VALMYND ×

Fréttir

Símasambandsleysi

Í morgun hefur verið símasambandslaust hér í skólanum til kl. 9:10 vegna rafmagnstruflana í nótt. Við biðjumst velvirðingar á þessu ástandi og biðjum fólk að sýna okkur skilning.

Vinningshafi í eldvarnagetraun

Sólveig Perla fyrir miðri mynd ásamt bekkjarfélögum sem þátt tóku í eldvarnagetraun slökkviliðsins.
Sólveig Perla fyrir miðri mynd ásamt bekkjarfélögum sem þátt tóku í eldvarnagetraun slökkviliðsins.

Í dag, á sjálfan 112 daginn, komu þeir Hermann Hermannsson og Hlynur Kristjánsson frá Slökkviliði Ísafjarðar færandi hendi og afhentu  Sólveigu Perlu Veigarsdóttur Olsen í 3. MH verðlaun í eldvarnagetraun sem árgangurinn tók þátt í fyrir jólin. Vinningurinn var ekki af verri endanum en í vinningspokanum reyndist vera reykskynjari, viðurkenningarskjal, eintak af tímaritinu Slökkviliðsmaðurinn ásamt 10.000 kr.  Við óskum Sólveigu Perlu innilega til hamingju með verðlaunin.

 

 

Vinabekkir hittast

1 af 3

Síðastliðinn föstudag bauð 8. bekkur vinabekk sínum, 1. bekk, í heimsókn. Mikið var spilað, spjallað og leikið og buðu foreldrar upp á heilmiklar kræsingar þannig að úr varð hin fínasta veisla. Boðið tókst í alla staði mjög vel og vonandi var þetta bara fyrsta af mörgum samverustundum vinabekkjanna tveggja.

Fleiri myndir frá samverustundinni má finna á heimasíðu 1. bekkjar og 8. bekkjar.

Heimsókn frá Eyrarsól

Hér má sjá 9 krakka af þeim 36 sem heimsóttu okkur í morgun.
Hér má sjá 9 krakka af þeim 36 sem heimsóttu okkur í morgun.

Í morgun komu krakkar frá leikskólanum Eyrarsól í heimsókn til okkar. Um er að ræða 36 tilvonandi 1. bekkinga og tók Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri, á móti þeim og sýndi þeim skólann. Að sjálfsögðu var margt að skoða og fannst þeim skólinn mjög stór og margmennur.

Það verður gaman að sjá þessa krakka aftur í haust þegar þeir setjast á skólabekk.

Skráningar fyrir foreldradag

Fimmtudaginn 6. febrúar verða foreldraviðtöl hér í skólanum. Sú nýbreytni var tekin upp s.l. haust að foreldrar velja og skrá sína viðtalstíma sjálfir á mentor.is. Þetta fyrirkomulag gafst mjög vel og er endurtekið nú. 

Opnað hefur verið fyrir skráningar á mentor og eru foreldrar hvattir til að skrá sig sem fyrst.

Nemendaþing G.Í. kynnt í Danmörku

Í dag eru Sveinfríður Olga Veturliðadóttir, skólastjóri og Guðríður Sigurðardóttir, kennari, á ráðstefnunni ,,Norden viser vej - udforinger og styrker i de nordiske uddannelser" eða Áskoranir og styrkur í norrænni menntun, sem fram fer í Kaupmannahöfn í Danmörku. Þar munu þær stöllur kynna nemendaþing skólans, sem haldið var s.l. haust. Aðdragandinn er að nokkrum íslenskum skólum var boðið að senda inn kynningu á áhugaverðum verkefnum og var okkar verkefni það eina sem valið var frá Íslandi. Á ráðstefnunni eru erindi frá skólum á öllum Norðurlöndunum. 


