VALMYND ×

Fréttir

Stóra upplestrarkeppnin sett formlega

Nemendur 8. bekkjar lásu upp og léku á hljóðfæri
Nemendur 8. bekkjar lásu upp og léku á hljóðfæri
1 af 10

Í dag var stóra upplestrarkeppnin sett formlega í Hömrum. Nemendur 8. bekkjar, sem tóku þátt í fyrra, lásu sögubrot og ljóð og  léku á píanó og harmóníku. Nemendur 7. bekkjar voru sérstakir gestir, þar sem þeir taka við keflinu og hefja nú markvissar æfingar í framsögn næstu mánuði. 

Markmið upplestrarkeppni í 7. bekk grunnskóla er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði. Keppnin sjálf er í rauninni aukaatriði og forðast skyldi að einblína á sigur. Mestu skiptir að kennarar nýti þetta tækifæri til að leggja markvissa rækt við einn þátt móðurmálsins með nemendum sínum, vandaðan upplestur og framburð, og fái alla nemendur til að lesa upp, sjálfum sér og öðrum til ánægju. Stefnt skyldi að því að allur upplestur í tengslum við keppnina sé fremur í ætt við hátíð en keppni. Þetta á ekki síst við um lokahátíð keppninnar, sem haldin verður í mars 2014.

Nánari upplýsingar um keppnina er að finna á heimasíðu verkefnisins.

Skáldavika

Þórarinn Eldjárn
Þórarinn Eldjárn

Undanfarin ár hafa verið haldnar skáldavikur hér í skólanum, þar sem eitt ákveðið íslenskt skáld er kynnt sérstaklega. Þetta árið varð Þórarinn Eldjárn fyrir valinu og munu nemendur vinna fjölbreytt verkefni út frá verkum hans. Frá árinu 1975 hefur hann starfað sem rithöfundur og þýðandi og hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka, smásagna og skáldsagna.  Þórarinn hefur sent frá sér nokkrar ljóðabækur fyrir börn í samstarfi við systur sína, myndlistarkonuna Sigrúnu Eldjárn og hafa þær hlotið fjölmargar viðurkenningar. 

Samvinnuverkefni nemenda

Nemendur í tölvuvali hafa undanfarið skilgreint hlutverk nemenda og kennara út frá uppbyggingarstefnunni sem skólinn vinnur eftir. Því næst tóku nemendur í Fablab vali við og útbjuggu límmiða fyrir hlutverkin sem tölvuvalsnemendur límdu að lokum upp á vegg í tölvuveri skólans. Afraksturinn sést á myndinni hér til hliðar.

Netnotkun barna og unglinga

SAFT  (Samfélag, fjölskylda og tækni) stóð fyrr á árinu fyrir gerð könnunar á netnotkun barna  og  unglinga  hér  á  landi. Markmið könnunarinnar er að afla upplýsinga um notkun barna og unglinga á netinu og nýta í kjölfarið þær upplýsingar  til vitundarvakningar  um möguleika  netsins  og örugga  netnotkun  barna  og  unglinga. 

Í könnuninni voru nokkrar spurningar um aðgengi barna og unglinga að klámi. Öll börn og unglingar í könnuninni voru spurð hvort þau hefðu óvart farið inn á vefsíður með myndum eða myndböndum af nöktu fólki/klámi á sl. 12 mánuðum en að auki voru þátttakendur í 6.-10. bekk spurðir hvort þeir hefðu viljandi farið inn á slíkar vefsíður auk annarra spurninga því tengt.



Meira

Dagur íslenskrar tungu

Á morgun, laugardaginn 16. nóvember, er dagur íslenskrar tungu. Hann hefur verið haldinn hátíðlegur um allt land frá árinu 1996 á þessum degi sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. 

Á mánudaginn verður dagskrá í Hömrum af þessu tilefni og mun Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk verða sett þá. Einnig hefst svokölluð skáldavika, þar sem eitt íslenskt skáld er kynnt sérstaklega og varð Þórarinn Eldjárn fyrir valinu í þetta skiptið.

Lummubakstur utan dyra

1 af 2

Í vetur er boðið upp á hinar ýmsu valgreinar á miðstigi, þ.e. í 5. - 7. bekk og er ein þeirra greina útivist. Í morgun skelltu krakkarnir sér í lummubakstur, utan dyra að sjálfsögðu. Gleðin skein úr andlitum krakkanna eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, enda er fátt sem stenst samanburð við heitar lummur á köldum vetrarmorgni.

