Fréttir
Vinaliðaverkefni
Þessa dagana er Grunnskólinn á Ísafirði að gerast aðili að svokölluðu vinaliðaverkefni. Verkefnið sem er norskt að uppruna, hefur á fáum árum náð mikilli útbreiðslu og er nú starfrækt í 827 skólum í Noregi. Það gengur út á það að hvetja nemendur til meiri þátttöku í afþreyingu í frímínútunum og skapa betri skólaanda. Við byrjum með 4. - 7. bekk en stefnum einnig á sömu vinnu með 8. - 10. bekk í framhaldinu.
Aðal markmiðið með þessu verkefni er að bjóða öllum nemendum skólans fjölbreyttara úrval afþreyingar í frímínútum, þannig að nemendur finni eitthvað við sitt hæfi. Markmið okkar er að allir nemendur hlakki til að mæta í skólann sinn, alla daga.
Nemendur í 4. - 7. bekk velja einstaklinga úr sínum bekkjum sem fá hlutverk vinaliða en þeir hafa svo umsjón með að koma leikjum og afþreyingu í gang og taka til eftir leikina. Nemandi sem er valinn til að gegna hlutverki vinaliða starfar í hálft ár í senn. Hann vinnur að verkefninu í löngu frímínútum skólans, tvo daga í viku, mánudag og miðvikudag eða þriðjudag og fimmtudag. Vinaliðinn mætir einnig á fundi þar sem starfið í frímínútum er skipulagt og vangaveltur sem því tengjast eru ræddar. Það er ekkert sem segir að vinaliði geti ekki verið valinn aftur, hópurinn tilnefnir þá nemendur sem honum finnst passa í starfið hverju sinni. Við val á vinaliðum eru nemendur skólans sérstaklega beðnir um að tilnefna einstaklinga sem þeim finnst vera vingjarnlegir og sýni öðrum nemendum virðingu. Ef vafi leikur á heilindum nemandans, getur umsjónarkennari frestað starfi hans sem vinaliða til næsta tímabils.
Skólinn nýtur stuðnings Árskóla á Sauðárkróki við að koma verkefninu af stað og hefur Árni Heiðar Ívarsson, íþróttakennari, tekið að sér stjórn verkefnisins fyrir hönd G.Í. Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu vinaliðaverkefnisins hjá Árskóla.
Sjálfstyrkingarnámskeið 5. - 7. bekkjar
Í morgun komu Kristín Tómasdóttir og Bjarni Fritzson, rithöfundar með meiru í heimsókn til okkar og héldu stutt sjálfstyrkingarnámskeið fyrir nemendur í 5. - 7. bekk. Þau Kristín og Bjarni hafa bæði gefið út bækur varðandi sjálfsmynd stelpna og stráka og eru vel að sér í þeim efnum. Við þökkum þeim kærlega fyrir komuna og þeirra góða innlegg varðandi eflingu sjálfsmyndar nemenda.
Dagur læsis
Alþjóðlegur dagur læsis er í dag, 8. september. Sameinuðu þjóðirnar gerðu þennan dag að alþjóðadegi læsis árið 1965.
Á þessum degi er fólk, hvar sem það er í heiminum, hvatt til þess að skipuleggja læsis- og lestrarviðburði. Grunnskólinn á Ísafirði tekur að sjálfsögðu þátt í þessu verkefni og verður aukin áhersla á lestur í tilefni dagsins. Auk þess hefst lestrarátak í skólanum sem stendur þessa viku. Þá lesa allir að lágmarki 10 - 20 mínútur í hljóði á dag.
Öll ólík, öll eins
Grunnskólinn á Ísafirði tók á síðasta ári þátt í Comeniusarverkefni sem bar yfirskriftina „All different, all the same, Europe‘s Children.“ Verkefnið er unnið í samstarfi við fjögur önnur lönd í Evrópu, þ.e. Rúmeníu, Portúgal, Pólland og Kýpur. Það var 10. bekkur sem vann að þessu í fyrra en þetta er tveggja ára verkefni og nú hefur það komið í hlut 8. bekkjar að taka við keflinu. Markmið verkefnisins er fyrst og fremst að auka víðsýni og umburðarlyndi og eyða fordómum.
Fyrsta fréttabréf skólaársins komið út
Nú er fyrsta fréttabréf skólaársins komið út með ýmsum upplýsingum varðandi skólastarfið.
Fjallgöngum að ljúka
Nú fer fjallgöngum að ljúka hjá öllum árgöngum skólans, en í morgun gengu fjórir árgangar út í náttúruna í blíðskaparveðri. Fyrsti bekkur gekk upp í Stórurð fyrir ofan Urðarveg, 2. bekkur fór á Hafrafellsháls, 4. bekkur upp í Naustahvilft og 5. bekkur upp með Buná í Tunguskógi. Það mátti því víða sjá káta krakka á ferli í morgun og verða þeir eflaust endurnærðir eftir góða útiveru.
Umgengni lýsir innri manni
Í sumar hefur húsnæði skólans verið endurbætt á einn og annan hátt og mikils um vert að ganga vel um þessa sameign okkar bæjarbúa. Það er virkilega gaman að sjá hversu vel nemendur ganga um þessa fyrstu skóladaga, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd og vonum við svo sannarlega að það haldist í vetur.
Nýtt nemendaráð
Nemendaráð fyrir skólaárið 2014-2015 er nú tekið til starfa. Formaður er Pétur Ernir Svavarsson og varaformaður Hekla Hallgrímsdóttir.
Aðrir í nemendaráði eru þau Andri Fannar Sóleyjarson, Hilda María Sigurðardóttir og Linda Marín Kristjánsdóttir úr 10. bekk, Birta Rós Þrastardóttir, Ína Guðrún Gísladóttir, Bergsteinn Snær Bjarkason og Bjarni Pétur Marel Jónasson úr 9. bekk og Hanna Þórey Björnsdóttir, Ólöf Einarsdóttir, Jakob Daníelsson og Kristófer Kristjánsson úr 8. bekk.
Lúsin mætt
Nú er rétt vika liðin af skólastarfinu og lúsin mætt á svæðið í nokkrum árgöngum. Skólahjúkrunarfræðingur hefur sent bréf heim til viðkomandi árganga og biðjum við alla að bregðast fljótt og örugglega við til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.