VALMYND ×

Fréttir

Óveður

Vegna slæmrar veðurspár vilja skólastjórnendur koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri:

 

Ísafjarðarbær hefur gefið út viðmið um hvenær loka eigi stofnunum vegna  óveðurs. Þar kemur m.a. fram að stofnunum bæjarins sé ekki lokað nema algjöra nauðsyn beri til og getur forstöðumaður lokað stofnun af einni eða fleirum af eftirtöldum ástæðum:

  • Tilmæli frá almannavörnum eða lögreglu
  • Rafmagnsleysi kemur í veg fyrir að hægt sé að halda stofnuninni opinni
  • Ófærð er svo almenn að ekki næst að kalla til lágmarksfjölda starfsmanna til að halda a.m.k. skertri þjónustu

Foreldrar eru hvattir til að fylgjast með veðurspám og fréttum af veðri því þeir leggja sjálfir mat á hvort fylgja þarf barni í skóla þótt engin tilkynning hafi borist frá skóla. Meti foreldrar aðstæður svo að ekki sé óhætt að börn þeirra sæki skóla þá skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll. Hið sama gildir ef foreldrar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa.

Skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar

11 af 13 upplesurum, en á myndina vantar þær Hafdísi Báru Höskuldsdóttur og Unu Salvöru Gunnarsdóttur.
11 af 13 upplesurum, en á myndina vantar þær Hafdísi Báru Höskuldsdóttur og Unu Salvöru Gunnarsdóttur.

Á föstudaginn kl. 8:00 verður skólakeppni Stóru upplestrarkeppninnar haldin í sal skólans. Þar munu 13 nemendur úr 7. bekk lesa sögubrot og ljóð fyrir sérstaka dómnefnd, sem sker úr um það hverjir munu verða fulltrúar G.Í. á lokahátíð keppninnar, sem fram fer að viku liðinni í Hömrum.

Þeir sem lesa upp á föstudaginn eru: Ásgeir Óli Kristjánsson, Dagný Björg Snorradóttir, Davíð Hjaltason, Egill Fjölnisson, Guðmundur Arnar Svavarsson, Hafdís Bára Höskuldsdóttir, Hilmir Hallgrímsson, Hugi Hallgrímsson, Ívar Breki Helgason, Nikodem Júlíus Frach, Rebekka Skarphéðinsdóttir, Una Salvör Gunnarsdóttir og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir.

Nemendur 7. bekkjar hófu allir þátttöku í keppninni þegar hún var sett á Degi íslenskrar tungu, þann 16. nóvember s.l.  og hafa æft vel, sérstaklega síðustu vikurnar.

Lúsin enn og aftur

Af gefnu tilefni vill skólahjúkrunarfræðingur benda á að lúsin er ennþá viðvarandi í skólanum og búin að vera það í rúmlega eitt ár. Póstur hefur verið sendur heim á alla foreldra, þar sem rætt er um mikilvægi kembingar og að foreldrar haldi áfram að kemba næstu tvær vikur og þá alla fjölskyldumeðlimi. Kemba þarf á fjögurra daga fresti næstu 2 vikur þ.e. á 1. degi, 5. degi, 9. degi og 13. degi.

Hjálpumst nú öll að og upprætum þennan óboðna gest. Það tekst ekki nema með því að ALLIR fari eftir þessum fyrirmælum!

Skyndihjálp

Gunnlaugur Grétarsson ásamt nemendum 5. bekkjar G.Í. í morgun
Gunnlaugur Grétarsson ásamt nemendum 5. bekkjar G.Í. í morgun

Í tilefni af 90 ára afmæli Rauða krossins á Íslandi eru grunnskólar á landinu heimsóttir af sjálfboðaliðum. Tilgangur heimsóknanna er að minna á mikilvægi skyndihjálpar og er lögð áhersla á rétt viðbrögð varðandi aðskotahlut í hálsi, bruna og blæðingu, auk þess sem réttu handtökin við endurlífgun eru kennd.

Gunnlaugur Grétarsson, sjálfboðaliði hjá RKÍ er þessa dagana að heimsækja bekki G.Í. og fræða þá um þessi mál, auk þess sem nemendur fá að spreyta sig á hjartahnoði. 

Nánari upplýsingar má finna á vef RKÍ auk þess sem samið hefur verið skyndihjálparlag til að festa rétt viðbrögð betur í minni.

Lýðræði í skólastarfi

Í aðalnámskrá grunnskóla er gert ráð fyrir að börn og ungmenni læri til lýðræðis.  Að kenna lýðræðisleg vinnubrögð og hugsun sem felur í sér lýðræðislega virkni er flókið mál og engin ein leið til sem skólar geta gengið að við það verkefni.  Við erum með formlegt lýðræðisverkefni sem beinist að þátttöku nemenda og gert er ráð fyrir að taki þrjú ár í vinnslu.  

