VALMYND ×

Fréttir

Sumarlestur

Nemendur G.Í. í heimsókn á bókasafninu. Mynd: Bókasafnið Ísafirði
Nemendur G.Í. í heimsókn á bókasafninu. Mynd: Bókasafnið Ísafirði

Undanfarin sjö ár hefur Bæjarbókasafnið boðið upp á sumarlestur fyrir börn. Í ár verður boðið upp á þetta skemmtilega lestrarátak í 8. sinn og stendur sumarlesturinn yfir 2. júní - 23. ágúst.  Markhópurinn eru börn á grunnskólaaldri og þá sérstaklega börn 12 ára og yngri sem hafa náð tökum á lestri.

Mikið hefur verið fjallað um neikvæðar niðurstöður PISA-könnunar og minnkandi læsi meðal nemenda í íslenskum grunnskólum. Með þessu átaki vill bókasafnið reyna að leggja sitt af mörkum til að efla lestur yfir sumarmánuðina. Áhersla er lögð á að foreldar komi með börnum sínum til að aðstoða við bókaval og verða starfsmenn einnig með tilbúna bókalista til leiðbeiningar, því að miklu máli skiptir að börnin finni bækur sem passa við lestrargetu og að þeim finnist bækurnar skemmtilegar.

Við hvetjum alla nemendur og foreldra til að nýta sér þetta góða átak bókasafnsins.

Leikjadagur

Leikjadagur á yngsta stigi
Leikjadagur á yngsta stigi
1 af 2

Í dag var leikjadagur hjá yngsta stigi skólans. Fjölbreyttar leikjastöðvar voru í boði, t.d. ævintýraland í íþróttahúsinu, bingóleikur í blómagarðinum og leikurinn ,,hundur og kjötbein" hjá Hótel Ísafirði.  

Í lokin var svo boðið upp andlitsmálun á Silfurtorgi og einnig var hægt að henda blautum svömpum í spjald, blása sápukúkur, kríta, sippa og kasta hringjum í mark.   

Sjöundi bekkur hitti verðandi 1. bekkinga á leikskólanum Eyrarsól, en þessir tveir árgangar verða svokallaðir vinabekkir næstu þrjú árin í G.Í. Krakkarnir fóru upp á tún hjá Gamla sjúkrahúsinu og brugðu á leik saman og áttu skemmtilega samverustund.

Vel heppnuð vorferð 10. bekkjar

Samgönguminjasafnið í Stóragerði í Óslandshlíð, Skagafirði
Samgönguminjasafnið í Stóragerði í Óslandshlíð, Skagafirði

Vorferð 10. bekkjar að Steinsstöðum í Skagafirði gekk vel og samkvæmt áætlun. Farið var í flúðasiglingu á Vestari Jökulsá, Samgöngusafnið að Stóragerði í Óslandshlíð var heimsótt, farið í sund í hinni frægu sundlaug á Hofsósi og í pizzuveislu á Sauðárkróki. Þá var farið í klettaklifur og klettasig í Hegranesi undir styrkri stjórn björgunarsveitarmanna og farið í litbolta á Steinsstöðum, sem mörgum fannst hápunktur ferðarinnar. Eftir litboltann var haldið í sundferð í Varmahlíð og síðan heim í grillveislu á Steinsstöðum.  Slegið var upp fótboltakeppni milli Ísfirðinga og Akureyringa, þar sem Ísfirðingar sigruðu með glæsibrag en vilja helst ekki ræða þá staðreynd að þeir voru helmingi fleiri á vellinum. 

Hópurinn kom heim seinni partinn á miðvikudag, allir svolítið þreyttir, sumir svolítið skrámaðir en vonandi allir ánægðir með ferðina og fullt af skemmtilegum minningum í farangrinum. 

Blíðviðri á vorverkadegi

1 af 4

Veðrið lék aldeilis við okkur í dag á vorverkadegi skólans. Þó að sólin hafi ekki mikið sýnt sig, þá var milt og þurrt, sem kom sér afar vel fyrir útivinnuna.

Nemendur stóðu sig með mikilli prýði í öllum þeim verkum sem fyrir þá voru lögð. Sjá má eitthvað af myndum hér inni á myndasíðunni vinstra megin á síðunni.

Vorverkadagur

Í dag er vorverkadagur hjá öllum árgöngum skólans. Allir bekkir skólans ganga til ákveðinna verka ásamt umsjónarkennurum og öðru starfsfólki skólans.  Verkefnið er unnið í samvinnu við Ísafjarðarbæ og hefur Ralf Trylla verið okkur innan handar við skipulagið.  Á dagskránni eru mörg verk, t.d. hreinsun á opnum svæðum, sáning, gróðursetning í Tungudal og málun á grindverki.

