VALMYND ×

Fréttir

Sýning á verkum nemenda í stjórnsýsluhúsinu

Sýning á verkefninu um aðgengi fatlaðra að stofnunum og þjónustufyrirtækjum í Ísafjarðarbæ sem 6. og 9. bekkur unnu fyrir skömmu, hefur verið sett upp á annarri hæð stjórnsýsluhússins. Á fundi MND félagsins fyrir hálfum mánuði kynntu tvær stúlkur úr 9. bekk niðurstöðurnar og fengu krakkarnir mikið lof fyrir verkið og útfærslu á því.   

Það er vel þess virði að koma við í stjórnsýsluhúsinu og sjá hversu fjölbreytt skólastarfið getur verið, en sýningin stendur yfir út þennan mánuð.

Vorferð 10. bekkjar

Sundlaugin á Hofsósi
Sundlaugin á Hofsósi

Nemendur 10. bekkjar halda af stað í vorferð sína á morgun, sunnudaginn 25. maí. Mæting er kl. 10:30 við Alþýðuhúsið. 

Ferðinni er heitið að Steinsstöðum í Skagafirði þar sem ýmis ævintýri bíða. M.a. verður farið í litbolta, klettaklifur og flúðasiglingu. Þar að auki er ætlunin að heimsækja hina frægu sundlaug á Hofsósi, borða pizzur á Sauðárkróki, sulla í lauginni á Steinsstöðum og leika sér í fótbolta, taka lagið og sprella alls konar eftir því sem hugmyndaflugið leyfir.

Heimferð er fyrirhuguð á miðvikudag og gert ráð fyrir að koma heim á Ísafjörð á milli kl. 17 og 18.

 

Súgfirðingar höfðingjar heim að sækja

1 af 3

Síðastliðin sex ár hafa fyrirtækin Íslandssaga og Klofningur á Suðureyri, boðið öllum nemendum í 1. bekk G.Í. í heimsókn til að skoða fiskvinnsluna þeirra.  Þetta er mjög rausnarlegt boð þar sem rúta kemur og sækir krakkana í skólann og skilar þeim þangað aftur í lok heimsóknar. Í morgun var haldið af stað og þau Óðinn, Guðni, Oddný  og Ævar tóku á móti hópnum og sýndu þeim starfsemi sína. Starfsfólkið í beitningaskúrunum var heimsótt ásamt fiskvinnslunni og sáu krakkarnir allt vinnsluferlið.  Rúsínan í pylsuendanum þar var að allir fengu að setjast upp í lyftara og prófa að lyfta gafflinum á alla vegu og vakti það mikla lukku hjá börnunum.  Fylgst var með hvernig fisknum er pakkað í ýmsar umbúðir, en bæði er fiskur fluttur ferskur  til útlanda  í kælikössum, á meðan annar fiskur er frystur og sendur þannig út í heim.    

Hjá Klofningi var litið á þurrkaða fiskhausa og bein og fræddust krakkarnir um allt vinnsluferlið.  Ekki var laust við að sumum þætti lyktin slæm en það eru hraustir krakkar í 1. bekk og þeir létu ekki smá  lykt stoppa sig heldur skoðuðu  allt sem í boði var.   Í lok ferðarinnar var svo boðið til Elíasar í kaffihúsinu Kaupfélaginu og þar fengu allir ís.  Einnig leystu gestgjafarnir hópinn út með góðum gjöfum og fengu allir ferskan fisk í soðið, harðfisk og reyktan rauðmaga.  Það voru glaðir og ánægðir krakkar og kennarar sem héldu heim á leið í lok heimsóknarinnar. 

Hópurinn þakkar kærlega fyrir höfðinglegar móttökur á.   