Á síðasta skólaári héldum við nemendaþing þar sem nemendur í 6. - 10. bekk komu saman og skilgreindu áhrifaþætti í skólastarfinu og hvað hver og einn gæti gert til að skólabragurinn yrði eins og þeir sjá hann bestan.  Vinna með niðurstöðurnar tók allan síðasta vetur.  Að lokum setti nemendaráð skólans saman þrjár setningar sem lýsa þeim skólabrag sem nemendur vilja skapa.  Setningarnar snúast um einelti, vinnufrið og ábyrgð.  

Nú í vetur eru nemendur í 5. - 9. bekk að vinna að því að skilgreina hvað við sjáum, heyrum og finnum í skóla sem vinnur vel með þessa þrjá þætti.  Þessar skilgreiningar verða svo settar fram sem matskvarði.  Við lok næsta skólaárs vonumst við svo til að geta beðið nemendur um að meta hvernig okkur hefur gengið að ná settum markmiðum.  Þetta er bæði flókin og tímafrek vinna en um leið skemmtileg og vonandi læra nemendur í gegnum hana að komast að samkomulagi og að taka ákvarðanir sem koma sér vel fyrir sem flesta.

Líf og fjör á maskadegi

1 af 3

Það var líf og fjör í skólanum í dag, enda voru hinar ýmsu kynjaverur á kreiki í tilefni maskadagsins. Þrjú grímuböll voru haldin og var virkilega gaman að sjá nemendur og starfsmenn í hinum ýmsu gervum.

Hægt er að nálgast fjölmargar myndir frá maskadeginum í myndasafninu hér vinstra megin á síðunni.

Maskadagur

Á morgun, mánudaginn 16. febrúar er maskadagurinn eða bolludagur öðru nafni. Af því tilefni verða grímuböll á sal skólans sem hér segir:

1. – 3. bekkur kl. 8:20-9:10
4. -5. bekkur kl. 10:20-11:00
6. og 7. bekkur kl. 13:10-13:40

Nemendur og starfsfólk eru margir hverjir í grímubúningum þennan dag og verður gaman að sjá allar þær furðuverur sem verða á ferli.
Þriðjudaginn 17. febrúar er svo starfsdagur kennara án nemenda og engin kennsla.

Heimsókn frá slökkviliðinu

Hermann Hermannsson afhendir Guðrúnu Evu Bjarkadóttur verðlaunin í eldvarnagetrauninni.
Hermann Hermannsson afhendir Guðrúnu Evu Bjarkadóttur verðlaunin í eldvarnagetrauninni.

Í desember komu þeir Hlynur Kristjánsson og Hermann Hermannsson frá slökkviliði Ísafjarðbæjar í heimsókn í 3. bekk til að uppfræða nemendur um eldvarnir og þess háttar í tilefni af eldvarnaviku.  Við það tækifæri  fengu allir nemendur bekkjarins að taka þátt í eldvarnagetraun.  Það er hefð að afhenda svo vinninga til vinningshafa getraunarinnar á 112 daginn, en þar sem ekki var skóli þann daginn hjá okkur, birtust þeir félagar óvænt í gær með verðlaun fyrir einn nemanda bekkjarsins og var það Guðrún Eva Bjarkadóttir sem var svona heppin. Að launum fékk hún viðurkenningaskjal, slökkviliðstímarit, reykskynjara og tíuþúsund króna seðil.  Við óskum henni innilega til hamingju með vinninginn.

Spjaldtölvum fjölgar

Í síðustu viku fengu nemendur 8. bekkjar í hendur iPad spjaldtölvurnar sem þeir hafa beðið eftir. Búið er að setja þær allar upp og hlaða inn einu appi sem þeir þurfa að hafa, en öppunum á eflaust eftir að fjölga á næstu dögum. Nemendum er að sjálfsögðu sýnt mikið traust með því að lána þeim þessi tæki og við erum sannfærð um að þeir muni standa undir því trausti. Í janúar fengu nemendur 10. bekkjar einnig spjaldtölvur til afnota og 5. og 9. bekkur fengu slík tæki s.l. haust.

Vonandi verða þessi tæki til þess að auðvelda nemendum námið og gera kennsluna fjölbreyttari og skemmtilegri, en reynslan sýnir að flestir nemendur verða meðvitaðri, ábyrgari og áhugasamari varðandi námið.

Rósaball

10. bekkur stendur fyrir hinu árlega Rósaballi föstudaginn 13. febrúar í sal skólans og stendur gleðin frá kl. 20:00 - 23:30. Aðgangseyrir er kr. 1.000 fyrir einstaklinga en kr. 1.500 fyrir pör, sem mega að sjálfsögðu vera af sama kyni.