Það er því viðbúið að víða megi sjá ungmenni með hin ýmsu verkfæri á lofti í dag. Um hádegisbilið býður mötuneyti skólans svo upp á grillaðar pylsur.

Útivistardagar

Margir koma hjólandi í skólann þessa dagana eins og sjá má á þessari mynd.
Margir koma hjólandi í skólann þessa dagana eins og sjá má á þessari mynd.

Þessa dagana er mikið um útivist sem eflir nemendur m.a. í félagsfærni, samstarfi og hreyfifærni. Einhverjir árgangar fara í stuttar hjólaferðir og viljum við minna á að enginn fer hjálmlaus í slíka ferð, enda er hjálmurinn að sjálfsögðu höfuðatriði og nauðsynlegt öryggistæki.

 

Sýning á verkum nemenda í stjórnsýsluhúsinu

Sýning á verkefninu um aðgengi fatlaðra að stofnunum og þjónustufyrirtækjum í Ísafjarðarbæ sem 6. og 9. bekkur unnu fyrir skömmu, hefur verið sett upp á annarri hæð stjórnsýsluhússins. Á fundi MND félagsins fyrir hálfum mánuði kynntu tvær stúlkur úr 9. bekk niðurstöðurnar og fengu krakkarnir mikið lof fyrir verkið og útfærslu á því.   

Það er vel þess virði að koma við í stjórnsýsluhúsinu og sjá hversu fjölbreytt skólastarfið getur verið, en sýningin stendur yfir út þennan mánuð.

Vorferð 10. bekkjar

Sundlaugin á Hofsósi
Sundlaugin á Hofsósi

Nemendur 10. bekkjar halda af stað í vorferð sína á morgun, sunnudaginn 25. maí. Mæting er kl. 10:30 við Alþýðuhúsið. 

Ferðinni er heitið að Steinsstöðum í Skagafirði þar sem ýmis ævintýri bíða. M.a. verður farið í litbolta, klettaklifur og flúðasiglingu. Þar að auki er ætlunin að heimsækja hina frægu sundlaug á Hofsósi, borða pizzur á Sauðárkróki, sulla í lauginni á Steinsstöðum og leika sér í fótbolta, taka lagið og sprella alls konar eftir því sem hugmyndaflugið leyfir.

Heimferð er fyrirhuguð á miðvikudag og gert ráð fyrir að koma heim á Ísafjörð á milli kl. 17 og 18.

 

Súgfirðingar höfðingjar heim að sækja

1 af 3

Síðastliðin sex ár hafa fyrirtækin Íslandssaga og Klofningur á Suðureyri, boðið öllum nemendum í 1. bekk G.Í. í heimsókn til að skoða fiskvinnsluna þeirra.  Þetta er mjög rausnarlegt boð þar sem rúta kemur og sækir krakkana í skólann og skilar þeim þangað aftur í lok heimsóknar. Í morgun var haldið af stað og þau Óðinn, Guðni, Oddný  og Ævar tóku á móti hópnum og sýndu þeim starfsemi sína. Starfsfólkið í beitningaskúrunum var heimsótt ásamt fiskvinnslunni og sáu krakkarnir allt vinnsluferlið.  Rúsínan í pylsuendanum þar var að allir fengu að setjast upp í lyftara og prófa að lyfta gafflinum á alla vegu og vakti það mikla lukku hjá börnunum.  Fylgst var með hvernig fisknum er pakkað í ýmsar umbúðir, en bæði er fiskur fluttur ferskur  til útlanda  í kælikössum, á meðan annar fiskur er frystur og sendur þannig út í heim.    

Hjá Klofningi var litið á þurrkaða fiskhausa og bein og fræddust krakkarnir um allt vinnsluferlið.  Ekki var laust við að sumum þætti lyktin slæm en það eru hraustir krakkar í 1. bekk og þeir létu ekki smá  lykt stoppa sig heldur skoðuðu  allt sem í boði var.   Í lok ferðarinnar var svo boðið til Elíasar í kaffihúsinu Kaupfélaginu og þar fengu allir ís.  Einnig leystu gestgjafarnir hópinn út með góðum gjöfum og fengu allir ferskan fisk í soðið, harðfisk og reyktan rauðmaga.  Það voru glaðir og ánægðir krakkar og kennarar sem héldu heim á leið í lok heimsóknarinnar. 

Hópurinn þakkar kærlega fyrir höfðinglegar móttökur á.   

Brugðið á leik

Það er mikið um að vera þessa dagana sem endranær í skólastarfinu. Námsmat er í fullum gangi, auk ýmissa vorverkefna. Að sjálfsögðu er góða veðrið nýtt til hins ítrasta og ekki úr vegi að bregða á leik þegar tími gefst til, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.