Fréttir
Nemendur G.Í. gera það gott
Nemendur G.Í. hafa oftsinnis sýnt hæfileika sína utan skólans, svo eftir er tekið.
Nú á dögunum var Kjartan Óli Kristinsson í 10.BG valinn í U17 ára landslið drengja í blaki, sem fer til Englands í lok október. Þetta er í fyrsta sinn sem leikmaður frá blakfélaginu Skelli kemst í landsliðshóp og virkilega mikil viðurkenning fyrir þennan unga leikmann.
Þá hefur Nikodem Júlíus Frach í 7.HG, fiðluleikari með meiru, tekið þátt í æfingum með ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands nú undanfarið, en í sveitina eru einungis valdir framúrskarandi hljóðfæraleikarar. Sveitin hélt tónleika síðastliðinn sunnudag og verður upptaka frá þeim leikin í útvarpinu fimmtudaginn 9. október kl. 19:00.
Við óskum þessum ungu mönnum innilega til hamingju með frábæra frammistöðu.
Vinaliðaverkefni að hefjast
Í næstu viku hefja vinaliðar störf í frímínútum fyrstu fjóra virka daga vikunnar. Krakkarnir sem kosnir voru lýðræðislegri kosningu, hafa fengið námskeið varðandi sín hlutverk og eru með allt á hreinu og tilbúnir til starfa á mánudaginn.
Vinaliðaverkefnið snýst um það að setja upp leikstöðvar í frímínútunum hjá 4. - 7. bekk og stjórna vinaliðar því að allt fari vel fram á hverri stöð. Það er von skólans að með þessu finni allir eitthvað við sitt hæfi í frímínútunum og enginn verði afskiptur.
Nánari upplýsingar varðandi verkefnið má finna hér inni á heimasíðu Árskóla á Sauðárkróki, sem stýrir verkefninu á landsvísu.
Fyrsti snjórinn
Vinabekkir hittast
Í fyrradag hittust vinabekkirnir í fyrsta og áttunda bekk í fyrsta sinn og voru það sannkallaðir fagnaðarfundir. Áttundi bekkur bauð fyrsta bekk upp á kökur og djús og varð af hin fínasta veisla. Þetta voru yfir 70 börn svo að heimilisfræðistofan var fengin að láni til að borða í og svo áttu krakkarnir líka góða stund í dansstofunni þar sem vinabekkirnir sungu saman undir stjórn og undirleik Árnýjar Herbertsdóttur.
Ætlunin var að spila svolítið saman en tíminn var alltof fljótur að líða svo að spilasamveran verður að bíða betri tíma. Vonandi gefst tóm til þess sem fyrst, því þessi stund tókst mjög vel og allir hlakka til að hittast aftur.
Nemendur heimsækja Kaufering
Þessa dagana eru 8 nemendur úr 10. bekk G.Í. ásamt 2 nemendum frá Þingeyri í heimsókn í Kaufering, sem er vinabær Ísafjarðarbæjar í Þýskalandi. Í dag heimsótti hópurinn BMW safnið, leit við á október fest og fór í nokkur tívolítæki. Á morgun er ferðinni heitið til Landsberg, þar sem miðaldaþorp verður skoðað. Á föstudaginn skoða krakkarnir svo kastala og fleira.
Krakkarnir gista í heimahúsum í Kaufering og gengur ferðin vel í alla staði, að sögn Guðnýjar Stefaníu Stefánsdóttur, sem er fararstjóri ásamt Bryndísi Bjarnason.
Hópurinn er væntanlegur heim aftur á laugardaginn.
Evrópski tungumáladagurinn
Evrópuráðið hefur gert 26. september að árlegum evrópskum tungumáladegi og hefur dagurinn verið haldinn hátíðlegur frá árinu 2001 til að fagna fjölbreytileika tungumála í Evrópu og til að hvetja til tungumálanáms.
Nemendur G.Í. létu ekki sitt eftir liggja. 8. bekkur valdi sér einhverja jákvæða og glaðlega setningu og fann út hvernig hún væri á hinum ýmsu Evrópumálum. Flestir fóru á netið og nýttu sér vefinn snara.is eða google translate en sumir flettu upp í orðabókum af bókasafninu. Vinnan fór fram á ýmsum stöðum, í bekkjarstofum, myndmenntastofu, glerbúrinu, á ganginum eða á bókasafninu. Útkoman varð mjög skemmtileg og má sjá afraksturinn á veggjum skólans, þar sem setningar eins og: Þú ert falleg, Ég elska þig, Mér finnst ís góður og fleiri í þeim dúr hafa verið skrifaðar á veggspjöld á ýmsum tungumálum.
Forvarnardagurinn
Forvarnardagur 2014 verður haldinn miðvikudaginn 1. október. Dagurinn er helgaður nokkrum heillaráðum sem geta forðað börnum og unglingum frá fíkniefnum, ráðum sem eiga erindi við allar fjölskyldur í landinu.
Íslenskar rannsóknir sýna að þeir unglingar sem verja minnst klukkustund á dag með fjölskyldum sínum eru síður líklegir til að hefja neyslu fíkniefna. Að sama skapi sýna niðurstöður að mun ólíklegra sé að ungmenni sem stunda íþróttir og annað skipulagt æskulýðsstarf, falli fyrir fíkniefnum. Í þriðja lagi sýna rannsóknirnar fram á að því lengur sem ungmenni bíða með að hefja áfengisneyslu, þeim mun ólíklegra er að þau neyti síðar fíkniefna.
Niðurstöðurnar byggja á rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík sem hafa um árabil rannsakað áhættuhegðun ungmenna og hafa þær vakið alþjóðlega eftirtekt.
Nánari upplýsingar varðandi daginn er að finna á heimasíðu verkefnisins.
Innileikfimi
Frá og með morgundeginum, 30. september, verður leikfimin kennd innandyra. Nemendur þurfa þá að mæta með viðeigandi íþróttafatnað.
Starfsdagur kennara
Á mánudag, 29. september, er starfsdagur kennara og engin kennsla.