VALMYND ×

Fréttir

Aðgengi fatlaðra

Hópur nemenda 6. og 9. bekkjar ásamt Ingibjörgu Sigríði Guðmundsdóttur
Hópur nemenda 6. og 9. bekkjar ásamt Ingibjörgu Sigríði Guðmundsdóttur
1 af 3

Nemendur í 6. og 9. bekk hafa undanfarið unnið saman að rannsókn varðandi aðgengi fatlaðra á Ísafirði.  Árgöngunum var skipt upp í 4 manna aldursblandaða hópa sem unnu út frá sömu spurningum, heimsóttu fyrirtæki hér í bæ og gerðu könnun á aðgengi fatlaðra. Síðan unnu nemendur veggspjöld þar sem niðurstöður voru birtar.

 

Farið var í þessa verkefnvinnu að tilstuðlan Ingibjargar Sigríðar Guðmundsdóttur kennara, sem einnig er félagi í MND samtökunum. Hún hvatti til að nemendur gerðu þessa könnun og kynntu niðurstöðurnar á opnum fundi MND félagsins, sem haldinn var í Edinborgarhúsinu 9. maí s.l.  Þær Ingigerður Anna Bergvinsdóttir og Ólöf Dagmar Guðmundsdóttir nemendur í 9. bekk kynntu verkefnið fyrir gestum fundarins og vakti erindi þeirra verðskuldaða athygli.

 

Rannsóknin sjálf gekk mjög vel og urðu nemendur margs vísari um aðgengi fatlaðra á Ísafirði. Þeir komust meðal annars að því að það sem okkur finnast sjálfsögð mannréttindi er ekki svo sjálfsagt fyrir fatlaða, t.d. að fara í sund hér í bæ.

 

Vinnustöðvun kennara

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarið, hefur Félag grunnskólakennara boðað til vinnustöðvunar á morgun, fimmtudaginn 15. maí, hafi kjarasamningar ekki náðst fyrir þann tíma. 

Hvort samningar nást og hægt verður að fresta vinnustöðvun mun ekki liggja ljóst fyrir fyrr en í kvöld eða nótt. Upplýsingar verða birtar á ki.is um leið og málin skýrast og biðjum við því alla að fylgjast vel með fréttum.

Lífið er yndislegt

1 af 4

Síðast liðinn föstudag fengum við aldeilis góða heimsókn, frá MND-félaginu, sem hélt sinn mánaðarlega fund hér á Ísafirði í þetta skiptið, undir yfirskriftinni Lífið er yndislegt. Guðjón Sigurðsson, formaður félagsins, hélt fyrirlestur um sjúkdóminn fyrir nemendur 8. - 10. bekkjar. Nemendur í 6. og 9. bekk höfðu gert athugun á aðgengi fatlaðra hér í bæ og kynntu niðurstöður sínar á fundinum. Það gerðu þau svo vel og fagmannlega að stjórnarmaður í MND félaginu sem hefur unnið mikið með Öryrkjabandalaginu að ferlimálum hafði orð á því að hann hefði aldrei séð svo fagmannleg skil.

Við þökkum félaginu kærlega fyrir fræðandi og áhugaverðan fyrirlestur.

Vorskipulag

Nú er hægt að nálgast vorskipulag allra árganga hér á heimasíðunni vinstra megin, undir hnappnum vordagskrá. Við hvetjum alla til að kynna sér skipulagið, því að mikið er um alls konar viðburði og uppbrot á skólastarfinu.

Sumarskemmtun félagsmiðstöðvarinnar

Árleg sumarskemmtun félagsmiðstöðvarinnar Djúpsins verður haldin föstudaginn 9. maí á Suðureyri.  Þetta er liður í að loka félagsstarfi vetrarins með pompi og prakt, kveðja 10. bekkinga og bjóða 7. bekkinga velkomna sem að eru að komast upp á unglingastigið í haust. 
Stefnan er að byrja á ratleik um Suðureyri og því næst að grilla hamborgara. Þegar allir eru saddir og sælir og hafa skoðað Suðureyri þá er komið að balli í félagsheimilinu.
Rútur eru í boði og fara þær kl 16:30 frá Ísafjarðarbíói. Áætlað er að dagskrá sé lokið um 23:00  og þá er smalað í rútur og haldið heim á leið.
Fargjaldið í rútuna er 500 kr. (1.000 kr.  fram og til baka) og svo kostar  1.000 kr. á ballið. Maturinn og gosið  er ókeypis og er það  Ölgerðinni og Samkaup  að þakka sem hafa styrkt þessa hátíð.