Meira

Góð stemning á þorrablóti 10. bekkjar

Íslenskir þjóðbúningar voru áberandi á þorrablóti 10. bekkjar
Íslenskir þjóðbúningar voru áberandi á þorrablóti 10. bekkjar
1 af 2

Í kvöld var þorrablót 10. bekkjar haldið í sal skólans. Það eru foreldrar og forráðamenn nemenda í 10. bekk sem hafa veg og vanda að blótinu og er þetta einn elsti og skemmtilegasti menningarviðburðurinn í skólastarfinu.

Kristján Andri Guðjónsson sá um veislustjórn af mikilli röggsemi og stýrði einnig fjöldasöng ásamt Ingunni Ósk Sturludóttur, við undirleik Beötu Joó.

Eftir að allir höfðu snætt sinn þorramat úr trogum buðu foreldrar og kennarar upp á skemmtiatriði, sem var mjög vel tekið. Að borðhaldi loknu var svo stiginn dans við harmóníkuleik og var virkilega gaman að sjá unglingana dansa gömlu dansana við foreldra, afa og ömmur. Íslenski þjóðbúningurinn var áberandi í kvöld og skörtuðu allar stúlkur 10. bekkjar slíkum búningum og setti það svo sannarlega skemmtilegan hátíðarsvip á samkomuna.

Til marks um það hversu mikilvægur þáttur þorrablótið er, þá fékk það tilnefningu til foreldraverðlauna Heimilis og skóla árið 2011. Þar kom fram að verkefnið miði að því að viðhalda sterkri hefð í skólanum. Tilgangurinn sé margþættur og megi í því sambandi nefna liðsheild innan foreldrahópsins, sem skipti miklu máli í samstarfi foreldra og unglinga.

Fjölmargar myndir frá þorrablótinu má finna hér inni á heimasíðu 10. bekkjar.

Skautað á Austurvelli

7.HS sýnir listir sínar
7.HS sýnir listir sínar
1 af 2

Nú um hádegisbilið brá 7.HS sér í skautana og sýndi listir sínar á svellinu á Austurvelli. Þrátt fyrir óslétt svell og nokkrar vindhviður, þá sýndu margir hverjir snilldartakta.

Til eru nokkur pör af skautum í skólanum og eru fleiri vel þegin ef einhverjir eiga á lausu.

Þorri blótaður

Föstudaginn 24. janúar hefst þorri sem er gamalt mánaðarheiti en samkvæmt forníslensku tímatali var þorri fjórði mánuður vetrar. Þorri var líka talinn erfiðasti vetrarmánuðurinn og því er stundum talað um að þreyja þorrann en það þýðir eiginlega að harka hann af sér eða að komast í gegnum hann, þola tímabundna erfiðleika. Fyrsti dagur þorra nefnist bóndadagur og einmitt þann dag er miður vetur. 

Á bóndadaginn verður hið árlega þorrablót 10. bekkinga G.Í. Nemendur og foreldrar hafa stundað æfingar af kappi fyrir blótið, þar sem dansfæturnir hafa verið liðkaðir. Einnig þarf að æfa fjöldasöng og skemmtiatriði, en þorrablótið er einn helsti og elsti menningarviðburðurinn í skólastarfinu. Þar koma nemendur 10. bekkjar saman ásamt fjölskyldum sínum og kennurum og fagna komu þorra að gömlum sið. Allir koma með sinn mat í trogi og einnig hefur sú hefð styrkst að stúlkur mæti í íslenskum þjóðbúningum.

Húsið opnar kl. 19:30 og hefst borðhald um kl. 20:00.

Stöðvum einelti!

Nemendur láta sig svo sannarlega einelti varða. Nokkrar stelpur í 9. bekk, þær Birta Dögg Guðnadóttir, Ingigerður Anna Bergvinsdóttir, Kolfinna Rós Veigarsdóttir Olsen og Natalía Kaja Fjölnisdóttir, tóku sig því til og gerðu myndband um einelti og hræðilegar afleiðingar þess. 

Myndbandið hefur vakið mikla athygli strax fyrsta sólarhringinn og m.a. verið birt á síðunni bleikt.is. 

Gott framtak hjá stelpunum, sem vita sem er að einelti á ekki að líðast og öll getum við lagt okkar af mörkum.