VALMYND ×

Fréttir

Verkalýðsdagurinn

Á morgun, fimmtudaginn 1. maí, er baráttudagur verkamanna sem er lögbundinn frídagur og þar af leiðandi engin kennsla.

Íslandsheimsókn lokið

Hópurinn fyrir utan Gamla sjúkrahúsið
Hópurinn fyrir utan Gamla sjúkrahúsið

Dagana 22. - 26. apríl voru góðir gestir Grunnskólans á Ísafirði í heimsókn á Íslandi í tengslum við Comeniusarverkefnið „All different, all the same, Europe‘s children.“ Þetta voru 21 manns frá Portúgal, Rúmeníu, Póllandi og Kýpur, 14 fullorðnir og 7 unglingar. Dagskrá heimsóknarinnar var þéttskipuð og fjölbreytt og má segja að hver mínúta hafi verið nýtt til hins ýtrasta. Farið var í Bláa lónið, skoðað Gullfoss og Geysi, komið við á Þingvöllum og keyrt vestur á Ísafjörð með viðkomu í Reykjanesi. Á Ísafirði var þétt dagskrá þar sem 10. bekkur bauð upp á fjölmenningarkvöld í Edinborgarhúsinu, kíkt var í FabLab, siglt inn í Vigur, heimsótt Íslandssögu á Suðureyri o.fl. ásamt því sem veitingastaðir voru heimsóttir.

Erlendi hópurinn var alsæll með Íslandsferðina og gestgjafarnir ekki síður. Ferðasöguna ásamt nokkrum myndum má sjá hér á heimasíðu 10. bekkjar.

Kynningar frá ADHD samtökunum

Mánudaginn 28. apríl n.k. verður kynningarfundur ADHD samtakanna haldinn kl. 14.30  í sal Grunnskólans á Ísafirði,  í samvinnu við Velferðarráðuneytið. Fundurinn er ætlaður starfsfólki leik-, grunn- og framhaldsskóla, sérfræðingum í skóla- og félagsþjónustu og öllum þeim sem starfa með börnum, ungmennum eða fullorðnum með ADHD. Foreldrar eru einnig velkomnir.

Efni fundar: Hvað er ADHD og hvað gera ADHD samtökin? Elín Hoe Hinriksdóttir sérkennari og formaður stjórnar ADHD samtakanna og Björk Þórarinsdóttir gjaldkeri ADHD samtakanna kynna samtökin.


Meira

Góðir gestir heimsækja G.Í.

Í gær kom hópur af erlendum gestum í heimsókn til okkar. Þetta er hópur kennara og nemenda frá Kýpur, Portúgal, Póllandi og Rúmeníu sem verður hér í tengslum við Comeniusarverkefni sem skólinn er þátttakandi í og hefur yfirskriftina: All different, all the same, Europe's children. Hópurinn verður hér fram á laugardag og er þétt dagskrá þessa daga s.s. Vigurferð, leiksýning, skíðaferð o.fl. 

Í kvöld stendur svo 10. bekkur fyrir fjölmenningarkvöldi í Edinborgarhúsinu kl. 20:30, í tengslum við þessa kærkomnu heimsókn. Þar verður boðið upp á vandaða dagskrá s.s. tónlist, ljóðalestur, dans o.fl. frá hinum ýmsu löndum. Léttar veitingar verða í boði og er aðgangseyrir aðeins kr. 500 og allir hjartanlega velkomnir.

 

Nemendum boðið út að borða

Vetur konungur kveður okkur blíðlega með rjómalogni og sólskini. Víða mátti sjá nemendur léttklædda á lóð skólans í dag og margir kennarar nýttu sér góðviðrið til útikennslu. 

Heimilisfræðival á unglingastigi gerði sér lítið fyrir og dreif sig út að borða þær kræsingar sem matreiddar höfðu verið, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Tungumálaforði

Í viku móðurmálsins, 21. – 28. febrúar 2014, var efnt til samvinnu við skóla um skráningu á tungumálaforða sínum á Tungumálatorginu. Í ljós kom að heildarfjöldi tungumála í íslenskum skólum er yfir 90 og í þeim skólum sem skráðu upplýsingar eru töluð frá 1 upp í 36 tungumál.

Allir skólar sem sendu inn upplýsingar um tungumálaforða sinn fengu send rafræn viðurkenningarskjöl. 7.HS er einn þeirra bekkja sem tók þátt í þessari skráningu og hér má sjá viðurkenningarskjal þeirra.

Við athugun hér í Grunnskólanum á Ísafirði telst okkur til að töluð séu 10 tungumál að íslensku meðtaldri.

Velkomin vertu harpa

Þá er skólastarf hafið að páskaleyfi loknu. Vikan verður þó stutt, þar sem sumardagurinn fyrsti er á fimmtudaginn og engin kennsla þann dag. Samkvæmt gömlu íslensku tímatali er harpa fyrsti mánuður sumars og hefst hún á fyrsta fimmudegi eftir 18. apríl. 

Ýmis þjóðtrú tengist sumarkomu og er meðal annars talið vita á gott ef sumar og vetur ,,frýs saman" aðfaranótt sumardagsins fyrsta.

Páskaleyfi

Í dag er síðasti kennsludagur fyrir páskaleyfi. Kennsla hefst aftur þriðjudaginn 22. apríl samkvæmt stundaskrá.

Gleðilega páska.

Lestrarvenjur barna kannaðar

Í mars síðastliðnum voru lagðar fyrir nemendur 5. -10. bekkjar nokkrar spurningar varðandi lestrarvenjur þeirra. Sambærilegar kannanir höfðu verið lagðar fyrir þennan aldurshóp þrisvar áður, þ.e. 1999, 2004 og 2009 svo að við höfum nokkuð gott yfirlit yfir þær breytingar sem hafa orðið á lestrarvenjum barna á þessum aldri síðustu 15 árin og einnig koma viðhorf þeirra til lesturs vel fram. Herdís Hübner, kennari við skólann, hefur haft veg og vanda að þessum könnunum og tekið saman niðurstöður.

Þótt ekki sé hægt að segja að niðurstöðurnar séu ánægjulegar, er vissulega fróðlegt að skoða þær og margt athyglisvert sem þar kemur fram. 

Tími reiðhjólanna runninn upp

Síðustu daga og vikur hefur það færst í aukana að nemendur komi á reiðhjóli í skólann, enda vorið í augsýn. Því er ekki úr vegi að fara yfir skyldubúnað reiðhjóla.

  • Reiðhjólahjálmur 
  • Bremsur á fram- og afturhjóli
  • Bjalla (ekki má nota annan hljóðmerkjabúnað)
  • Hvítt eða gult ljós að framan ef hjólað er í myrkri
  • Rautt ljós að aftan ef hjólað er í myrkri
  • Þrístrend glitaugu, rautt að aftan og hvítt að framan
  • Keðjuhlíf
  • Teinaglit
  • Glitaugu á fótstigum
  • Lás 

Nú er um að gera að fara yfir hjólabúnaðinn til að hægt sé að njóta þess að hjóla við sem mest öryggi.