VALMYND ×

Fréttir

Árshátíð G.Í.

Árshátíð Grunnskólans á Ísafirði verður haldin fimmtudaginn 3., föstudaginn 4. og mánudaginn 7. apríl n.k. Þar munu allir árgangar stíga á stokk og sýna atriði sín undir yfirskriftinni Öll ólík - öll eins.

Síðustu dagar hafa einkennst af undirbúningi fyrir árshátíðina, enda er mikið í lagt og allir nemendur skólans koma að skipulagningunni á einn eða annan hátt, þó svo að ekki alveg allir stígi á svið, en langflestir þó. Skólinn býður upp á sex sýningar til að koma öllum að og er aðgangseyrir kr. 1.000 sem rennur í ferðasjóð verðandi 7. bekkjar fyrir skólabúðaferð að Reykjum í Hrútafirði næsta haust.


Meira

Alþjóðlegur dagur barnabókarinnar

Miðvikudagurinn 2. apríl er alþjóðlegur dagur barnabókarinnar, en það er fæðingardagur H.C. Andersens. Líkt og undanfarin ár færir IBBY á Íslandi, sem eru frjáls félagasamtök áhugamanna um barnabókmenntir og barnamenningu, íslenskum börnum smásögu að gjöf í tilefni dagsins. Þórarinn Eldjárn hefur að beiðni félagsins skrifað söguna Blöndukút í Sorpu sem hentar lesendum frá 6 ára aldri og verður henni útvarpað á Rás 1  kl. 9:10 sama dag.

Þingeyringar sigruðu Vestfjarðariðilinn

Grunnskólinn á Þingeyri stóð uppi sem sigurvegari í Vestfjarðariðlinum í skólahreysti, sem fram fór fyrr í dag. Þar með tryggði skólinn sér þátttökuréttinn í úrslitakeppninni, sem fram fer 16. maí n.k. í Laugardalshöll.

Okkar fólk hafnaði í öðru sæti og hefur því lokið keppni. Við óskum Þingeyringum innilega til hamingju með sigurinn svo og öllum öðrum þátttakendum sem hafa æft stíft undanfarið og staðið sig einstaklega vel.

Keppni í Vestfjarðariðli í skólahreysti

Á morgun, fimmtudag, fer keppni fram í Vestfjarðariðlinum í skólahreysti. Riðlakeppnin er haldin í íþróttahúsi Breiðabliks í Smáranum í Kópavogi að þessu sinni og taka 5 skólar þátt í okkar riðli. 

Lið G.Í. þetta árið skipa þau: Andri Fannar Sóleyjarson, Friðrik Þórir Hjaltason, Guðný Birna Sigurðardóttir, Gunnar Þór Valdimarsson, Katrín Ósk Einarsdóttir og Kolfinna Veigarsdóttir Olsen. 

Við óskum okkar krökkum góðs gengis og munum að sjálfsögðu fylgjast með gangi mála.

Einmánuður hefst

Síðasti dagur góu kallast góuþræll og var hann í gær, en einmánuður hefst í dag þann 25. mars og er hann síðasti mánuður vetrar. Sagt er að votur einmánuður boði gott vor. Í gamla daga gat þessi síðasti dagur vetrar verið fólki erfiður. Ef til vill var matur af skornum skammti og lítið hey handa búfénaði.

Eftirfarandi vísa um mánuðina er úr Rangárvallasýslu og er eignuð álfkonu:

 

Langi Þorri leiðist mér
lata Góa á eftir fer.
Einmánuður yngstur er,
hann mun verða þyngstur hér.

(Heimild: nams.is)

Vel heppnuð Portúgalsferð

Í Lissabon með portúgalska kennaranum Rui
Í Lissabon með portúgalska kennaranum Rui
1 af 3

Fyrr í þessum mánuði fóru 10 nemendur úr 10. bekk ásamt kennurum og skólastjóra til Portúgals, en ferðin er hluti af Comeniusarverkefninu sem skólinn tekur þátt í. Ferðin gekk mjög vel og alveg samkvæmt áætlun. Dagskrá heimsóknarinnar var mjög þétt og löng, svo að iðulega var farið að sofa eftir miðnætti og á fætur kl. 7.

