VALMYND ×

Fréttir

Einmánuður hefst

Síðasti dagur góu kallast góuþræll og var hann í gær, en einmánuður hefst í dag þann 25. mars og er hann síðasti mánuður vetrar. Sagt er að votur einmánuður boði gott vor. Í gamla daga gat þessi síðasti dagur vetrar verið fólki erfiður. Ef til vill var matur af skornum skammti og lítið hey handa búfénaði.

Eftirfarandi vísa um mánuðina er úr Rangárvallasýslu og er eignuð álfkonu:

 

Langi Þorri leiðist mér
lata Góa á eftir fer.
Einmánuður yngstur er,
hann mun verða þyngstur hér.

(Heimild: nams.is)

Vel heppnuð Portúgalsferð

Í Lissabon með portúgalska kennaranum Rui
Í Lissabon með portúgalska kennaranum Rui
1 af 3

Fyrr í þessum mánuði fóru 10 nemendur úr 10. bekk ásamt kennurum og skólastjóra til Portúgals, en ferðin er hluti af Comeniusarverkefninu sem skólinn tekur þátt í. Ferðin gekk mjög vel og alveg samkvæmt áætlun. Dagskrá heimsóknarinnar var mjög þétt og löng, svo að iðulega var farið að sofa eftir miðnætti og á fætur kl. 7.

Fyrsta daginn var farið á karnival í bænum Nazaré og var gaman að sjá hvernig Portúgalir halda upp á föstuinnganginn. Næsta dag var farið í bæ sem heitir Fatima og er að mestu byggður í kringum sögu af kraftaverki þar sem börn sáu Maríu mey birtast sér úti í haga. Þar voru aðallega skoðaðar kirkjur og fleiri helgir staðir. Síðustu tveir dagarnir voru svo nýttir til að heimsækja skólann í Leiria og var það mjög fróðlegt og skemmtilegt. Hópurinn fékk örstutta skoðunarferð í Lissabon á heimleiðinni, rétt nógu langa til að vita að þangað þarf maður að koma aftur í betra tómi.

Nemendurnir voru til mikils sóma og vöktu alls staðar athygli fyrir fallega og skemmtilega framkomu, svo að þeir sjálfir og allir þeirra aðstandendur geta verið stoltir af.

Grunnskólamót í glímu

Mynd: bb.is
Mynd: bb.is

Síðastliðinn fimmtudag var haldið grunnskólamót í glímu í íþróttahúsinu á Torfnesi. 60 nemendur úr 5. - 10. bekk tóku þátt í mótinu; 45 nemendur frá Grunnskólanum á Ísafirði, 9 nemendur frá Grunnskóla Bolungarvíkur og 6 nemendur frá Súðavíkurskóla.


Meira

Úrslit í Stóru upplestrarkeppninni

Rakel María Björnsdóttir, Ásrós Helga Guðmundsdóttir og Þórður Gunnar Hafþórsson
Rakel María Björnsdóttir, Ásrós Helga Guðmundsdóttir og Þórður Gunnar Hafþórsson
1 af 4

Í kvöld var lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hömrum. Upplesarar voru níu að þessu sinni, frá Grunnskólanum á Ísafirði, Grunnskólanum á Suðureyri, Grunnskólanum á Þingeyri og Grunnskóla Bolungarvíkur. Skáld keppninnar í ár eru rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson og ljóðskáldið Guðfinna Þorsteinsdóttir, sem tók sér skáldanafnið Erla. Lesarar lásu fyrst brot úr sögunni ,,Ertu Guð, afi?" eftir Þorgrím og völdu sér svo ljóð eftir Erlu til flutnings. Í þriðju umferð voru svo lesin ljóð að eigin vali. 

Sigurlína Jónasdóttir á skóla- og tómstundasviði Ísafjarðarbæjar stjórnaði hátíðinni, en Svanhildur Helgadóttir, sigurvegari frá því í fyrra, kynnti skáld keppninnar. Á milli atriða lék Gísli Steinn Njálsson á gítar og Ásdís Halla Guðmundsdóttir á píanó, auk þess sem skólalúðrasveit Tónlistarskólans lék tvö lög.

Úrslit kvöldsins urðu þau að Ásrós Helga Guðmundsdóttir frá Grunnskólanum á Þingeyri sigraði. Í 2. sæti varð Rakel María Björnsdóttir úr G.Í. og í því 3. varð Þórður Gunnar Hafþórsson úr G.Í. Dómarar þetta árið voru þau Björk Einisdóttir, Ingvar Örn Ákason, Ólafur Örn Ólafsson og Pétur Markan.

