VALMYND ×

Fréttir

Haustferð 10. bekkjar

Næstu daga og vikur munu allir árgangar skólans fara í sínar árlegu haustferðir. Á morgun sigla 10. bekkingar norður á Hesteyri kl. 8.30 og verður líklega gengið yfir í Miðvík og þaðan aftur til baka á Hesteyri. Gist verður í tjöldum en einnig hefur hópurinn læknishúsið til afnota ef á þarf að halda. Áætluð heimkoma er kl. 12.30  á miðvikudag.

Skólabúðir hjá 7. bekk

Á morgun, mánudaginn 25. ágúst, leggur 7. bekkur af stað í skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði. Hópurinn dvelur þar fram á föstudag við leik og störf. Við óskum þeim góðrar ferðar og ánægjulegrar dvalar.

Skólasetning

Skólasetning Grunnskólans á Ísafirði er 22. ágúst í sal skólans:

 

Kl. 9:00    8. 9. og 10. bekkur

kl. 10:00   5. 6. og 7. bekkur

kl. 11:00   2. 3. og 4. bekkur

 

Nemendur í 1. bekk verða boðaðir í viðtöl við umsjónarkennara ásamt foreldrum þennan dag.

Sumarfrí

Við viljum benda á að innkaupalisti fyrir haustið 2014 er kominn hér inn á heimasíðuna og hvetjum við alla til að nýta námsgögn frá fyrra ári. Sú nýbreytni verður í haust að skólinn sér nemendum fyrir öllum stíla- og reiknisbókum, þannig að óvenju lítið er á innkaupalistum heimila.

Skólasetning verður 22. ágúst n.k. en allar upplýsingar varðandi næsta skólaár má finna á skóladagatalinu hér vinstra megin á síðunni.

 

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði óskar öllum gleðilegs sumars með þökk fyrir skólaárið sem nú er að líða.

Skólaslit

1 af 4

Í gær fóru fram skólaslit G.Í. í Ísafjarðarkirkju. Hefð er fyrir því að nemendur úr 9. bekk kynni dagskrána og voru kynnar að þessu sinni þau Hekla Hallgrímsdóttir og Hákon Ernir Hrafnsson.

Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, flutti ávarp og Haukur Jörundur Hálfdánarson flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema. 10. bekkur bauð upp á tónlistaratriði, þar sem Hilmar Adam Jóhannsson og Veturliði Snær Gylfason léku einleik á píanó. Auk þess lék miðsveit lúðrarsveitar Tónlistaskóla Ísafjarðar undir stjórn Madis Maeekalle.

 

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar fyrir góðan námsárangur. 

8. bekkur:

Guðrún Ósk Ólafsdóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir. 

Pétur Ernir Svavarsson hlaut viðurkenningu fyrir hæstu meðaleinkunn.

 

9. bekkur:

Guðný Birna Sigurðardóttir hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.

Hekla Hallgrímsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir hæstu meðaleinkunn.

 

Í vetur luku 15 nemendur í 10. bekk smáskipaprófi sem er bóklegi hlutinn fyrir skipstjórnarréttindi á skip sem eru styttri en 12 metrar.  Skólinn samdi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða um kennslu í þessari valgrein. Þeir nemendur sem luku prófi eru: Aðalbjörn Jóhannsson, Baldur Björnsson, Eggert Karvel Haraldsson, Einar Óli Guðmundsson, Friðrik Þórir Hjaltason, Gísli Jörgen Gíslason, Halldór Ágúst Hlynsson, Ívar Orri Guðmundsson, Julo Thor Rafnsson, Magnús Ingi Traustason, Sigrún Lísa Torfadóttir, Sigþór Hilmarsson Lyngmo, Suwat Chaemram, Telma Rut Sigurðardóttir og Vilmar Ben Hallgrímsson.

 

Eftirtaldar viðurkenningar voru veittar í 10. bekk:

Særún Thelma Veigarsdóttir Olsen hlaut viðurkenningu Rotary klúbbsins á Ísafirði fyrir ástundun og framfarir.

Ingunn Rós Kristjánsdóttir hlaut viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í íslensku, stærðfræði, samfélagsfræði og ensku.

Fróði Benjamín Þrastarson hlaut viðurkenningu fyrir góða ástundun og námsárangur í samfélagsfræði.

Veturliði Snær Gylfason hlaut viðurkenningar fyrir góða ástundun og námsárangur í samfélagsfræði, ensku, náttúrufræði og dönsku, ásamt hæstu meðaleinkunn í 10. bekk vorið 2014.

Dagur Benediktsson hlaut viðurkenningu frá Kvenfélaginu Hlíf fyrir framfarir og skapandi vinnubrögð í myndmennt.

Hafdís Haraldsdóttir hlaut viðurkenningur frá Kvenfélaginu Hlíf fyrir áhuga, vandvirkni og vinnubrögð í textílmennt.

Fróði Benjamín Þrastarson hlaut viðurkenningu frá Kvenfélaginu Hlíf fyrir framfarir og vinnubrögð í tæknimennt.

Hulda Pálmadóttir hlaut viðurkenningu frá Kvenfélaginu Hlíf fyrir áhuga, metnað og iðni í heimilsfræði.

Særún Thelma Veigarsdóttir hlaut viðurkenningu frá Kvenfélaginu Hlíf fyrir áhuga, vandvirkni og vinnubrögð í stafrænni smiðju sem kölluð er Fab-lab.

