VALMYND ×

Lýðræði í skólastarfi

Í aðalnámskrá grunnskóla er gert ráð fyrir að börn og ungmenni læri til lýðræðis.  Að kenna lýðræðisleg vinnubrögð og hugsun sem felur í sér lýðræðislega virkni er flókið mál og engin ein leið til sem skólar geta gengið að við það verkefni.  Við erum með formlegt lýðræðisverkefni sem beinist að þátttöku nemenda og gert er ráð fyrir að taki þrjú ár í vinnslu.  

Á síðasta skólaári héldum við nemendaþing þar sem nemendur í 6. - 10. bekk komu saman og skilgreindu áhrifaþætti í skólastarfinu og hvað hver og einn gæti gert til að skólabragurinn yrði eins og þeir sjá hann bestan.  Vinna með niðurstöðurnar tók allan síðasta vetur.  Að lokum setti nemendaráð skólans saman þrjár setningar sem lýsa þeim skólabrag sem nemendur vilja skapa.  Setningarnar snúast um einelti, vinnufrið og ábyrgð.  

Nú í vetur eru nemendur í 5. - 9. bekk að vinna að því að skilgreina hvað við sjáum, heyrum og finnum í skóla sem vinnur vel með þessa þrjá þætti.  Þessar skilgreiningar verða svo settar fram sem matskvarði.  Við lok næsta skólaárs vonumst við svo til að geta beðið nemendur um að meta hvernig okkur hefur gengið að ná settum markmiðum.  Þetta er bæði flókin og tímafrek vinna en um leið skemmtileg og vonandi læra nemendur í gegnum hana að komast að samkomulagi og að taka ákvarðanir sem koma sér vel fyrir sem flesta.

Deila