VALMYND ×

Fréttir

Lestrarsprettur

Þessa viku er lestrarsprettur hjá okkur, þar sem allir eru hvattir til að lesa enn meira heldur en venjulega, bæði heima og í skólanum. Hægt er að útfæra lesturinn á ýmsan hátt t.d. með lestrarbingói eða paralestri og lesa jafnvel á öðrum stöðum en venjulega. Aðalatriðið er að njóta lestursins, en eins og allir vita þá er lestur bestur!

 

Gleraugu í óskilum

Hér í skólanum liggja gleraugu í óskilum. Eigandi getur nálgast þau hjá ritara skólans.

Skólastarf hafið

Nú er skólastarf hafið eftir langt og gott jólaleyfi. Við vonum að allir séu endurnærðir og tilbúnir að takast á við sín störf. Ekki skemmir fyrir að daginn er farið að lengja og styttist í að sólin láti sjá sig.

Það er alltaf eitthvað spennandi framundan í skólanum og nú eru krakkarnir í 10. bekk t.d. farnir að æfa gömlu dansana fyrir þorrablótið, sem haldið verður á bóndadaginn, 23. janúar n.k.

Þá fer einnig að líða að annaskilum með tilheyrandi námsmati, en vorönn hefst 26. janúar.

 

Gleðilegt ár

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði óskar öllum gleðilegs árs. 

Mánudaginn 5. janúar er starfsdagur og hefst kennsla þriðjudaginn 6. janúar samkvæmt stundaskrá.

Jólaleyfi

Í morgun voru litlu jólin haldin hátíðleg og áttu nemendur og starfsfólk góða samverustund. Þar með hófst jólaleyfið, en kennsla hefst aftur þriðjudaginn 6. janúar 2015.

 

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði óskar nemendum, fjölskyldum þeirra og öllum öðrum velunnurum gleðilegrar hátíðar og þakkar samstarfið á árinu sem er að líða.

 

Hér má sjá jólakveðju frá G.Í.

 

Síðasta vikan fyrir jólaleyfi

Bókajólatréð á bókasafni skólans er tilbúið fyrir litlu jólin
Bókajólatréð á bókasafni skólans er tilbúið fyrir litlu jólin

Nú fer í hönd síðasta vikan fyrir jólaleyfi. Kennsla verður með nokkuð hefðbundnum hætti fram á miðvikudag, en á fimmtudag verður skreytingadagur, þar sem nemendur skreyta kennslustofur sínar fyrir litlu jólin.

Á föstudag verða litlu jólin frá kl. 9:00 - 12:00. Þá mæta allir spariklæddir í sínar umsjónarstofur og eiga notalega stund, skiptast á jólapökkum, fara í leiki, borða smákökur og syngja og dansa kringum jólatréð í nýja anddyri skólans.

Strætó fer kl. 12:05 þennan dag og þar með hefst jólaleyfið.

Nemendum 5. bekkjar færðar bækur að gjöf

Grunnskólinn á Ísafirði færði nemendum 5. bekkjar Kortabók handa grunnskólum að gjöf nú í haust, en ný útgáfa kom út haustið 2012. Bókin er sem fyrr unnin í samstarfi við Liber - útgáfuna í Stokkhólmi en Íslandskort eru að mestu fengin frá Landmælingum Íslands og Jean-Pierre Biard kortagerðarmanni. Á bókarkápu er kort Guðbrands biskups Þorlákssonar sem kom út í hollensku kortasafni árið 1590. Kortið var lengi undirstaða þeirra myndar sem birtist af landinu, skreytt fjölda mynda af ófreskjum og sæskrímslum og er skemmtilegt að bera það saman við nútíma kort og myndir.

Það er ósk skólans að bókin nýtist nemendum vel í öllu frekara námi, enda um mjög eigulega bók að ræða.

Bókakynning

Síðastliðinn föstudag kom leikskólakennarinn og rithöfundurinn Dagbjört Ásgeirsdóttir í heimsókn í 3. bekk og las nýjustu bókina sína, Gummi fer í fjallgöngu.  Krakkarnir nutu þess að fá bókina lesna og skoða myndirnar.  Einnig var gaman að fá að spyrja rithöfundinn spjörunum úr, ekki oft sem slík tækifæri gefast.

Dagbjört er Bolvíkingur og er bókin Gummi fer í fjallgöngu fjórða bók hennar og jafnframt fjórða bókin í bókaröðinni um félagana Gumma og Rebba. Í bókinni kynnist Gummi dvergunum Alreki og Báreki og einnig tröllkarlinum Bjálfa, sem dvergarnir leggja í einelti. Þegar móðir Bjálfa, illskeytt skessa sem svífst einskis, hremmir Gumma með klóm sínum er voðinn vís. 

Aðventustund hjá 1. bekk

1 af 2

Nú á aðventunni hittast báðar bekkjardeildir 1. bekkar einu sinni í viku og halda aðventustund. Þá er kveikt á aðventukertum, fræðst um aðventuna, sungnir jólasöngvar og hlustað á jólasögu. Þessar stundir eru mjög notalegar í rökkrinu. Síðastliðinn fimmtudag bauð árgangurinn vinum sínum á leikskólanum Eyrarsól að koma og njóta þessarar stundar með þeim. Í lok stundarinnar var boðið upp á piparkökur og djús og nutu krakkarnir samverunnar.

Vinaliðum þökkuð vel unnin störf

Vinaliðar voru kallaðir upp á svið
Vinaliðar voru kallaðir upp á svið
1 af 3

Í morgun var síðasti starfsdagur vinaliða á þessari önn. Af því tilefni voru allir nemendur 4. - 7. bekkjar kallaðir á sal og vinaliðum þakkað sérstaklega fyrir vel unnin störf, auk þess sem öllum öðrum nemendum voru færðar þakkir fyrir góðar viðtökur vinaliðaverkefnisins. Að því loknu var vinaliðum boðið í sundferð til Bolungarvíkur og er hópurinn væntanlegur í skólann aftur um hádegið.

Eftir áramót verður nýr hópur vinaliða kosinn, en vinaliðaverkefnið snýst um það að setja upp leikstöðvar í frímínútunum hjá 4. - 7. bekk og stjórna vinaliðar því að allt fari vel fram á hverri stöð. Verkefnið hófst í október s.l. og hefur tekist afar vel og er það ekki síst að þakka öllum nemendum, sem hafa tekið verkefninu mjög vel. Tilgangurinn er að allir finni eitthvað við sitt hæfi í frímínútunum og enginn verði afskiptur.