það hefur legið pönnukökuilmur í loftinu síðustu daga, þar sem hinir ýmsu bekkir hafa gert sér glaðan dag með pönnukökuáti og beðið komu sólar. Veðurskilyrði hafa þó ekki gefið okkur færi á sólargeislum, en nemendur sem og aðrir Ísfirðingar bíða eflaust spenntir og vonandi ekki langt að bíða.

Grettir

Elfar Logi í gerfi Grettis Ásmundarsonar. Mynd: Kómedíuleikhúsið.
Elfar Logi í gerfi Grettis Ásmundarsonar. Mynd: Kómedíuleikhúsið.

Kómedíuleikhúsið sýndi nemendum unglingastigs nýjasta verk sitt, Gretti, síðastliðinn fimmtudag. Elfar Logi Hannesson fór þar yfir sögu Grettis sterka Ásmundssonar og er óhætt að segja að hann hafi farið á kostum og hélt hann athygli unglinganna óskiptri allan tímann.

Grettir sterki Ásmundarson þótti ódæll í uppvexti sínum, fátalaður og óþýður, bellinn bæði í orðum og tiltektum en fríður maður sýnum. Mikill kappi á velli og svo sterkur að hann bar naut á herðum sér. Lagði hann og bjarndýr sem berserki og meira að segja drauginn Glám. Hann var loks útlægur ger, eins og segir á síðu Kómedíuleikhússins. 

Nemendur 8.bekkjar fá vænan skammt af fornsögunum á þessum vetri, þar sem þeir eru búnir að lesa Egils sögu og eru að lesa Laxdælu, auk þess að fá þessa innsýn í sögu Grettis.

 

Vel heppnað þorrablót 10. bekkjar

1 af 4

Þorrablót 10. bekkinga sem haldið var s.l. föstudag, tókst mjög vel í alla staði, en þar skemmtu nemendur, foreldrar og starfsmenn skólans sér saman. Hefðbundinn þorramatur var á borðum, þar sem hver og ein fjölskylda kom með sitt eigið trog samkvæmt venju. Skemmtiatriði voru ekki af verri endanum, en á meðal atriða var sundsýning feðra sem vakti mikla lukku og einnig brugðu kennarar á leik.

Að borðhaldi loknu var stiginn dans og augljóst að nemendur höfðu æft mjög vel undanfarnar vikur og dönsuðu af mikilli snilld.

Þorrablót 10. bekkjar

Þorrablót 10. bekkjar verður  haldið á morgun, föstudaginn 23. janúar kl. 20 á sal skólans. Skemmtiatriði verða í höndum foreldra og starfsmanna skólans, sem hafa unnið að undirbúningi síðustu vikur. Einnig hafa nemendur æft gömlu dansana af kappi, þannig að búast má við frábæru kvöldi.

Hilda María og Pétur Ernir sigurvegarar SAMVEST

Pétur Ernir Svavarsson og Hilda María Sigurðardóttir sigruðu söngkeppni SAMVEST
Pétur Ernir Svavarsson og Hilda María Sigurðardóttir sigruðu söngkeppni SAMVEST

Undankeppni söngkeppni Samfés (Samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi) var haldin í Bolungarvík í gær. Sex atriði kepptu þar um að verða fulltrúar Vestfjarða/SAMVEST í landskeppninni, sem haldin verður 14. mars n.k. í Laugardalshöll í Reykjavík.

Ísfirðingarnir Hilda María Sigurðardóttir og Pétur Ernir Svavarsson sigruðu með lagið ,,We found love" sem söngkonan Rihanna gerði frægt, en íslenskan texta gerði Lísbet Harðardóttir. Pétur og Hilda sungu bæði, auk þess sem Pétur lék á píanó.

Í 2. sæti varð Kristín Helga Hagbarðsdóttir frá Bolungarvík og í 3. sæti urðu Erna Kristín Elíasdóttir, Emil Uni Elvarsson og Birnir Ringsted, einnig frá Bolungarvík. Dómarar voru þau Salóme Katrín Magnúsdóttir, Tuuli Rähni, Sigrún Pálmadóttir og Jón Jósep Snæbjörnsson.

 

SAMVEST frestað til morguns

Söngvakeppni Samvest (samtaka félagsmiðstöðva á Vestfjörðum) sem átti að fara fram í kvöld í félagsheimilinu í Bolungarvík, hefur verið frestað til morguns, laugardagsins 17. janúar kl. 19:30.

Lúsin enn á kreiki

Af gefnu tilefni vill skjólahjúkrunarfræðingur benda á að þar sem lúsin er ennþá viðvarandi í skólanum er mikilvægt að foreldrar allra barna í skólanum haldi áfram að kemba næstu tvær vikur og þá alla fjölskyldumeðlimi.

Kemba þarf á fjögurra daga fresti næstu 2 vikur þ.e. á 1. degi, 5. degi, 9. degi og 13. degi.