VALMYND ×

Fréttir

Bjálfansbarnið

Í dag kl. 10:15 mun Kómedíuleikhúsið heimsækja 1. - 3. bekk og sýna jólaleikritið Bjálfansbarnið og bræður hans. Hér er á ferðinni leikrit fyrir alla fjölskylduna sem fjallar um vestfirsku jólasveinana sem hafa ekki sést meðal manna í hundrað ár ef ekki meira.

Efnilegt íþróttafólk

Þrír nemendur G.Í. hafa nú verið valdir í æfingahópa fyrir yngri landslið Körfuknattleikssambands Íslands. Þetta eru þau Haukur Rafn Jakobsson í 9. bekk, Saga Ólafsdóttir í 10. bekk og Linda Marín Kristjánsdóttir einnig í 10. bekk.

Þá var Jón Hjörtur Jóhannesson í 10. bekk útnefndur kylfingur ársins hjá Golfklúbbi Ísafjarðar nú á dögunum og er það mikill heiður fyrir svo ungan leikmann.

Við óskum þessu íþróttafólki innilega til hamingju með þessar miklu viðurkenningar.

Fullveldisdagurinn 1. desember

1. desember árið 1918 tóku sambandslögin gildi en samkvæmt þeim varð þjóðin fullvalda en við höfðum áfram danskan kóng. Einnig skyldu Danir sjá um utanríkismál okkar og landhelgisgæslu. Langt fram eftir 20. öldinni var 1. desember mikill hátíðisdagur. Þegar lýðveldið var stofnað kom það til tals að sá dagur yrði þjóðhátíðardagur okkar, svo stór var hann í huga þjóðarinnar. En niðurstaðan varð sú að velja afmælisdag Jóns Sigurðssonar 17. júní. Til skamms tíma var fullveldisdagurinn frídagur í skólum landsins og stúdentar Háskóla Íslands halda enn veglega upp á daginn. 1. des. er einn af opinberum fánadögum okkar Íslendinga.

Opinn dagur

Mánudaginn 1. desember er opinn dagur hér í skólanum. Þá eru foreldrar sérstaklega velkomnir í heimsókn og hvetjum við sem flesta til að líta við hjá okkur.

Beðið eftir go.com air

Föstudaginn 28. nóvember sýnir leiklistarval skólans leikritið Beðið eftir go.com air eftir Ármann Guðmundsson, í leikstjórn Guðnýjar Hörpu Henrysdóttur.

Frumsýningin hefst kl. 19:30 og er önnur sýning áætluð á laugardag kl. 14:00.

Löng hefð er fyrir því að nemendur setji upp leikrit í tengslum við 1. desember og verður svo dansleikur að sýningu lokinni á föstudagskvöld, fyrir unglingastig skólans.

Nýtt fréttabréf

Nýtt fréttabréf skólans hefur nú litið dagsins ljós. Nú er tæknin nýtt til hins ýtrasta og birtist fréttabréfið nú með myndum og myndböndum eins og sjá má hér.

Tilnefning til hvatningarverðlauna ÖBÍ

Hluti af nemendum 6. og 9. bekkjar s.l. vor ásamt Ingibjörgu Sigríði Guðmundsdóttur, kennara.
Hluti af nemendum 6. og 9. bekkjar s.l. vor ásamt Ingibjörgu Sigríði Guðmundsdóttur, kennara.
1 af 2

Síðastliðið vor unnu þáverandi 6. og 9. bekkur  saman að verkefni varðandi aðgengi fatlaðra á Ísafirði að frumkvæði Ingibjargar Sigríðar Guðmundsdóttur, kennara. Umsjónarkennarar bekkjanna, þær Bergljót Halldórsdóttir, Hlíf Guðmundsdóttir, Bryndís Bjarnason og Guðríður Sigurðardóttur voru nemendum innan handar við vinnu og skipulag verkefnisins.

Það er skemmst frá því að segja að nú hefur Öryrkjabandalag Íslands tilnefnt verkefnið til hvatningarverðlauna sinna og býður aðstandendum á afhendingarhátíð í Silfurbergi í Hörpu 3. desember n.k. kl. 17:00 -19:00.

Í ár bárust 122 tilnefningar um 75 aðila. Það er mikill heiður að vera tilnefndur því í því felst að verkefnið hefur vakið verðskuldaða athygli, hvort heldur til verðlauna kemur eður ei.

Markmið verðlaunanna er að vekja athygli á þeim sem hafa stuðlað að einu samfélagi fyrir alla. Verðlaunin eru veitt á alþjóðadegi fatlaðra, 3. desember, ár hvert og eru nú afhent í áttaunda sinn. Þau eru veitt í þrem flokkum, flokki einstaklinga, fyrirtækja/stofnana og umfjöllunar/kynningar, þrjár tilnefningar eru í hverjum flokki og ein verðlaun verða veitt í hverjum þeirra. 

Foreldrar og forvarnir

Heimili og skóli, landssamtök foreldra, stendur fyrir fræðslufundi í sal skólans kl. 20:00 í kvöld. Þar verður farið yfir það sem foreldrar geta gert til að efla forvarnir og styðja börn sín í uppvextinum. Fræðslan er öllum opin og eru allir foreldrar hvattir til að mæta. Aðgangur er ókeypis.

Marita fræðsla

Í morgun hélt Magnús Stefánsson hjá Marita fræðslunni fyrirlestur fyrir 5. og 6. bekk í sal skólans í boði VáVest hópsins. Forvarnarfélagið Hættu áður en þú byrjar heldur úti Maritafræðslunni sem er verkefni sem fræðir börn, unglinga og foreldra þeirra um skaðsemi fíkniefna o.fl. 

Í fræðslunni í morgun var lögð áhersla á að setja sér markmið í lífinu, standa með sjálfum sér og tileinka sér heilbrigðan lífsstíl. Nemendur tóku fræðslunni afar vel og voru virkir í umræðum, enda mjög meðvitaðir krakkar.

Í kvöld heldur Magnús svo fyrirlestur fyrir unglingastig skólans kl. 20:00 í sal skólans og eru foreldrar einnig velkomnir.

Lestrarhestar G.Í.

Landsleiknum Allir lesa lauk á Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember s.l. Tuttugu starfsmenn Grunnskólans á Ísafirði skráðu sig til leiks undir nafninu Grisa1 og kepptu í vinnustaðaflokki 10-29 starfsmanna.

Starfsmenn G.Í. stóðu sig aldeilis vel og höfnuðu í 4. sæti flokksins af 50 liðum.