VALMYND ×

Fréttir

Kynfræðsla

Sigríður Dögg Arnardóttir (mynd: siggadogg.is)
Sigríður Dögg Arnardóttir (mynd: siggadogg.is)

Í vikunni kom Sigríður Dögg Arnardóttir, kynfræðingur og ræddi við nemendur 9. og 10. bekkjar um kynlíf, klám og ýmislegt annað um samskipti einstaklinga. Einnig hélt hún fyrirlestra fyrir foreldra og starfsfólk skólans.

Mikil ánægja var með fyrirlestrana, enda ekki oft sem rætt er um þessi mál á jafn opinskáan og hreinskilinn hátt og Sigríður Dögg gerir og voru nemendur sérstaklega duglegir að bera upp spurningar.

Samsöngur

Frá því að skólanum var færður flygill að gjöf haustið 2008, hefur sú góða hefð skapast að nemendur 1. - 7. bekkjar hittast í tveimur hópum í dansstofu skólans og syngja saman. Samsöngurinn er vikulegur og undirleik annast Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri.

Nú þegar líða fer að aðventu má búast við að jólatónar fari að hljóma um skólann og verður það virkilega notalegt í svartasta skammdeginu.

 

Kýpurferð

Nemendur á Kýpur
Nemendur á Kýpur

Vikuna 2. - 7. nóvember s.l.  voru umsjónarkennarar 8. bekkjar, þær Herdís M. Hübner og Monica Mackintosh, á ferðalagi um Kýpur vegna Comeniusarverkefnisins All different, all the same, Europe‘s Children, sem skólinn er aðili að. Þar hittu kennarar og nemendur frá Póllandi, Portúgal, Rúmeníu og Íslandi, félaga sína á Kýpur og fræddust um land þeirra og þjóð.

Ferðin var mjög fræðandi og margt merkilegt að sjá og heyra eins og sjá má í samantekt ferðasögu þeirra Herdísar og Monicu.

 

 

Dagur íslenskrar tungu

Sunnudaginn 16. nóvember er Dagur íslenskrar tungu. Hann hefur verið haldinn hátíðlegur um allt land frá árinu 1996 á þessum degi sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. 

Á mánudaginn verður dagskrá í Hömrum af þessu tilefni og mun Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk verða sett þá. Einnig hefst svokölluð skáldavika, þar sem eitt íslenskt skáld er kynnt sérstaklega og varð Andri Snær Magnason fyrir valinu í þetta skiptið.

Jól í skókassa

Jól í skókassa er alþjóðlegt verkefni sem felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til þess að gleðja önnur börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. 7. bekkur G.Í. hefur undanfarnar vikur safnað ritföngum, leikföngum, sælgæti, fötum og hreinlætisvörum og náðu krakkarnir að fylla rúmlega 20 kassa, sem þeir skiluðu til Ísafjarðarkirkju, sem er móttökuaðili verkefnisins.

Skókassarnir verða sendir til Úkraínu en þar búa um 46 milljónir manna. Atvinnuleysi er þar mikið og ástandið víða bágborið. Á því svæði þar sem jólagjöfunum verður dreift ríkir mikil örbirgð. Íslensku skókössunum verður meðal annars dreift á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna einstæðra mæðra sem búa við sára fátækt.

Foreldradagur

Miðvikudaginn 12. nóvember er foreldradagur og mæta þá nemendur í viðtöl til sinna umsjónarkennara, ásamt foreldrum. Opnað hefur verið fyrir tímapantanir á mentor.is og geta foreldrar valið sér hentugar tímasetningar.

Í dag fengu nemendur í 5. - 10. bekk sjálfsmatseyðublað, sem þeir eru beðnir að fylla út ásamt foreldrum og skila í viðtölunum.

Vel heppnuð rýmingaræfing

Í morgun var framkvæmd rýmingaræfing hér í skólanum, undir styrkri stjórn slökkviliðs Ísafjarðar. Brunaboðinn var ræstur kl. 9:10 og tók sléttar tvær mínútur að rýma allan skólann, sem telst mjög gott. 

Nauðsynlegt er að framkvæma æfingu sem þessa reglulega, enda að mörgu að hyggja. Flóttaleiðir þurfa að vera á hreinu úr öllum rýmum hússins og allir starfsmenn og nemendur að þekkja sínar leiðir og viðbrögð ef hættuástand skapast. Hver árgangur á sinn söfnunarstað í hæfilegri fjarlægð frá skólanum og rötuðu allir á sinn stað í morgun.

Eftir rýmingaræfingu sem þessa er svo farið yfir alla þætti, t.d. hvort heyrist nógu vel í brunabjöllu allsstaðar í byggingunni o.s.frv. og gerðar úrbætur ef þarf.

Markmið námsgreina

Við innleiðingu nýrrar aðalnámskrár breyttust markmið í mörgum kennslugreinum.  Í námskránni er markmiðum hins vegar ekki raðað niður á árganga heldur aðeins tiltekið hvað nemendur eiga að kunna við lok 4., 7. og 10. bekkjar. 

Nú hafa kennarar skólans raðað markmiðum flestra greina niður á tiltekna árganga.  Markmiðin eru nokkuð ítarleg og í stað þess að birta þau í hverri einustu kennsluáætlun eru þau birt hér á heimasíðu skólans og vísað til þeirra í áætlunum.

 

Hrekkjavökuball

auglýsing nemendaráðs
auglýsing nemendaráðs

Það hefur ekki farið fram hjá neinum hér í skólanum, að í dag er hrekkjavaka og hefur fólk ekkert kippt sér upp við blóðuga nemendur, eða afturgöngur á göngunum.

Í kvöld nær svo gleðin hámarki sínu, þegar nemendaráð skólans heldur hrekkjavökuball. Ballið hefst kl. 20:00 og kostar kr. 1.000 fyrir þá sem eru í búningum, en kr. 1.500 fyrir aðra.

Fyrsti vetrardagur

Gormánuður hófst 25. október samkvæmt gamla íslenska dagatalinu en gor þýðir hálfmelt fæða í innyflum dýra, einkum hjá grasbítum.  
Á þessum degi rennur einnig fyrsti vetrardagur upp og þá veltir fólk því gjarnan fyrir sér hvernig viðra muni á komandi vetri. Oft hefur verið spáð í veðrið út frá ýmsum þáttum í náttúrunni. 

Norðurljósin eru síbreytileg eins og veðrið. Þau eiga rætur sínar að rekja til sólarinnar en virkni á yfirborði hennar stjórnar því hvort norðurljósin láti á sér kræla. Það er gömul hjátrú að litrík norðurljós á mikilli hreyfingu boði hvassviðri en liggi þau kyrr sé von á stillum. Þegar norðurljós sjást seint að vetri telja sumir að enn sé að vænta snjókomu. Rauð norðurljós eru sögð boða ófrið (Heimild: www.nams.is).