VALMYND ×

Fréttir

Markmið námsgreina

Við innleiðingu nýrrar aðalnámskrár breyttust markmið í mörgum kennslugreinum.  Í námskránni er markmiðum hins vegar ekki raðað niður á árganga heldur aðeins tiltekið hvað nemendur eiga að kunna við lok 4., 7. og 10. bekkjar. 

Nú hafa kennarar skólans raðað markmiðum flestra greina niður á tiltekna árganga.  Markmiðin eru nokkuð ítarleg og í stað þess að birta þau í hverri einustu kennsluáætlun eru þau birt hér á heimasíðu skólans og vísað til þeirra í áætlunum.

 

Hrekkjavökuball

auglýsing nemendaráðs
auglýsing nemendaráðs

Það hefur ekki farið fram hjá neinum hér í skólanum, að í dag er hrekkjavaka og hefur fólk ekkert kippt sér upp við blóðuga nemendur, eða afturgöngur á göngunum.

Í kvöld nær svo gleðin hámarki sínu, þegar nemendaráð skólans heldur hrekkjavökuball. Ballið hefst kl. 20:00 og kostar kr. 1.000 fyrir þá sem eru í búningum, en kr. 1.500 fyrir aðra.

Fyrsti vetrardagur

Gormánuður hófst 25. október samkvæmt gamla íslenska dagatalinu en gor þýðir hálfmelt fæða í innyflum dýra, einkum hjá grasbítum.  
Á þessum degi rennur einnig fyrsti vetrardagur upp og þá veltir fólk því gjarnan fyrir sér hvernig viðra muni á komandi vetri. Oft hefur verið spáð í veðrið út frá ýmsum þáttum í náttúrunni. 

Norðurljósin eru síbreytileg eins og veðrið. Þau eiga rætur sínar að rekja til sólarinnar en virkni á yfirborði hennar stjórnar því hvort norðurljósin láti á sér kræla. Það er gömul hjátrú að litrík norðurljós á mikilli hreyfingu boði hvassviðri en liggi þau kyrr sé von á stillum. Þegar norðurljós sjást seint að vetri telja sumir að enn sé að vænta snjókomu. Rauð norðurljós eru sögð boða ófrið (Heimild: www.nams.is).

Alþjóðlegi bangsadagurinn

Mánudaginn 27. október er alþjóðlegi bangsadagurinn og ætla krakkarnir í 1. bekk að halda hann hátíðlegan og eflaust fleiri. Bók vikunnar í byrjendalæsinu er Paddington í skemmtiferð og verður hún lesin á skólabókasafninu og aðrar bangsabækur skoðaðar.  Svo ætla allir sem vilja að mæta með bangsann sinn í skólann, þannig að það er von á óvenju mörgum í skólann á mánudaginn.

Gleraugu í óskilum

Gleraugu í óskilum
Gleraugu í óskilum

Óskilamunir eiga það til að safnast upp hér í skólanum. Meðal þess sem bíður hér eigenda sinna eru nokkur gleraugu, sem munu enda hjá Rauða krossinum um miðjan nóvember, komist þau ekki í réttar hendur.
Við hvetjum alla til að kíkja við hjá okkur við tækifæri ef einhverra hluta er saknað.

Nýtt fréttabréf

Nú hefur nýtt fréttabréf skólans litið dagsins ljós. Þar er farið yfir helstu viðburði skólans í september og október.

Löng helgi framundan

Föstudaginn 17. október og mánudaginn 20. október er vetrarfrí og á þriðjudaginn er starfsdagur kennara. Það eru því 3 auka frídagar framundan hjá nemendum.

G.Í. sigraði á íþróttahátíðinni

Verðlaunagripir sigurliða G.Í.
Verðlaunagripir sigurliða G.Í.
Íþróttahátíðin í Bolungarvík fór fram 10. október s.l. Grunnskólinn á Ísafirði sendi 2 lið til keppni í öllum greinum nema dansi og stóðu allir nemendur sig með stakri prýði.
Að þessu sinni var keppt í dansi, borðtennis, badminton, sundi, sundblaki, skák, spurningakeppni, víðavangshlaupi, körfubolta, fótbolta, förðun, hár og hönnun. Sigur vannst í flestum greinum sem varð til þess að skólinn stóð uppi sem sigurvegari með hundrað stig. Ný grein var kynnt á þessari hátíð, Fifa 15 (Playstation) og keppt verður í henni á næsta ári til stiga.
Það er mikil keppni á milli skóla og í einn dag á ári verða samherjar í hinum ýmsu íþróttagreinum miklir mótherjar og er gaman að sjá keppnisskapið hleypa þeim enn lengra. Það munu verða breytingar á keppninni á næsta ári og verður spennandi að sjá hvernig þær verða útfærðar. Við eigum flotta krakka og þeir nemendur sem ekki tóku þátt sem keppendur tóku svo sannarlega þátt sem stuðningsmenn og er það hverjum skóla gulls ígildi að eiga þannig nemendur.  

Bleikur dagur

Október er mánuður Bleiku slaufunnar, árveknis- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameinum hjá konum. Af því tilefni biður félagið alla landsmenn um að klæðast einhverju bleiku fimmtudaginn 16. október eða hafa bleikan lit í fyrirrúmi þann dag og sýna þannig samstöðu.
Við hvetjum alla starfsmenn og nemendur G.Í. til að styðja við átakið með því að taka þátt í bleika deginum á morgun.

 

 

Allir lesa

Landsleikurinn ALLIR LESA hefst í fyrsta sinn 17. október og lýkur á degi íslenskrar tungu 16. nóvember. Miðstöð íslenskra bókmennta og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO standa að þessum skemmtilega leik og um að gera að hvetja nemendur sem og aðra til að taka þátt. Leikurinn gengur út á að þátttakendur skrá þá titla sem þeir lesa og þann tíma sem þeir verja í lestur.

Skráning liða á www.allirlesa.is hófst þann 10. október þegar vefurinn var formlega opnaður. Nánari upplýsingar má sjá hér.