Við óskum nemendum öllum innilega til hamingju með glæsilega frammistöðu.
Fleiri myndir frá lokahátíðinni eru hér.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Í kvöld er lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hömrum kl. 20:00. Grunnskólinn á Ísafirði sendir 6 fulltrúa úr 7. bekk, þau Emil Eirík Cruz, Hlyn Inga Árnason, Jakob Daníelsson, Rakel Maríu Björnsdóttur, Sigríði Erlu Magnúsdóttur og Þórð Gunnar Hafþórsson.

Við hvetjum alla til að mæta og hlýða á góðan upplestur og styðja við bakið á okkar fólki.

Frestun á árshátíð

Vegna fyrirséðrar fjarveru margra nemenda dagana 27. og 28. mars n.k. hefur verið ákveðið að fresta árshátíðinni um viku. Hún verður því haldin dagana 3. og 4. apríl undir yfirskriftinni Öll ólík - öll eins.

Nikodem á leið í Hörpuna

Bræðurnir Nikodem Júlíus, Mikolaj Ólafur og Maksymilian Haraldur Frach. (Mynd: tonis.is)
Bræðurnir Nikodem Júlíus, Mikolaj Ólafur og Maksymilian Haraldur Frach. (Mynd: tonis.is)

Síðastliðna helgi voru haldnir svæðistónleikar Nótunnar, sem er uppskeruhátíð tónlistarskóla í landinu. Tónleikarnir voru haldnir í Borgarnesi að þessu sinni og sendi Tónlistarskóli Ísafjarðar þrjú atriði til þátttöku. Pétur Ernir Svavarsson, nemandi í 8. bekk G.Í. lék frumsamið lag á píanó og Þormóður Eiríksson nemandi í M.Í. lék eigið verk á gítar.

Nikodem Júlíus Frach, nemandi í 6. bekk G.Í. lék verkið Country eftir Dabski á fiðlu, en bræður hans þeir Mikolaj Ólafur Frach og Maksymilian Haraldur Frach léku undir á píanó á og kontrabassa.

Öll þessi atriði hlutu Nótuna, sem er verðlaunagripur fyrir framúrskarandi atriði. Auk þess var Nikodem valinn til áframhaldandi þátttöku á lokahátíð Nótunnar, sem fram fer í Hörpu sunnudaginn 23. mars n.k.  

Við óskum öllum þessum hæfileikaríku hljóðfæraleikurum innilega til hamingju með frábæran árangur.

Vel heppnaður útivistardagur í Tungudal

Í dag tókst loks að halda skíða- og útivistardag í Tungudal hjá 5. - 10. bekk. Um 230 nemendur auk starfsfólks var á dalnum í dag og naut útivistar í veðurblíðunni. Nemendur og aðrir voru ýmist á svigskíðum, gönguskíðum, brettum eða sleðum þannig að engum leiddist og hafa eflaust allir farið heim endurnærðir á sál og líkama.

Skíða- og útivistardagur

Stefnt er að útivistardegi í Tungudal  miðvikudaginn 11. mars  fyrir nemendur í 5.-10. bekk. Gert er ráð fyrir að nemendur verði á skíðasvæðinu frá  kl. 10:00-13:30. 

Við förum þess á leit við foreldra að þeir keyri börn sín á skíðasvæðið og sæki þau aftur.  Við vitum að ekki eiga allir auðvelt með það og því bjóðum við upp á eina ferð fyrir nemendur sem ekki eiga annarra kosta völ.  Ferð frá skóla verður kl. 9:45 og  frá skíðasvæðinu kl 13:40.

Á skíðasvæðinu er hægt að leigja skíði og kostar það um 1500 kr.  Þeir nemendur sem ekki fara á skíði geta haft með sér sleða og þotur.

Sú nýbreytni verður í ár að útbúinn verður gönguhringur við skálann fyrir þá sem vilja mæta með gönguskíði. Hægt verður að leigja gönguskíði. 

Ekkert gjald verður tekið í lyfturnar. Mötuneytið mun sjá um hádegishressingu fyrir þá nemendur sem eru þar í áskrift.  Aðrir þurfa að koma með nesti að heiman.

Nemendur eru hvattir til að koma með hjálma og þeir sem ekki eiga hjálma geta fengið þá lánaða á staðnum (það má nota reiðhjólahjálma).

Foreldrar eru alltaf velkomnir með í útivistarferðir skólans og sérstaklega vel þegið að fá skíðandi foreldrar.

Frestun á skíða- og útivistardegi

Fresta þarf skíða- og útivistardegi sem áætlaður var á morgun, þriðjudag, vegna óhagstæðrar veðurspár. Ný dagsetning verður tilkynnt síðar.