Foreldradagur

Á morgun eru foreldraviðtöl í skólanum, en þá mæta nemendur ásamt foreldrum/forráðamönnum til umsjónarkennara. Aðrir kennarar verða líka til viðtals eftir þörfum hvers og eins. Sú nýbreytni hefur verið tekin upp að foreldrar bóka tíma sjálfir á mentor.is eftir því hvaða tími hentar hverjum og einum.

Engin kennsla verður því á morgun, en dægradvöl er opin frá kl. 14:00 - 16:00.

Dagur gegn einelti

8. nóvember ár hvert er helgaður baráttunni gegn einelti. Markmiðið með þessum baráttudegi er að berjast gegn einelti, en ekki síður að benda á það sem vel er gert í þeim málum. 

Í Grunnskólanum á Ísafirði er unnið samkvæmt viðbragðsáætlun vegna eineltis. Einelti, í hvaða mynd sem er, líðst ekki í skólanum og er leitað allra leiða til að fyrirbyggja það og leysa þau mál sem upp koma. Öllum á að líða vel í skólanum, þannig tryggjum við farsælt og árangursríkt skólastarf.

Ef minnsti grunur vaknar um einelti, skal annað hvort tilkynna það til umsjónarkennara eða stjórnenda eða fylla út eyðublað sem nálgast má hér á heimasíðunni.

Bókanir foreldraviðtala

Foreldraviðtöl í skólanum verða miðvikudaginn 13. nóvember n.k. Í stað þess að kennarar úthluti foreldrum fundartíma munu foreldrar sjálfir skrá sig í viðtölin á mentor.  Þeir foreldrar sem ekki eru með lykilorð að mentor geta sótt um það á forsíðu mentors, en þar er flipi fyrir gleymt lykilorð.

Þegar búið er að skrá sig inn, er fjólublár reitur sem heitir fjölskylduvefur og er hann valinn. Þegar það er gert kemur upp síða þar sem hægt er að skoða ástundun, dagbók og ýmislegt fleira.  Á stiku hægra megin er svo hægt að bóka foreldraviðal. Foreldrar skrá sig hjá umsjónarkennara barnsins en aðrir kennarar verða til viðtals eftir óskum hvers og eins. Gott er að hafa í huga að gefa sér smá tíma til að komast á milli viðtala (ef börnin eru fleiri en eitt). 

Opnað verður fyrir skráningar á morgun, fimmtudaginn 7. nóvember kl. 12:00.  Þau viðtöl sem bókuð eru fyrir þann tíma eru ekki tekin gild.

Skólaþing

Laugardaginn 2. nóvember komu foreldrar og starfsmenn saman í Grunnskólanum á Ísafirði á skólaþing.  Byrjað var á að skilgreina hvaða aðilar mynda samfélagið í kringum skólann og hvert hlutverk þeirra er.  Unnið var í níu hópum sem fjölluðu um hvers aðilar skólasamfélagsins geta vænst af skólanum og svo hvers skólinn getur vænst af samfélaginu.  Niðurstöður hópanna voru margþættar og gott að fá mismunandi sjónarhorn í umræðuna.  Sem aðilar að skólasamfélaginu voru nefndir nemendur, starfsfólk og foreldrar en einnig stjórnvöld, heilsugæsla og fjölmiðlar svo eitthvað sé nefnt.  Allir voru á því að aðilar skólasamfélagsins gætu vænst fagmennsku, trúnaðar, metnaðar, ábyrgðar og góðs samstarfs af skólanum og skólinn gæti vænst virkni, þátttöku, góðs samstarfs og sanngjarns umtals af viðkomandi.  Í lokin ræddu þátttakendur svo spurninguna: Hvað kemur barni best til að ná árangri í lífinu.  Niðurstöður þar voru svipaðar hjá öllum hópum og nefndu flestir jákvæða sjálfsmynd, sjálfstraust, þrautseigju, að geta tekist á við mótlæti, hæfni til að tileinka sér nýja þekkingu og upplýsingalæsi. 

Skólaþingið er einn þáttur í áætlun Grunnskólans um að auka þátttöku foreldra í stefnumótun og skólastarfi.  Búið er að halda sambærilegt nemendaþing og verða niðurstöður þinganna notaðar við skólanámskrárvinnu þannig að námskrá skólans endurspegli eins vel og hægt er hvernig skólinn ætlar að koma til móts við þarfir samfélagsins.