Brugðið á leik

Það er mikið um að vera þessa dagana sem endranær í skólastarfinu. Námsmat er í fullum gangi, auk ýmissa vorverkefna. Að sjálfsögðu er góða veðrið nýtt til hins ítrasta og ekki úr vegi að bregða á leik þegar tími gefst til, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Vinnustöðvun frestað

Í kvöld skrifuðu Félag grunnskólakennara og samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga undir nýjan kjarasamning. Þar með er áður boðaðri vinnustöðvun frestað og skólahald verður með eðlilegum hætti á morgun.

Önnur vinnustöðvun

Félag grunnskólakennara hefur boðað til annarrarar vinnustöðvunar á morgun, miðvikudaginn 21. maí, hafi kjarasamningar ekki náðst fyrir þann tíma. Búið er að gera stutt hlé á samningaviðræðum FG og sveitarfélaganna, en fundarhöldum verður framhaldið klukkan sjö í kvöld.

Hvort samningar nást og hægt verður að fresta vinnustöðvun mun ekki liggja ljóst fyrir fyrr en í kvöld eða nótt og biðjum við því alla að fylgjast vel með fjölmiðlum í kvöld eða fyrramálið.

Óskilamunir

Enn hlaðast upp óskilamunir í skólanum s.s. íþróttaföt, vettlingar, húfur, peysur o.þ.h. Auðvelt er að finna eigendur að vel merktum flíkum, en ógjörningur með það ómerkta. Við hvetjum foreldra og forráðamenn til að kíkja við í anddyri skólans, Aðalstrætismegin og athuga hvort þeir þekki eitthvað.

Valgreinar

Í vetur gerðum við tilraun með að bjóða upp á valgreinar fyrir miðstigsnemendur, það er 5. – 7. bekk.  Það mæltist sérstaklega vel fyrir meðal nemenda og munum við því halda áfram með þetta verkefni.  Næsta vetur munu nemendur geta valið viðfangsefni í þrjár kennslustundir, þ.e. tvær á þriðjudögum og eina á föstudögum.  Nemendur fengu valblaðið í dag og eru beðnir um að skila því til umsjónarkennara í síðasta lagi þriðjudaginn 27.maí.

Heimsókn í Sjávarfang

1 af 3

Á dögunum fór Guðlaug Jónsdóttir, heimilisfræðikennari, með valhópa sína í 9. og 10. bekk í heimsókn til Kára Jóhannssonar fisksala í Sjávarfangi. Kári sýndi hópnum alls konar fiska eins og skötusel, steinbít, hlýra, karfa og fleiri.

Það er ótrúlegt að sjá hve miklar breytingar hafa orðið hér á Ísafirði eins og auðvitað í flestum öðrum bæjum og þorpum sem hafa haft fiskveiðar sem aðal atvinnugrein í gegnum tíðina. Þegar Kári fisksali var á sama aldri og þessir krakkar vann hann við fisk og sennilega um 90% af hans jafnöldrum. Enginn af þessum krökkum hefur unnið í fiski og aðeins ein eða tvær stúlkur hyggjast vinna við fisk í sumar. Mörg hver hafa aldrei séð fisk flakaðan, hvað þá skoðað innyflin.

Guðlaug er á því að krakkarnir hafi haft mjög gott og gaman af þessari ferð og þakkar Kára kærlega fyrir móttökurnar.

Fræðsluerindi frá Greiningarstöð

Mánudaginn 19. maí munu Sigurlaug Vilbergsdóttir, þroskaþjálfi og Helga Arnfríður Haraldsdóttir sálfræðingur, vera með fræðsluerindi fyrir foreldra, kennara, starfsfólk skóla og félagsþjónustu. Fræðslan fer fram í sal Grunnskóla Bolungavíkur frá kl. 15-17.

Sigurlaug og Helga munu fjalla um frávik í taugaþroska barna, með áherslu á einhverfu, ADHD, kvíða og námsvanda. Gert er ráð fyrir u.þ. b. klukkustundar fræðslu og í kjölfarið gefst góður tími fyrir spurningar og umræður. 

Ekki þarf að greiða fyrir þessa fræðslu.