Dagur Benediktsson og Aldís Huld Höskuldsdóttirn hlutu viðurkenningar frá Stúdíó Dan fyrir góða ástundun og námsárangur í íþróttum.

Helga Þórdís Björnsdóttir hlaut viðurkenningu Ísfirðingafélagsins í Reykjavík, til minningar um Hannibal Valdimarsson. Þessi viðurkenning var veitt fyrir lofsverða ástundun, framfarir í námi og virka þátttöku í félagsstarfi.

 

Starfsfólk Grunnskólans á Ísafirði þakkar árgangi 1998 samfylgdina í gegnum árin og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

Skólaslit

Á morgun, miðvikudaginn 4. júní er starfsdagur kennara og engin kennsla.

Fimmtudaginn 5. júní mæta nemendur 1. bekkjar ásamt foreldrum í viðtöl hjá sínum umsjónarkennurum á þeim tíma sem úthlutað hefur verið. Sama dag kl. 10:00 mæta nemendur 2. - 7. bekkjar í sínar bekkjarstofur og taka við vitnisburðum skólaársins.

Skólaslit verða í Ísafjarðarkirkju fimmtudagskvöldið 5. júní kl. 20:00. Þar munu nemendur unglingastigs taka við sínum vitnisburðum og 10. bekkur verður formlega kvaddur.

Sumarlestur

Nemendur G.Í. í heimsókn á bókasafninu. Mynd: Bókasafnið Ísafirði
Nemendur G.Í. í heimsókn á bókasafninu. Mynd: Bókasafnið Ísafirði

Undanfarin sjö ár hefur Bæjarbókasafnið boðið upp á sumarlestur fyrir börn. Í ár verður boðið upp á þetta skemmtilega lestrarátak í 8. sinn og stendur sumarlesturinn yfir 2. júní - 23. ágúst.  Markhópurinn eru börn á grunnskólaaldri og þá sérstaklega börn 12 ára og yngri sem hafa náð tökum á lestri.

Mikið hefur verið fjallað um neikvæðar niðurstöður PISA-könnunar og minnkandi læsi meðal nemenda í íslenskum grunnskólum. Með þessu átaki vill bókasafnið reyna að leggja sitt af mörkum til að efla lestur yfir sumarmánuðina. Áhersla er lögð á að foreldar komi með börnum sínum til að aðstoða við bókaval og verða starfsmenn einnig með tilbúna bókalista til leiðbeiningar, því að miklu máli skiptir að börnin finni bækur sem passa við lestrargetu og að þeim finnist bækurnar skemmtilegar.

Við hvetjum alla nemendur og foreldra til að nýta sér þetta góða átak bókasafnsins.

Leikjadagur

Leikjadagur á yngsta stigi
Leikjadagur á yngsta stigi
1 af 2

Í dag var leikjadagur hjá yngsta stigi skólans. Fjölbreyttar leikjastöðvar voru í boði, t.d. ævintýraland í íþróttahúsinu, bingóleikur í blómagarðinum og leikurinn ,,hundur og kjötbein" hjá Hótel Ísafirði.  

Í lokin var svo boðið upp andlitsmálun á Silfurtorgi og einnig var hægt að henda blautum svömpum í spjald, blása sápukúkur, kríta, sippa og kasta hringjum í mark.   

Sjöundi bekkur hitti verðandi 1. bekkinga á leikskólanum Eyrarsól, en þessir tveir árgangar verða svokallaðir vinabekkir næstu þrjú árin í G.Í. Krakkarnir fóru upp á tún hjá Gamla sjúkrahúsinu og brugðu á leik saman og áttu skemmtilega samverustund.

Vel heppnuð vorferð 10. bekkjar

Samgönguminjasafnið í Stóragerði í Óslandshlíð, Skagafirði
Samgönguminjasafnið í Stóragerði í Óslandshlíð, Skagafirði

Vorferð 10. bekkjar að Steinsstöðum í Skagafirði gekk vel og samkvæmt áætlun. Farið var í flúðasiglingu á Vestari Jökulsá, Samgöngusafnið að Stóragerði í Óslandshlíð var heimsótt, farið í sund í hinni frægu sundlaug á Hofsósi og í pizzuveislu á Sauðárkróki. Þá var farið í klettaklifur og klettasig í Hegranesi undir styrkri stjórn björgunarsveitarmanna og farið í litbolta á Steinsstöðum, sem mörgum fannst hápunktur ferðarinnar. Eftir litboltann var haldið í sundferð í Varmahlíð og síðan heim í grillveislu á Steinsstöðum.  Slegið var upp fótboltakeppni milli Ísfirðinga og Akureyringa, þar sem Ísfirðingar sigruðu með glæsibrag en vilja helst ekki ræða þá staðreynd að þeir voru helmingi fleiri á vellinum. 

Hópurinn kom heim seinni partinn á miðvikudag, allir svolítið þreyttir, sumir svolítið skrámaðir en vonandi allir ánægðir með ferðina og fullt af skemmtilegum minningum í farangrinum. 

Blíðviðri á vorverkadegi

1 af 4

Veðrið lék aldeilis við okkur í dag á vorverkadegi skólans. Þó að sólin hafi ekki mikið sýnt sig, þá var milt og þurrt, sem kom sér afar vel fyrir útivinnuna.

Nemendur stóðu sig með mikilli prýði í öllum þeim verkum sem fyrir þá voru lögð. Sjá má eitthvað af myndum hér inni á myndasíðunni vinstra megin á síðunni.