The 4 elements sigruðu í Freestyle

Sigurvegarar Freestyle 2014, The 4 elements.
Frá vinstri: Bryndís, Þuríður Kristín, Marta Sóley og Hafdís Bára.
Sigurvegarar Freestyle 2014, The 4 elements. Frá vinstri: Bryndís, Þuríður Kristín, Marta Sóley og Hafdís Bára.
1 af 2

Í dag kepptu 5 hópar nemenda úr 6. og 7. bekk G.Í. og Grunnskólans á Þingeyri í freestyle dansi í sal skólans. Keppnin var hörð eins og venjulega, en úrslit urðu þau að The 4 elements frá G.Í. sigruðu, en það eru þær Hafdís Bára Höskuldsdóttir, Bryndís Natcha Chaemram,  Marta Sóley Hlynsdóttir og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir.

Í 2. sæti urðu Cowboy girls, en það eru þær Ásrós Helga Guðmundsdóttir, Karólína Anna Russ, Minica Janina Kristjánsdóttir og Lísbet Óla Steinsdóttir frá G.Þ. Í 3. sæti hafnaði svo Breikarinn Daníel Wale Adeleye, sem dansaði einn síns liðs.

Dómarar voru þau Henna Riika Nürmi,  Atli Þór Gunnarsson og Salóme Katrín Magnúsdóttir.

 

Keppni í Freestyle dansi

Sigurvegarar í Freestyle 2012, Wild girls (Mynd: Hólmfríður Vala Svavarsdóttir).
Sigurvegarar í Freestyle 2012, Wild girls (Mynd: Hólmfríður Vala Svavarsdóttir).

Í dag verður keppni í Freestyle dansi í sal skólans. Nemendur í 6. og 7. bekk hafa verið að æfa dansfimi sína undanfarnar vikur undir stjórn Sigurrósar Evu Friðþjófsdóttur og munu nú sýna afrakstur þeirra æfinga.

Keppnin hefst kl. 17:00 og er aðgangseyrir kr. 500, en frítt fyrir 5 ára og yngri.

Dansfimir leikskólakrakkar

1 af 2

Á mánudaginn komu nemendur af leikskólanum Eyrarsól í heimsókn í skólann. Þetta er verðandi 1. bekkur og virkilega gaman að geta boðið þeim að kíkja í heimsókn áður en formleg grunnskólaganga þeirra hefst. Það hefur verið gott að njóta nálægðarinnar við Eyrarsól í vetur, en þar sem hún er staðsett á Sundlaugarloftinu í næsta húsi við grunnskólann, hefur reynst auðveldara að bjóða upp á heimsóknir.

Í þetta skiptið voru nemendur Eyrarsólar boðni í danstíma og stóðu þeir sig afskaplega vel í dansinum, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Teiknimyndasýning

Á sumardaginn fyrsta sem var 24. apríl s.l., var sett upp skemmtileg bókmenntavaka í Edinborgarhúsinu fyrir börn og fullorðna, undir yfirskriftinni Börn og bækur. Þetta árið var áherslan á teiknimyndasögur.

Nemendur úr 3., 5. og 6. bekk G.Í.  og Grunnskóla Bolungarvíkur sýndu teiknimyndir sínar á bókmenntavökunni og nú hafa myndirnir verið settar upp til sýningar í anddyri G.Í. við Aðalstræti.

Við hvetjum alla til að líta við á þessa skemmtilegu sýningu.

Skóladagatal næsta skólaárs

Nú hefur skóladagatal skólaársins 2014-2015 verið samþykkt af fræðslunefnd. Dagatalið má nálgast hér vinstra megin á síðunni.