Fyrsta daginn var farið á karnival í bænum Nazaré og var gaman að sjá hvernig Portúgalir halda upp á föstuinnganginn. Næsta dag var farið í bæ sem heitir Fatima og er að mestu byggður í kringum sögu af kraftaverki þar sem börn sáu Maríu mey birtast sér úti í haga. Þar voru aðallega skoðaðar kirkjur og fleiri helgir staðir. Síðustu tveir dagarnir voru svo nýttir til að heimsækja skólann í Leiria og var það mjög fróðlegt og skemmtilegt. Hópurinn fékk örstutta skoðunarferð í Lissabon á heimleiðinni, rétt nógu langa til að vita að þangað þarf maður að koma aftur í betra tómi.

Nemendurnir voru til mikils sóma og vöktu alls staðar athygli fyrir fallega og skemmtilega framkomu, svo að þeir sjálfir og allir þeirra aðstandendur geta verið stoltir af.

Grunnskólamót í glímu

Mynd: bb.is
Mynd: bb.is

Síðastliðinn fimmtudag var haldið grunnskólamót í glímu í íþróttahúsinu á Torfnesi. 60 nemendur úr 5. - 10. bekk tóku þátt í mótinu; 45 nemendur frá Grunnskólanum á Ísafirði, 9 nemendur frá Grunnskóla Bolungarvíkur og 6 nemendur frá Súðavíkurskóla.


Meira

Úrslit í Stóru upplestrarkeppninni

Rakel María Björnsdóttir, Ásrós Helga Guðmundsdóttir og Þórður Gunnar Hafþórsson
Rakel María Björnsdóttir, Ásrós Helga Guðmundsdóttir og Þórður Gunnar Hafþórsson
1 af 4

Í kvöld var lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hömrum. Upplesarar voru níu að þessu sinni, frá Grunnskólanum á Ísafirði, Grunnskólanum á Suðureyri, Grunnskólanum á Þingeyri og Grunnskóla Bolungarvíkur. Skáld keppninnar í ár eru rithöfundurinn Þorgrímur Þráinsson og ljóðskáldið Guðfinna Þorsteinsdóttir, sem tók sér skáldanafnið Erla. Lesarar lásu fyrst brot úr sögunni ,,Ertu Guð, afi?" eftir Þorgrím og völdu sér svo ljóð eftir Erlu til flutnings. Í þriðju umferð voru svo lesin ljóð að eigin vali. 

Sigurlína Jónasdóttir á skóla- og tómstundasviði Ísafjarðarbæjar stjórnaði hátíðinni, en Svanhildur Helgadóttir, sigurvegari frá því í fyrra, kynnti skáld keppninnar. Á milli atriða lék Gísli Steinn Njálsson á gítar og Ásdís Halla Guðmundsdóttir á píanó, auk þess sem skólalúðrasveit Tónlistarskólans lék tvö lög.

Úrslit kvöldsins urðu þau að Ásrós Helga Guðmundsdóttir frá Grunnskólanum á Þingeyri sigraði. Í 2. sæti varð Rakel María Björnsdóttir úr G.Í. og í því 3. varð Þórður Gunnar Hafþórsson úr G.Í. Dómarar þetta árið voru þau Björk Einisdóttir, Ingvar Örn Ákason, Ólafur Örn Ólafsson og Pétur Markan.

Við óskum nemendum öllum innilega til hamingju með glæsilega frammistöðu.
Fleiri myndir frá lokahátíðinni eru hér.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Í kvöld er lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hömrum kl. 20:00. Grunnskólinn á Ísafirði sendir 6 fulltrúa úr 7. bekk, þau Emil Eirík Cruz, Hlyn Inga Árnason, Jakob Daníelsson, Rakel Maríu Björnsdóttur, Sigríði Erlu Magnúsdóttur og Þórð Gunnar Hafþórsson.

Við hvetjum alla til að mæta og hlýða á góðan upplestur og styðja við bakið á okkar fólki.

Frestun á árshátíð

Vegna fyrirséðrar fjarveru margra nemenda dagana 27. og 28. mars n.k. hefur verið ákveðið að fresta árshátíðinni um viku. Hún verður því haldin dagana 3. og 4. apríl undir yfirskriftinni Öll ólík - öll eins.